Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

07 mars 2004

Costas Karamanlis verðandi forsætisráðherra GrikklandsHeitast í umræðunni
Þingkosningar voru í Grikklandi í dag. Skv. fyrstu tölum blasir við að stjórnarskipti verði í landinu og hægrimenn undir forystu Costas Karamanlis taki við stjórn í Grikklandi. Í kosningunum börðust stærstu flokkarnir, Pasok og New Democracy, um völdin. Hefur vinstriflokkurinn Pasok leitt stjórn landsins frá 1981 að undanskildu tímabilinu 1990-1993, er New Democracy leiddi stjórn landsins. Costas Simitis hefur verið forsætisráðherra landsins og leiðtogi flokksins frá andláti Andreas Papendreou stofnanda Pasok, árið 1996. Hann tilkynnti í janúar að hann myndi láta af embætti eftir þetta kjörtímabil. Samhliða því að tilkynna þá ákvörðun að hætta í stjórnmálum rauf Simitis þing og boðaði til kosninganna sem fram fóru í dag. George Papandreou utanríkisráðherra og sonur stofnanda flokksins, tók við stjórn Pasok og leiddi vinstrimenn í kosningunum. Þrátt fyrir að Papendreou sé vinsælasti stjórnmálamaður landsins tapaði flokkurinn kosningunum og hann verður leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Hægribylgjan í Grikklandi kom ekki á óvart, en vaxandi óánægja var í landinu við stjórn vinstrimanna. Þáttaskil verða í grískum stjórnmálum því við þessi úrslit.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraÍ pistli sínum á heimasíðunni í gær fjallaði Björn um málefni sérsveitar lögreglunnar í ljósi málatilbúnaðar þeirra, sem helst hafa ráðist á hann persónulega vegna ákvörðunar hans um að efla löggæslu í landinu. Einnig vék hann að því, hvernig menn nota netið til persónlegra árása, en það hefur nú leitt til klofnings innan Frjálslynda flokksins. Orðrétt segir Björn: "Fyrir stjórnmálamenn er eitt að verja skoðanir sínar og ákvarðanir og leitast við að taka þátt í umræðum á málefnalegum forsendum. Annað er að sitja undir persónulegum ávirðingum eða hótunum af þeim toga, sem hér hefur verið lýst með vísan til þeirra Helga Hjörvars, Magnúsar Þórs Hafsteinssonar og Páls Ásgeirs Ásgeirssonar, en þeir eru allir einstaklingar í þeirri stöðu, að gera verður kröfu til þess opinberlega, að þeir séu marktækir í málflutningi sínum. Áminningin í forystugrein Morgunblaðsins var tímabær og hún á við um orð fleiri en Magnúsar Þórs Hafsteinssonar. Hitt er svo annað mál, að menn og málstaður þeirra eru álíka mikils virði og aðferðirnar, sem þeir beita, til að ávinna skoðunum sínum stuðning."

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fer ég víða yfir málefni vikunnar. Að þessu sinni fjalla ég um umræður um ákvörðun dómsmálaráðherra um að efla sérsveit lögreglunnar og þeim ómerkilegheitum sem komið hefur frá Samfylkingunni og einkum einum þingmanni flokksins vegna þess. Ennfremur fjalla ég um frumvarp þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins um breytingar á rekstri RÚV og kosningabaráttu vegna bandarísku forsetakosninganna sem hafin er á milli George W. Bush og John Kerry. Að lokum bendi ég á mikilvægi málefnalegrar umræðu á netinu. Það er mikilvægt að þegar rætt er um stjórnmál (á netinu sem annarsstaðar) sé það gert á málefnalegan hátt. Á netinu er fjöldi spjallvefa. Á flestum þeirra vaða uppi nafnleysingjar sem ráðast að öðrum undir skjóli nafnleyndar og láta allt flakka til að níða aðra niður. Oft hef ég vikið að því að kanna þurfi hvar ábyrgð á þeim liggi og gera þurfi það skýrara. Er það mikilvægt til að stemma stigu við þeim aðilum þar sem telja sig búa í vernduðu umhverfi til að skítmennskast í umræðu um stjórnmál. Á því er svo sannarlega þörf.

ElizabethKvikmyndir
Lína systir og fjölskylda komu í mat í gærkvöldi og var virkilega gaman að rabba saman og horfa á sjónvarpið eftir góðan mat. Var virkilega gott kvöld. Horfðum t.d. á stórmynd Shekhar Kapur, Elizabeth, en hún var á dagskrá Sjónvarps í gærkvöldi. Myndin hefst árið 1554. England hefur lotið stjórn hinnar kaþólsku Maríu drottningar sem er hatrammur andstæðingur mótmælenda í landinu. Þar sem hún á sjálf engin börn og þar með engan erfingja að krúnunni óttast fylgismenn hennar að eftir hennar dag nái hálfsystir hennar, Elísabet sem er mótmælandatrúar, völdum. Þeir hvetja því Maríu til að ákæra Elísabetu um landráð og láta taka hana af lífi. Af aftökunni verður þó ekki og þegar María deyr er Elísabet krýnd drottning aðeins 25 ára að aldri. Krýningu Elísabetar fylgja miklar pólitískar hreinsanir því ráðgjafar hennar, þar á meðal hinn slóttugi Sir Francis Walsingham, ráðleggja henni eindregið að koma upp um óvini sína innan ríkisstjórnarinnar og láta taka þá af lífi. Smám saman tekst Elísabetu síðan að útrýma öllum helstu andstæðingum sínum og að lokum er hún orðin svo trygg í sessi að enginn sem er á móti henni þorir að láta mótmæli sín í ljós. Þegar Elísabet kemur næst fyrir sjónir almennings eftir hreinsanirnar hefur hún umbreytt sér í hina goðsagnakenndu meydrottningu, óárennileg, ósnertanleg og ósigrandi. Hér smellur allt saman til að skapa ógleymanlega kvikmynd; góð leikstjórn, fínt handrit, afbragðsgóð tónlist, fallegir búningar og glæsilegar sviðsmyndir, en aðall hennar er leikurinn í henni. Cate Blanchett er afbragðsgóð í hlutverki drottningarinnar og sannar endanlega að hún er úrvalsleikkona. Meðal annarra leikara myndarinnar má minnast á Geoffrey Rush, Joseph Fiennes, Emily Mortimer Christopher Eccleston, Edward Hardwicke og óskarsverðlaunahafana Sir John Gielgud og Richard Attenborough lávarð. Mögnuð mynd.

Dagurinn í dag
* 1902 Sögufélagið var stofnað til þess að gefa út heimildarrit að sögu Íslands
* 1922 Ríkisstjórn Sigurðar Eggerz tók við völdum - sat í rúm tvö ár
* 1945 Joan Crawford hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Mildred Pierce
* 1981 Lagið Af litlum neista hlaut flest atkvæði í fyrstu söngvakeppni Sjónvarpsins
* 1996 Séð og heyrt hóf göngu sína - umdeilt en vinsælt slúðurblað

Snjallyrði dagsins
In this world only the strong survive. The weak get crushed like insects.
Peter Helfgott í Shine