Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 október 2004

George W. Bush og Laura Welch Bush á kosningafundi í FlórídaBush vs. Kerry > 2 dagar
Skoðanakannanir í Bandaríkjunum sýna misvísandi mynd af stöðu mála, nú þegar aðeins tveir sólarhringar eru í kjördag í hinum æsispennandi forsetakosningum í landinu. Sumar kannanir sýna afgerandi forskot George W. Bush forseta Bandaríkjanna, en aðrar gefa í skyn að jafnræði sé með honum og John Kerry öldungadeildarþingmanni. Ljóst er þó að staða forsetans, í kapphlaupi hans og Kerry um völdin í landinu, þykir hafa styrkst mjög seinustu dagana. Ef marka má allar þær kannanir sem gerðar hafa verið um helgina, hefur forskot forsetans aukist eftir að arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazeera birti myndband með yfirlýsingu hryðjuverkamannsins Osama Bin Laden. Er það til marks um það vonandi að kjósendur láta ekki glæpamenn taka afstöðu fyrir sig með hótunum sínum. Einkar athyglisvert er að kynna sér nýjar skoðanakannanir um fylgi í fylkjunum. Það eitt skiptir máli nú hverjir vinna sigur í baráttufylkjunum og ná að hala inn kjörmönnum með sigri þar. Flest bendir til að úrslitin muni endanlega ráðast í kosningunum á þriðjudag í þeim fylkjum sem forsetaefnin beina mest sjónum sínum að og hafa gert undanfarnar vikur: Ohio, Flórída og Pennsylvaníu. Athyglisvert er að í nýjustu fylkiskönnunum kemur fram að tvö rótgróin demókratavígi, Hawaii og New Jersey, eru mjög óvænt að verða að baráttufylkjum í þessum kosningaslag. Bush forseti, er orðinn jafn Kerry í New Jersey og leiðir á Hawaii. Demókratar hafa jafnan haft yfirburðastöðu á þessum slóðum og þykja þetta mikil tíðindi. Al Gore vann yfirburðasigur í þessum fylkjum árið 2000. Þykir staða mála þarna nú til marks um það að Kerry hefur brothætt fylgi og er jafnvel veikur á sumum slóðum þar sem demókratar hafa ráðið ríkjum. Annað mikilvægt atriði í huga framboða forsetaefnanna að allir mæti á kjörstað og noti atkvæðisrétt sinn. Báðir frambjóðendurnir fluttu útvarpsávörp og hvöttu kjósendur til að taka afstöðu. Eru ræðurnar eitt af seinustu tækifærum þeirra til að ná beint til allra landsmanna með boðskap sinn. Það er eðlilegt að báðir frambjóðendur leggi áherslu á kjörsókn enda getur hún og hlutfall kjósenda í fylkjum haft gríðarleg áhrif á það hver verður forseti næstu fjögur árin.

John Kerry á kosningafundi í OhioForsetaframbjóðendur voru á ferð um miðvesturríkin í gær. Fókus þeirra verður á fylkin þar nú á seinustu metrum kosningabaráttunnar. Þar eru baráttufylkin, þar eru þeir sem ráða úrslitum um hver fær lyklavöld að Hvíta húsinu næstu fjögur árin. Bush forseti, hélt stærsta kosningafund gærdagsins í Orlando í Flórída í gærkvöldi. Þar ávarpaði hann stuðningsmenn sína og fór yfir áherslur sínar. Jafnframt ávarpaði Jeb Bush ríkisstjóri í Flórída, bróðir forsetans, viðstadda og hvatti þá til að fylkja sér um forsetann og baráttumál hans. Sagði forsetinn að allir vissu hvar áherslur hans væru og afstaða til helstu mála, en að keppinautur sinn væri jafnan á röngum stað á röngum tíma og skipti oft um áherslur í miðri á. "You don´t change directions in mid stream" sagði forsetinn og var vel fagnað. Leggur hann mikla áherslu á að hann sé stríðsforseti sem sameini þjóðina um markmið sín og hann sé kraftmikill leiðtogi. Á sama tíma í gærkvöldi var Kerry með fjöldafund í Warren í Ohio, þar sem hann hvatti fólk til að kjósa sig, hann myndi ráðast að hryðjuverkamönnum og glæpamönnum með viðeigandi hætti. Greinilegt er nú á öllu að frambjóðendur tala með þeim hætti að kjördagur er í sjónmáli, þeir nefna öryggismálin sem sérstakan punkt og nota hann til að ráðast að andstæðingnum og jafnframt minna á sjónarmið sín varðandi þau. Öryggis- og varnarmálin eru stærsta mál kosningabaráttunnar vestan hafs að þessu sinni, segja má að öll baráttan hafi snúist um þau og þó farið hafi verið yfir fleiri mál vissulega enda allar umræður og kosningafundir á þeim punkti að ræða utanríkismál og varnir landsins þeim tengd. Þau eru lykilmálið að þessu sinni, sem gæti orðið til að styrkja forsetann nú undir lokin. Stefnir allt í kraftmikinn lokapunkt í kosningabaráttunni í dag og á morgun, en kosningabaráttunni lýkur formlega annað kvöld. Í dag munu forsetaefnin sem fyrr beina sjónum sínum að lykilfylkjunum og ferðast um þau til að ná til kjósenda með boðskap sinn á lokasprettinum. Kerry verður á kosningaferðalagi um New Hampshire, New Jersey, Pennsylvaníu og Flórída. Forsetahjónin munu dvelja megnið af deginum í Flórída. Seinnipartinn halda þau til Ohio og hafa stóran fund þar. Allt er lagt í sölurnar á lokametrum baráttunnar.

SjálfstæðisflokkurinnSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um kjördæmisþing okkar sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi sem haldið var um helgina í Skjólbrekku í Mývatnssveit. Voru þar saman komnir fulltrúar sjálfstæðisfélaga allt frá Siglufirði austur á Djúpavog. Á kjördæmisþinginu fluttu þingmenn Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, þau Halldór Blöndal forseti Alþingis, og Arnbjörg Sveinsdóttir varaformaður þingflokksins, yfirgripsmiklar og ítarlegar ræður. Gunnar Ragnars var endurkjörinn til formennsku í kjördæmisráðinu. Auk hans munu sitja í stjórn næsta starfsárið þau Jónas Þór Jóhannsson, Guðmundur Skarphéðinsson, Jóhanna H. Ragnarsdóttir, Sigurjón Benediktsson, Maríanna Jóhannsdóttir og Árni Helgason. Var ég kjörinn til setu í varastjórn kjördæmisráðsins og mun því vera virkur í flokksstarfinu á vettvangi kjördæmisins á næstunni. Helgin á Mývatni var mjög gagnleg og góð, alltaf er gaman að hitta pólitíska samherja sína úr kjördæminu, sérstaklega Austfirðingana sem maður hittir of sjaldan til að ræða málin við. Á laugardagskvöldinu borðuðum við saman á Hótel Seli og áttum glaða og góða stund undir öruggri veislustjórn Björns Jónassonar frá Siglufirði. Heiðursgestir okkar voru þau Friðrik Sophusson forstjóri og fyrrum varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og eiginkona hans, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir dósent. Það er alltaf gaman að hittast og styrkja böndin og efna til kynna við nýtt fólk í flokksstarfinu. Á þinginu var góð og gagnleg umræða um orkumál og stóriðju hér á Norðurlandi, og flutti Friðrik ítarlega og góða ræðu um orkumálin á laugardeginum og voru gagnlegar pallborðsumræður um þessi mál. Forsetakosningar verða í Bandaríkjunum á þriðjudag. Fer ég yfir stöðu mála nú við lok kosningabaráttunnar og vík að yfirlýsingu hryðjuverkamannsins Osama bin Laden sem birtist heimsbyggðinni undir lok vikunnar til að minna á sig fyrir lok kosningabaráttunnar og hatursleg viðhorf sín til Bandaríkjamanna. Að lokum fjalla ég um málefni Þórólfs Árnasonar borgarstjóra, en fyrir liggur í skýrslu Samkeppnisstofnunar að hann var þátttakandi í ólöglegu samráði olíufélaganna. Þögnin vegna stöðu Þórólfs er æpandi og spurt hvað ætla pólitískir fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans að gera í málum borgarstjórans.

Dagurinn í dag
1955 Margrét prinsessa, tilkynnti formlega að hún muni ekki ganga að eiga heitmann sinn, Peter Townsend flotaforingja. Konungsfjölskyldan féllst ekki á ráðahag þeirra vegna þess að Peter var fráskilinn. Peter var alla tíð stóra ástin í lífi Margrétar og varð það henni þungt að geta ekki gifst honum nema að þurfa að fórna stöðu sinni innan fjölskyldunnar og í valdaröðinni. Hún giftist 1960 og eignaðist tvö börn síðar. Hún var alla tíð í ástarsorg vegna Peters og lauk hjónabandi hennar með skilnaði 1980. Margrét lést í febrúar 2002, en hún hafði seinustu árin átt við heilsuleysi að stríða
1984 Indira Gandhi forsætisráðherra Indlands, myrt af síkhum sem komist höfðu í lífvarðasveit hennar og skutu hana í garði fyrir utan embættisbústað hennar í Nýju Delhi. Indira var kraftmesti stjórnmálamaður Indlands í nokkra áratugi og leiddi Kongressflokkinn frá 1966 til dauðadags. Hún var forsætisráðherra landsins 1966-1977 og aftur frá 1980. Sonur hennar, Rajiv, tók við völdum í landinu nokkrum klukkutímum eftir lát móður sinnar. Óeirðir urðu um allt landið í kjölfar dauða hennar
1993 Ítalski leikstjórinn Federico Fellini lést í Róm, 73 ára að aldri - var meistari í kvikmyndagerð
1997 Breska fóstran, Louise Woodward, sakfelld fyrir að hafa valdið dauða barns sem hún passaði í Boston þegar hún var þar au-pair. Var orsök andláts barnsins sagt vera Shaken baby syndrome. Dómnum var síðar breytt í manndráp af gáleysi og Louise fékk að halda aftur heim til Englands
2003 Mahathir bin Mohamad lætur af embætti sem forsætisráðherra Malasíu eftir 22 ára valdaferil

Snjallyrði dagsins
Osama bin Laden put out a new video. The timing of this video has some people upset, three days before we vote. It looks like he's trying to influence the election. And I'll tell you, it's not going to work. Americans know Osama bin Laden does not pick our president. The Supreme Court does.
Bill Maher grínisti

