Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 ágúst 2004

George W. BushHeitast í umræðunni
Kosningabaráttan vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum, þriðjudaginn 2. nóvember nk. hefur harðnað mjög seinustu daga og mun baráttan ná hámarki í næstu viku, er flokksþingin verða að baki og lokabaráttan fer formlega af stað. Flokksþing repúblikana verður haldið í næstu viku í Madison Square Garden í New York, sem er bæði eitt aðalvígi demókrata og vettvangur eins mesta hryðjuverks seinni tíma, en hryðjuverkin í borginni þann 11. september 2001 eru Bandaríkjamönnum og jarðarbúum öllum í fersku minni. Flokksþing hefur ekki verið haldið í borginni frá því demókratar funduðu þar í júlí 1992 og útnefndu Bill Clinton sem forsetaefni sitt. Flokksþingið í borginni varð Clinton stökkpallur á pólitíska sviðið, og með því náði hann forskoti á keppinauta sína sem þeim tókst aldrei að brúa. Flokksþingið hefst á mánudag og mun standa í fjóra daga. Þar munu forystumenn flokksins og trúnaðarmenn hans, ráða ráðum sínum, móta endanlega kosningastefnu sína og setja kosningavél sína endanlega á fullt. Að kvöldi fimmtudagsins 2. september lýkur flokksþinginu með því að George W. Bush forseti og frambjóðandi flokksins, þiggur útnefningu flokksþingsins og flytur stefnuræðu sína fyrir næstu fjögur ár. Daginn áður mun Dick Cheney varaforseti, þiggja útnefningu flokksþingsins sem varaforsetaefni flokksins með því að flytja ávarp. Öruggt má telja að flokksþing repúblikana verði markaðssett með þeim hætti að Bush sé sterkur forseti á tímum erfiðleika fyrir þjóðina og traustur leiðtogi til næstu fjögurra ára, til að klára stríðið gegn hryðjuverkum. Umfram allt mun baráttan snúast um traust: hvorum kjósendur treysti betur fyrir forystuhlutverki þjóðarinnar. Hvorum þeirra sé betur treystandi til að vinna farsællega og með traustvekjandi hætti að heill þjóðarinnar. Allar skoðanakannanir vestanhafs sýna að það stefnir í jafnar kosningar. Öruggt má telja að átökin milli Kerry og Bush verði ein af hatrömmustu kosningabaráttum seinni tíma.

SUSÁ fundi stjórnar Sambands ungra sjálfstæðismanna í gærkvöldi voru ýmis mál rædd, var þar fjallað ítarlega um málefnaþing SUS sem haldið verður eftir viku. Samþykktum við í stjórninni ennfremur eftirfarandi ályktun: "Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna fagnar framtaki viðskiptabankanna að bjóða hagstæð húsnæðislán og þeirri samkeppni sem nú hefur myndast á þessum markaði. Vegna aðkomu einkafyrirtækja bjóðast Íslendingum nú hærri lán til íbúðarkaupa á hagstæðari kjörum en áður hefur þekkst. Samband ungra sjálfstæðismanna ítrekar jafnframt þá skoðun sína að ríkið skuli draga sig úr samkeppni við fjármálafyrirtæki á þessu sviði og láti einkafyrirtækjum eftir að reka lánaþjónustu við íbúðakaupendur. Ekkert réttlætir lengur það að ríkið standi í slíkri lánastarfsemi, en heimilin í landinu skulda ríkinu, í gegnum Íbúðalánasjóð, nú þegar meira en 400 milljarða króna. SUS hvetur stjórnvöld til að láta af hugmyndum um hækkandi húsnæðislán Íbúðalánasjóðs og leggur þess í stað til að Íbúðalánasjóður verði lagður niður. Þá hvetur SUS fjármálaráðherra og ríkisstjórn að endurskoða tilveru hins óréttláta stimpilgjalds. Tekjur ríkisins af þessum skatti eru þrír og hálfur milljarður árlega sem nærri eingöngu er innheimtur af einstaklingum, meðalstórum og smærri fyrirtækjum og er ósanngjörn byrði á þessa aðila." Eins og fyrr segir er vika í málefnaþingið, sem haldið verður að þessu sinni á Selfossi. Verður gaman að hitta samherja sína þar og ræða málin og eiga góða stund saman.

Akureyrarvaka 2004Akureyrarvaka
Um helgina mun menningarlífið á Akureyri blómstra. Menningarhátíð bæjarins, Akureyrarvaka, verður þá haldin í Lystigarðinum. Hún hefst formlega í kvöld með ávarpi Þóru Ákadóttur forseta bæjarstjórnar. Veitt verða verðlaun fyrir fallegustu garðana, Lystigarðurinn verður upplýstur og fjölbreytt dagskrá víðsvegar um garðinn. Atriði verða frá Leikfélagi Akureyrar, Andy Brooks mun flytja kántrítónlist í anda Johnny Cash og Gustavo Peréz frá Kanaríeyjum verður með listrænan gjörning með þátttöku áhorfenda, ennfremur munu dúettinn Matriksur, Inga Eydal og Arna Vals syngja nokkur lög og talandi Lóa Hildigunnar leynist meðal blóma. Í fyrra var sérstaklega notaleg og rómantísk stemmning í Lystigarðinum á Akureyrarvöku í sumarrökkrinu. Á morgun verður svo menningardagskrá um bæinn allan og skemmtileg stemmning í miðbænum. Meðal þess sem verður þá um að vera er t.d. fjallahjólamót í Kjarnaskógi, sýning í Minjasafninu á munum ljósmyndum úr leiðöngrum að flaki flugvélarinnar Fairey Battle, heimildamyndahátíð í Hafnarstræti 92, 4. bindi Sögu Akureyrar verður kynnt, gilið málað í öllum regnbogans litum, söguganga á vegum Minjasafnsins, opið hús í Amtsbókasafninu og leikhúsinu, Cherie Blair opnar sýningu Boyle fjölskyldunnar í Listasafninu, mynd um sögu Akureyrar sýnd í Borgarbíói, heilgrillað naut á Ráðhústorginu og margt fleira. Akureyrarvakan er frábært framtak sem komið er til að vera, óður til menningar í bænum.

Dagurinn í dag
1729 Gaus í Leirhnúksgígum, hraun rann í gegnum kirkjuna í Reykjahlíð og síðan út í Mývatn
1813 Napóleon keisari, sigraði Austurríkismenn, Rússa og Prússa í baráttunni við Dresden
1946 Fyrsti bíllinn komst yfir Siglufjarðarskarð, með því var einangrun Siglufjarðar rofin - fram að því hafði ekki verið hægt að fara þangað landleiðina. Strákagöng leysti Skarðsveginn af hólmi 1968
1967 Brian Epstein umboðsmaður Bítlanna, finnst látinn á heimili sínu í London, 32 ára gamall
1979 Mountbatten lávarður, myrtur í fríi á Írlandi, í sprengjutilræði Írska lýðveldishersins

Snjallyrði dagsins
I may disagree with what you have to say, but I shall defend to the death your right to say it.
Voltaire