Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 september 2004

Halldór ÁsgrímssonHeitast í umræðunni
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, fór hörðum orðum um fiskveiðistefnu Evrópusambandsins í ræðu sem hann hélt á ráðstefnu Íslandsbanka um fjárfestingar í sjávarútvegi hér á Akureyri í gær. Hann sagði í ræðunni að öðruvísi sé hugsað um sjávarútveginn en auðlindir annarra þjóða innan Evrópusambandsins. Að hans mati væri fiskveiðistefna Evrópusambandsins í kreppu og að hún byggði á úreltum sjónarmiðum. Kom fram í máli Halldórs að Evrópusambandið aðhylltist nýlendustefnu gagnvart fiskveiðiþjóðum Norður-Evrópu. Hann teldi að afleiðingar stefnunnar væru offjárfestingar, of stór og dýr floti og mikið brottkast á afla. Allt myndi þetta leiða til þess að ómögulegt væri fyrir Íslendinga að sækja um aðild að sambandinu við núverandi aðstæður. Hugsanlega mætti semja um annað, en enginn vafi væri á að Evrópusambandið yrði að stíga einhver skref í því og sýna fram á að þeir vilji hafa þetta öðruvísi ef það á ætti að ná endanlegri pólitískri niðurstöðu. Kom fram í ræðunni að utanríkisráðherra telji engin merki fyrirsjáanleg í þá átt að Evrópusambandið hafi áhuga á að taka tillit til óska Íslendinga. Þessi ræða markar viss þáttaskil, enda gengur Halldór þar mun lengra í afstöðu til ESB en áður og í fyrsta skipti í lengri tíma tjáir raunverulega andstöðu gegn aðild og tjáir með markvissum hætti þann raunveruleika sem blasir við. Viðstaddir á fundinum, sem margir hverjir stjórna stórum sjávarútvegsfyrirtækjum, voru ánægðir með ræðuna og sögðu ráðherrann tala hreint út og tjá raunveruleikann og sjaldgæft væri að stjórnmálamaður talaði með svo skýrum hætti um sjávarútvegsstefnu ESB. Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaformaður flokksins, og Jóhann Ársælsson þingmaður flokksins, hafa öll tjáð undrun sína á ræðu ráðherrans og segja afstöðu hans helgast af væntanlegum breytingum innan ríkisstjórnarinnar í næstu viku. Í viðtali við RÚV hefur Ingibjörg sagt ekki teljast til tíðinda að stefna Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum væri gölluð. Það þurfi að leita leiða framhjá henni. Það eru tíðindi að forystumenn aðildar viðurkenni að sjávarútvegsstefnan sé í reynd gölluð og fagnaðarefni ef tekið er loks undir það með skýrum hætti. Fagna ber ræðu utanríkisráðherra og tjáningu hans á því raunsæi sem blasir við.

Dorrit Moussaieff, Viktoría, Karl Gústaf, Laila Freivalds, Kristján Þór Júlíusson og SilvíaKarl Gústaf XVI Svíakonungur, kom til Akureyrar í morgun ásamt eiginkonu sinni, Silvíu drottningu, og dóttur sinni, Viktoríu krónprinsessu. Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri og eiginkona hans, Guðbjörg Ringsted, tóku á móti gestunum við komuna á flugvöllinn ásamt Þóru Ákadóttur forseta bæjarstjórnar. Kynntu þau sér málefni bæjarins og fóru í rútuferð um bæinn og fengu fræðslu um sögu hans. Að því loknu héldu þau í Háskólann hér á Akureyri, þar sem Þorsteinn Gunnarsson rektor, kynnti þeim húsnæði skólans og veitti þeim leiðsögn um málefni hans. Að því loknu var haldið í Oddfellow húsið þar sem Laila Freivalds utanríkisráðherra Svíþjóðar, flutti erindi á minningarfyrirlestri Vilhjálms Stefánssonar sem haldinn var í samstarfi við Háskólann. Ennfremur flutti Sverker Sörlin erindi. Í hádeginu bauð bæjarstjórn gestum til hádegisverðar á veitingahúsinu Friðriki V. Var að því loknu haldið til Mývatns og kynnt sér fegurð þeirrar merku náttúruperlu. Gestirnir héldu aftur til Reykjavíkur síðdegis. Mjög athyglisvert var að hlýða á utanríkisráðherrann og fyrirlestur hennar. Var henni tíðrætt um mikilvægi samvinnu Svía og Íslendinga og söguarf okkar. Ennfremur ræddi hún utanríkismál og tjáði þá skoðun sína að mikilvægt væri að Ísland yrði aðili að Evrópusamstarfinu með aðild að ESB. Var boðskapur hennar mjög í takt við það sem hún tjáði á málþingi í Háskólanum á þriðjudag. Eins og ég hef oft bent á tel ég aðild útilokaða og fagna mjög að íslenskir ráðamenn eru andvígir aðild og tjá þá afstöðu með krafti þessa dagana, á sama tíma og hinn sænski utanríkisráðherra reynir að fegra mjög ástand ESB fyrir okkur. Er ég ósammála henni en hafði gaman af að kynnast skoðunum hennar og áherslum, engu að síður.

Kynningarmynd af blokkinniKynningarfundur um skipulag á lóð Baldurshaga
Seinustu mánuði hefur eitt helsta umræðuefni í bæjarmálum hér á Akureyri verið umræðan um tillögur að háhýsi á lóð Baldurshaga við Þórunnarstræti. Á fundi bæjarstjórnar, 10. ágúst sl. samþykkti meirihluti bæjarfulltrúa að heimila verktaka að láta gera deiluskipulag á lóðinni en verktakinn hefur í hyggju að reisa þar 12 hæða hús. Í kvöld kl. 20:00 mun verða haldinn í Ketilhúsinu, almennur kynningarfundur um skipulag á lóð Baldurshaga. Umhverfisdeild bæjarins boðar til fundarins samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar til að kynna málið og heyra afstöðu almennings til þess. Talsverðar umræður hafa spunnist meðal bæjarbúa vegna þessa máls og því verður eflaust um að ræða fjölmennan, gagnlegan og góðan fund. Þekki ég málið vel enda bý ég rétt fyrir ofan umrædda lóð og hef kynnt mér vel flesta þætti málsins. Vissulega er við því að búast að deilur verði um svo stórhuga framkvæmd á viðkomandi staðsetningu. Hef ég ekki viljað loka á þetta mál og viljað vinna það frekar og tel mikilvægt að leita álits almennings á stöðu mála, heyra mat þess. Verður því fundurinn í kvöld mikilvægur vettvangur fyrir tjáningu um afstöðu bæjarbúa til framkvæmdarinnar og hvað gera eigi í málinu þegar nákvæmar teikningar og deiliskipulag svæðisins liggur fyrir.

Dagurinn í dag
1208 Víðinesbardagi háður í Hjaltadal í Skagafirði - í honum féllu 12 manns, t.d. Kolbeinn ungi
1877 Þingeyrarkirkja vígð - var talin eitt veglegasta hús sem reist var á Íslandi á sínum tíma
1926 Sjónvarpsstöðin NBC, The National Broadcasting Company, stofnuð í New York
1976 Mao Zedong formaður, leiðtogi kommúnistastjórnarinnar í Kína, deyr í Peking, 82 ára að aldri
2001 Ahmed Shah Massoud leiðtogi Norðurbandalagsins, myrtur í Afganistan, 48 ára að aldri

Snjallyrði dagsins
If you pick up a starving dog and make him prosperous, he will not bite you. This is the principal difference between a dog and a man.
Mark Twain rithöfundur (1835-1910)