30 október 2004

George W. Bush á kosningafundi í OhioBush vs. Kerry > 3 dagar
Rúmum þrem sólarhringum áður en bandarískir kjósendur ganga að kjörborðinu og ákveða hvort að George W. Bush eða John Kerry sitji á forsetastóli í Bandaríkjunum næsta kjörtímabilið, snerist kastljós bandarískra fjölmiðla að hryðjuverkamanninum Osama Bin Laden sem sneri úr skjóli sínu til að minna á sig og ávarpa beint bandarísku þjóðina á lokaspretti kosningabaráttunnar. Var þetta í fyrsta skipti í rúmt ár sem bin Laden birtist opinberlega í sjónvarpsupptöku hjá sjónvarpsstöðinni. Í gærkvöldi sýndi arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazeera nokkurra mínútna myndband þar sem bin Laden kom í fyrsta skipti með afdráttarlausu yfirlýsingu þess efnis að hann hefði staðið að hryðjuverkunum í Bandaríkjunum þann 11. september 2001. Sagðist hann reyndar geta útlistað bestu leiðina fyrir Bandaríkin til að "forðast annað Manhattan". Orðrétt sagði bin Laden: "Við ákváðum að eyðileggja háhýsi í Bandaríkjunum" og leit samstundis yfirvegaður og glottandi í linsu upptökuvélarinnar. Sagði hann að ríkisstjórn Bush væri ekki hótinu skárri en spilltar ríkisstjórnir í Arabalöndum. Bin Laden sagði að árásin á Bandaríkin hefði verið nauðsynleg til að endurheimta frelsi og kenna bandaríkjamönnum lexíu, hann hefði unnið að henni allt frá 1982. Sagði hann í ávarpinu að besta leiðin til að halda stöðunni góðri sé að reita ekki Araba til reiði. Má túlka skilaboð hryðjuverkaleiðtogans hiklaust sem óbeina stuðningsyfirlýsingu við Kerry og árás að Bush forseta. Frambjóðendurnir brugðust við yfirlýsingu hryðjuverkamannsins með ávörpum á ferðalögum sínum um Bandaríkin. Forsetinn var ákveðinn og yfirvegaður þegar hann flutti ávarp sitt á Toledo-flugvelli í Swanton í Ohio. Hann sagði orðrétt: "Let me make this very clear to the terrorists! Americans will not be intimidated or influenced by an enemy of our country. I'm sure Senator Kerry agrees with this." Sagðist hann treysta því að bandarískir kjósendur létu hótanir hryðjuverkamanns ekki hafa áhrif á dómgreind sína. Kerry flutti ávarp skömmu síðar á flugvellinum í West Palm Beach á Flórída og var ákveðinn í garð Bin Laden og sagði: "Let me just make it crystal clear, as Americans we are absolutely united in our determination to hunt down and destroy Osama bin Laden and the terrorists. They are barbarians. I will stop at absolutely nothing to hunt down, capture and kill the terrorists wherever they are and whatever it takes". Er ástæða til að taka undir orð beggja forsetaefnanna, vonandi er að kjósendur láti ekki hótanir glæpamanns hafa áhrif á sig, þegar tekið er afstöðu til frambjóðendanna.

John Kerry á kosningafundi í FlórídaFrambjóðendurnir voru báðir eins og fyrr segir staddir á flugvöllum þegar þeir tjáðu sig um myndbandið með bin Laden. Þeir voru í gær á fleygiferð um lykilfylki kosningabaráttunnar og notuðu stund milli stríða áður en haldið var í flug milli fylkjanna til að tjá sig í beinum útsendingum fréttastöðvanna um málið, sem varð óvænt í gær helsta fréttaskot dagsins í stað kosningafunda forsetaefnanna með stjörnum prýddum gestum og stuðningsmönnum í fylkjunum. Bush forseti, var með stærsta kosningafund gærdagsins í borginni Columbus í lykilfylkinu Ohio, og var Arnold Schwarzenegger ríkisstjóri í Kaliforníu, þar sérstakur gestur forsetahjónanna. Flutti ríkisstjórinn þar gott ávarp til stuðnings forsetanum og verkum hans og hvatti íbúa fylkisins og landsmenn alla til að fylkja sér um forsetann í kosningunum og standa vörð um verk stjórnar hans. Var ríkisstjóranum og forsetahjónunum ákaft fagnað þegar þau stigu á sviðið. Á sama tíma var Kerry með fjöldafund í Miami í Flórída ásamt Bill Clinton fyrrum forseta Bandaríkjanna. Var mikið um húrrahróp og gleði á fundinum er Kerry-hjónin og Clinton mættu á staðinn. Rokkgoðið Bruce Springsteen sem fylgt hefur Kerry seinustu daga á kosningaferðalagi hans, söng í Miami og hefur nú komið fram á alls fjórum stórfundum Kerrys. Umfangsmikill lokasprettur er framundan á næstu dögum hjá forsetaefnunum í kosningaferðalögum sínum um lykilfylkin nú þegar kosningabaráttunni er að ljúka og margir sem leggja lið. Til dæmis eru Caroline Kennedy Schlossberg og föðurbróðir hennar, Edward Kennedy öldungadeildarþingmaður, á ferð um Pennsylvaníu og New Jersey til styrktar Kerry og Al Gore og Alexandra, dóttir frambjóðandans, eru á Hawaii til að efla stöðu hans þar en Kerry hefur misst forystuna í könnunum í þessu gamalgróna vígi demókrata. Clinton-hjónin verða næstu þrjá daga á ferð um Nevada, Nýju-Mexíkó, fyrrum heimafylki sitt Arkansas, þar sem forsetinn fyrrverandi var ríkisstjóri til fjölda ára, og enda í New York á mánudag. Fyrir Bush forseta, eru foreldrar hans á ferð um Nýju-Mexíkó og Nevada, ennfremur er Rudolph Giuliani á ferðalagi um Pennsylvaníu og New Jersey. Varaforsetaefnin eru svo á fleygiferð um landið í baráttunni, Cheney hefur fókuserað á suðurríkin seinustu daga en Edwards á norðurríkin. Stefnir í gríðarlega spennandi lokametra í kosningabaráttunni. Í dag fókusera forsetaefnin á miðríkin. Kerry-hjónin verða á ferðalagi um Wisconsin, Iowa og Ohio. Forsetahjónin verða á faraldsfæti í Michigan, Wisconsin, Minnesota og halda í kvöld til Flórída. Samkvæmt nýjustu könnunum heldur forsetinn enn 2-4% forskoti á Kerry. Spennan magnast!

SjálfstæðisflokkurinnKjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi
Aðalfundur kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins verður haldinn að Skjólbrekku við Mývatn í dag og á morgun. Fundurinn hefst formlega kl. 13:30 með því að Gunnar Ragnars formaður kjördæmisráðsins, flytur skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár. Jafnframt verða reikningar lagðir fram og skýrðir. Að því loknu verða umræður um skýrsluna og reikninga kjördæmisráðs. Kl. 14:15 mun Halldór Blöndal forseti Alþingis og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, ávarpa þingfulltrúa. Að ræðu hans lokinni mun Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður og varaformaður þingflokksins, flytja ávarp. Að lokinni ræðu þingmanna kjördæmisins mun sérstakur gestur fundarins, Friðrik Sophusson forstjóri Landsvirkjunar, ávarpa kjördæmisráðið og ræða orkumál og orkunýtingu. Að loknu stuttu kaffihléi mun Bjarni Jónasson framkvæmdastjóri og varabæjarfulltrúi á Akureyri, stjórna pallborðsumræðum. Þar sitja fyrir svörum auk Friðriks og Arnbjargar, þau Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Friðfinnur Hermannsson bæjarfulltrúi á Húsavík, og Soffía Lárusdóttir forseti bæjarstjórnar á Héraði. Um fimmleytið verður fundi svo frestað. Þá munu þingfulltrúar halda í rútu að hveraböðunum í Bjarnarflagi. Um áttaleytið hefst svo kvöldverður fyrir fulltrúa í kjördæmisráði. Verður, ef ég þekki sjálfstæðismenn í kjördæminu rétt, mikil gleði þar og góð skemmtun. Fundahald heldur svo áfram að morgni sunnudags. Þar verða reikningar kjördæmisráðsins bornir upp til samþykktar. Að því loknu kynnir formaður uppstillingarnefndar tillögur nefndarinnar um stjórn og aðrar trúnaðarstöður, sem kjósa skal um. Fer því næst fram kosning í stjórn ráðsins, kjörnefndarmanna, fulltrúa í flokksráð, svo fátt eitt sé nefnt. Er gert ráð fyrir fundarlokum um hádegi á sunnudeginum. Ég mun sitja þingið, enda einn af formönnum aðildarfélaga í stærsta sveitarfélagi kjördæmisins. Verður ánægjulegt að fara í Mývatnssveit, hitta félaga sína í flokknum og skemmta sér vel saman þar.

Dagurinn í dag
1796 Dómkirkjan í Reykjavík var tekin formlega í notkun - er höfuðkirkja íslensku þjóðkirkjunnar
1934 Fyrri hluti skáldsögunnar Sjálfstætt fólk eftir Halldór Kiljan Laxness, kom út. Síðari hlutinn kom út árið eftir. Sjálfstætt fólk er meistaralega vel rituð bók - var valin bók 20. aldarinnar árið 1999
1973 Richard Nixon forseti Bandaríkjanna, rekur Elliot Richardson dómsmálaráðherra, og William Ruckelshaus aðstoðardómsmálaráðherra, úr embættum sínum því þeir höfðu neitað að reka Archibald Cox sérstakan saksóknara í Watergate-málinu, en hann hafði gengið nærri forsetanum með því að krefja hann um upptökur af leynifundum hans með helstu ráðgjöfum sínum. Nixon skipaði Robert Bork sem dómsmálaráðherra, og það var hann sem að lokum rak Cox. Framgangur rannsóknarinnar á hneykslismálinu var þó ekki stöðvuð og síðar komu í dómsmálum loks fram upptökurnar sem sönnuðu að forsetinn hafði fulla vitneskju, allt frá júní 1972 um innbrotið í Watergate bygginguna og tók þátt í yfirhylmingu málsins. Leiddi málið að lokum til afsagnar Nixons
1974 Muhammad Ali endurheimtir heimsmeistaratitilinn í boxi með því að veita George Foreman þáverandi heimsmeistara, þungt rothögg í heimsfrægum boxbardaga þeirra í Kinshasa í Zaire
1991 George H. W. Bush forseti Bandaríkjanna, setur friðarráðstefnu ríkjanna í M-Austurlöndum í Madrid með ræðu þar sem hann hvatti Araba og Ísraeli til að horfa til framtíðar en ekki fortíðar þegar þeir settust að samningaborðinu. Um var að ræða sögulega ráðstefnu þar sem margir erkifjendur í stjórnmálasögu svæðisins hittust í fyrsta skipti og ræddu saman málefnin frá víðu sjónarhorni og fóru yfir stöðuna. Leiddu þær til friðarviðræðnanna í Osló milli deiluaðila 1993

