Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 mars 2004

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Davíð Oddsson forsætisráðherra, flutti í dag góða ræðu á ráðstefnu um stjórnsýslulög. Þar sagði hann að ástæða kunni að vera til þess, samhliða því að úttekt verði gerð á framkvæmd stjórnsýslulaganna síðasta áratuginn, að kanna hvort ástæða sé til að koma nú upp sérstökum stjórnsýsludómstól til eftirlits með störfum stjórnvalda. Á þessu ári eru tíu ár liðin frá því ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks undir forsæti Davíðs Oddssonar settu stjórnsýslulög, var ráðstefnan haldin í tilefni af því afmæli. Davíð sagði í ávarpi sínu að Íslendingar hafi sparað að koma sér upp sérstökum stjórnsýsludómstól til eftirlits með störfum stjórnvalda eins og tíðkist víða annars staðar. Af því leiði að almennu dómstólarnir þurfi ekki síður en stjórnsýslan sjálf að tileinka sér víðtæka þekkingu á þeim réttarreglum, sem um starfsemi hennar gilda. Davíð sagði að á sínum tíma hefði hann talið ástæðu til að kanna hvort þörf væri á stofnun sérstaks stjórnsýsludómstóls samhliða setningu stjórnsýslulaga en þá þótti slíkur dómstóll ekki vera í takt við þær réttarfarsbreytingar sem þá stóðu yfir. Davíð sagði einnig, almennt orðalag sumra ákvæða stjórnsýslulaganna hafi orðið til þess að bæði dómstólar og umboðsmaður Alþingis hafi ljáð þeim mun strangari merkingu en ætlunin var, eins og túlkun ákvæðanna um andmælarétt sé til vitnis um. Stjórnvöld séu síðan nauðbeygð að elta slík fordæmi og þannig verði til hringrás sem erfitt geti verið að losna út úr, nema með viðeigandi lagabreytingum.

RÚVRekstrarhalli Ríkisútvarpsins á síðasta ári nam um 314 milljónum króna. Auglýsinga- og kostunartekjur náðu ekki áætlun á árinu 2003 en stofnunin segir, að rekstur flestra deilda hafi verið í allgóðu samræmi við þann ramma sem settur var. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var 133 milljónir króna en fjármagnsgjöld urðu talsvert hærri en búist var við, einkum vegna gengis- og verðlagsþróunar. Í tilkynningu Ríkisútvarpsins til Kauphallar Íslands segir, að stofnuninni haf tekist að hagræða verulega á undanförnum árum, enda ítrekað verið farið ofan í rekstur einstakra deilda. Hagræðing þessi hafi þó ekki nægt til að vega á móti lækkandi rauntekjum og vaxandi byrðum stofnunarinnar vegna lífeyrisskuldbindinga og kostnaðar vegna rekstrar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Tekjur vegna afnotagjalda að teknu tilliti til afskrifta þeirra voru 2.123 milljónir króna á árinu 2003 og höfðu þá hækkað um 0,7% á milli ára. Kostnaður vegna fjármagnsliða fór um 54 milljónum fram úr áætlun. Niðurstöðutölur og rekstarhalli ársins 2003 er nokkuð hærri en vonir stóðu til. Við blasir að breytinga er þörf. Það er mikilvægt að hafinn verði undirbúningur þess að einkavæða RÚV og selja strax t.d. Rás 2. Það er nauðsynlegt að gerðar verði róttækar breytingar á rekstri RÚV og það einkavætt. Ríkið á ekkert erindi á fjölmiðlamarkaði á 21. öld.

Geir H. Haarde fjármálaráðherraGeir H. Haarde fjármálaráðherra, mun á næstu dögum leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um olíugjald og kílómetragjald en þar er lagt til að núverandi þungaskattskerfi, sem byggir á lögum um fjáröflun til vegagerðar, verði lagt niður og tekið upp olíugjald ásamt sérstöku kílómetragjaldi á ökutæki sem eru yfir 10 tonn að leyfðri heildarþyngd. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ný lög um þetta efni taki gildi um næstu áramót. Olíugjaldið verður lagt á sömu aðila og þungaskatturinn, þ.e. eigendur ökutækja sem knúin eru dísilolíu. Þeir sem eru undanþegnir þungaskatti nú verða undanþegnir olíugjaldi þar sem dísilolía til þeirra verður lituð og þannig aðgreind frá hinni gjaldskyldu dísilolíu. Fjármálaráðuneytið segir, að um sé að ræða sams konar fyrirkomulag og sé við lýði í flestum ríkjum V-Evrópu. Ráðuneytið segir í fréttatilkynningu í dag að með því að tengja gjaldtöku við olíunotkun sé stuðlað að notkun á sparneytnari og umhverfisvænni ökutækjum. Dísilknúnar fólksbifreiðar verði álitlegri kostur fyrir einstaklinga en verið hafi og skattlagning dísil- og bensínbifreiða samræmd þannig að sömu rekstrarforsendur eigi við. Með sérstöku kílómetragjaldi á þyngri bifreiðar verði gjaldtakan meira í samræmi við það slit sem þær valdi á vegakerfinu.

