Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 apríl 2004

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, hringdi í Davíð Oddsson forsætisráðherra, í gær og áttu þeir langt samtal og ræddu m.a. um varnir Íslands, Írak og baráttuna gegn hryðjuverkum. Eins og fram hefur komið á þessum vef er Davíð nú staddur í New York og hringdi forsetinn í Davíð í ljósi þess að hann væri staddur í Bandaríkjunum og hann teldi nauðsynlegt að fara yfir mikilvæg málefni. Davíð ávarpaði í gær aðalfund Íslensk-ameríska verslunarráðsins. Í ræðu sinni sagðist Davíð bjartsýnn á að varnarmál Íslands leystust farsællega með viðræðum við Bandaríkjamenn. Íslendingar gætu hins vegar ekki sætt sig við að sú endurskoðun sem nú stendur yfir leiði til þess að á Íslandi verði ekki lengur neinar varnarsveitir. Íslendingar væru reiðubúnir að ræða allar hliðar varnarsamstarfsins en hins vegar verði ekki til staðar áhugi ef varnarsamstarfið standi ekki undir mikilvægustu skuldbindingunni. Seinasta árið hef ég skrifað mikið um varnarmálin á vefum mínum, sl. sumar skrifaði ég t.d. nokkra ítarlega pistla um þetta mál á heimasíðu minni í sunnudagspistlunum. Bendi ég öllum þeim sem vilja fylgjast með skrifum mínum allt frá upphafi þess að óvissa um framtíð varnarliðsins kæmi upp, að lesa þau skrif. Í viðtölum í dag hefur forsætisráðherra fjallað ítarlega um samtal sitt við Bush forseta, og það jákvæða skref að forsetinn hafi rætt þessi mál við hann. Gott er að vita að forsetinn hafi ennfremur lagt áherslu á að niðurstaða fengist í málið sem Íslendingar myndu sætta sig við.

Ariel Sharon og George W. BushAriel Sharon forsætisráðherra Ísraels, kom í opinbera heimsókn til Bandaríkjanna í vikunni og átti ítarlegar viðræður við George W. Bush forseta Bandaríkjanna. Á fundinum samþykkti forsetinn, áætlun Sharons um að innlima nokkrar helstu landtökubyggðir gyðinga á Vesturbakka Jórdanar í Ísrael. Sharon fékk auk þess samþykki forsetans við áætlun Bush forseta, við áætlun um að innlima hertekin svæði Palestínumanna á Vesturbakkanum gegn því að flytja rúmlega 7000 ísraelska landtökumenn frá Gaza-svæðinu. Á blaðamannafundi Bush og Sharon í Hvíta húsinu, lýsti forsetinn sig sammála þeirri stefnu Ísraela að neita palestínskum flóttamönnum sem reknir voru úr landi við stofnun Ísraels að snúa heim. Um er að ræða allverulega stefnubreytingu að hálfu Bandaríkjastjórnar í þessu máli. Fram til þessa hefur ríkisstjórn Bandaríkjanna álitið að landtökubyggðir gyðinga á herteknu landi séu algjört brot á alþjóðalögum. Þessi ákvörðun forsetans kemur allverulega á óvart, og er greinilega innlegg í kosningabaráttuna fyrir komandi forsetakosningar. Það er með ólíkindum að forsetinn breyti stefnu sinni til að þóknast Sharon og hans stórhættulegu stefnu í þessum málum. Búast má við að ástandið í M-Austurlöndum versni til muna í kjölfar þessara tíðinda.

RÚVHálfur mánuður er nú liðinn frá því að nefnd menntamálaráðherra um eignarhald á fjölmiðlum, lauk formlega störfum og skilaði skýrslu sinni til ráðherrans. Hefur hún skv. fréttum seinustu daga legið á borði ráðherrans yfir páskana og hefur ekki enn verið kynnt formlega í ríkisstjórninni. Er líklegt að á fundi ríkisstjórnarinnar í dag verði skýrslan og niðurstöður nefndarinnar formlega kynntar. Þegar hefur þó lekið í fjölmiðla því sem sagt er megininntak skýrslunnar. Skýrslan mun vera mjög umfangsmikil, hátt í 200 síður. Þar er ítarleg greining á fjölmiðlamarkaðnum og lagt mat á stöðu t.d. Ríkisútvarpsins. Í áliti nefndarinnar mun koma fram skv. fréttum Viðskiptablaðsins í dag að til að stuðla að fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði þurfi að efla RÚV, huga að því að sett verði sérákvæði um fjölmiðla í samkeppnislög, sem gætu sett fyrirtækjum í óskyldum rekstri skorður við því að þau eignist fjölmiðlafyrirtæki, eða að stýra málum í gegnum útsendingarleyfi sem eru tímabundin. Endurnýjun þeirra fengist þá hugsanlega ekki nema að uppfylltum vissum skilyrðum. Ef efni skýrslunnar verður það sem hér er sagt er um nóg að fjalla um efni hennar þegar hún liggur fyrir. Mun ég taka efni hennar fyrir ítarlega í sunnudagspistli og hér þegar efni hennar hefur formlega verið kynnt. Verður þar einkum vikið að þeim niðurstöðum sem nefndin virðist komast að í tengslum við RÚV.

