Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 janúar 2004

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Aðalfundur Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík var haldinn í dag í Sunnusal Hótels Sögu. Í upphafi aðalfundarins flutti Davíð Oddsson forsætisráðherra, ávarp. Í máli hans kom fram að samruni á borð við samruna Fréttar og Íslenska útvarpsfélagsins í gær væri hvergi leyfður þar sem hann þekkti til. Hér væru hinsvegar engar slíkar reglur og að bíða þyrfti niðurstöðu nefndar menntamálaráðherra sem fjallaði um þessi mál áður en ákveðið væri með lagasetningu í þessum efnum. Davíð sagði ekki óeðlilegt að Alþingi og ríkisvald gripu inn í þessi mál en ekki væri tímabært að ræða með hvaða hætti það yrði. Samhliða aðalfundi Varðar var opinn fundur þar sem rætt var um hvort þörf væri á lögum um myndun og uppbrot hringa í viðskiptum. Meðal þeirra sem tók þátt í þeim fundi var Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Hann flutti athyglisverða ræðu og sagði í henni: "Stundum rjúkið þið upp til handa og fóta og ætlið að hreinsa til hjá ykkur. Og þið vitið hvernig á að hreinsa húsin ykkar, en þau verða ekki hrein þótt þið hreinsið eitt hornið í hólf og gólf. Ef þið hreinsið ekki allt húsið, verður hornið strax aftur kámugt. Það er enginn þrifnaður. En til að hreinsa allt húsið, þyrftuð þið að byrja á aganum. Göthe skilgreindi þetta vel þegar hann sagði að hætta yrði að líta á aga sem skerðingu á einstaklingsfrelsi. Agi gerir ykkur kleift að ná árangri, sem þið getið ekki náð án aga. Hann gerir ykkur kleift að ná árangri, án þess að móðga fólk - eða eins og hann sagði: Fullkomið frelsi fæst með því að hlýða öllum reglum.“

Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherraValgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, hefur tjáð sig mikið í fjölmiðlum í dag um SPRON málið. Hún hefur í bréfi krafið stjórn SPRON um svör við fjölda spurninga um lögmæti sjóðsins. Með vísan í lög um fjármálafyrirtæki tekur hún fram í bréfi sínu til stjórnar SPRON að ráðherra geti krafist allra gagna hjá sjálfseignarstofnun og gefið stjórnarmönnum eða framkvæmdastjóra þar með bein fyrirmæli. Í bréfi sínu rekur ráðherra þær ákvarðanir sem teknar hafa verið um framtíð Sparisjóðsins, m.a. að KB banki kaupi alla þá hluti í SPRON sem SPRON sjóðurinn sé eigandi að gangi hlutafélagsvæðing SPRON eftir. Í kjölfar þess að hafa í bréfinu rakið fjölda lagagreina er lúta að slíkum málum segir ráðherra að hún íhugi að grípa til aðgerða vegna samnings SPRON-sjóðsins við bankann. Hún segir að ráðherra geti krafist allra gagna lögum samkvæmt til að geta rækt störf sín að lögum. Ráðherra geti gefið stjórnendum sjálfseignarstofnunar bein fyrirmæli um að bæta úr málum og ráðherra geti ennfremur lagt á dagsektir, vanræki þeir skyldur sínar samkvæmt ákvörðunum ráðherra. Á þessu stigi vill ráðherra ekki svara því hvort SPRON og eða sjóðurinn séu að brjóta lög með gjörðum sínum, aðeins að með bréfinu sé hún að leita eftir svörum við spurningum.

Geir H. Haarde fjármálaráðherraStjórnmálafundur á Hótel KEA - þorrablót
Sjálfstæðisfélag Akureyrar stóð fyrir opnum stjórnmálafundi, kl. 14:00 í dag á Hótel KEA. Gestir fundarins voru Geir H. Haarde fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og eiginkona hans, Inga Jóna Þórðardóttir fyrrum leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Flutti Geir ítarlega framsögu í upphafi fundar og fór yfir ýmis hitamál samtímans í stjórnmálaheiminum. Einkum var farið yfir málefni kjördæmisins, skattamál og þau verk sem almennt við blasa ríkisstjórn landsins á kjörtímabilinu. Að lokinni framsöguræðu ráðherra var opnað fyrir fyrirspurnir úr sal. Komu margir fundarmenn fram með athyglisverðar spurningar og var víða farið yfir málefnin á tæplega tveggja klukkustunda löngum fundi. Fundarstjóri, Þorvaldur Ingvarsson formaður Sjálfstæðisfélags Akureyrar, stýrði fundinum af röggsemi. Alþingismenn kjördæmisins, Halldór Blöndal forseti Alþingis, og Arnbjörg Sveinsdóttir, voru bæði viðstödd fundinn og ennfremur Tómas Ingi Olrich fyrrverandi menntamálaráðherra, og þingmaður okkar Eyfirðinga í tæp 13 ár. Í lok fundar færði fundarstjóri Tómasi þakkir fyrir gott starf sitt í þágu kjósenda sinna á þingi og á ráðherrastóli. Í kvöld verður svo þorrablót okkar sjálfstæðismanna á Akureyri, og eru heiðursgestir á blótinu, þau Geir og Inga Jóna.

Pirates of the CaribbeanAfmæli - kvikmyndir
Seinnipartinn í gær héldum við til Dalvíkur, fórum í afmælisveislu góðs félaga útfrá sem ég hef lengi þekkt. Vorum þar langt fram á kvöld og átti ég gott spjall við vini og kunningja og var þetta virkilega gott samkvæmi og vel heppnað. Er inneftir var komið héldum við á vídeóleiguna í Undirhlíð en ég hafði pantað spólu til að horfa á. Er heim var komið horfðum við á hina mögnuðu ævintýramynd Pirates of the Caribbean. Litríkt ævintýri sem gerist á 17. öld þegar sjóræningjarnir skunduðu um Karíbahafið. Hér segir frá sjóræningjanum Jack Sparrow sem tekur höndum saman við Will Turner til að bjarga unnustu Wills, Elizabeth Swann dóttur ríkisstjórans, Weatherby Swann, og fjársjóði. Ætlun þeirra er að stöðva illar áætlanir óvinveittra sjóræningja undir forystu Barbossa. Mun þeim takast ætlunarverk sitt? Johnny Depp hefur sjaldan verið betri en í þessu hlutverki hins drykkfellda sjóræningja og á stórleik, smellpassar í þennan karakter og hlaut að launum tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn. Sama má segja um óskarsverðlaunaleikarann Geoffrey Rush (Shine) sem er eftirminnilegur í hlutverki Barbossa (skemmtilega illkvittnislegur) og fer sem ávallt fyrr á kostum, frábær leikari. Orlando Bloom, Keira Knightley og Jonathan Pryce fara einnig vel með sitt. Góður hasar og magnaðar tæknibrellur eru einnig aðall myndarinnar. Pjúra skemmtun frá upphafi til enda og ætti að vera sannkallað augnakonfekt fyrir alla sanna kvikmyndaunnendur.

Vefur dagsins
Nýlega var vefur Stjórnarráðsins opnaður á ný eftir smávægilegar breytingar. Vefurinn var opnaður fyrst af forsætisráðherra í Þjóðarbókhlöðunni 22. mars 2001. Sú breyting hefur nú verið gerð að hvert ráðuneyti fær eigin slóð í undirvef Stjórnarráðsvefsins, en eftir sem áður er vefurinn rekinn sem ein heild allra ráðuneyta. Ómissandi vefur sem ég nota oft.

