Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 apríl 2003

Kvikmyndaskrif á 3bio.is
Fyrir viku opnaði nýr vefur um kvikmyndir, 3bio.is. Hef ég í mörg ár skrifað um kvikmyndir og hef á þeim mikinn áhuga. Var ég fenginn til að taka þátt í þessum nýja vef. Skrifa ég þar vikulegar leikstjóragreinar og stöku sinnum um kvikmyndir, kvikmyndagagnrýni. Þegar hafa birst tvær leikstjóragreinar. Þær fjalla um feril Sir David Lean og Oliver Stone.

Þorsteinn Vestfirðingur orðin skvísa
Svo einkennilegt er að nú hefur komist upp um fröken Femínskvísu sem skrifað hefur á Innherjavef visir.is seinustu vikurnar. Er svo merkilegt að á bakvið frökenina stendur fjandvinur minn og dyggur lesandi síðunnar, Þorsteinn á Ísafirði, en eins og flestir vita varð thornsteen hans bráðkvaddur fyrr á þessu ári. Síðan hefur hann reynt að komast aftur inn á spjallið með ýmsum hætti, en sá nýlega góða leið til þess að snúa aftur. Hann ákvað að bregða sér í gervi skvísunnar, gott er að vita nú hver er að baki þessu.

Hvað eru "strandveiðibyggðir"?
Enn fer Jón í Grófinni á kostum í Þönkum á Íslendingi. Hér eru nýjustu þankar hans: "Samfylkingin vill taka fiskveiðiheimildirnar bótalaust frá þeim sem róa, sjómönnum og fiskimönnum um land allt, undir því yfirskini að með því sé hún að þjóna réttlætinu. Kvótann á að bjóða til leigu um lengri eða skemmri tíma og greiða kvótaleiguna, þegar aflanum hefur verið landað. Þetta er ný skattlagning á landsbyggðina og merkileg framtíðarsýn hjá Samfylkingunni. Páfinn er Jóhann Ársælsson. En það er ekki nóg með, að Samfylkingin vilji þjóðnýta aflaheimildirnar bótalaust, heldur hugsar hún sér líka að semja reglur um það, hverjir megi leigja kvótann. Þannig hefur hún fundið upp þessa undarlegu kennisetningu, að það eigi “að tryggja rétt strandveiðibyggðanna til að nýta miðin við endurskoðun fiskveiðikerfisins”. Á mæltu máli þýðir þetta, að hún hugsar sér að færa veiðiheimildir frá Eyjafirði og Akureyri til annarra staða. Jóhann Ársælsson gerði mikið mál úr því á Alþingi að Kárahnjúkavirkjun og álverið við Reyðarfjörð leiddu til ójafnvægis í byggðamálum. Það sýndi glöggt tvískinnung Samfylkingarinnar í málefnum Austfirðinga. Þó keyrði um þverbak þegar Jóhann Ársælsson fór að telja eftir það sem gert hefur verið og það sem gera á hér á Akureyri. Á það hlustuðu Kristján L. Möller og Einar Már Sigurðarson og létu sér vel líka."

Þjóðin fái sinn skerf
"Tillögur Sjálfstæðismanna í skattamálum hafa vakið mikla athygli af því að þær koma á réttum tíma og ná til allra landsmanna. Gott efnahagsástand og mikill og öruggur hagvöxtur allt næsta kjörtímabil gerir þessar lækkanir mögulegar, en eðlilegt er að launafólk og þjóðin sjálf fái sinn skerf af batnandi afkomu þjóðarbúsins. Ekki bara ríkissjóður. Gagnvart heimilunum í landinu skiptir mestu máli í tillögum Sjálfstæðismanna, að virðisaukaskattur á matvæli, bækur rafmagnskostnað og húshitunverður lækkaður um helming niður í 7%. Tekjuskatturinn verður lækkaður um 4% og skattleysismörkin um rúmar 8 þús. kr. á mánuði. Barnabætur verða hækkaðar um 2 milljarða króna á næsta kjörtímabili. Eignaskattur verður afnuminn og skattfrelsi aukið vegna viðbótarframlaga í lífeyrissparnað og fleiramætti telja. Útreikningar DV, sem hafa verið staðfestir, sýna, að þeir sem hafa 104 þús. kr. tekjur eða meira í mánaðarlaun hagnast meira á því að skatthlutfallið verði lækkað um 4% og skattleysismörkin um rúm 8 þús. kr. á mánuði eins og Sjálfstæðisflokkurinn leggur til, en að látið sé við það sitja að lækka skattleysismörkin um 10 þús. kr. á mánuði eins og Samfylkingin vill. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Jóhanna Sigurðardóttir hafa farið rangt með þessar tölur allar og áhrifin af þeim. Hér er ekki rúm til að rekja það, en vitaskuld er talnameðferð frambjóðenda Samfylkingarinnar kapítuli út af fyrir sig og mætti bera yfirskriftina: Betra er að veifa röngu tré en öngu!."