Snjallyrði dagsins
On the tape, bin Laden says that neither Kerry nor Bush can keep us safe. Boy, just what we need, another undecided voter.
Bill Maher grínisti

29 október 2004

George W. Bush á kosningafundi í PennsylvaníuBush vs. Kerry > 4 dagar
Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum í Bandaríkjunum hefur George W. Bush forseti Bandaríkjanna, náð á ný yfirhöndinni í jöfnum kosningaslag sínum og John Kerry öldungadeildarþingmanns, um bandaríska forsetaembættið, nú þegar fjórir dagar eru til forsetakosninga. Skv. könnun Gallups sem birt var í gær hefur Bush forseti, fimm prósentustiga forskot á Kerry á landsvísu meðal líklegra kjósenda. Hann hefur skv. henni styrkt stöðu sína í Flórída, Pennsylvaníu og Iowa, en staðan í Ohio er það jöfn að það er ómögulegt skv. könnuninni að sjá hvor hefur yfirhöndina þar. Fleiri kannanir staðfesta forskot forsetans en það er mismikið, allt frá 1% hjá Washington Post til 5% hjá Gallup og CBS. Orrahríðin milli forsetaefnanna heldur áfram af sama krafti og fyrr á lokasprettinum. Bush og Kerry hafa skotið óhikað að hvor öðrum vegna málefna Íraks og varna Bandaríkjanna og forsetinn svaraði Kerry af óvenju mikilli hörku á kosningafundum í Pennsylvaníu og Ohio. Lokasprettur kosningabaráttunnar líkist æ meir leðjuslag eftir því sem styttist í að kjördagur rennur upp. Frambjóðendur eru að mestu hættir að ræða kosningamálin og fjölmiðlar beina kastljósinu mun frekar að harkalegum orðaskiptum þeirra í stað þess að fjalla um málefnin og færa kosningabaráttuna á málefnalegra plan. Frambjóðendurnir kom fram með vel gerða frasa úr smiðju kosningaspekúlanta sinna og keppast um að ná sem bestu 15 sekúndna sviðsljósi fjölmiðla með ræðum á kosningafundum. Málefnaleg umræða hefur vart sést frá kappræðunum þrem og hafa frambjóðendurnir endurtekið aftur og aftur meginefni í málflutningi sínum þar í mismunandi útgáfum þó vissulega frá degi til dags, enda halda þeir ekki athyglinni nema koma með ný sjónarmið í frasana. Enn er rifist um sprengjuefnin í Írak og tengd efni og öllu beitt til að finna fleti á því. Gott dæmi er að forsetinn kallaði Kerry veikgeðja og óákveðinn og því ófæran um að sinna þjóðarskútunni, Kerry kallaði Dick Cheney varaforseta, þvælumálaráðherra landsins, í ræðu sinni í Ohio. Varaforsetinn svaraði um hæl með því að segja að Kerry væri ekki þekktur fyrir að hengja sig í smáatriði eins og staðreyndir. Það er því ekki hægt að segja annað en að kosningaslagurinn sé að verða ansi drullugur og báðir frambjóðendur komnir á kaf í leðjuslag sem ekki er embættinu sæmandi. Stefnir reyndar allt í að kosningabaráttan verði sú dýrasta í sögunni.

John Kerry á kosningafundi í OhioFrambjóðendur eru á fleygiferð um lykilfylkin nú á seinustu metrunum sem eftir eru af kosningabaráttunni og reyna að skreyta sig með stjörnufans undir lokin. Í gær kom Kerry fram á fjöldafundi í Columbus í Ohio með rokkgoðinu Bruce Springsteen sem er ötull stuðningsmaður hans. Þar tók goðið nokkur af bestu lögum ferils síns, t.d. Born in the USA og óskarsverðlaunalagið Streets of Philadelphia. Kynnti hann sig með titlinum Boss, eins og hann er þekktur fyrir, og kynnti forsetaefnið sem "The Boss to be" við mikinn fögnuð viðstaddra. Í gær sendi Caroline Kennedy Schlossberg út yfirlýsingu þar sem hún beinir því til forsetans að hann noti ekki nafn föður síns til að hreykja sér af, en forsetinn hafði í ræðu nefnt sig sem leiðtoga á erfiðum stundum og líkt sér við fyrri forseta, t.d. Kennedy. Er þetta til marks um hörkuna í slagnum, en Kennedy-fjölskyldan (og þá einkum Caroline) hefur lagt á sig mikla vinnu til stuðnings Kerry. Mikið er fjallað vestanhafs um nýjasta klúðrið í Flórída, en þar er allt á afturfótunum, eins og venjulega, segir sjálfsagt einhver. Í ljós hefur komið að þúsundir kjörseðla sem senda átti til fólks sem vildi greiða atkvæði utankjörfundar höfðu týnst í póstsendingu. Týndu kjörseðlarnir voru á leið með pósti til kjósenda í Broward sýslu, þar sem Al Gore fékk sína bestu kosningu árið 2000. Stórundarlegt mál vissulega. Svo hefur vakið athygli að Bush forseti, hefur lokað aðgang að kosningavef sínum fyrir fólki utan Bandaríkjanna. Er stórundarlegt í ljósi þeirrar tæknialdar sem við lifum á, að annar frambjóðandinn til valdamesta embættis heims loki vef sínum og þar með upplýsingaveitu um framboð sitt til embættisins fyrir fólki um allan heim vegna umræðu um of mikinn gestafjölda. Eru ekki vefsíður opnaðar til að fólk skoði þær? Stórundarlegt mál, svo ekki sé meira sagt. Baráttan er hörð nú undir lokin og stefnir allt í æsispennandi lokasprett. Í dag verða Kerry-hjónin á kosningaferðalagi vítt og breitt um Flórídafylki með Bill Clinton fyrrum forseta Bandaríkjanna, og enda daginn á kosningafundi í Wisconsin. Forsetahjónin verða á faraldsfæti í New Hampshire, New Jersey og munu þau enda daginn á fjöldafundi í Ohio ásamt Arnold Schwarzenegger ríkisstjóra í Kaliforníu. Styttist óðum í að formlegri kosningabaráttu ljúki, en á miðnætti á mánudagskvöld þarf henni að vera lokið formlega. Keppinautarnir um forsetaembættið eru því í kapphlaupi við tímann á lokasprettinum á ferð sinni um baráttufylkin. Klukkan tifar!

Yasser ArafatHeitast í umræðunni
Yasser Arafat forseti Palestínu, yfirgaf höfuðstöðvar sínar á Vesturbakkanum í Ramallah í morgun og hélt með þyrlu til Amman í Jórdaníu, ásamt eiginkonu sinni Suha, sem hafði komið til Ramallah í gær, en þau höfðu þá ekki hist í nokkur ár, en hún hefur búið í París seinustu ár. Frá Amman hélt Arafat svo áleiðis til Parísar í boði franskra stjórnvalda til að leita sér lækninga. Það var tilfinningaþrungin stund fyrir Arafat, jafnt og þjóð hans þegar forsetinn sté upp í þyrluna og horfði klökkum augum til fólksins sem hafði hópast saman til að kveðja leiðtoga sinn. Fáum blandast hugur um að ástand Arafats er alvarlegt og ekki víst hvort hann snúi aftur lífs eða liðinn. Þetta er í fyrsta skipti í rúmlega tvö og hálft ár sem Arafat, sem varð 75 ára í sumar, yfirgefur höfuðstöðvar sínar. Nauðsynlegt þótti að mati lækna að Arafat leitaði sér læknishjálpar í fjarlægu landi og farið væri með hann á spítala í vestrænni stórborg. Vonast er til að læknar í Frakklandi geti aðstoðað Arafat og komist að því hvað hrjáir hann. Samkvæmt fréttum í dag er talið nær öruggt að um blóðsjúkdóm sé að ræða, annaðhvort vægan sjúkdóm af því tagi eða hvítblæði sem í flestum tilvikum fyrir mann af þessum aldri er banvænt. Það var ekki fyrr en ísraelsk stjónvöld samþykktu að Arafat fengi að snúa aftur til síns heima, að lokinni meðferðinni sem Arafat ákvað að fara til Parísar. Staða hans er eins og öllum er ljós mjög brothætt. Í fjarveru hans mun Ahmed Qurie forsætisráðherra Palestínu og stjórn hans, hafa forsetavald. Litlar líkur eru á því að Arafat nái aftur þeirri stöðu að leiða pólitíska baráttu af þeim krafti sem áður einkenndu störf hans. Falli hann frá yrði Rouhi Fattouh forseti palestínska þingsins, forseti landsins. Enginn vafi er á því að tal og umræða um eftirmenn og pólitíska forystu er hafin, nú þegar leiðtoginn er farinn til Frakklands. Annað er óumflýjanlegt eins og staðan er orðin.

KennslaÁsmundur Stefánsson ríkissáttasemjari, tilkynnti á fundi með forystumönnum Kennarasambandsins og launanefndar sveitarfélaga í Karphúsinu, skömmu eftir miðnætti að hann hefði tekið þá ákvörðun að leggja fram miðlunartillögu í launadeilu aðilanna. Verkfalli grunnskólakennara hefur því verið frestað meðan greidd verða atkvæði um tillögu Ásmundar og hefst kennsla að nýju í grunnskólum landsins á mánudagsmorgun. Er mikið ánægjuefni að höggvið hefur verið á hnútinn, þó vissulega aðeins tímabundið sé. Verkfallið stóð í 39 daga og er eitt lengsta verkfall í sögu íslenskra skólamála, nokkrum dögum styttra reyndar en seinasta stórverkfall grunnskólakennara, árið 1995. Mun Ásmundur leggja tillöguna formlega fram á fundi með deiluaðilum í dag. Kosningu um miðlunartillöguna verður lokið mánudaginn 8. nóvember og atkvæði talin. Verði miðlunartillaga ríkissáttasemjara felld mun verkfall hefjast að nýju á miðnætti þriðjudaginn 9. nóvember nk. Nauðsynlegt var að höggva á þennan gríðarlega hnút sem kominn var á deiluna og stöðu mála, en ekkert hafði þokast í samkomulagsátt í fjölda vikna og allt orðið pikkfast og drungalegt á að líta. Er mikilvægt að sáttasemjari leggi fram tillögu byggða á sínu mati og hún fari til atkvæða. Ef hún verður felld mun verkfallið hefjast aftur, en ella er kominn samningur og starf í skólunum getur farið á fullt að nýju. Samhliða þessu er ljóst að vetrarfríi skólanna sem áttu að hefjast eftir helgina verður frestað, enda nauðsynlegt að nota tímann fram til 9. nóvember til kennslu.