Snjallyrði dagsins
You talkin' to me?
Travis Bickle í Taxi Driver

30 janúar 2004

NorðurljósHeitast í umræðunni
Risi varð til á íslenskum fjölmiðlamarkaði í gærkvöld er fjölmiðlafyrirtækin Norðurljós og Frétt sameinuðust formlega. Tilkynnt var um þetta á blaðamannafundi í Smárabíóí í dag. Þrjú fyrirtæki verða rekin undir merkjum Norðurljósa frá og með 1. febrúar; Íslenska útvarpsfélagið, Frétt og Skífan. Norðurljós verður móðurfélag þessara fyrirtækja, sem verða rekin áfram í sitt hvoru lagi, en undir sameiginlegri stjórn í Norðurljósum. Fram kom á fyrrgreindum fundi að fyrirtækið hefði samið við alla lánardrottna og langtímaskuldir félagsins hefðu lækkað úr 7,5 miljarði króna, í 5,7. Hlutafé fyrirtækisins eftir sameininguna eru um 3 milljarðar króna. Stærsti hluthafinn í Norðurljósum er Baugur Group, sem á rúmlega 30%. Eignarhaldsfélagið Grjóti, er tengist Baugi, Feng og fleirum aðilum, á rúmlega 16%, eignarhaldsfélagið Fons á 11,6%, það félag tengist Pálma Haraldssyni. Hömlur er tengist Landsbankanum á 7,5%, og Kaldbakur 5,6% hlut. Aðrir hluthafar eiga tæp 18% til samans. Skarphéðinn Berg Steinarsson verður áfram stjórnarformaður Norðurljósa. Aðrir í stjórn fyrirtækisins eru Pálmi Haraldsson varaformaður, en aðrir stjórnarmenn eru Kristinn Bjarnason, Halldór Jóhannsson, og Gunnar Smári Egilsson. Sigurður G. Guðjónsson verður áfram forstjóri Norðurljósa. Gunnar Smári Egilsson verður áfram útgáfustjóri Fréttar og Ragnar Birgisson verður framkvæmdastjóri Skífunnar. Fyrirtækið rekur fimm sjónvarpsstöðvar, fimm útvarpsstöðvar og tvenn dagblöð. Skífan rekur hljómplötuútgáfu og verslanir í eigin nafni auk þess sem nú bætist við. Eftir sameininguna hafa verslanir á vegum Norðurljósa yfirburði í sölu geisladiska með tónlist og tölvuleikja hér á landi eða 80% hlutdeild. Þessi samruni er því tilkynningaskyldur til Samkeppnisstofnunar.

Sigríður Árnadóttir fréttastjóriÁ sama blaðamannafundi var tilkynnt formlega um miklar skipulagsbreytingar hjá Norðurljósum, einkum innan Íslenska útvarpsfélagsins, sjónvarpsrekstri Norðurljósa. Sigríður Árnadóttir varafréttastjóri á Fréttastofu Ríkisútvarpsins, hefur verið ráðin sem fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar, og tekur við starfinu 1. febrúar nk. Hún tekur við starfinu af Karli Garðarssyni, sem verið hefur fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar frá árinu 2000. Karl tekur um mánaðarmótin við nýju starfi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Íslenska útvarpsfélagsins. Ennfremur hefur Páll Magnússon verið ráðinn framkvæmdastjóri dagskrársviðs Norðurljósa. Hann var fréttastjóri Stöðvar 2 1986-1990, útvarpsstjóri Íslenska útvarpsfélagsins 1991-1994 og fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar 1996-2000. Hann hefur undanfarin ár starfað hjá Íslenskri erfðagreiningu sem framkvæmdastjóri samskipta- og upplýsingasviðs. Eva Bergþóra Guðbergsdóttir fréttamaður, verður varafréttastjóri við hlið Þórs Jónssonar. Marinó Guðmundsson verður framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslenska útvarpsfélagsins og Skífunnar. Þetta eru miklar breytingar. Stórtíðindi hljóta að teljast að Sigríður fari til starfa hjá Stöð 2. Hún hefur verið fréttamaður Útvarpsins í rúmlega 20 ár og verið varafréttastjóri þess í rúman áratug. Hún sótti um stöðu fréttastjóra Sjónvarpsins árið 2002, en hlaut hana ekki.

Færeyski fáninnSeinustu vikuna hafa staðið yfir stjórnarmyndunarviðræður í Færeyjum, en þingkosningar voru þar 20. janúar. Umboð til stjórnarmyndunar fékk Johannes Eidesgaard formaður Jafnarmannaflokksins. Lisbeth Petersen sem var formaður Sambandsflokksins, stærsta flokks landsins, sagði af sér í kjölfar kosninganna, vegna fylgistaps flokksins, er verið hefur í stjórnarandstöðu seinustu ár. Stjórnarmyndunarviðræður hófust á milli Jafnaðarmannaflokksins, Sambandsflokksins og Fólkaflokks Anfinns Kallsbergs lögmanns. Í gær var lokið við að semja stjórnarsáttmálann og hafið að ræða skiptingu embætta. Fólkaflokkurinn hefur barist fyrir því að Anfinn verði áfram lögmaður. Hafa hinir flokkarnir ekki séð sér fært að fallast á að svo verði. Óvíst er því hver endanleg skipting embætta í stjórninni verður eða hvort Anfinn verður í stjórninni, vegna andstöðu annarra flokka. Mikið er þó til þess að vinna að þessi stjórnarmyndun gangi eftir svo Þjóðveldisflokkur Högna Hoydal verði í stjórnarandstöðu næstu árin.

Atli Rafn BjörnssonSvona er frelsið í dag
Í dag birtast á frelsinu góðir pistlar Atla Rafns og Kidda. Í sínum pistli fjallar Atli um RÚV og samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Orðrétt segir hann: "Skynsamlegst væri að ríkið hætti fjölmiðlarekstri og gæfi einstaklingum raunverulegt svigrúm og tækifæri á að starfa á þessum markaði. Andstæðingar þessarar leiðar benda hins vegar gjarnan á að ekki sé rétt að ríkið hætti fjölmiðlarekstri því ríkið þurfi að tryggja aðgang allra landsmanna að þjónustunni og einnig að ríkinu beri að tryggja faglega og hlutlausa umræðu í landinu. Það er ekki stjórnmálamanna að ákveða hvaða þjónustu einstaklingarnir kjósa að kaupa, né heldur hvaða upplýsingar þeir velja gegnum fjölmiðla. Ríkið á ekki að ákveða hvað hver einstaklingur má eiga og hvað ekki. Slíkar takmarkanir myndu fremur endurspegla vilja stjórnmálamanna og embættismanna eftirlitsstofnanna en fólksins í landinu. Kiddi fjallar í sínum pistli um frelsi í menntamálum og segir orðrétt: "Lausnin er aukið frelsi kennara til þess að móta námið að þörfum hvers og eins nemenda. Aukinn fjölbreytileiki og brotthvarf frá ofuráherslu á kjarnafögin þrjú: ensku, íslensku og stærðfræði; og í kjölfarið viðurkenning á öðrum greindum, hugsunarháttum og hæfileikum. Aukin áhersla á sjálfstæða og gagnrýna hugsun í stað mötunar á staðreyndum. Frjáls hugsun kemur með auknu frelsi í menntamálum." Ennfremur birtist umfjöllun um góðan pistil Einars K. Guðfinnssonar þingflokksformanns.

Í brennidepliDægurmálaspjallið
Síðasta sunnudagskvöld var á dagskrá Sjónvarpsins, fréttaskýringarþátturinn Í brennidepli, í umsjón Páls Benediktssonar fréttamanns. Þátturinn er á dagskrá mánaðarlega og fjallað í hverjum þætti um þrjú mál. Missti ég af síðasta þætti á sunnudag vegna ýmissa anna og leit því á hann í gær á vef RÚV. Virkilega góður þáttur rétt eins og hinir tveir fyrri. Að þessu sinni var fjallað um umfang og eignir Bónusfjölskyldunnar, hugsanlegt eldgos í Kötlu sem jarðfræðingar telja að muni gjósa innan næstu fimm ára, og um bráðaofnæmi í börnum. Allt saman áhugavert efni, sérstaklega það fyrstnefnda en á einkar skemmtilegan hátt var almenningi sýnt umfang eigna Baugs Group og fóru þeir Páll og Jón G. Hauksson ritstjóri Frjálsrar Verslunar, vel yfir fyrirtækið og eignir þess. Í Kastljósi gærkvöldsins fóru Birgir Ármannsson alþingismaður, og Kristrún Heimisdóttir varaþingmaður, yfir breska pólitík. Mikið hefur verið rætt um hana í þessari viku vegna Hutton skýrslunnar og kosningar á þingi um skólagjaldahugmyndir Verkmannaflokksins, en litlu munaði að stjórnarmeirihlutinn félli í því máli. Skemmtilegt spjall var við Birgi og Kristrúnu, sem bæði hafa lengi fylgst með breskri pólitík.

