Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 maí 2003

Fjórða ráðuneyti Davíðs Oddssonar tekur við völdum
Í gær urðu ríkisstjórnarskipti á Bessastöðum. Síðari ríkisráðsfundur fráfarandi ríkisstjórnar hófst klukkan 11. Þar létu Páll Pétursson og Sólveig Pétursdóttir formlega af ráðherraembættum. Páll eftir 8 ára setu sem félagsmálaráðherra og Sólveig eftir 4 ár á stóli dómsmálaráðherra. Klukkan 13:30 hófst ríkisráðsfundur þar sem ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Davíðs Oddssonar tók við völdum. Er þetta fjórða ráðuneyti Davíðs í röð, en slíkt er einsdæmi á Íslandi, en Davíð hefur nú setið rúm 12 ár á stóli forsætisráðherra. Lengur en nokkur annar Íslendingur. Um miðjan septembermánuð á næsta ári mun hinsvegar Halldór Ásgrímsson taka við embætti forsætisráðherra af Davíð. Á fundinum tóku tveir nýjir ráðherrar sæti þeirra sem fyrr er getið. Björn Bjarnason fyrrv. menntamálaráðherra varð dómsmálaráðherra og Árni Magnússon varð félagsmálaráðherra. Eins og ég hef áður sagt frá munu frekari breytingar verða á ríkisstjórninni á næstu mánuðum. Á gamlársdag tekur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sæti sem menntamálaráðherra og Sigríður Anna Þórðardóttir verður umhverfisráðherra í september 2004. Jafnframt verður einn ráðherra Framsóknarflokksins að standa upp til að rýma fyrir sjöunda ráðherra Sjálfstæðisflokksins í september á næsta ári. Það eru því margar breytingar og jafnframt spennandi í vændum á ráðherraliðinu. Á mánudag kemur Alþingi Íslendinga saman í fyrsta skipti á nýju kjörtímabili.

Eurovision 2003 - stóra stundin í kvöld!
Stóra stundin er í kvöld hjá Birgittu okkar í Riga. Vona að henni gangi sem allra best, veit að hún mun gera sitt besta og verða okkur til sóma. Hvet alla til að lesa magnaða bloggsíðu félaganna Gísla Marteins og Loga Bergmanns sem lýsir vel stemmningunni hjá okkar fólki úti. Við vonum það besta með kvöldið.

3 ár á Innherjavefnum
Í dag eru 3 ár liðin frá því að ég skrifaði mitt fyrsta komment um stjórnmál á spjallvefinn Innherja á visir.is. Tíminn er fljótur að líða, hefur verið bæði lærdómsríkt og gaman að tjá sig þarna og heyra skoðanir annarra. Hef ég verið málsvari minna skoðana og ekki hikað við að verja það fólk sem ég treysti, t.d. í stjórnmálum. Hef ég oft heyrt að ég sé trúr mínum flokki þarna, vissulega er það rétt. Skammast ég mín ekki fyrir að verja mína stefnu og mitt fólk, rétt eins og aðrir gera þarna sýnist mér. Ætla ég að halda áfram að skrifa komment þarna eftir því sem mér finnst ástæða til að leggja orð í belg og tjá skoðanir mínar. Það er alltaf gaman að tjá skoðanir sínar á opinn vef og það undir nafni, tel réttast að standa og falla með skoðunum mínum og hef því í þessi þrjú ár notast við nafn mitt sem notandanafn.