Dagurinn í dag
1901 Leon Czolgosz, morðingi William McKinley forseta Bandaríkjanna, var tekinn af lífi í New York
1919 Alþýðublaðið kom út fyrsta sinni - var málgagn Alþýðuflokksins. Útgáfunni var hætt 1997
1975 36 ára valdaferli Francisco Franco á Spáni lýkur formlega - hann vék vegna mikilla veikinda sinna. Völdin fóru í hendur Juan Carlos og með því var konungsveldi aftur komið á, á Spáni. Nokkrum dögum eftir að tilkynnt var um þetta féll Franco í dauðadá og lést hann þann 20. nóvember 1975
1982 Lindy Chamberlain sakfelld í réttarhaldi í Ástralíu fyrir að hafa myrt barn sitt - hún bar við að dingó hefði numið það á brott. Fjórum árum eftir dóminn fundust nöguð föt barnsins sem staðfesti sögu móðurinnar. Eftir þessu fræga dómsmáli var gerð myndin A Cry in the Dark með Meryl Streep
2003 Iain Duncan Smith felldur af leiðtogastóli breska Íhaldsflokksins - hann beið ósigur í vantraustskosningu í þingflokknum og baðst formlega lausnar eftir það. Hann hafði setið á leiðtogastóli flokksins í rúm tvö ár og óánægja með störf hans sífellt aukist eftir því sem á leið

Snjallyrði dagsins
Hitti Ólaf Ragnar kl. 10. Hann er búinn að mála ljósritunarherbergi blátt á Sóleyjargötu og sagði mér í óspurðum tíðindum að hér eftir myndum við alltaf hittast þar, enda væri það hefð í Bretlandi að forsætisráðherra hitti alltaf drottninguna í Bláu stofunni í Buckingham höll. Ég held að hann sé að tapa sér. Hann talaði stanslaust um gildi menntunar fyrir æskuna og kennaraverkfallið. Að lokum gaf hann mér góð ráð sem hann lærði þegar hann glímdi sem fjármálaráðherra við BHMR í gamla daga. Hann er algjörlega að tapa sér.
Bráðfyndin dagbókarbrot forsætisráðherra (birt á Deiglunni)

28 október 2004

George W. Bush lyftir upp fjórum fingrum - four more years!Bush vs. Kerry > 5 dagar
Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum í Bandaríkjunum eru George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og John Kerry öldungadeildarþingmaður, í jöfnum og tvísýnum slag um valdamesta embætti heims, nú á lokaspretti kosningabaráttunnar um forsetaembætti landsins. Stefnir allt í að úrslitin muni ráðast í aðeins 6-7 fylkjum þar sem staðan er svo jöfn að ómögulegt er að spá um það hvor frambjóðandinn hljóti kjörmenn þeirra. Ekki er marktækur munur á frambjóðendunum heldur á landsvísu þegar fimm sólarhringar eru í að kjörstaðir opni. Óttast helstu spekingar í Bandaríkjunum reyndar það mest af öllu að úrslitin verði jafnvel með þeim hætti að báðir frambjóðendur hljóti 269 kjörmenn og þeir endi í pattstöðu með jafntefli. Ef til þess kæmi að báðir frambjóðendur hefðu jafnmarga kjörmenn í kjörmannasamkundunni verður það hlutskipti fulltrúadeildarinnar að kjósa forsetann og öldungadeildarinnar að velja varaforsetann. Fáir efast um að repúblikanar hafa þar forystustöðu og yrði Bush því væntanlega kjörinn forseti ef til þessa ferlis kæmi. Hinsvegar er óvíst með valdahlutföll í öldungadeildinni og því gæti allt eins farið svo að Bush myndi þurfa að sætta sig við John Edwards varaforsetaefni Kerrys, sem varaforseta landsins. Ef til þess kæmi myndi skella á stjórnarfarsleg kreppa í landinu og viðeigandi átök í réttarsölum um lögmæti kosninga í fylkjum, enda ólíklegt að þessir tveir menn hefðu áhuga á nánu samstarfi. Líklegast er að slík málaferli myndu beinast að úrslitum í Flórída og Ohio, en nokkuð öruggt er að úrslit í þessum tveim fylkjum muni ráða úrslitum að lokum. Allir vita um áhrifamátt Flórída árið 2000, þegar Bush tryggði sér sigurinn endanlega með útkomu í dómssal Hæstaréttar í Washington. Eru margir hræddir um að slíkt endurtaki sig og eru vangaveltur manna með þeim hætti að staðan í Ohio gefi tilefni til þess að svo hnífjafnt sé að lagaflækjur muni einkenna niðurstöðu mála þar eftir kjördag. Orrahríðin milli forsetaefna flokkanna stóru í bandarískum stjórnmálum jafnast á við það sem gerðist í kosningunum 2000 og 1960 þegar allt stefndi í jafnan og tvísýnan lokasprett og ekki mátti á milli svo hvor stæði með pálmann í höndunum við marklínuna. Einkennist baráttan af því nú með viðeigandi persónuárásum og skítkasti.

John KerrySamhliða forsetakosningunum á þriðjudag verður kosið um fjölda sæta í fulltrúa- og öldungadeild Bandaríkjaþings, og um ríkisstjóra í nokkrum fylkjum. Er mismikil spenna hvað varðar þingkosningahlutann. Ólíklegt er að demókrötum takist að fella meirihluta repúblikana í fulltrúadeildinni, sem verið hefur við völd frá nóvember 1994 er demókratar og Bill Clinton þáverandi forseti, biðu táknrænan ósigur, enda höfðu demókratar haft meirihluta í deildinni í nokkra áratugi. Öllu meiri líkur eru á því að demókratar nái að fella nauman meirihluta repúblikana í öldungadeildinni. Repúblikanar náðu að fella meirihluta demókrata í deildinni í þingkosningunum 2002 og ná með því völdum í báðum deildum þings. Nokkrir þingmenn sækjast eftir endurkjöri og eru örlög þeirra misjafnlega örugg. Flestir eru taldir líklegir um að hljóta endurkjör en ljóst er þó að staða Tom Daschle leiðtoga demókrata í öldungadeildinni, er veikust. Hann er langt í frá öruggur um endurkjör í S-Dakóta þar sem hann á í höggi við John Thune sem var valinn til framboðs þar af stuðningsmannasveit forsetans, til að losna við Daschle úr forystu demókrata. Ljóst er að stefnt getur í spennandi kosninganótt hvað varðar nokkrar kosningar um öldungadeildarþingsætin, einkum í S-Dakóta. Þegar svo stutt er til forsetakosninga sem raun ber vitni er hvert skref frambjóðandanna vandlega skipulagt, allt frá framkomu við ræðumennsku til allra smáaatriða, hvert sé farið og hvað er sagt á kosningafundum. Best sést þetta í vali frambjóðenda á fötum. Algengast hefur þótt á undanförnum árum að hinn týpíski frambjóðandi sé í dökkbláum jakkafötum, hvítri skyrtu og með rautt eða blátt bindi. Er löng hefð fyrir þessari samsetningu. Blátt bendir til trausts yfirbragðs en rautt gefur í skyn djörfung og áræðni. Baráttan er hörð nú undir lokin og stefnir allt í æsispennandi lokasprett. Í dag verður Kerry á ferð um Ohio, Wisconsin og endar í kvöld í Flórída á kosningafundi. Forsetinn verður á faraldsfæti á sömu slóðum í dag og í gær, hann verður á ferð um lykilfylkin Pennsylvaníu, Ohio og Michigan. Allt er lagt í sölurnar nú undir lokin til að ná til kjósendanna í baráttufylkjunum.

Yasser ArafatHeitast í umræðunni
Yasser Arafat forseti Palestínu, hefur undanfarnar vikur legið á sjúkrabeði og vangaveltur höfðu aukist eftir því sem á leið hvers eðlis veikindi hans væru. Lengi vel neituðu talsmenn hans og nánustu samverkamenn í Ramallah að hann væri alvarlega veikur og nefndu að veikindi hans væru minniháttar og hann væri á batavegi. Málið tók nýja stefnu seinnipartinn í gær þegar Arafat hné niður í höfuðstöðvum sínum á Vesturbakkanum og missti meðvitund um tíma. Eftir það tjáðu talsmenn hans og forystumenn palestínskra stjórnmála sig loks af hreinskilni og viðurkennt var að veikindi forsetans væru slíks eðlis að heilsa hans væri mjög brothætt og liti illa út. Misvísandi fregnir hafa verið að undanförnu um hvers eðlis veikindi hans eru, lengst af var sagt að hann væri aðeins með flensu og eða gallstein, sem eru vel læknanlegir kvillar og ekki lífshættulegs eðlis. Þær sögusagnir að forsetinn væri haldinn banvænum sjúkdómi: líklegast krabbameini, blóðveiru eða lífshættulegri sýkingu fengu því byr undir báða vængi þegar fréttist að heilsu hans hefði hrakað snögglega. Læknar fengu leyfi til að koma í Ramallah og skoða forsetann í gærkvöldi og fylgjast náið með ástandi hans nú. Eiginkona Arafats, Suha, kom seinnipartinn í dag til Vesturbakkans, en hún býr í Frakklandi. Koma hennar til Ramallah staðfestir það að ástand Arafats er mjög brothætt. Arafat tók þátt í morgunbænum í höfuðstöðvum sínum og mun að sögn viðstaddra vera mjög veikburða og frekar illa haldinn. Lítill vafi leikur á að ástand hans er alvarlegt, það að talsmenn hans viðurkenni að fullu veikindi hans og útskýri þau með þeim hætti sem var í gær staðfestir þann grun að hann sé langt leiddur af ólæknanlegum sjúkdómi. Arafat er 75 ára gamall, hann hefur verið pólitískur leiðtogi Palestínumanna í tæplega 40 ár. Hann varð einn af forystumönnum PLO árið 1964 og hefur setið sem formaður þess frá 1969 og leitt baráttu landsins fyrir sjálfstæði sínu. Hann var kjörinn forseti landsins fyrir áratug og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1994 ásamt Yitzhak Rabin þáv. forsætisráðherra Ísraels, sem féll fyrir morðingjahendi í nóvember 1995, og Shimon Peres þáv. utanríkisráðherra Ísraels, vegna hins sögulega Oslóar-friðarsamnings 1993, sem batt tímabundið enda á átök ríkjanna.