Life is Beautiful (La Vita e Bella)Kvikmyndir
Eftir Kastljósið hélt ég á fund, sem stóð fram eftir kvöldi. Er heim kom var skellt sér í að horfa á eina góða kvikmynd. Litum á hið indæla ítalska meistaraverk, La Vita e Bella. Hér segir af Guido Orefici, fátækum ungum manni sem hefur þann hæfileika að geta gert alla káta í kringum sig. Hann hittir draumadísina sína, Doru, oft og mörgum sinnum í gegnum eintómar tilviljanir en hún er trúlofuð hreint óþolandi leiðindaskarfi og á brátt að giftast honum. Honum tekst loks að vinna hjarta hennar og þau giftast. Þar með er farið yfir nokkur ár í lífi þeirra og næst er við sjáum þau hafa nokkur ár liðið og hafa þau þá eignast son sem er 6-7 ára. Þetta er undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, og þar sem Guido er gyðingur er hann sendur ásamt syni sínum í útrýmingarbúðir nasista og er konan hans einnig send þangað. Honum tekst að telja drengnum trú um að þetta sé allt saman leikur og ef þeir fái nógu mörg stig með því að taka þátt í leiknum fái þeir að launum alvöru skriðdreka. Honum tekst þetta upp alllengi, eða allt þar til að stríðinu lýkur. Meðan á þessu stendur verður hann að fela son sinn svo hann verði ekki líflátinn af nasistum á meðan hann heldur áfram að segja honum að þetta sé bara einn leikur. Þessi litla en stórbrotna perla er hiklaust ein besta kvikmyndin sem gerð var á árinu 1998, og hlaut verðskuldaðan heiður að launum. Ítalski grínistinn Roberto Benigni fer hér á kostum í hlutverki lífs síns, hann hlaut verðskuldað óskarinn fyrir leik sinn. Flestir ættu að geta notið boðskaparins sem hún boðar. Það er að lífið er tvímælalaust DÁSAMLEGT!!

Vefur dagsins
Kauphöll Íslands hf. er skipulegur verðbréfamarkaður þar sem opinber skráning verðbréfa fer fram, svo og viðskipti með þau. Þrjár tegundir verðbréfa eru skráðar; hlutabréf, skuldabréf og hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða. Bendi í dag á frábæra heimasíðu Kauphallarinnar.

Snjallyrði dagsins
Here's looking at you, kid!
Rick Blaine í Casablanca

29 janúar 2004

Greg DykeHeitast í umræðunni
Eins og ég sagði frá í gær, birtist þá skýrsla Huttons lávarðar, um mál Dr. Davids Kelly sem lést í fyrrasumar og rannsókn á dauða hans og málum þeim tengdum. Í skýrslunni var skuldinni að mestu skellt á fréttaflutning BBC og forsætisráðherrann að mestu hreinsaður af þeim ásökunum sem á hann voru bornar. BBC baðst í dag formlega afsökunar vegna rangfærslna í fréttinni um Íraksskýrslu bresku stjórnarinnar í fyrra. Greg Dyke útvarpsstjóri BBC, sagði í dag af sér embætti, vegna þeirrar gagnrýni sem fram kom í skýrslunni um fréttaflutning BBC. Hreinsun hefur því orðið hjá BBC, en í gær tilkynnti stjórnarformaðurinn um afsögn sína. Í afsagnarbréfi sínu sagði Dyke að í öllu málinu hefði hann lagt áherslu á að verja ritstjórnarlegt sjálfstæði BBC og hafa almanna hagsmuni að leiðarljósi. Er Dyke tók við starfi sínu fyrir nokkrum árum var hann sakaður um að vera skósveinn Blairs. Eftir formlega afsögn Dyke barst Downingsstræti 10, skrifstofu forsætisráðherrans, afsökunarbeiðni frá BBC sem forsætisráðherrann féllst á. Framtíð BBC er óráðin að mestu, endurskoðun skipurits stofnunarinnar tekur nú við. Talið er líklegt að dregið verði verulega úr sjálfstæði stofnunarinnar. Mikil reiði er meðal starfsmanna og heyrst hafa raddir um að fleiri kunni að segja upp. Samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var fyrir blaðið Evening Standard kom fram að 56% landsmanna telur ósanngjarnt að einungis BBC sé kennt um og 49% telja stjórnina hvítþvegna í skýrslunni. 70% landsmanna vilja óháða rannsókn á málinu.

AlþingiÞing kom saman í gær, að nýju eftir jólaleyfi. Hófust umræður þar á utandagskrárumræðu um ástandið í Írak. Málshefjandi var Guðmundur Árni Stefánsson alþingismaður. Vildi hann að utanríkisráðherra tjáði þinginu að stuðningur við stríð í Írak hefði verið mistök. Það gerði hann ekki. Í svari Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra, kom fram að harðstjórinn Saddam Hussein hafi verið ógn við heimsfriðinn. Ráðherra lagði í umræðunni áherslu á að Íslendingar hefðu ekki ákveðið innrás í Írak. Tókust þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu á um þetta mál. Eftir sem áður er niðurstaða allra, almennur fögnuður með endalok stjórnar Saddams Husseins og fáir sakna hans af vettvangi heimsmálanna. Eftir að Saddam var handtekinn í holunni, hefur afl andspyrnuhreyfinganna í Írak dvínað mjög. Hann bíður nú réttarhalda sem verða líklega á þessu ári, þar sem hann verður væntanlega spurður margra mikilvægra spurninga.

Kosningar 2003Á sama þingfundi svaraði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, fyrirspurn nokkurra þingmanna stjórnarandstöðunnar um þingkosningarnar 2003 og framkvæmd þeirra. Í svari ráðherra kom fram að Dómsmálaráðuneytið ætli ekki að flytja tillögu um það að í lögum um kosningar til Alþingis, skuli sett ákvæði um hvenær skuli endurtelja atkvæði þegar mjótt sé á munum. Alþingi taki afstöðu til hvað rétt þyki, eins og verið hafði. Mikið var rætt um þessi mál í fyrrasumar eftir að nokkrum atkvæðum munaði að frjálslyndir næðu inn manni í Reykjavík. Vildu þeir endurtalningu vegna vafaatkvæða og að mjótt var á mununum. Frjálslyndir misstu eina þingsæti sitt í höfuðborginni í kosningunum.

Hjörleifur PálssonSvona er frelsið í dag
Tveir hörkugóðir pistlar eru á frelsinu. Hjölli fjallar í pistli sínum um heilbrigðismál og segir orðrétt: "Ýmsir eru gjarnir á að halda því á lofti að ríkinu beri skylda til að veita öllum þegnum landsins bestu heilbrigðisþjónustu sem möguleg er. Með þessa yfirlýsingu að vopni heimta menn jafnan sífellt meiri pening til að leysa öll vandamál kerfisins, og bregðast ókvæða við öllum tilraunum til að skera niður kostnað. Ef það er eitthvað sem hægt er að læra af reynslunni, er það sú staðreynd að vandamál heilbrigðiskerfisins verða ekki leyst með endalaust meiri fjárútlátum. Hin gríðarlega peningaeyðsla, sem oft á tíðum virðist hálf stjórnlaus, er nefnilega sjálf stærsta vandamálið. Það væri mikil framför ef framangreindri yfirlýsingu væri breytt á þann veg að veita bæri sem besta þjónustu á sem hagkvæmastan hátt." Í pistli sínum fjallar Bjarki um menntamál og segir orðrétt: "Það er eðlilegt að þátttaka einstaklings við kostnað menntunnar sinnar aukist því lengra sem líður á námið. Þegar skyldumenntun lýkur, þ.e. að segja grunnskólaprófi, er áframhaldandi menntun einstaklings hans fjárfesting í auknum lífsgæðum og er eðlilegt að einstaklingurinn taki þátt í þeim kostnaði sjálfur. Menntamál eru alltaf á dagskrá og þurfa að vera í stöðugri endurskoðun. Til að stuðla að áframhaldandi sókn í menntamálum á Íslandi þarf að tryggja að einkaframtakinu sé tryggður rekstrargrundvöllur í lögum og að Háskóli Íslands fái að innheimta þau skólagjöld sem hann telur nauðsynleg til að tryggja nemendum góða kennslu og aðstöðu. Virkilega góðir pistlar og fróðlegir hjá þeim félögum.

