Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 mars 2004

Jacques Chirac forseti FrakklandsHeitast í umræðunni
Frönsku stjórnarflokkarnir guldu afhroð í seinni umferð frönsku sveitarstjórnarkosninganna í gær. Eftir fyrri umferð var ljóst að vinstri flokkarnir myndu bera sigur úr býtum en enginn bjóst þó við jafnskýrri afstöðu kjósenda og er ljós nú. Sósíalistar og stuðningsflokkar þeirra hlutu helming atkvæða en hægriflokkur Chiracs Frakklandsforseta fékk aðeins 37% fylgi. Lýðfylkingin, lengst til hægri, fékk 13%. Sósíalistar unnu sigur í 20 af 22 héruðum í Frakklandi en alls var kosið til 26 héraðsstjórna. Niðurstöðurnar endurspegla óánægju kjósenda með umbætur stjórnarinnar í félags, velferðar- og heilbrigðismálum, vaxandi atvinnuleysi og staðnaðan efnahag. Ekki virðist afstaða stjórnvalda í Íraksdeilunni hafa hjálpað þeim mikið heldur. Frönsk blöð segja Chirac hafa verið auðmýktan og að hann geti ekki virt að vettugi vilja kjósenda. Öruggt er að þessi úrslit leiði til hrókeringar í ríkisstjórninni og jafnvel átt von á að Jean-Pierre Raffarin forsætisráðherra, verði settur af. Beðið er nú viðbragða Chirac forseta. Sigur sósíalista í sveitarstjórnarkosningunum hefur engin bein áhrif á meirihluta hægri- og miðjuflokkanna á þingi en úrslitin eru viðvörun til ríkisstjórnarinnar. Þing- og forsetakosningar verða eftir þrjú ár, árið 2007. Verði Raffarin settur af er líklegur eftirmaður hans innanríkisráðherrann Nicolas Sarkozy en það sem stendur í vegi fyrir því eru stirð samskipti hans og Chiracs og jafnframt áhugi Sarkozy á forsetaembættinu.

Sir Peter Ustinov (1921-2004)Óskarsverðlaunaleikarinn Sir Peter Ustinov lést á heimili sínu í Sviss í gærkvöldi, 82 ára að aldri. Ustinov fæddist 16. apríl 1921 í Lundúnum og var einkasonur rússneskrar listakonu og blaðamanns. Hann var kominn af mörgum þjóðernum og sagðist eitt sinn hafa svissneskt, eþíópískt, ítalskt og franskt blóð í æðum, að auki þess rússneska, reyndar allt nema enskt. Hann átti að baki litríkan leikferil. Ustinov kom fyrst fram á leiksviði 19 ára að aldri og lék eftir það í fjölda kvikmynda og leikrita. Hann sendi einnig frá sér skáldsögur og leikrit. Hann er ógleymanlegur kvikmyndaáhugafólki fyrir leik sinn á spæjaranum Hercule Poirot í fimm kvikmyndum á áttunda og níunda áratug 20. aldarinnar. Hann hlaut óskarsverðlaun tvívegis á sjöunda áratugnum fyrir leik í aukahlutverki, í kvikmyndunum Spartacus og Topkaki. Hann hætti leik að mestu á níunda áratugnum og lét eftir það að mestu til sín taka í mannúðarmálum og var lengi velviljasendiherra UNICEF, barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Oft átti hann stórleik á glæsilegum ferli, t.d. sem Poirot (enginn kom einkaspæjaranum betur til skila á hvíta tjaldinu en hann) en Ustinov var aldrei betri á ferlinum en í hlutverki Lentulus Batiatus í Spartacus. Magnaður karakter sem var einn besti leikari 20. aldarinnar.

Ný ríki í NATÓSjö ríki frá Austur-Evrópu, þar af þrjú fyrrverandi ríki innan Sovétríkjanna, verða formlega aðildarríki að Atlantshafsbandalaginu, NATÓ, í dag. Forsætisráðherrar Búlgaríu, Eistlands, Lettlands, Litháens, Rúmeníu, Slóvakíu og Slóveníu munu undirrita seinnipartinn aðildarskjöl bandalagsins við hátíðlega athöfn í bandaríska fjármálaráðuneytinu. Er um að ræða mestu stækkun bandalagsins í sögu þess. Á morgun eru liðin 55 ár frá því að Alþingi samþykkti aðild Íslands að bandalaginu og þann 4. apríl 1949 staðfestu utanríkisráðherrar stofnþjóða þess, sáttmála þess við hátíðlega athöfn í Washington. Fyrir Íslands hönd undirritaði dr. Bjarni Benediktsson samninginn. Aðildarlönd NATO eru nú tuttugu og sex talsins.
Colin Powell utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mun stjórna athöfninni, sem markar tímamót í sögu NATO. Lönd innan Sovétríkjanna fyrrverandi eru orðin hluti af hernaðarbandalagi, sem stofnað var á sínum tíma, er hið kalda stríð var í algleymingi eftir seinni heimsstyrjöld, og ríki í Vestur- og Austur-Evrópu áttu í mikilli baráttu um yfirráð yfir álfunni.

