Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 mars 2004

Saddam fellurHeitast í umræðunni
Ár er liðið í dag frá því að Bandamenn réðust inn í Írak. Aðfararnótt 19. mars 2003 rann út tveggja sólarhringa frestur sem Bandaríkjastjórn veitti Saddam Hussein og sonum hans, til að yfirgefa landið. Kl. 03:15 að íslenskum tíma þá nótt, flutti George W. Bush forseti Bandaríkjanna, sjónvarpsávarp frá forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu, til þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar allrar. Þar tilkynnti hann að herför Bandaríkjanna og bandamanna gegn einræðisstjórn Saddam Hussein væri hafin. Fyrirskipaði hann árásir á valin skotmörk í upphafi sem höfðu það að markmiði að draga úr hernaðarmætti íraska hersins. Fram kom í ávarpinu að 35 ríki styddu afvopnun Íraks og lagði forsetinn áherslu á mikilvægi þeirra í baráttunni fyrir afvopnun landsins. Næstu daga á eftir hörðnuðu átökin og Bandamenn náðu á nokkrum dögum inn í landið og náðu fljótt að höfuðborginni Bagdad. 9. apríl 2003 náðu þeir völdum í borginni og stjórn Saddams var fallin. Það tók því innan við mánuð að koma einræðisherranum frá völdum. Var hann handsamaður 13. desember 2003: handtekinn í holu við bóndabæ, eftir flótta um allt landið. Synir hans, Uday og Qusay voru drepnir í júlí 2003. Saddam Hussein var ógn við nágranna sína, hann var Þrándur í Götu friðar í Miðausturlöndum. Það voru rétt skref stigin í fyrra í þessu máli og enginn saknar hans. Sennilega sæti hann þar enn ef samningaleiðin hefði verið farin.

George W. Bush forsetiGeorge W. Bush forseti Bandaríkjanna, minntist ársafmælis innrásarinnar í Írak í ræðu í Hvíta húsinu í dag. Sagði hann í ræðunni að Bandaríkin muni ekki bregðast írösku þjóðinni í tilraunum hennar til að koma á lýðræði. Fulltrúar 84 ríkja, sem studdu innrásina, voru viðstaddir blaðamannafund forsetans. Þá hvatti Bush þjóðir heims til að láta af deilum um stríðið í Írak og sameinast í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi. Orðrétt sagði hann: "Við munum aldrei láta fáa ofbeldismenn buga okkur". Hann viðurkenndi, að gamlar og góðar vinaþjóðir Bandaríkjanna hefðu verið ósammála ákvörðun hans um að ráðast inn í Írak til að hrekja Saddam Hussein frá völdum en sagði að þessi ágreiningur ætti heima í fortíðinni. „Við getum öll verið sammála um að með falli harðstjórans í Írak er horfin uppspretta ofbeldis, yfirgangs og óstöðugleika í Miðausturlöndum." Fram kom í ræðunni að forsetinn telur að enn færu ofbeldismenn um í Írak myrðandi og rænandi og að Bandaríkjamenn væru að fást við þá. Ennfremur sagði forsetinn: "En enginn getur haldið því fram, að Írakar væru betur settir ef morðingjarnir og glæpamennirnir væru komnir aftur í hallirnar sínar". Óhætt er að taka undir þau orð.

Sigríður Árnadóttir, Edda Andrésdóttir og Páll MagnússonTilkynnt var í vikunni að fréttatími Stöðvar 2 yrði fluttur á ný til klukkan hálfsjö. Seinasta hálfa árið hefur fréttatíminn verið klukkan sjö, á sama tíma og fréttatími RÚV. Greinilegt var á áhorfskönnunum að tilfærslan gekk ekki og áhorfið minnkaði. Gleðst ég yfir þessari breytingu, enda hef mikinn áhuga á fréttum og fréttatengdu efni og seinustu mánuði hefur tíminn milli 7 og 8 verið þannig að maður er á fjarstýringunni að skipta á milli. Nú verður hægt að horfa á báða fréttatímana og njóta þeirra og hvíla fjarstýringuna á meðan.

Kristinn Már ÁrsælssonSvona er frelsið í dag
Venju samkvæmt nóg af góðu efni á frelsinu. Í dag birtist góður pistill Kristins Más um fæðingarorlofið. Orðrétt segir: "Í framtíðinni mun kostnaðurinn vegna tekjuhárra einstaklinga í fæðingarorlofi aukast talsvert ef fram heldur sem horfir. Fæðingarorlofslögin fela í sér almenna kerfisbreytingu sem miðar að því að gera starfsmenn af báðum kynjum jafn dýra og þar með óhagkvæma. Tilgangurinn með starfsmönnum er að þeir séu hagkvæmir, vandvirkir og framleiði mikið. Orlofið gengur þvert á það markmið. Margir atvinnurekendur kynnu því að vilja skipta á starfsmönnum og vélum meira en þeir hafa gert hingað til að fá erlendar þjónustuveitur til að sinna ýmsum verkefnum. Orlofið verður til þess að atvinnulífið í heild verður óhagkvæmara." Að auki er pistill Páls Jóhannessonar um erfðafjárskatt. Ennfremur er umfjöllun um vefverslun SUS sem opnaði fyrir nokkrum vikum og margt fleira, t.d. væntanlegt þingmannaspjall með fjármálaráðherra í næstu viku.

Gettu beturSjónvarpsgláp - bókalestur
Í gærkvöldi horfði ég á æsispennandi keppni Borgarholtsskóla og Menntaskólans í Reykjavík í Gettu betur. Varð heldur betur spennandi keppni, enda tókst Borghyltingum það sem alla hefur dreymt um frá 1992 í keppninni: að vinna MR! Menntaskólinn í Reykjavík hefur unnið keppnina í 11 ár samfleytt og verið ósigraðir, mörgum til ama. Það er lítill vafi á að allir þeir sem hafa reynt að fella MR veldið voru í sæluvímu í gærkvöldi við að fagna þáttaskilum í keppninni. Óska ég liði Borghyltinga til hamingju með glæsilegan árangur, en liðið skipa: Baldvin Már Baldvinsson, Björgólfur Guðni Guðbjörnsson og Steinþór Helgi Arnsteinsson. Í liði MR eru Atli Freyr Steinþórsson, Oddur Ástráðsson og Snæbjörn Guðmundsson. Tóku þeir ósigrinum drengilega og eru menn að meiri eftir sína framgöngu. Eftir þáttinn fór ég í heimsókn til góðra vina og þar var gott spjall um helstu málin, t.d. forsetann og fleira. Er heim kom fór ég að lesa bók sem ég tók á bókasafninu og fjallar um Watergate-málið.

Dagurinn í dag
* 1908 Kona tók í fyrsta skipti til máls á fundi borgarstjórnar - Bríet Bjarnhéðinsdóttir
* 1982 Argentínumenn reyna að taka völdin á Falklandseyjum - leiddi til langra stríðsátaka
* 1984 Sextán pólskar nunnur komu til landsins til að setjast að í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði
* 1995 Við Skeiðsfoss í Fljótum í Skagafirði mældist snjódýpt 279 sentimetrar
* 2003 Innrás Bandamanna í Írak hefst - einræðisstjórn Saddams Husseins féll skömmu síðar

Snjallyrði dagsins
I don't believe a man can consider himself fully content until he has done all he can to be of service to his employer.
James Stevens í The Remains of the Day