Pressukvöld SjónvarpsinsDægurmálaspjallið
Það var nóg af skemmtilegu dægurmálaspjalli í kvöldþáttum sjónvarpsstöðvanna í gærkvöldi. Í Íslandi í dag voru gestir Jóhönnu og Þórhalls eftir fréttirnar, alþingismennirnir Einar K. Guðfinnsson og Steingrímur J. Sigfússon. Umræðuefnið var Íraksstríðið og utandagskrárumræða stjórnarandstöðunnar á þingi í gær um hvort rétti hafi verið af Íslendingum að lýsa yfir mórölskum stuðningi við Bandamenn við innrásina í Írak. Þeir voru ekki beint sammála eins og við mátti búast og voru hvassar umræður um þetta mál. Í Kastljósinu á sama tíma ræddu þær Hanna Birna Kristjánsdóttir og Steinunn Valdís Óskarsdóttir skipulagsmál í borginni, en til stendur að breyta ásýnd Laugavegarins, skv. nýju skipulagi svæðisins sem kynnt var í vikunni. Í Pressukvöldi RÚV var gestur þriggja fréttamanna, Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, og var rætt um Íraksmálið, málefni spítalanna og ráðherrahrókeringar framsóknarmanna sem verða í september nk.

All the President?s MenKvikmyndir
Eftir fréttir og dægurmálaþættina var komið að góðu sjónvarpskvöldi. Horfðum við á meistaraverk Alan J. Pakula, All the President's Men. Hér er rakin sagan af því hvernig tveimur rannsóknarblaðamönnum á The Washington Post, Carl Bernstein og Bob Woodward, tókst að vekja þjóðarathygli á þætti nánustu aðstoðarmanna Nixons Bandaríkjaforseta í innbrotinu í Watergate-bygginguna, sem á endanum lyktaði með því að Richard Nixon sagði af sér embætti forseta Bandaríkjanna, fyrstur manna. Með afbrigðum velheppnuð frásögn, skemmtilega uppbyggð og frábærlega leikin af tveimur vinsælustu leikurum sinnar kynslóðar, þeim Robert Redford og Dustin Hoffman. Senuþjófurinn er þó Jason Robards sem fer á kostum í hlutverki ritstjóra Washington Post, Ben Bradlee. Hlaut hann óskarinn fyrir magnaðan leik sinn. Ein af allra bestu myndum hins mistæka Alan J. Pakula. Hún er ein af allra bestu myndum úr blaðamennskunni sem gerðar hafa verið. Allir þeir sem hafa gaman af skemmtilegum spennumyndum með sagnfræðilegu ívafi ættu að drífa í því að sjá þessa, hún er vel þess virði. Mögnuð mynd og virkilega vel leikin.

Vefur dagsins
Félagi minn og nafni, Stefán Einar Stefánsson, heldur úti góðri heimasíðu á Netinu, þar sem hann tjáir sig um málefni samtímans og fer yfir það sem mestu máli skiptir. Hvet alla til að líta á félaga Stefán Einar í dag á vefrúntinum.

Snjallyrði dagsins
I'lll make him an offer he can't refuse.
Don Vito Corleone í The Godfather

28 janúar 2004

Hutton lávarðurHeitast í umræðunni
Í dag var birt formlega skýrsla Huttons lávarðar, um dauða breska vopnasérfræðingsins Dr. David Kelly í júlí. Í niðurstöðum hennar kemur fram hörð gagnrýni á fréttaflutning breska Ríkisútvarpsins, BBC. Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, er að mestu hreinsaður af þeim ásökunum sem hann hafa verið bornar, með niðurstöðum skýrslunnar. Í henni kemur fram að fullyrðingar fréttamannsins Andrew Gilligan um að breska stjórnin hefði ýkt skýrslu sína um gereyðingarvopn Íraka hefðu verið með öllu tilefnislausar. Gavyn Davies stjórnarformaður BBC, tilkynnti í dag að hann myndi axla ábyrgð á fréttaflutningnum og niðurstöðum skýrslunnar með afsögn sinni. Hutton lávarði var falið að rannsaka dauða Kellys sem fannst látinn um miðjan júlí 2003, skömmu eftir að gert var opinbert að hann hefði verið heimildamaður fréttamannsins Andrew Gilligan um að breska stjórnin hefði ýkt skýrslu um meint gereyðingarvopn Íraka í september 2002. Í skýrslunni kom t.d. fram að Írakar gætu beitt gereyðingarvopnum með einungis þriggja stundarfjórðunga fyrirvara og sagði Gilligan að þetta hefði verið sett inn í skýrsluna þótt stjórnin hefði vitað að það væri rangt. Með niðurstöðu skýrslunnar stendur Blair eftir sem sigurvegari málsins og það mun ekki leiða til afsagnar hans eða stjórnar hans. Hann fór á þingfundi í Westminster í dag fram á afsökunarbeiðni þeirra sem hæst létu, eða þeir létu sig í friði ella, fyrst niðurstaðan væri ljós.

John Kerry með stuðningsmönnumJohn Kerry öldungadeildarþingmaður, vann afgerandi sigur í forkosningum demókrata í New Hampshire í gær. Sigur hans færir honum enn sterkari stöðu í demókrataslagnum um það hver leiðir flokkinn í næstu forsetakosningum. Hann á þó útnefninguna engan veginn vísa enn. Sigur Kerry í New Hampshire varð nokkru stærri en seinustu skoðanakannanir bentu til, en þær þóttu sýna minnkandi forskot hans á Howard Dean. Kerry fékk 39% atkvæða í NH, Dean hlaut 26%, en þess má geta að hann hafði 20% forskot á keppinauta sína í fylkinu fyrir einum mánuði, en hann hefur á seinustu tveim vikum gjörsamlega misst niður forystuhlutverk sitt í slagnum, eins og ég hef fjallað um áður. Wesley Clark fyrrum hershöfðingi, og John Edwards öldungadeildarþingmaður, voru jafnir og fengu báðir 12% og Joe Lieberman öldungadeildaþingmaður og varaforsetaefni demókrata 2000, varð í fimmta sæti með aðeins 9% atkvæða. Kjörsókn í fylkinu var mikil, meiri en nokkru sinni fyrr. Eftir viku verða forkosningar í 7 fylkjum, t.d. S-Carolinu og Missouri. Sigur Kerrys styrkir stöðu hans, en þó skal á það bent að Bill Clinton fyrrum forseti, tapaði árið 1992 bæði í Iowa og New Hampshire.

AlþingiAlþingi kom saman að nýju eftir jólaleyfi í dag. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók við embætti menntamálaráðherra fyrir tæpum mánuði, eins og öllum stjórnmálaáhugamönnum ætti að vera kunnugt. Nokkur uppstokkun varð á setu sjálfstæðismanna í fastanefndum Alþingi, í kjölfar þess að Þorgerður varð menntamálaráðherra. Arnbjörg Sveinsdóttir sem tók sæti Tómasar Inga Olrich fyrrv. menntamálaráðherra, á þingi, mun taka við nefndarsætum Þorgerðar Katrínar í allsherjarnefnd og samgöngunefnd. Guðmundur Hallvarðsson tekur sæti Þorgerðar í iðnaðarnefnd en Arnbjörg aftur á móti sæti hans í fjárlaganefnd, en hún sat í nefndinni 1995-2003. Sólveig Pétursdóttir tekur sæti Þorgerðar Katrínar í kjörbréfanefnd.

Frelsisstyttan í New York, gyðja frelsisinsSvona er frelsið í dag
Alltaf nóg um að vera á frelsinu. Í dag hóf göngu sína ný og skemmtileg keppni á vefnum. Frelsisdeildin er keppni milli þingmanna Sjálfstæðisflokksins um titilinn Frelsari ársins. Orðrétt segir á vefnum: "Keppendur vinna sér inn stig með því að losa fólkið í landinu undan járnkló ríkisvaldsins. Þeir keppendur sem herða á taki járnklónnar tapa stigum. Sigurvegari keppninnar hlýtur farandbikar til varðveislu í eitt ár. Staðan í deildinni er vægast sagt neikvæð fyrir unnendur frelsis. Heildarstig deildarinnar eru neikvæð um 136 stig. Efsti maður deildarinnar, formaður þingflokks Sjálfstæðismanna, Einar K. Guðfinnsson er með 3 stig, í öðru sæti er Pétur H. Blöndal með 1 stig og Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra er með 0 stig. Aðrir þingmenn eru í mínus eða hafa ekki lagt fram nein mál. Er mál að þingmenn flokksins bretti nú upp ermarnar og stefni þjóðarskútunni í átt til frelsis." Líst alveg virkilega vel á þetta framtak félaga minna í Heimdalli og fagna því mjög. Nú er bara að vona að fleiri þingmenn líti í frelsisátt á næstu vikum, mánuðum og árum, þann tíma sem lifir af kjörtímabilinu.