Friðjón R. FriðjónssonSvona er frelsið í dag
Í ítarlegum pistli sínum fjallar Friðjón um frumvarp dómsmálaráðherra til breytinga á útlendingalögum og segir orðrétt: "Því er haldið fram að frumvarpið brjóti að einhverju leyti gegn þessu ákvæði stjórnarskrárinnar, en eins og áður hefur komið fram þá er víða í lögum og stjórnarskrá þar sem kveðið er sérstaklega á um réttindi og skyldur íslenskra ríkisborgara og ríkisborgara ýmissa erlendra ríkja. Það er glórulaust að halda því fram að öll þessi lög og stjórnarskráin sjálf stangist á við þetta ákvæði stjórnarskrárinnar. Því er haldið fram að með breytingu á aldursákvæði sem forsendu dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar sé brotið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, af því að hjúskaparaldur hér á landi sé 18 ár. Það getur ekki verið rétt túlkun. Það er ekki verið að meina fólki að giftast. Útlendingur á aldursbilinu 18 til 24 ára giftur íslendingi, getur eftir sem áður óskað eftir dvalarleyfi á öðrum forsendum. Það sem aðallega breytist er að hann verður að sýna fram á tryggt húsnæði og trygga framfærslu." Í pistlinum tekur hann fyrir sjö atriði sem bent er á í tengslum við vef þeirra sem safnað hafa undirskriftum gegn frumvarpinu og tekur þau fyrir. Í lok pistilsins segir svo: "Að lokum vil ég hvetja alla til að lesa greinargerðina sem fylgir frumvarpinu og svo jafnvel að kynna sér þær umræður sem urðu á þingi við framlagningu þess áður en skrifað er undir." Ástæða er til að taka undir þau orð. Ennfremur bendi ég lesendum vefsins á góða ályktun stjórnar Heimdallar um jafnréttismál og ítarlegan pistil Maríu um frelsishugsjónina.

Sunset BoulevardKaffihúsaspjall - kvikmyndir
Fór eftir kvöldfréttirnar í gærkvöldi á kaffihúsið Bláu könnuna, hitti þar nokkra vini og áttum við gott spjall um helstu málin, líflegt og gott spjall yfir súkkulaðitertu og kakósopa. Virkilega gaman, enda hress og góður hópur. Erum við farin að gera þetta reglulega og er virkilega gaman að þessu. Jafnast ekkert á við gott spjall í góðra vina hópi. Er heim kom horfðum við á stórmynd Billy Wilder, Sunset Boulevard. Er hún ein af mínum uppáhaldsmyndum, alltaf klassísk. Mögnuð svört kómedía um leikkonuna Normu Desmond sem muna má sinn fífil fegurri frá tímum þöglu myndanna þegar hún var nafli alheimsins í bransanum. Nú er hún aðeins skugginn af sjálfri sér, alein og bitur og lifir í blekkingu um forna frægð sem er ekki lengur til staðar. Þegar hún kynnist ungum handritshöfundi sér hún í hillingum að hennar tími geti komið aftur, en er allt sem sýnist hjá leikkonunni? Endalaust er hægt að velta fyrir sér meistaraverkinu Sunset Boulevard sem á eldfiman hátt fjallar um skuggahliðar kvikmyndabransans og það á opinskáan hátt. MGM mógúllinn Louis B. Mayer var sár yfir hversu óvæginn Wilder var í umfjöllun sinni, en þarna birtist einkar óvægin úttekt á bransanum og kostir og gallar Hollywood glyssins koma vel í ljós. Einnig hvernig frægðin getur gert fólk áhrifamikið og allt að því vitfirrt með tímanum. Hlaut óskarinn fyrir handritið og Wilder var tilnefndur fyrir leikstjórn sína. Gloria Swanson sem átti stórleik í hlutverki Normu Desmond var tilnefnd fyrir leik sinn en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Judy Holliday í Born Yesterday. Er almennt talið hneyksli hið mesta að Swanson hlaut ekki verðlaunin fyrir frammistöðu sína. Swanson var aldrei betri á ferli sínum en einmitt í þessari mynd. Geislar í hlutverki Normu. Stórfengleg kvikmynd, sem allir verða að sjá.

Dagurinn í dag
1915 Gullfoss, fyrsta skip Eimskips kom til Reykjavíkur - fyrsta millilandaskip landsmanna
1940 Margrét Þórhildur fæðist - varð krónprinsessa Danmerkur 1947 og Danadrottning 1972
1953 Britannia, snekkja Elísabetar drottningar vígð formlega - var notuð til ársins 1997
1964 Dómur fellur í máli lestarræninganna í Bretlandi - lestarránið var hið mesta á öldinni
1991 Óskarsverðlaunaleikstjórinn Sir David Lean deyr í London, 83 ára að aldri

Dagurinn í gær
1785 Skálholtsskóli formlega lagður niður samkvæmt konungsúrskurði
1803 Reykjavík gerð að sérstöku lögsagnarumdæmi - Rasmus Frydensberg verður bæjarfógeti
1930 Vigdís Finnbogadóttir fjórði forseti Íslenska lýðveldisins, fæðist í Reykjavík
1971 George C. Scott hlaut óskarinn fyrir magnþrungna túlkun sína á George S. Patton
1989 96 manns týndu lífi er þeir tróðust undir á fótboltaleikvanginum í Hillsborough

Snjallyrði dagsins
Það sem reynist mér erfiðast að skilja er skattakerfið.
Albert Einstein