Ósk ÓskarsdóttirSvona er frelsið í dag
Ósk vinkona mín, fer á kostum í pistli dagsins á frelsinu. Alveg mögnuð yfirferð um "frábærleika" fléttulista. Orðrétt segir Ósk: "Stuðningsmönnum frábærleika fléttulista er frjálst að fyrirskipa slíka starfshætti í sínum flokki. Slíkt virðist þó ekki nægja þeim, því þar með er aðeins trýnið á birningum unnið, að þeirra mati. Þetta má sjá á orðum Atla Gíslasonar því hann krefst þess að allir stjórnmálaflokkar verði skyldaðir til þess með lögum að viðhafa þetta skipulag við uppröðun á framboðslista. Þvílík frekja. Munurinn á vinstri og hægri í stjórnmálum birtist hér ljóslifandi fyrir augum okkar: vinstri vill afturför (jafnvel fara í hringi) og fjötra, hægri kýs framför og frelsi. Vinstrimenn vilja mæla hæfni fólks eftir kyni, hægrimenn meta verðleika. Hægrimenn vilja tryggja jafnan aðgang allra að sömu störfum þar sem allir hafa aðgang að sömu röð, vinstrimenn skipa fólki að raða sér í tvær einfaldar raðir eftir kyni. Hversu lengi þurfum við að bíða eftir því að lengra verði gengið? Verður bráðum hætt að tala um bágan hlut kvenna í stjórnmálum og farið að tala um að milli kvenna ríki innbyrðis ójafnrétti, þeim sé mismunað eftir hæð, aldri og klæðaburði?" Bravúr pistill.

GladiatorKaffihúsaspjall - kvikmyndagláp
Fór eftir kvöldfréttirnar í gærkvöldi á kaffihúsið Bláu könnuna, hitti þar nokkra vini og áttum við gott spjall um helstu málin, líflegt og gott spjall yfir súkkulaðitertu og kakósopa. Virkilega gaman, enda hress og góður hópur. Er heim kom fórum við að horfa á óskarsverðlaunamyndina Gladiator. Í henni er sögð magnþrungin saga hins mikla rómverska hershöfðingja Maximus, sem hefur í sögubyrjun enn einu sinni leitt heri sína til sigurs á vígvellinum og í þetta sinn unnið fullnaðarsigur, við mikla ánægju hins dauðvona keisara Markúsar Árelíusar, en hann lítur á Maximus sem soninn sem hann vildi öllu fremur en eignaðist aldrei. Í staðinn eignaðist hann Commodus, sem er spilltur og grimmur og vill völd meira en nokkuð annað og bíður þess að faðir hans fari að hrökkva upp af. Er Commodus áttar sig á að faðir hans ætlar að gera Maximus að arftaka sínum á keisarastóli til að reisa við lýðræðið þá drepur Commodus föður sinn og reynir ennfremur að drepa Maximus og fjölskyldu hans en hann sleppur naumlega undan morðhundum hans. Hann flýr heim en sér þá að Commodus hefur bæði myrt eiginkonu hans og einkason. Maximus sem er fullur af harmi og reiði hyggur á hefndir. Gríðarlega vel leikið epískt meistaraverk. Russell Crowe hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun sína á Maximus. Richard Harris, Oliver Reed og Joaquin Phoenix fara á kostum í sínum hlutverkum. Glæsileg mynd fyrir sanna kvikmyndaunnendur.

Dagurinn í dag
* 1863 Vilhelmína Lever kaus á Akureyri - fyrsta konan sem kaus til sveitarstjórna
* 1909 Björn Jónsson varð annar ráðherra Íslands - sat á ráðherrastóli í tvö ár
* 1967 Snjódýpt á Raufarhöfn mældist 205 sentimetrar - eflaust með eindæmum í þéttbýli
* 1979 Steingrímur Hermannsson kjörinn formaður Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi
* 1981 Robert De Niro hlaut óskarinn fyrir ógleymanlega túlkun á Jake La Motta í Raging Bull

Snjallyrði dagsins
You win, you win. You lose, you still win.
Joey La Motta í Raging Bull