GoodfellasKvikmyndir
Horfði í gærkvöldi enn einu sinni á hið magnaða meistaraverk Martin Scorsese, Goodfellas. Það var árið 1990 sem Scorsese gerði þessa eftirminnilegustu og stórbrotnustu kvikmynd sína. Goodfellas er mögnuð mafíumynd sem er byggð á sannri sögu írsks-ítalsks bófa sem frá bernsku á sér þann draum heitastan að verða gangster. Og fyrr en varir er hann kominn í réttan félagsskap víðsjárverðra glæpamanna. Þar hefst þriggja áratuga tímabil auðgunarglæpa, manndrápa, peningaflóðs og ekki síst glæsilegs Hollywoodlífsstíls, sem endar að lokum með því að allir eru á varðbergi og hugsa um það eitt að bjarga eigin skinni. Meistari Scorsese segir söguna af einstökum mikilleik og ekki síst gráglettni, sóðaskapur innihaldsins kemur aðeins fram í örfáum sprungum sem bresta í rómantíska drauminn. Og ekki má gleyma sannkölluðum stórleik þeirra snillinga sem hér eru saman komnir og fara hreint á kostum, nægir þar að nefna þá Robert De Niro (sem vann hér með Scorsese í sjötta skiptið), Ray Liotta, Paul Sorvino og Joe Pesci sem hlaut óskarinn fyrir magnaðan leik sinn. Scorsese hlaut tilnefningu fyrir leikstjórn sína og myndin var einnig tilnefnd sem besta mynd ársins 1990. Eðalmynd, sem verður enn betri með hverju árinu. Snilld!

ESBGrein á Heimssýn - vefurinn
Í dag birtist á vef Heimssýnar hluti sunnudagspistils míns af heimasíðunni. Þar er um að ræða fyrsta hlutann, sem fjallar um Samfylkinguna og sundurleitni hennar á mörgum sviðum. T.d. er nefnd þar forystukreppa, deilur vegna Evrópumála og faldar áherslur varaformanns flokksins fyrir kosningar sem koma nú í ljós í Pandóru boxinu sem nú hefur verið opnað almenningi. Þetta er annar pistill minn sem birtist á vefnum og langt í frá sá síðasti. Mun ég nú taka sæti í ritstjórn heimasíðu Heimssýnar og hef í hyggju að taka þátt í innra starfi þessarar mikilvægu hreyfingar okkar sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Mikilvægt er að vinna af krafti af því að styrkja okkar góðu hreyfingu enn frekar og ég vil taka þátt í því verki.

Vefur dagsins
Nk. sunnudag, 1. febrúar, verður liðin öld frá því heimastjórn var komið á hérlendis. Davíð Oddsson forsætisráðherra, opnaði í vikunni glæsilegan vef til minningar um þetta mikla afmæli. Um helgina verður haldið formlega upp á þessi tímamót. Ég hvet alla til að líta á vefinn í dag.

Snjallyrði dagsins
Frankly, my dear, I don't give a damn!
Rhett Butler í Gone with the Wind

27 janúar 2004

Elijah Wood í The Lord of the Rings: The Return of the KingHeitast í umræðunni
Tilnefningar til Óskarsverðlaunananna voru kynntar í dag. Verðlaunin verða nú afhent í 76. skipti, en á öðrum tíma, til þessa hafa þau verið afhend í marsmánuði, en framvegis verða þau seinasta sunnudag í febrúarmánuði. Óhætt er að fullyrða að mikið af óvæntum uppákomum hafi verið að þessu sinni við tilnefningarnar. Fáum kom á óvart að The Lord of the Rings: The Return of the King seinasti hluti Hringadróttinssögu, skyldi hljóta flestar tilnefningar eða alls 11. Mest á óvart komu hinsvegar tilnefningar til leikflokkanna, en þar voru margir þekktir leikarar sem kepptu um Golden Globe sniðgengnir. Kvikmyndin Master and Commander hlaut 10 tilnefningar sem kom flestum á óvart og ennfremur þótti undrunarefni að myndin Seabiscuit skyldi tilnefnd sem besta myndin, en Cold Mountain sniðgengin í þeim flokki og fyrir leik Nicole Kidman. Tilnefndar sem besta mynd ársins eru: LOTR: The Return of the King, Lost in Translation, Master and Commander, Mystic River og Seabiscuit. Tilnefndir sem leikstjóri ársins voru: Sofia Coppola, Clint Eastwood, Peter Jackson, Fernando Meirelles og Peter Weir.

Sean Penn í Mystic RiverEins og fyrr segir voru tilnefningar til leikflokkanna margar hverjar bæði óvæntar og komu á óvart. Margir þeirra sem taldir voru öruggir um tilnefningar náðu ekki inn. Tilnefndir sem leikari í aðalhlutverki eru: Johnny Depp, Ben Kingsley, Jude Law, Bill Murray og Sean Penn. Tilnefndar sem leikkona í aðalhlutverki eru: Keisha Castle-Hughes, Diane Keaton, Samantha Morton, Charlize Theron og Naomi Watts. Tilnefndir sem leikari í aukahlutverki eru: Alec Baldwin, Benicio Del Toro, Djimon Hounsou, Tim Robbins og Ken Watanabe. Tilnefndar sem leikkona í aukahlutverki eru: Shohreh Aghdashloo, Patricia Clarkson, Marcia Gay Harden, Holly Hunter og Renée Zellweger. Með þessu varð Keisha Castle-Hughes yngsti leikarinn í sögu akademíunnar til að hljóta tilnefningu fyrir leik í aðalhlutverki, en hún er aðeins 13 ára gömul. Athygli vakti að Tom Cruise, Scarlett Johansson, Russell Crowe og Nicole Kidman hlutu ekki tilnefningu fyrir leik sinn, en þess í stað hlutu Johnny Depp, Naomi Watts og Samantha Morton tilnefningu. Ennfremur kom á óvart að hin íranska leikkona Shohreh Aghdashloo hlaut tilnefningu fyrir leik sinn í aukahlutverki. Óskarsverðlaunin verða afhent í Los Angeles, 29. febrúar nk.

EM í handbolta 2004Íslendingar eru úr leik á Evrópumótinu í handknattleik, eftir jafntefli við Tékka á sunnudag. Óhætt er að fullyrða að þátttaka Íslendinga á Evrópumeistaramótinu hafi verið ein sorgarsaga. Liðið komst ekki úr riðlakeppninni, urðu neðstir í sínum riðli og unnu engan leik, gerðu eitt jafntefli en töpuðu tveim leikjum. Langt er altént síðan að Íslendingum hefur gengið svo illa á stórmóti í handbolta. Mér fannst leikur liðsins á mótinu vera dapur. Margir lykilmanna stóðu ekki undir væntingum og ljóst að margt er að í leik liðsins. Ólympíuleikarnir eru framundan, þar gefst Íslendingum færi á að ná sér á strik og sanna mátt sinn. Mikilvægt er að liðið byggi sig upp og fái tækifæri til að vinna sig úr erfiðleikum. Það gerir illt verra að skipta um þjálfara á þessum tímapunkti. Þjálfarinn á að fá að klára sitt verk áður en dæmt verður að fullu um hans verk.

María MargrétSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu pistill Mæju. Orðrétt segir hún: "Í síðustu viku var ég, aldrei þessu vant, vöknuð snemma að horfa á Ísland í bítið. Þar heyrði ég þingmann Samfylkingarinnar, Katrínu Júlíusdóttur, segja að hún neitaði að horfa á málin út frá sjónarhóli einstaklingsins, eins og við Heimdellingar erum þekktir fyrir, heldur vildi hún aðeins tala út frá samfélaginu. Þetta raskaði ró minni þennan morguninn. Hvað fær fólk til að halda svona löguðu fram? Þessi málflutningur er algengur hjá vinstri- eða jafnaðarmönnum. Hjá þeim hefur samfélagið öðlast sjálfstæða tilveru án frjálsra einstaklinga. Með þessum rökstuðningi leyfa þér sér að skerða frelsi fólks og skeyta engu um þarfir þess til að haga lífi sínu eftir eigin höfði. Robert Nozick bendir einmitt á það í bók sinni Anarchy, State and Utopia að þegar manneskja er notuð með þessum hætti gleymist það að einstaklingar hafa ólíkar þarfir og lifa ólíku lífi – og ennfremur minnir hann á að menn eiga jú bara eitt líf. Ef fólk vill búa við raunverulegt réttlæti er því nauðsynlegt að horfa á heiminn með augum einstaklingsins ekki samfélagsins. Það er ekki hægt að fórna hagsmunum einstaklinga í þágu heildarinnar nema til að vernda líf og eignir borgaranna. Þetta er grundvallarmunurinn á skoðunum mínum og Katrínar Júlíusdóttur. Hún virðist vera tilbúin til að fórna hagsmunum einstaklinganna undir yfirskini jöfnuðar í samfélaginu. En hvað hún er góð!"