Arafat á sjúkrabeðiUndir kvöld var svo tilkynnt formlega að forsetinn yrði fluttur til Parísar og gengist þar undir rannsóknir vegna veikinda sinna. Jafnframt voru birtar myndir, sem sýna hann brosandi en greinilega mikið veikan. Það er engin furða að reynt var að fara með heilsu og ástand forsetans sem trúnaðarlegt leyndarmál innan veggja stjórnarbygginganna, eins lengi og mögulegt var. Stjórnmálaleg staða Palestínu og forystu landsins er með þeim hætti að fullyrða má að veikindi forsetans eða snögglegt andlát hans muni leiða til glundroða í stjórnmálalífi landsins og leiða til valdabaráttu án sjáanlegra endaloka. Líklegast er að nánustu samstarfsmenn forsetans, Ahmed Qurie, Mahmoud Abbas og Salim al-Zaanoun, standi sterkast að vígi sem mögulegir eftirmenn hans á forsetastóli. Allir eru þeir fulltrúar í stjórnmálasamtökum Arafats, Fatah, sem hefur leitt stjórn landsins undanfarin ár. Það er þó langt í frá sjálfgefið að aðrar fylkingar í palestínskri pólitík, t.d. hinar herskáu Hamas og Jihad, sætti sig við að forsetastóllinn færist sjálfkrafa til annarra aðila í samtökum Arafats. Samstaða hefur verið um að Arafat leiddi stjórn landsins og verður engin valdabarátta beint til staðar meðan hans nýtur við. Að Arafat látnum er hætt við að allt sjóði uppúr og erfitt verði að ná samstöðu um stjórn landsins og valdaröð þar. Það er því alls óvíst að næsti forseti landsins yrði úr Fatah. Greinilegt er á öllu málinu að staða Arafats sem leiðtoga landsins er sterk. Það að hann missi heilsuna snögglega eða hverfi af sjónarsviðinu vegna veikinda munu reyna verulega á þolrif stjórnmálanna í landi hans og hver framtíð þess verður. Það hefur löngum verið talinn veikleiki sterkra leiðtoga að dreifa ekki völdum og tryggja ekki stjórnmálalega forystu ef til breytinga kemur. Það má segja um Arafat, hann hefur aldrei hleypt neinum það nálægt sér að hann deili forystulegu sviðsljósi og kann það að leiða til afdrifaríkrar atburðarásar hverfi hann af sjónarsviðinu nú.

Og VodafoneÓhætt er að fullyrða að þau tíðindi hafi komið mjög á óvart í morgun að Og Vodafone hafi keypt 90% hlutabréfa í Norðurljósum og stefni að því að kaupa öll hlutabréf í fyrirtækinu á næstunni. Munu kaupin nema tæpum 4 milljörðum króna. Er um skipti milli hægri og vinstri handar Baugs að ræða, enda fyrirtækin bæði í eigu þeirrar viðskiptablokkar. Miklar skipulagsbreytingar fylgja samhliða þessu. Sigurður G. Guðjónsson sem verið hefur forstjóri Norðurljósa, allt frá uppgjörinu mikla milli Jóns Ólafssonar og Hreggviðs Jónssonar árið 2002, lætur nú af störfum og víkur á braut. Honum var ekki tryggður áframhaldandi sess hjá fyrirtækinu, sem hlýtur eflaust að verða mikið áfall fyrir þá sem stóðu næst honum í forsetabústaðnum og fleiri stöðum, t.d. í stjórnarandstöðunni í tengslum við fjölmiðlamálið fyrr á árinu og vörðu stöðu hans og fyrirtækisins í gegnum það. Samfylkingin hefur jú virkað eins og stjórnmálaarmur Norðurljósa að undanförnu. Gunnar Smári Egilsson stjórnarmaður í Norðurljósum og fráfarandi ritstjóri Fréttablaðsins, fær stöðuhækkun svo um munar og verður yfirmaður Norðurljósa í stað Sigurðar. Páll Magnússon aðalfréttaþulur Stöðvar 2 og yfirmaður dagskrársviðs þess, verður sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, samhliða þessu. Auk Sigurðar víkja Marínó Guðmundsson fjármálastjóri, og Karl Garðarsson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og fyrrum fréttastjóri Stöðvar 2, á braut. Kári Jónasson tekur samhliða þessu við ritstjórastöðu Gunnars Smára hjá Fréttablaðinu á mánudag. Eru þessi kaup mjög athyglisverð í ljósi ummæla Skarphéðins Bergs Steinarssonar stjórnarformanns Norðurljósa og ennfremur Og Vodafone, um kaup Símans í Skjá einum, og undrun hans á því að símafyrirtæki keypti fjölmiðil. Hætt er við því að hann og hirðin í kringum sé að éta hattinn sinn með þessum kaupum og með því að henda fjármálastjóra forsetaframboðs sitjandi forseta Íslands út á guð og gaddinn. Spurt er nú einfaldrar spurningar: mun Samkeppnisstofnun heimila markaðsráðandi aðila á matvörumarkaði, sem á ráðandi eignarhald í fyrirtæki sem á stærsta dagblað landsins, stærstu sjónvarpsblokk landsins, stærstu útvarpsstöð landsins ásamt fleiru að eiga þetta allt saman?

Dagurinn í dag
1780 Reynistaðarbræður lögðu af stað úr Árnessýslu norður Kjöl við fimmta mann, með 180 kindur og 16 hesta - þeir fórust í aftakaveðri í Kjalhrauni. Almennar sögur segja að andi þeirra sé þar enn
1848 Dómkirkjan í Reykjavík var endurvígð eftir endurbætur - höfuðkirkja íslensku þjóðkirkjunnar
1886 Grover Cleveland forseti Bandaríkjanna, vígir frelsisstyttuna í New York - var gjöf Frakka
1962 Kúbudeilunni lýkur - John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, tilkynnir að hættuástand sé liðið hjá og að Sovétmenn hafi látið undan og hörfað frá Kúbu. Hættuástand var í málinu í 13 daga
1987 Spjallþátturinn Á tali hjá Hemma Gunn, var í fyrsta skipti á dagskrá Ríkissjónvarpsins - varð langvinsælasti spjallþáttur íslenskrar sjónvarpssögu og var á dagskrá Sjónvarpsins í tæpan áratug

Snjallyrði dagsins
There is no such thing as society. There are individual men and women, and there are families.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands

27 október 2004

George W. BushBush vs. Kerry > 6 dagar
Harkalegar málefna- og persónuárásir milli George W. Bush og John Kerry, keppinautanna um forsetaembættið í Bandaríkjunum, einkennir kosningabaráttuna á lokasprettinum. Þegar aðeins 6 dagar eru í að kjósendur gangi að kjörborðinu er baráttan orðin að óvægnu og harkalegu áróðursstríði sem virðist sífellt taka neikvæðari ásýnd eftir því sem styttist í að henni ljúki, þótti mörgum nóg um fyrir. Frambjóðendurnir eru á fleygiferð um lykilfylki baráttunnar, 10-12 að tölu, þar sem meginátakalínur kosningaslagsins eru og verða allt til loka. Þar sem baráttan er jafnhörð í lykilfylkjunum sem raun ber vitni grípa frambjóðendur öll tækifæri til að ráðast að andstæðingnum og skoðunum hans og grípa á lofti til að hamra á sem tæki til sóknarfæra í slagnum. Er þetta gert með enn ákveðnari hætti en nokkru sinni fyrr, og er meira að segja algengara nú en á lokasprettinum 2000 þegar Bush og Al Gore kepptu um forsetaembættið. Flestallar skoðanakannanir sýna að Bush forseti, hafi nokkur prósentustig umfram keppinaut sinn á landsvísu. Óákveðnum hefur að sama skapi fækkað umtalsvert, voru fyrir rúmri viku um 18% en eru komnir niður í einungis 4%. Fólk er greinilega að taka endanlega afstöðu til frambjóðandanna nú og mynda sér skoðun á hvor frambjóðandinn sé vænlegri til að vinna að þeim stefnumálum sem viðkomandi telur rétt að koma í framkvæmd eða stefna að á næsta kjörtímabili. Athyglisverðast er að lítil teljanleg breyting verður prósentulega við það að óákveðnir taki afstöðu og verður því enn fróðlegra að sjá framvinduna næstu daga, eftir því sem fólk sem var mitt á milli í afstöðu til forsetaefnanna ákveður hvernig kjósa skuli á þriðjudaginn. Miklar pælingar eru um hvernig lokaslagnum verði hagað. Almennt er talið að ef forsetinn auki fylgi sitt væri hugsanlegt að sumir fylgismanna hans telji með öllu ónauðsynlegt að greiða atkvæði á kjördag. Að sama skapi gæti hinsvegar forskotið kynt undir mönnum Kerrys og leitt til þess að þeir skiluðu sér frekar á kjörstað en annars, til að koma afstöðu sinni til skila ef jafnt verður á metunum, eins og kannanir sýna fram á nú. Leiðir þetta hugann að stöðu minnihlutahópa, sem gætu jafnvel ráðið úrslitum ef jafnræði verður með forsetaefnunum. Meðal þeldökkra, lítt menntaðra og lágtekjufólks nýtur Kerry meira fylgis. Þetta vita demókratar og vinna að því með krafti að fá þetta fólk til að kjósa. En það hefur ekki alltaf gengið sem best gegnum tíðina. Greinilegt er hinsvegar á öllu að frambjóðendurnir berjast af krafti allt til enda og öllu er beitt í áróðursstríðinu.