Heiðrún Lind MarteinsdóttirSvona er frelsið í dag
Í dag eru tvær góðar greinar á frelsinu. Sú fyrri er eftir Heiðrúnu Lind og ber heitið Hvar er jafnréttið?, og fjallar þar um samnefnt málþing forsætisráðuneytisins um jafnréttismál, þann 17. mars sl. Orðrétt segir hún: "Samkvæmt lögum er jafn réttur kynjanna fyrir hendi – reyndar má segja að löggjafinn sé kominn fram úr sjálfum sér með því að setja konur á hærri stall enda segir í d-lið 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000 að markmiði laganna skuli náð með því að „bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu”. Þykir þetta nokkuð athyglivert enda er það meginmarkmið þessara sömu laga að veita einstaklingum jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kynferði. Var því velt upp á málþinginu hvert næsta skref væri sem stíga ætti í átt til jafns réttar kynjanna í hvívetna? Líkt og kom fram í erindi Láru V. Júlíusdóttur hrl. er sitt hvað jafnrétti og jafnrétti. Formæður höfðu uppi kröfur um kosningarétt kvenna og mæður börðust fyrir aukinni menntun kvenna. En þegar þessu hefur verið náð þarf að spyrja hverju konur í dag berjast fyrir? Má ekki segja að nú sé komið að konum sjálfum – í stað löggjafans – að stýra eigin fleyi? Ennfremur skrifar Kári fínan pistil þar sem hann heldur áfram að pæla í einkaleyfum í skjóli ríkisins. Í pistlinum segir svo: "HÍ hefur einnig einkaleyfi á útreikningum og sölu á almanökum og dagatölum. Háskólanum er skylt að gefa út árlega dagatöl fyrir Ísland og dreifa því til allra kaupstaða eins og það er orðað í lögunum. Einkalaðilar mega því ekki flytja inn sín dagatöl þótt að þau gætu verið ódýrari fyrir neytendur og mundu að sjálfsögðu stuðla að samkeppni milli framleiðanda. Reyndar mega einkaaðilar fá undanþágu á þessu einkaleyfi HÍ en verða að greiða fyrir það ákveðið gjald til ríkisins, sem dómsmálaráðherra ákveður eftir tillögum frá samkeppnisaðilanum; Háskóla Íslands."

Primary ColorsSjónvarpskvöld
Í gærkvöldi horfði ég á Silfrið, þar var athyglisverð umræða um fréttaflutning DV. Tóku sr. Halldór Reynisson og Ingólfur Margeirsson, Reyni Traustason fréttastjóra DV, aldeilis í gegn í þættinum og kenndu honum siðina og hvernig blaðamennska á að vera. Athygli vakti að Reynir gat ekki komið með gild rök fyrir því hversvegna blaðið er á þeirri ferð sem það er á. Ennfremur ræddi Egill við Steingrím Hermannsson fyrrum forsætisráðherra. Var farið yfir fjölda mála í athyglisverðu spjalli. Eftir fréttir horfði ég á fréttaskýringaþáttinn Í brennidepli, þar sem fjallað var um þrenn fróðleg mál. Leit svo á þáttinn Cold Case, venju samkvæmt. Horfðum svo á kvikmyndina Primary Colors með John Travolta og Emmu Thompson í aðalhlutverkum. Vel viðeigandi eftir að hafa séð heimildarmyndina The War Room í vikunni. Í kvikmyndinni er sögð sagan af forsetaframbjóðandanum Jack Stanton og hinni framagjörnu eiginkonu hans. Löstur hans er hinsvegar sá að hann er kvennaflagari hinn mesti, sem brátt kemur honum í koll í baráttu sinni fyrir forsetaembættinu. Ekki þarf að horfa lengi á báðar þessar myndir til að sjá að þau lýsa sömu kosningabaráttu, enda ætti flestum að vera ljóst að fyrirmyndin að Stanton er Clinton forseti og verið er að lýsa kosningabaráttunni 1992. Myndin sýnir á nokkuð snjallan hátt hvernig hægt er að koma manni í áhrifastöðu sem er bæði gegnumspilltur og vonlaus. Travolta er alveg hreint sláandi líkur Clinton forseta og er hér að sýna besta leik sinn síðan í Pulp Fiction. Sú sem stelur hinsvegar senunni er ótvírætt Kathy Bates, sem brilleraði í hlutverki Libby Holden, áróðursmeistara Stantons. Var mikil synd að hún hlaut ekki óskarinn fyrir sinn stórleik. Þetta er kvikmynd sem allir stjórnmálaáhugamenn ættu að hafa sannkallað gaman að.

Dagurinn í dag
* 1947 Heklugos hófst - voru þá 102 ár liðin frá því seinasta, gosið stóð í rúmt ár
* 1961 Tímamótafrumvarp um launajöfnuð kvenna og karla voru staðfest á Alþingi
* 1970 Henný Hermannsdóttir sigraði í keppninni Miss Young International í Japan
* 1982 Henry Fonda og Katharine Hepburn hlutu óskarinn fyrir stórleik í On Golden Pond
* 1988 Dustin Hoffman hlaut óskarinn fyrir magnaða túlkun á einhverfum manni í Rain Man

Snjallyrði dagsins
Good luck, and may fortune smile upon...most of you.
Lentulus Batiatus í Spartacus