On Golden PondSjónvarp - kvikmyndir
Horfði í gærkvöldi á endursýningu á Golden Globe verðlaunahátíðinni á Stöð 2. Það versta við að horfa á endurtekningu stórverðlauna sem þessara er hversu illa er gengið á ræður verðlaunahafa og þær illa þýddar í miklum flýti. Einnig eru þær stundum klipptar svo úr verður bara partur af þeirri snilld sem fram kemur. Það er alltaf erfitt að klippa svona dagskrá, mér persónulega fannst að hefði mátt klippa meira af ræðum verðlaunahafa í sjónvarpi en kvikmyndum. Verst var farið með góða ræðu Michael Douglas sem hlaut Cesil B. DeMille verðlaunin. Senuþjófar kvöldsins í ræðum voru hinsvegar Bill Murray, Ricky Gervais, Al Pacino, Meryl Streep og Michael. Horfði á í nótt og hafði gaman af, en gott að horfa á samantektina, hafi maður séð hitt. Seinna um kvöldið sýndi Stöð 2, kvikmyndina On Golden Pond. Hafði ekki fyrr séð þessa kvikmynd, en lengi viljað sjá hana. Var þetta seinasta kvikmyndahlutverk leiksnillingsins Henry Fonda þar sem hann leikur á móti hinni stórfenglegu leikkonu Katharine Hepburn og dóttur sinni Jane Fonda. Þessi mynd er mjög sterk að öllu leyti, vel byggð upp og frábærlega leikin af leiksnillingunum Fonda og Hepburn, sem bæði hlutu óskarinn fyrir leik sinn, ennfremur fékk handrit myndarinnar óskarinn. Magnaður samleikur tveggja leiksnillinga - mynd sem allir verða að sjá.

LOTR: The Return of the KingTónlist - bækur
Keypti mér um daginn diskinn með tónlistinni úr þriðju og seinustu mynd Hringadróttinssögu. Er mikill aðdáandi þessara mynda og á tónlistardiskana úr öllum myndunum. Titillag þessarar myndar er Into the West og er tilnefnt til Óskarsverðlaunanna sem kvikmyndalag ársins og hefur þegar hlotið Golden Globe. Mögnuð tónlist Howard Shore nýtur sín vel á þessari góðu plötu, falleg tónlist sem er órjúfanlegur hluti myndanna. Er enn að lesa Einar Ben en stendur til að lesa bók Ólafs Jóhannessonar fyrrum forsætisráðherra, Lög og réttur. Las hana fyrir nokkrum árum, en stefni að því að gera aftur núna.

Vefur dagsins
Tilnefningar til óskarsverðlaunanna voru kynntar í dag. Verðlaunin verða afhent í Los Angeles, 29. febrúar nk. Kynnir hátíðarinnar verður Billy Crystal. Í dag bendi ég á heimasíðu Óskarsverðlaunanna 2004.

Snjallyrði dagsins
Go ahead, make my day!
(Dirty) Harry Callahan í Sudden Impact

26 janúar 2004

Peter JacksonHeitast í umræðunni - pistill Björns
Golden Globe, kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin voru afhent í Los Angeles sl. nótt í 61. skiptið. Sigurvegari kvöldsins var The Lord of the Rings: The Return of the King. Var tilnefnd til fimm verðlauna en hlaut fern. Var valin besta dramatíska kvikmynd ársins og hlaut Peter Jackson leikstjóri myndarinnar, leikstjóraverðlaunin. Myndin hlaut ennfremur verðlaun fyrir eftirminnilega tónlist Howard Shore og besta kvikmyndalagið, Into The West, sungið af Annie Lennox. Kvikmyndin Lost in Translation var valin besta gaman/söngvamynd ársins, hlaut verðlaun fyrir besta handrit ársins og aðalleikara í gamanmynd, Bill Murray. Diane Keaton hlaut verðlaunin sem leikkona í gamanmynd fyrir leik sinn í Something's Gotta Give. Sean Penn var valinn besti leikarinn í dramatískri kvikmynd fyrir magnaðan leik sinn í Mystic River. Charlize Theron hlaut verðlaunin sem besta leikkonan í dramatískri kvikmynd fyrir leik sinn í Monster. Tim Robbins var valinn leikari í aukahlutverki fyrir Mystic River, og Renée Zellweger var valin leikkona í aukahlutverki fyrir Cold Mountain.

Meryl Streep og Al PacinoSjónvarpsmyndin Angels in America hlaut fimm Golden Globe verðlaun og var fyrir utan LOTR: The Return of the King sigurvegari ársins. Hlaut verðlaun sem besta sjónvarpsmynd ársins, fyrir leik Al Pacino, Meryl Streep, Mary Louise Parker og Jeffrey Wright. Verðlaun sem besti dramatíski sjónvarpsþátturinn hlaut 24, sem skartar Kiefer Sutherland í aðalhlutverki. Er ný syrpa af þeim góða þætti nýlega hafin á Stöð 2. Anthony LaPaglia var valinn besti leikarinn í dramatískum þætti fyrir leik sinn í Without a Trace og Frances Conroy besta leikkonan í dramatískum þætti fyrir hlutverk sitt í Six Feet Under. Breski sjónvarpsþátturinn The Office var senuþjófur ársins, hlaut öllum að óvörum verðlaun sem besti gamanþáttur ársins og skaut þar aftur fyrir sig mörgum þekktum bandarískum gamanþáttum. Aðalleikari þáttarsins, Ricky Gervais var valinn besti leikarinn í gamanþáttum. Sarah Jessica Parker var valin leikkona ársins í gamanþætti fyrir leik sinn í Sex and the City. Ennfremur var afganska kvikmyndin Osama valin besta erlenda kvikmynd ársins. Michael Douglas hlaut Cesil B. DeMille heiðursverðlaunin. Ég fjalla ítarlega um Golden Globe verðlaunin á kvikmyndir.com í dag.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraÍ pistli Björns á heimasíðu hans fjallar hann um spjallfund Davíðs í Valhöll, fjallar um endurkomu Pauls Zukofsky í Kammersveit Reykjavíkur, árásir á Jakob F. Ásgeirsson og að lokum um myndlíkingar fyrrum nafnleysingja á spjallvefunum sem skrifar þar nú undir nafni. Orðrétt segir: "Í vikunni féll stjarna Howards Deans í prófkjörsslagnum um forsetaembættið meðal demókrata í Bandaríkjunum, vegna þess hve hann öskraði ógurlega eftir að hafa tapað í Iowa. Vegna skorts á dómgreind hans telja margir af flokksmönnum hans hann einfaldlega úr leik. Hvað ætli flokksmenn frjálslyndra segi um framgöngu varaformanns síns Magnúsar Þórs? Skyldu þeir mælast til þess við hann að biðjast afsökunar, úr því að einhver þarf að fara þess á leit við hann? Enginn hefur verið siðavandari í stjórnmálaskrifum undanfarin misseri en Sverrir Hermannsson, sjálfur guðfaðir Frjálslynda flokksins – hvert er viðhorf hans?"

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um hina sundurleitu Samfylkingu sem allsstaðar blasir við stjórnmálaáhugamönnum í umræðu um t.d. varnarmál og evrópumál seinasta árið, fyrir og eftir kosningarnar í fyrra, og nú hefur innri valdabarátta og sundurlyndi verið staðfest endanlega í athyglisverðri grein Birgis Hermannssonar. Ég tjái mig um kosningaslaginn í demókrataflokknum í Bandaríkjunum vegna komandi forsetakosninga þar sem hafa orðið miklar breytingar á fylgi frambjóðenda eftir að Howard Dean missti flugið og öskraði til stuðningsmanna sinna. Að lokum fjalla ég um dómgreindarbrest varaformanns Frjálslynda flokksins sem hefur sýnt sinn innri mann vel á spjallvefum seinustu daga og vakið athygli Morgunblaðsins og Stöðvar 2 með orðaflaumi sínum.