John KerryÍ harkalegum auglýsingum sem birst hafa seinustu daga ræðst Kerry að forsetanum varðandi málefni Íraks og stöðu mála eftir stríðið þar tengt nýjustu fréttum og vangaveltum. Í ræðu í Wisconsin réðst forsetinn harkalega að Kerry og sagði að hann hefði ekkert annað fram að færa nema umkvartanir. Ekkert væri nýtt í málflutningi hans, engar hugmyndir né stefnumótun um hvernig stjórna skuli landinu með öðrum hætti en gert hefði verið. Kerry var á sömu slóðum í baráttunni í ræðu sinni í Nýju Mexíkó í gær. Það eina í boðskap hans þar var að Bush væri með öllu óhæfur leiðtogi, hefði brugðist skyldu sinni og mistekist að gæta öryggis Bandaríkjanna. Svo virðist vera sem meginefni baráttunnar hafi komið fram í kappræðunum og forsetaefnin endurtaka einungis það sama nú á lokasprettinum og þar kom fram, í mismunandi útgáfum frá degi til dags. Umræða um Hæstarétt er mikil, en við blasir að sá sem nær kjöri á þriðjudag muni skipa a.m.k. 2 dómara við réttinn á komandi kjörtímabili. Mikil umfjöllun er á fréttavefum um allan heim um kosningaslaginn og þá baráttu sem á sér stað nú seinustu dagana. Athygli mína vakti vangaveltur í tveim góðum fréttaskýringum um hvernig forsetaefnin myndu haga störfum sínum á kjörtímabilinu 2005-2009 ef þeir næðu kjöri. Í fréttaskýringunni um annað kjörtímabil forsetans er almennt búist við að hann myndi sigla lygnan sjó, enda líklegt að þingmeirihluti flokksins í báðum deildum muni haldast, einnig er vikið að athyglisverðum pælingum um ráðherrakapal Bush, en almennt er talið að lykilráðherrar stjórnar hans séu á útleið. Í fréttaskýringunni um kjörtímabil Kerry, kemur einkum fram að hann myndi eiga erfitt með að koma málum í gegn vegna þess að hann hefði ekki báðar deildir þingsins á bakvið sig ef hann næði kjöri. Í gær var svo á Stöð 2 vönduð og vel gerð fréttaskýring um meginlínur í stefnu í bandarískri pólitík. Kosningabaráttan heldur áfram í dag af sama krafti og fyrr. Í dag verður Kerry á ferð um Iowa, Minnesota og Ohio. Forsetinn verður á faraldsfæti um lykilfylkin í dag. Hann fór frá Hvíta húsinu í morgun og hélt til Pennsylvaníu. Hann fer þaðan til Ohio og mun ljúka deginum ásamt forsetafrúnni á kosningaferðalagi í Michigan. Kraftmikill kosningaslagur er í lykilfylkjunum eftir því sem styttist í úrslitadaginn stóra.

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóriHeitast í umræðunni
Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, kynnti á fundi með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, í gær, og með kennurum á Norðurlandi fyrr í vikunni, tillögur að nýrri lausn í kjaradeilu grunnskólakennara og sveitarfélaganna, en verkfall grunnskólakennara hefur nú staðið í tæpa 40 daga. Markmið hugmynda Kristjáns eru að einfalda allt vinnuferli að kjarasamningum kennara og stokka upp launakerfi þeirra og vinnutíma. Hún felur í sér 300 þúsund króna meðalgrunnlaun gegn því meginatriði að vinnutími kennara yrði einfaldaður. Lítið miðar í samningaviðræðum í Karphúsinu og kom ekkert út úr samningafundinum sem forsætisráðherra beitti sér fyrir að yrði haldinn í gær. Að óbreyttu er kjaradeilan í algjörum hnút. Því er mikilvægt að fram komi nýjar tillögur og af hinu góða að bæjarstjóri leggi fram nýjar tillögur og útfærslur sem hægt sé að ræða um. Viðbrögð kennaraforystunnar eru frekar fálegar að manni finnst, ekki fjarri því að læðist að fólki endanlega sá grunur að forystumenn þeirra hafi stefnt að verkfalli frá upphafi og njóti sín í stöðunni. Er að mínu mati mjög slæmt að deiluaðilar geti ekki rætt málin og að akkúrat enginn flötur sé til staðar í málinu eftir allan þennan tíma og að þetta langa verkfall stendur enn, eftir deilur og karp um krónutölur, prósentur og fleiri þætti til fleiri vikna. Hefur verkfallið staðið nú í svipaðan tíma og seinasta verkfall grunnskólakennara, árið 1995. Stefnir það að óbreyttu í að verða eitt lengsta verkfall kennara í sögu skólamála á Íslandi. Er því brýnt að leita leiða til að leysa málið og mikilvægt að menn setjist aftur að borðinu og fari helst ekki frá því eða úr Karphúsinu fyrr en niðurstöðu er náð, farsælli fyrir alla aðila og að nemendur fari á ný til skóla og hljóti þá menntun sem þeim á að tryggja samkvæmt lögum. Tillaga bæjarstjóra er góð og mikilvæg sem grundvöllur að farsælli lausn.

Viðtöl við bæjarstjóra
Kastljósið
Ísland í dag

José Manuel Durão BarrosoJosé Manuel Durão Barroso verðandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og fyrrum forsætisráðherra Portúgals, tilkynnti í morgun að hann hefði dregið til baka tillögu sína um skipun 24 manna framkvæmdastjórnar sambandsins. Við hafði blasað að ekki var meirihluti við framkvæmdastjórnina í væntanlegri atkvæðagreiðslu um hana vegna andstöðu stórs hluta þingmanna á Evrópuþinginu við Rocco Buttiglione fulltrúa Ítala í framkvæmdastjórninni. Mun Barroso nú leita eftir samkomulagi um skipan nýrrar stjórnar og leggja hana fram til samþykktar þegar það lægi fyrir. Kjörtímabil fráfarandi framkvæmdastjórnar rennur út á mánudag. Mun hún starfa áfram sem starfandi framkvæmdastjórn þar til samkomulag hefur náðst um nýja skipan. Mun Romano Prodi fráfarandi forseti framkvæmdastjórnarinnar, því sitja áfram sem slíkur enn um sinn. Greiða átti atkvæði um tillögu Barroso og samkomulag hans við önnur ríki um fulltrúa í framkvæmdastjórnina í dag. Lá fyrir að andstaðan við Buttiglione var orðin slík að hún hefði fellt alla stjórnarheildina, en kosið er um allan pakkann í einu. Buttiglione, sem er kaþólskur og mjög strangtrúaður, hefur eindregnar skoðanir á kvenréttindum, samkynhneigðum og málefnum flóttamanna sem þykja ekki vera í takt við nútímann. Þótti hann tjá sig óvarlega um málefni kvenna og samkynhneigða eftir skipan sína og hafa eyðilagt mjög fyrir Barroso og öðrum tilnefndum í framkvæmdastjórnina. Það að hann yrði yfirmaður dómsmála hjá ESB gerði útslagið um að margir gátu ekki sætt sig við hann, vegna tjáninga hans á skoðunum um fyrrnefnd málefni.

SíminnÁlyktun stjórnar Varðar
Stjórn Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, kom saman til fundar í gær undir minni stjórn. Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum:

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, telur mikilvægt að einkavæðingarnefnd hefji sem fyrst ferlið að sölu Símans og fyrirtækið verði einkavætt. Sérstaklega er mikilvægt að flýta ferlinu í ljósi kaupa Símans á ráðandi hlut í Skjá 1. Kaup ríkisfyrirtækis á ráðandi hlut í einkafyrirtæki með þeim hætti sem hér um ræðir stríðir að mati Varðar gegn þeirri hugmyndafræði sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur starfað eftir og haft að leiðarljósi allt frá stofnun árið 1929. Vörður telur ennfremur rétt að minna á mikilvægi þess að ríkið dragi sig út úr rekstri fjölmiðla. Mikilvægt er að einkavæða Ríkisútvarpið. RÚV í þeirri mynd sem það er í, í dag er tímaskekkja. Það vinnur algjörlega gegn okkar hugsjónum að ríkisvaldið reki fjölmiðla fyrir skattpeningana okkar þegar einkaaðilar geta staðið í slíku. Það er engin þörf á því að ríkið standi í fjölmiðlarekstri í samkeppni við einkaaðila.

Umfjöllun um ályktun Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri

Dagurinn í dag
1674 Sr. Hallgrímur Pétursson prestur og sálmaskáld, lést, sextugur að aldri, úr holdsveiki. Hann var eitt af helstu trúarskáldum Íslendinga. Passíusálmar hans hafa komið út rúmlega sextíu sinnum
1923 Borgaraflokkurinn, hinn fyrri, hlaut meirihluta í þingkosningum - stuðningsmenn hans skiptust ári síðar í Íhaldsflokkinn og Frjálslynda flokkinn, sem sameinaðist svo í Sjálfstæðisflokkinn 1929
1955 Sænska akademían tilkynnti að Halldór Kiljan Laxness hlyti bókmenntaverðlaun Nóbels
1994 Ísrael og Jórdanía sömdu um frið eftir 46 ára átök - leiðtogar þjóðanna, Yitzhak Rabin forsætisráðherra Ísraels, og Hussein konungur, undirrituðu samkomulagið fyrir hönd stjórna sinna - Yitzhak Rabin féll fyrir morðingjahendi í nóvember 1995 og Hussein lést úr krabbameini 1999
2002 Verkalýðsleiðtoginn Luiz Inácio Lula da Silva kjörinn forseti Brasilíu, fyrstur vinstrimanna

Snjallyrði dagsins
The campaign is getting heated up. It's really going crazy and as a matter of fact John Kerry shook up the whole campaign today. He introduced his own lesbian daughter.
Jay Leno spjallþáttastjórnandi