Ásta MöllerGestapistillinn
Í gestapistli á heimasíðunni fjallar Ásta Möller um Fréttablaðið og fylgir eftir umræðu um blaðið sem hún var þátttakandi í undir lok seinasta árs. Orðrétt segir Ásta: "Þessari umræðu var haldið áfram í öllum fjölmiðlum og þar hafa vefsíður og spjallsíður ekki verið undanskildar. (Reyndar eru skiptar skoðanir á því hvort vefmiðlar og spjallsíður teljist til fjölmiðla. Í erlendri grein sem ég las nýverið var því haldið fram að í Bandaríkjunum teldust vefmiðlar ekki til fjölmiðla (mass media) vegna þess að útbreiðsla netsins nær aðeins til hluta þjóðarinnar. Aðgengi og útbreiðsla netsins á Íslandi er hins vegar með þeim hætti að óhætt er að telja netmiðla til fjölmiðla). Margir sem hafa tekið þátt í umræðunni hafa haldið fram hlutleysi og sjálfstæði blaðamanna gagnvart eigendum sínum og fordæmt hugleiðingar í aðra veru." Góður pistill, hjá Ástu. Vil ennfremur þakka henni góð orð í minn garð í pistlinum.

Ragnar JónassonSvona er frelsið í dag
Í góðum pistli Ragnars á frelsinu í dag fjallar hann um lög um tóbaksvarnir. Orðrétt segir hann: "Fyrir skömmu síðan var ég staddur í matvöruverslun og beið eftir að fá afgreiðslu. Á undan mér í röðinni var enskumælandi kona sem var ráðvillt á svip. Hún hafði greinilega verið nokkra stund inni í búðinni en ekki fundið það sem hún var að leita að. Að lokum gafst hún upp og fór að kassanum og spurði afgreiðslumanninn: "I’m sorry, but don’t you sell cigarettes here?” Afgreiðslumaðurinn brosti. Þetta var greinilega ekki í fyrsta skipti sem hann hafði verið spurður að þessu. "Yes, we do. But in this country we have to hide them.” Svo hlógu þau bæði. Maðurinn hélt áfram að afgreiða viðskiptavinina en konan fór út, með sígaretturnar og góða sögu til að segja vinum sínum af hinu furðulega landi Íslandi." Ennfremur birtist á frelsinu í dag pistill Erlings um skólagjöld í HÍ og umfjöllun um stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins sem framundan er.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég á vef míns góða félaga, Kjartans Vídó Ólafssonar. Á vef sínum tjáir Kjartan skoðanir sínar og fer yfir málin með sínum hætti. Í gær fékk ég heiðurssess á vef hans og þakka honum kærlega fyrir skrif hans í minn garð og góð orð.

Snjallyrði dagsins
Það er betra fyrir mannkynið að leyfa manni að lifa eins og honum þykir gott en að kúga hvern mann til að lifa eins og öllum gott þykir.
John Stuart Mill

24 janúar 2004

Davíð OddssonHeitast í umræðunni
Davíð Oddsson forsætisráðherra, fjallaði á fjölmennum laugardagsfundi sjálfstæðismanna í Valhöll í morgun um varnarsamstarfið við Bandaríkin og sagði að Íslendingar myndu horfa til Bandaríkjanna til að tryggja öryggi þjóðarinnar. Sagði hann að viðræður um varnarsamstarf við bandaríkjamenn væru í viðkvæmri stöðu og málið langt í frá leyst. Sagði hann aðspurður að fundir með fulltrúum ríkisstjórnar Bandaríkjanna væru vart til þess fallnar að auka bjartsýni um farsæla lausn málsins. Frægt varð er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði á opnum fundi framtíðarnefndar Samfylkingarinnar í byrjun mánaðarins að Íslendingar ættu að skilgreina varnarhagsmuni sína í tengslum við varnarhagsmuni Evrópu og beina þannig sjónum sínum í ríkari mæli að Evrópu fremur en Bandaríkjunum. Sagði hún þar að Samfylkingin stæði nú andspænis því verkefni að móta nýja stefnu í öryggis- og varnarmálum í ljósi nýrra aðstæðna eftir að Bandaríkjamenn teldu ekki lengur þörf á þeim varnarviðbúnaði sem verið hefði í herstöðinni í Keflavík. Var með hreinum ólíkindum að sjá varaformann Samfylkingarinnar draga fram stefnuna í varnar- og Evrópumálum sem falin var fyrir seinustu kosningar. Kemur þarna staðfesting á fyrri ummælum flokksmanna dágóðu fyrir kosningar. Aðspurður um ummæli ISG sagði Davíð að það væri með ólíkindum að hlusta á þann málflutning sem væri eins og aftan úr grárri forneskju. Sagði Davíð að hann hefði getað ímyndað sér að finna ámóta ummæli í Þjóðviljanum fyrir um 15 til 20 árum. Benti hann á að í stefnu Samfylkingarinnar á vefnum væri ekkert fjallað um stefnu varðandi samstarf við Bandaríkin.

SamfylkingardoppaMikið hefur verið fjallað opinberlega um valdaátökin innan Samfylkingarinnar. Hafa þau blasað við öllum eftir að borgarfulltrúi R-listans missti borgarstjórastól sinn og fór í þingframboð, og ekki síður eftir þingkosningarnar, en borgarfulltrúinn náði eins og kunnugt er ekki kjöri til þings. Í grein Ritinu, tímariti Hugvísindastofnunar Háskólans, fjallar Birgir Hermannsson um árið 2003 innan Samfylkingarinnar og kosningabaráttuna. Fer hann mjög yfir stöðu Ingibjargar Sólrúnar og Össurar og valdatafl þeirra á milli. Greinin er góð lesning og gott innlegg í umræðuna frá manni innan Samfylkingarinnar á stöðu mála þar. Hann dæmir þar Borgarnesræðurnar misheppnaðar, stöðu Ingibjargar innan framboðsins misreiknaða frá upphafi og mikil mistök hafi verið gerð við skipulagningu hennar. Mjög athyglisverð grein.

Raging BullKvikmyndir
Horfði í gærkvöldi enn einu sinni á magnaða stórmynd Martin Scorsese, Raging Bull. Myndin var gerð árið 1980 og hefur staðist tímans tönn með eindæmum vel. Í henni er sögð saga boxarans Jake La Motta, en hann var fyrsti boxarinn sem náði að sigra Sugar Ray Robinson. Eftir það lá leiðin að heimsmeistaratitlinum og varð La Motta einn frægasti boxari 20. aldarinnar. Í myndinni er rakin saga hans á fimmta áratugnum, sem var gullaldartími kappans. Robert De Niro á sannkallaðan stjörnuleik í hlutverki La Motta og hefur aldrei verið betri. Hlaut óskarinn fyrir leik sinn. Kemur með frammistöðu lífs síns. Joe Pesci og Cathy Moriarty eru einnig alveg mögnuð í sínum hlutverkum. Kvikmyndatakan er mjög sérstök og flott, einkum í hinum eftirminnilegu boxatriðum. Myndin er í svarthvítu og gefur það henni sérstakan blæ. Leikstjórnin er alveg fullkomin og í raun undarlegt að Scorsese hafi ekki hlotið óskarinn fyrir hana á sínum tíma. Í heildina er Raging Bull ein besta kvikmynd áttunda áratugarins, sannkölluð tímamótamynd.

IdolSjónvarpsgláp
Var hið fínasta sjónvarpskvöld í gærkvöldi. Við vorum bara heima og horfðum á sjónvarpið í rólegheitum. Í ítarlegum Idol þætti var litið yfir ferðalag fyrstu íslensku Idol stjörnunnar, Karls Bjarna Guðmundssonar allt frá áheyrnarprófi á Hótel Loftleiðum í lok ágúst til lokakvöldsins í Smáralind, þann 16. janúar er hann vann keppnina. Fínn þáttur og farið vel yfir sögu þátttakandans í keppninni frá A-Ö. Að því loknu var litið á American Idol, nóg er af hæfileikalausum söngvurum en á milli þeirra leynist þó næsta stórstjarna bandarísks tónlistarheims. Leit svo á Raging Bull og átti svo gott spjall við vini á MSN og rabbaði pólitík og margt fleira.

Vefur dagsins
Á morgun verða Golden Globe verðlaunin afhent í Los Angeles í 61. skiptið. Bendi í dag á heimasíðu Golden Globe. Einnig er hægt að líta á tilnefningar til verðlaunanna.

Snjallyrði dagsins
Þegar ekki er nauðsynlegt að breyta, þá er nauðsynlegt að breyta ekki.
Falkland lávarður

23 janúar 2004

Michael HowardHeitast í umræðunni
1. maí nk. eru sjö ár frá því að Verkamannaflokkurinn vann sigur í þingkosningum í Bretlandi og komst til valda, þá eftir 18 ára valdaferil breska Íhaldsflokksins. Frá 1989 hefur Íhaldsflokkurinn ekki náð að komast yfir 40% markið í skoðanakönnunum í Bretlandi. Þáttaskil hafa hinsvegar orðið í breskum stjórnmálum eftir atburði vikunnar. Í nýrri skoðanakönnun Daily Telegraph mælist Íhaldsflokkurinn með 40% fylgi. Hefur flokkurinn rúmlega 5 prósentustiga forskot á Verkamannaflokkinn. Frjálslyndir demókratar hafa 19% fylgi. Með þessu hefur Michael Howard tekist það sem engum öðrum leiðtoga flokksins hefur tekist eftir valdaferil Margaret Thatcher, sem var forsætisráðherra Bretlands í rúm 11 ár. Staða Íhaldsflokksins hefur styrkst mjög eftir að leiðtogaskipti urðu í flokknum í október 2003 er Iain Duncan Smith var felldur af leiðtogastóli og Howard tók við af honum. Pólitísk staða Tony Blair forsætisráðherra, hefur veikst mjög seinasta ár vegna mála í kjölfar dauða Davids Kelly. Hutton nefndin sem skipuð var til að rannsaka það mál allt saman skilar niðurstöðu sinni á þriðjudag. Hefur Blair sagt að hann muni segja af sér ef úrskurður nefndarinnar verði sér í óhag. Þingkosningar verða í Bretlandi í síðasta lagi í maí 2006, en þá lýkur fimm ára kjörtímabili ríkisstjórnarinnar.

BækurÍslensku bókmenntaverðlaunin voru afhent á Bessastöðum í gær í fimmtánda skipti, af Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands. Það voru þeir Guðjón Friðriksson og Ólafur Gunnarsson sem hlutu verðlaunin að þessu sinni. Guðjón hlaut þau í flokki fræðirita fyrir seinna bindi ævisögu Jóns Sigurðssonar forseta. Ólafur fékk verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir bók sína Öxin og jörðin. Er þetta í þriðja skipti sem Guðjón hlýtur verðlaunin, en hann hefur í 15 ára sögu verðlaunanna verið tilnefndur alls fimm sinnum. Hann hlaut verðlaunin 1991 fyrir bók sína, Bærinn vaknar 1870-1940, og árið 1997 fyrir fyrsta bindi ævisögu Einars Benediktssonar. Ólafur var tilnefndur til verðlaunanna 1992 fyrir bók sína Tröllakirkju og átti reyndar að vinna verðlaunin þá að mínu mati. Báðir eru vel að þessum heiðri komnir. Las báðar bækur um jólin og hafði gaman af. Augljóst þótti að Ólafur hlyti verðlaunin en meiri óvissa var um hver hlyti fræðiritaverðlaunin. Það var þriggja manna lokadómnefnd skipuð Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Snorra Má Skúlasyni og Ragnari Arnalds sem valdi handhafa verðlaunanna þessu sinni. Athyglisvert er að kynna sér sögu verðlaunanna.

Ariel SharonÍsraelski kaupsýslumaðurinn David Appel, var í vikunni ákærður fyrir tilraun til þess að bera fé á Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, fyrir nokkrum árum er Sharon var utanríkisráðherra landsins. Í ákærunni kemur ekki fram hvort Sharon tók sjálfur við mútunum. Samkvæmt ákæruskjali reyndi Appel ennfremur að múta Gilad syni Sharons og Ehud Olmert sem nú er aðstoðarforsætisráðherra Ísraels, en var borgarstjóri Jerúsalem á þessum tíma. Að sögn erlendra fréttavefa er David Appel byggingaverktaki og tengist mútumálið verktakasamningi í Grikklandi og mun Gilad, sonur Sharons, tengjast þeim málum. Sharon neitar að hafa framið lögbrot í málinu. Ekki er ólíklegt að málið geti orðið forsætisráðherranum dýrkeypt og auki líkur á að hann verði að láta af embætti og verði sjálfur ákærður fyrir þátt sinn í málinu. Hefur hann sagst ekki munu segja af sér og sitja a.m.k. út kjörtímabilið á sínum stól, til ársins 2007. Ef forsætisráðherrann verður ákærður verður honum vart að þeirri ósk sinni að klára kjörtímabilið.

Heiðrún Lind MarteinsdóttirSvona er frelsið í dag
Í pistli Heiðrúnar Lindar á frelsinu í dag fjallar hún um niðurskurðarhugmyndir á Landsspítala háskólasjúkrahúsi sem hafa verið mikið í umræðunni seinustu daga. Orðrétt segir hún: "veltir greinahöfundur því fyrir sér hvernig það megi vera að sá forstjóri sem ráðinn er og aðrir embættismenn, skulu aldrei verða varir við yfirvofandi fjárhagsvanda fyrr en mál eru komin í óefni? Væri hér um að ræða fyrirtæki í einkageiranum má ætla að sá hinn sami yrði ekki langlífur í starfi, enda eiga eigendur heimtu á að vel sé haldið á fjármálum fyrirtækisins. Sem eigendur Landspítala-háskólasjúkrahúss, eiga skattgreiðendur að gera þá kröfu að fjármagni sem varið er til heilbrigðismála sé vel varið. Æ stækkandi útgjaldabagga skal ekki sólundað í embættismannafargan þar sem menn benda hver á annan til að firra sig ábyrgð. Vel má vera að heilbrigðisþjónustan kunni að vera orðin báknið eitt sem hætt er að lúta stjórn mannsins. Við slíkar aðstæður er þá fátt betra en að veita einkaframtakinu svigrúm til athafna og létta þannig á erfileikum sem ríkið fær ekki leyst úr." Góður pistill venju samkvæmt hjá Heiðrúnu, er mjög sammála skrifum hennar.

Taxi DriverKvikmyndir
Horfði í gær enn einu sinni á magnað meistaraverk Martin Scorsese, Taxi Driver. Hiklaust ein mesta snilld sem sést hefur á hvíta tjaldinu. Ófögur en sannarlega óviðjafnanleg úttekt leikstjórans á einmanaleika og stórborgarfirringu New York. Sögð saga leigubílstjórans Travis Bickle sem vinnur á næturnar sökum svefnleysis og verður vitni að ógeðfelldu næturlífi borgarinnar með öllum sínum hryllingi. Hann er einfari í eðli sínu og á mjög erfitt með að blanda geði við annað fólk og er í raun kominn á ystu nöf. Hann kynnist Betsy sem er að vinna að forsetaframboði Charles Palantine. Þau eiga erfitt með að ná saman og slíta sambandinu. Er Travis kynnist Iris, hinni tólf ára vændiskonu brestur eitthvað innra með honum og hann tekur miklum stakkaskiptum og verður hann fullsaddur á allri spillingunni og ósómanum í kringum sig. Þessi fyrrum Víetnam-hermaður verður hrein tímasprengja er vopnast og beinist reiði hans loks að hórumangara stelpunnar. Robert De Niro fór á kostum í hlutverki leigubílstjórans. Sannkallaður stjörnuleikur, ein besta frammistaða De Niro og ein besta kvikmynd áttunda áratugarins. Mögnuð kvikmyndaupplifun.

Best of Bob DylanTónlist - bækur
Keypti í vikunni disk sem ég hafði lengi haft áhuga á að eignast. Keypti mér safndisk með 18 af bestu lögum poppgoðsins Bob Dylan. Þarna eru m.a. eilífir smellir á borð við Blowin' In The Wind, The Times They Are A-Changin, Mr. Tambourine Man, Like A Rolling Stone, Just Like A Woman, Knockin' On Heaven's Door, Shelter From The Storm og mörg fleiri. Skyldueign fyrir alla sanna tónlistaráhugamenn. Er þessa dagana að lesa á ný fyrsta bindi ævisögu Einars Ben, eftir Guðjón Friðriksson. Alveg mögnuð bók um einn merkasta Íslending sögunnar, mann sem setti sterkan svip á mannlíf síns tíma.

Vefur dagsins
Kíki á hverjum degi á íþróttavefinn gras.is. Þar er að finna vandaða fréttaumfjöllun um íþróttaviðburði og úrslit leikja. Bendi í dag á þennan fína íþróttavef.

Snjallyrði dagsins
Frelsisástin beinist að öðrum; valdafýsnin er sjálfselska.
William Hazlitt