26 október 2004

Bill Clinton og John Kerry - verður Kerry alltaf í skugga Clintons?Bush vs. Kerry > 7 dagar
Viku fyrir bandarísku forsetakosningarnar hafa keppinautarnir um valdamesta embætti heims, George W. Bush og John Kerry dregið fram stórskotavopnin til að ráðast að hvor öðrum á lokasprettinum. Öllu er nú tjaldað til að heilla kjósendurna í lykilfylkjum baráttunnar, sem munu að lokum ráða úrslitum um það hvor frambjóðandinn hlýtur kjör til forsetaembættisins í næstu viku. Bill Clinton fyrrum forseti Bandaríkjanna, sneri á ný í sviðsljós fjölmiðlanna í gær, á kosningafundi með Kerry í Philadelphiu í Pennsylvaníu. Það var magur og fölur Clinton sem birtist á sviðinu í miðborginni þar og heilsaði fólki og flutti síðan ræðu til stuðnings framboðs Kerrys. Greinilegt er að veikindin hafa dregið úr mætti Clintons, en ræða hans varði aðeins í nokkrar mínútur en greinilegt var að hann naut sviðsljóssins og hann brosti sínu breiðasta og hóf ræðuna með þessum orðum: "If this isn't good for my heart, I don't know what is". Þurfti hann að hvíla sig smástund eftir ræðuna áður en hann fór í mannþvöguna og heilsaði stuðningsmönnum flokksins sem þar voru komnir saman. Er með ólíkindum reyndar hversu Clinton hefur náð krafti eftir þá umfangsmiklu aðgerð sem hann þurfti að fara í, en hann er staðráðinn í að veita Kerry lið, nú þegar úrslitastundin nálgast. Í ræðu sinni talaði Clinton aðallega um arfleifð stjórnar sinnar og mikilvægi þess að standa vörð um verk sín. Það var ekki fyrr en undir lokin sem hann beindi talinu að kosningunum í næstu viku og hvatti hann almenning til að koma landinu aftur á valdaheimskortið með valdaskiptum. Demókratar binda miklar vonir við að með því að Bill Clinton verði sýnilegur á lokasprettinum og ljái framboði Kerrys stuðnings, muni það skila sér í meira fylgi og kjörsókn meðal flokksmanna í lykilfylkjunum þar sem mjótt er á mununum og baráttan er mun harðari en annarsstaðar. Augljóst var reyndar á viðtölum við fólk í mannþvögunni í Philadelphiu að flestir voru í raun að koma til að sjá forsetann fyrrverandi og ræða við hann. Demókratar virðast reyndar sameinast um hið eina mikilvæga að þeirra mati, að koma Bush frá völdum. Það er ekki aðdáun eða virðing fyrir Kerry sem frambjóðanda eða stefnumálum hans sem þjappar þeim saman, heldur eitthvað annað eins og sífellt verður augljósara. Það sést sífellt betur að Kerry er gallaður frambjóðandi en aðrir þættir en kostir hans ráða úrslitum um að demókratar slá um hann skjaldborg.

Rudolph Giuliani og George W. BushSeinnipartinn í gær var Bush forseti, á kosningafundi í Davenport í Iowa með Rudolph Giuliani fyrrum borgarstjóra í New York. Var þeim ákaft fagnað er þeir birtust á sviðinu og ávörpuðu flokksmenn. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum í fylkinu eru sífellt meiri líkur á að Bush vinni þar sigur og hljóti sjö kjörmenn þess. Bush tapaði naumlega í Iowa í forsetakosningunum 2000 fyrir Al Gore, munaði aðeins um 300.000 atkvæðum. Bush leggur mikla áherslu á að vinna þar og leggur jafnframt lykiláherslu á Pennsylvaníu, Ohio, Wisconsin, Missouri, Colorado og síðast en ekki síst Flórída. Þessi fylki telur hann mikilvægast að vinna og með sigri í þeim er annað fjögurra ára kjörtímabil tryggt. Nýjustu skoðanakannanir á landsvísu eru mjög misvísandi, en sýna flestar forskot forsetans á landsvísu. Í könnun Gallups fyrir CNN hefur forsetinn fimm prósentustiga forskot á keppinaut sinn, hefur 51% á móti 46% Kerrys. Í könnun ABC og Washington Post er John Kerry með prósentuforskot, hefur 49% gegn 48% forsetans. Reuter og Zogby mæla forsetann með 48% en Kerry með 45%. Í nýjustu könnuninni í Flórída er forsetinn kominn með marktækt forskot á keppinaut sinn, er ljóst að lokaslagurinn þar verður gríðarlega harður. Greinilegt er að sjónvarpsstöðvarnar íslensku ætla að vera með góða og vandaða umfjöllun um kosningaslaginn á lokasprettinum, eins og venjulega. Það er í eðli okkar Íslendinga að hafa mikinn áhuga á þessum kosningaslag og gott að fréttastofurnar mæta því með kraftmiklum hætti. Katrín Pálsdóttir hefur seinustu daga verið með góðar fréttaskýringar og viðtöl fyrir RÚV og er úti núna. Í gærkvöldi var Ingó Bjarni með ítarlega fréttaskýringu á Stöð 2 um kjörmannakerfið merkilega og flókna. Það veitir ekki af að fara vel yfir það fyrir þá sem ekki þekkja vel til. Ég man að í fyrstu kosningunum sem ég fylgdist með af áhuga, árið 1992, tók mig dágóðan tíma að ná öllum smáatriðunum tengt þessu gamalgróna kerfi og hafa allt á hreinu. Hvet alla til að kynna sér þetta. Kosningabaráttan heldur áfram í dag af sama krafti og fyrr. Í dag verður Kerry á ferð um Wisconsin, Nevada, Nýju Mexico og Iowa. Forsetinn verður á ferð um Wisconsin stóran hluta dagsins, fer svo til Missouri og endar í Washington, til að sinna embættisverkum í kvöld. Baráttan er geysihörð já á lokasprettinum.

Edmund Stoiber og dr. Angela MerkelHeitast í umræðunni
Tæp tvö ár eru til þingkosninga í Þýskalandi. Í seinustu þingkosningum, í september 2002, hélt vinstristjórnin í landinu, undir forsæti Gerhard Schröder naumlega völdum. Jafnaðarmannaflokkurinn missti mikið fylgi en stjórnin hélt vegna fylgisaukningar samstarfsflokksins, græningja. Munaði mjög litlu að kosningabandalag hægrimanna, undir forystu Edmund Stoiber forsætisráðherra Bæjaralands og leiðtoga CSU, næði völdum. Hefur stjórn Schröders allt frá því verið veik í sessi og staðið höllum fæti gegn öflugri stjórnarandstöðu í þinginu. Einn er galli hægrimannanna í þýskri pólitík. Þeir geta ekki með góðu sameinast um einn afgerandi leiðtoga fyrir næstu þingkosningar. Stefnir allt í að Stoiber og dr. Angela Merkel leiðtogi CDU (kristilegra demókrata) muni slást um hvort þeirra verði kanslaraefni hægriblokkarinnar (CDU/CSU) í þeim kosningum. Mörgum hefur þótt eðlilegt að Merkel leiddi baráttuna, enda hefur Stoiber fengið sitt tækifæri. dr. Angela Merkel fengi að taka slaginn og skora kanslarann á hólm. Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í henni og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum. Merkel er töffari í þýskri pólitík og þykir í flestu andstæða hins íhaldssama Edmund Stoiber. Angela komst til áhrifa innan CDU á valdatíma Helmut Kohl og þykir almennt vera pólitísk fósturdóttir hans. Hún er fimmtug, tvífráskilin og barnlaus og því langt í frá lík hinum 63 ára forsætisráðherra Bæjaralands sem þykir vera ímynd hins heilbrigða fjölskyldulífs sem hinn harðgifti fjölskyldufaðir. Stoiber hefur hug á að reyna aftur að leggja í kanslarann og Merkel hefur hug á að verða fyrsti kvenkyns kanslari Þýskalands. Aðeins annað þeirra getur þó leitt hægriblokkina til valda. Tel ég persónulega rétt að Angela leiði næstu kosningabaráttu, hún hefur þann kraft og kjark sem þarf til að leggja hina máttlitlu vinstristjórn jafnaðarmanna og græningja að velli. Nauðsynlegt er að þau sameini krafta sína og verði bæði í forystu kosningabaráttunnar en Angela sem leiðtogi CDU leiði slaginn að þessu sinni. Ég hef lengi haft áhuga á þýskri pólitík og fylgist vel með þýskum netfréttum. Ég vil hvetja alla áhugamenn um þýska pólitík til að lesa ítarlega og vandaða fréttaskýringu Ásgeirs Sverrissonar um leiðtogamál hægrimanna í Þýskalandi í Mogganum í gær, þar sem farið er yfir málið og allar hliðar þess með góðum hætti.

ÍrakEitt af því sem deilt hefur verið um í kosningabaráttunni fyrir bandarísku forsetakosningarnar seinustu daga, er hvarf hátt í fjögur hundruð tonna af mjög öflugu sprengiefni úr vopnageymslu í Írak. Er það meðal annars hægt að nota til að koma af stað kjarnorkusprengju. Hefur John Kerry undanfarna daga gagnrýnt forsetann um að stefna hernámsliðinu í hættu með því að hafa ekki látið hafa gætur á geymslunni. Hefur Bush forseti, ekki enn svarað beint spurningum vegna málsins. Málið tók athyglisverða stefnu í gærkvöldi þegar hópur fréttamanna frá NBC sjónvarpsstöðinni greindi frá því að sprengiefnin sem hurfu hafi þegar verið horfin þegar Bandaríkjaher kom á staðinn í aprílmánuði 2003, eftir fall einræðisstjórnar Saddams Husseins. Einn fréttamannanna lýsti því í viðtali í gærkvöldi hvernig aðkoman hafi verið í apríl 2003 og enginn vafi væri á að vopnin hafi þá ekki verið til staðar og þegar verið horfin fyrir komu Bandaríkjamanna á staðinn. Fréttamenn og myndatökumenn NBC munu hafa fylgt 101. deild flughersins er hún kom að Al Qaqaa geymsluhúsnæðinu sem um er rætt og er staðsett fyrir sunnan höfuðborgina Bagdad. Þá hafi HMX og RDX-sprengiefnin, sem greint hefur verið frá að hafi horfið, þegar verið horfin. Hermennirnir hafi einungis fundið "venjuleg" sprengiefni á vettvangi. Kerry hefur ekki enn tjáð sig um málið, en hann hefur látið stór orð falla og verður eflaust að mæta þeim ef sannast að vopnin hafi ekki verið til staðar við komu hernámsliðsins til landsins. Ekki er víst hvort og þá hvaða áhrif umræða um þetta mál mun hafa á úrslit kosninganna í næstu viku.

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, kynnir hugmyndir að lausn kennaradeilunnar
Viðtal við Kristján Þór - rætt við hann um hugmyndir til lausnar kennaradeilunni
José Barroso ætlar ekki að gefa eftir og stokka upp skipan í framkvæmdastjórn ESB


Dagurinn í dag
1927 Gagnfræðaskólanum á Akureyri var veitt formlega leyfi til að útskrifa nemendur sem stúdenta - samhliða þeim breytingum var nafni skólans breytt og hét hann eftir það Menntaskólinn á Akureyri
1951 Winston Churchill komst aftur til valda í breskum stjórnmálum eftir nauman kosningasigur. Churchill sat áður sem forsætisráðherra Bretlands á stríðsárunum, 1940-1945, en leiddi flokk sinn í stjórnarandstöðu í sex ár. Churchill lét af embætti og hætti í pólitík 1955 - hann lést árið 1965
1965 Reykjanesbraut, milli Keflavíkur og Hafnarfjarðar, var formlega opnuð til umferðar - var fyrsti eiginlegi þjóðvegurinn sem var lagður bundnu slitlagi - fyrst í stað var vegatollur þar innheimtur
1986 Hallgrímskirkja í Reykjavík var vígð - hún var reist til minningar um sr. Hallgrím Pétursson
1995 20 manns fórust þegar snjóflóð féll úr Skollahvilft á byggðina á Flateyri við Önundarfjörð klukkan fjögur að nóttu. Strax eftir að flóðið féll tókst að bjarga sex mönnum á lífi og fjórum um hádegið. Hundruð manna tóku þátt í leit og björgun, en erfitt var að komast þangað vegna veðurs, einungis var fært þangað sjóleiðina. Aftakaveður var um allt land á þessum degi og verst á Vestfjörðum. Snjóflóðið á Flateyri er eitt mannskæðasta snjóflóð í sögu landsins. Þjóðarsorg var í landinu vegna þessara hörmulegu náttúruhamfara, t.d. fóru þáv. forseti og forsætisráðherra vestur til að hughreysta fólk sem átti um sárt að binda þar og voru viðstödd minningarathöfn á Ísafirði

Snjallyrði dagsins
We're learning more and more about potential first lady Teresa Heinz Kerry. She attacked Mrs. Bush and called her un-educated and inexperienced. Mrs. Kerry on the other hand is a very well educated woman. Did you know that? In fact she can say 'shove it' in five different languages. That is a record Mrs. Bush cannot outscore, she said. Yeb, that´s for sure.
Jay Leno spjallþáttastjórnandi

25 október 2004

George W. Bush og John KerryHeitast í umræðunni
Nú, þegar einungis 8 dagar eru til forsetakosninganna í Bandaríkjunum, ríkir enn mikil spenna um það hvort George W. Bush forseti Bandaríkjanna, eða John Kerry öldungadeildarþingmaður, muni halda um stjórnvölinn í þessu valdamesta ríki heims næstu fjögur árin. Þessi kosningabarátta hefur að mestu leyti snúist um öryggis- og varnarmál, einkum stríðið gegn hryðjuverkum og átökin í Írak og þá einkum spurninguna um það hvor frambjóðendanna sé vænlegri kostur til að vernda Bandaríkin fyrir hryðjuverkum á komandi árum. Má þó eflaust fullyrða að útkoma forsetakosninganna í næstu viku muni hafa meiri áhrif á innanríkismál í Bandaríkjunum en hvernig staðan verður í Írak á komandi árum. Ekki verður betur séð en að átakalínurnar í þessum langa og kraftmikla kosningaslag séu fleiri reyndar og um margt hefur verið tekist á af frambjóðendum í baráttu seinustu mánuða. Enginn deilir um að þeir hafa ólík lífsviðhorf að flestu leyti og áherslur á helstu málaflokkunum. Þeir hafa óneitanlega ólíka sýn í skatta- og atvinnumálum og boða mjög ólíka stefnu í heilbrigðismálum, t.a.m. takast þeir sérstaklega á um málefni sjúkratrygginga. Dauðarefsingar og fóstureyðingar eru ennfremur mál sem þeir hafa ólíkar skoðanir á. Kosningabaráttan er að taka á sig enn harkalegri og kraftmeiri mynd en verið hefur nú þegar seinasta vikan er hafin. Barist er sem fyrr í lykilfylkjunum sem ráða munu úrslitum. Frambjóðendurnir hafa verið á ferð og flugi um þessi fylki seinustu daga og nú á lokasprettinum er allt lagt í sölurnar. Bill Clinton fyrrum forseti Bandaríkjanna, mætir í dag í kosningaslaginn í Pennsylvaníu með Kerry, verður það í fyrsta skipti sem hann kemur fram opinberlega frá því hann gekkst undir hjartaaðgerð í byrjun september, skömmu eftir Íslandsheimsókn sína í ágúst. Auk þess verður Kerry í New Hampshire, Michigan og að lokum í Wisconsin. Í dag verður forsetinn staddur á ferðalagi um nokkur ríki, hann byrjar daginn í Texas, heldur svo ásamt forsetafrúnni til Colorado þar sem þau halda fjöldafund. Að því loknu fara þau til Iowa þar sem forsetinn verður með kosningafund með Rudolph Giuliani fyrrum borgarstjóra í New York. Enda forsetahjónin daginn í Wisconsin á fjöldafundi. Það verða eflaust þreyttir forsetaframbjóðendur sem fara að sofa í kvöld í sömu borg, Green Bay í Wisconsin. Vika eftir - já og slagurinn verður sífellt kraftmeiri, eftir því sem klukkan tifar meira.

KennslaHalldór Ásgrímsson forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, og Geir H. Haarde fjármálaráðherra, áttu í morgun fund með Eiríki Jónssyni formanni Kennarasambands Íslands, og Birgi Birni Sigurjónssyni formanni samninganefndar sveitarfélanna. Að fundinum loknum kallaði forsætisráðherra, Ásmund Stefánsson ríkissáttasemjara, á sinn fund og var niðurstaða þeirra að boða skyldi fulltrúa kjaradeilunnar á fund á morgun. Verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þessu, en auðvitað vona allir að samkomulag með eðlilegum launaviðmiðunum náist sem fyrst. Eins og ég fjallaði um í gær var Eiríkur gestur Illuga Gunnarssonar aðstoðarmanns utanríkisráðherra, í spjallþættinum Sunnudagsþátturinn á Skjá einum í gær. Kom fram í spjalli þeirra þar að Illugi telur að ummæli formannsins í Mogganum á föstudag séu þess eðlis að verkfall þeirra hljóti að vera ólöglegt. Sagði Illugi að óneitanlega hlyti 17. grein laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna að vekja kennara til töluverðrar umhugsunar. Las Illugi upp ummælin, svohljóðandi: "Eina lausnin sem nú blasir við er að ríkisstjórnin komi að málinu með aukið fjármagn. Hún þarf að koma að þessum málum með því að viðurkenna að skiptingin milli ríkis og sveitarfélaga er röng og hefur verið það lengi?." Eins og Illugi benti réttilega á vakna grunsemdir um hvort verkfallið sé löglegt sé mið tekið af fyrrnefndri 17. grein sem segir að óheimilt sé að deiluaðilar krefjist þess að ríkið geri eitthvað, breyti hegðun sinni eða geri eitthvað sem því er ekki skylt að gera samkvæmt lögum. Gott hjá Illuga að vekja máls á þessu. Var mjög gott í heildina hvernig hann tók á kennaraformanninum. Í dag mátti heyra einn vinstrimanninn í þáttarstjórn gagnrýna á Útvarpi Sögu að aðstoðarmaður ráðherra sjái um slíkan þátt og hafi skoðanir. Er þetta með ólíkindum, síðan hvenær má pólitískt virkt fólk ekki hafa skoðanir og tjá þær, ef komið er fram undir þeim forsendum?

dr. Tom PalmerSkrif Tom Palmer um heimsóknina í Cato
Í ferð minni til Washington DC í byrjun mánaðarins fór ég ásamt öðrum í forystu SUS í Cato Institute við Massachusetts Avenue. Cato stofnunin hefur allt frá stofnun verið ötull málsvari lítilla ríkisafskipta af samfélaginu og frelsi einstaklingsins. Við komuna þangað tók á móti okkur einn af forystumönnum Cato, dr. Tom Palmer forstjóri stofnunarinnar og einn af helstu fyrirlesurum um frelsismálefni. Var mjög ánægjulegt að vera gestur hans þar og ræða við hann um málefni stofnunarinnar og þau málefni sem mestu skipta í Bandaríkjunum í dag. Spurðum við hann spurninga og hann svaraði af krafti. Voru þau skoðanaskipti mjög gagnleg. Vorum við hjá honum í tæpan klukkutíma og nutum við öll þessararar heimsóknar. Tom Palmer hefur í störfum sínum notið mikillar virðingar. Segja verður með sanni að hann er gríðarlega traustur fyrirlesari og málsvari frelsis. Var þetta hiklaust einn af hápunktum ferðarinnar að hitta Tom og ræða við hann um stjórnmál og fleiri málefni sem mestu skipta. Eftir heimkomuna skrifaði ég ítarlegan pistil um ferð okkar, t.d. heimsóknina í Cato. Sérstaklega þótti mér ánægjulegt að dr. Palmer fjallar um þennan pistil minn og heimsókn okkar til hans í Cato í góðri umfjöllun á vef sínum. Jafnframt fékk ég ítarlegan og einkar ánægjulegan tölvupóst frá honum þar sem hann víkur að ýmsum þáttum tengdum skrifunum en hann hefur mikið velt fyrir sér íslensku og oft vitnað í Íslendingasögurnar í fyrirlestrum sínum og er sannkallaður áhugamaður um allt sem tengist sögu landsins. Ræddum við þar málin meira og sendi ég honum slóðir á erlendar samantektir um vefi flokksins, ungliðahreyfingarinnar, stjórnarráðsins og fleira, sem gæti áhugavert talist. Er viðeigandi að þakka honum þessi góðu skrif og góðar móttökur.

I would like to thank dr. Palmer, for his generous hospitality and his warm regards to all of us that came to visit him on October 7h on behalf of SUS, and his kind remarks regarding Iceland. It is quite clear that we, here in Iceland, have a true admirer of Icelandic issues and Icelandic literature in dr. Tom Palmer.

Dagurinn í dag
1875 Fyrsta borgaralega hjónavígslan hér á landi fór fram í Vestmannaeyjum, með leyfi konungs
1937 Ljósafossstöðin var gangsett - með því jókst afl á svæði rafveitu RVK um rúm 13.000 hestöfl
1976 Elísabet Englandsdrottning opnaði formlega þjóðleikhús Bretlands, eftir mörg ár í byggingu
1993 Jean Chretien varð forsætisráðherra Kanada - hann sat á valdastóli allt til desember 2003
2002 Öldungadeildarþingmaðurinn Paul Wellstone frá Minnesota, ferst í flugslysi ásamt eiginkonu sinni Sheilu og dótturinni Marciu, í N-Minnesota á kosningaferðalagi. Hann var fyrst kjörinn í öldungadeildina árið 1990 og endurkjörinn 1996. Í kosningunum 11 dögum síðar var Walter Mondale fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, frambjóðandi demókrata í stað hans. Hann tapaði kosningunum fyrir Norm Coleman sem vann sigur þrátt fyrir andlát Wellstone, skömmu fyrir kjördaginn

Snjallyrði dagsins
There are no great limits to growth because there are no limits of human intelligence, imagination, and wonder.
Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna (1911-2004)