Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 desember 2004

Viktor YushchenkoHeitast í umræðunni
Viktor Yushchenko var kjörinn forseti Úkraínu, í forsetakosningunum í landinu á annan dag jóla. Talningu lauk í landinu í dag og varð þá ljóst að Yushchenko hlaut 51,9% atkvæða en Viktor Yanukovych forsætisráðherra, hlaut 44,1% atkvæða. Alls hlaut Yushchenko 2,2 milljónum fleiri atkvæði en Yanukovych. Miklar deilur hafa staðið vegna forsetakjörs í landinu seinustu vikur vegna kosninganna sem haldnar voru þar 21. nóvember sl. Yushchenko vann sigur í fyrri umferðinni í byrjun nóvember og var spáð sigri í seinni umferðinni. Útgönguspár gáfu þá til kynna um að hann myndi sigra með 7-8% mun. Raunin varð sú að Yanukovych vann nauman sigur og hlaut 2% meira eftir að talningu lauk. Stjórnarandstaðan sakaði forsætisráðherrann og stuðningsmenn hans um kosningasvik í austur- og norðurhéruðum landsins. Efndu stjórnarandstæðingar til fjöldamótmæla sem leiddu til þess að hæstiréttur tók málið fyrir og ógilti úrslit kosninganna og ákvað að endurtaka seinni umferðina. Sannað var enda að stórfelld kosningasvik áttu sér stað. Vestræn kosningaeftirlit höfðu t.d. sagt að kosningatölur hafi ekki passað við kjörskrár enda fleiri atkvæði en kjósendur sem greiddu atkvæði.

Yushchenko lýsti formlega yfir sigri í gærmorgun á útifundi með stuðningsmönnum sem hafa fylgt honum í gegnum þykkt og þunnt í baráttu seinustu vikna og mánaða. Sagði hann í sigurræðu sinni að um 14 ára skeið hafi Úkraína verið sjálfstætt ríki en nú væri hún loks frjálst ríki. Sigur sinn væri þó umfram allt sigur úkraínsku þjóðarinnar og landsins. Yanukovych neitar að viðurkenna ósigur sinn og sigur Yushchenko. Hann hefur lýst því yfir nú að hann muni leita til hæstaréttar Úkraínu til þess að fá úrslitunum hnekkt, eins og mótherji hans gerði eftir seinustu kosningar fyrir rúmum mánuði. Hefur forsætisráðherrann lagt fram á fimmta þúsund kvartana yfir því hvernig staðið var að talningu atkvæða. Er varla hægt að segja annað en að það sé skondið í ljósi þess að hann vann kosningar fyrir rúmum mánuði með kosningasvikum og neitaði að viðurkenna að illa hafi verið á haldið þar til ríkisstjórn Kuchma forseta, neyddist til að viðurkenna stöðu mála. Ljóst er að kosningarnar núna fóru vel fram, enda 12.000 erlendir embættismenn að fylgjast með og er það samdóma álit þeirra að þær hafi að mestu farið vel fram. Hins nýja forseta bíður mikið og stórt verkefni. Úkraínska þjóðin er klofin í afstöðu sinni til hans og stefnumála stjórnarandstöðunnar sem nú tekur við völdum. Efnahagur Úkraínu er sterkur en við blasir að fáeinir auðkýfingar hafi þar tögl og hagldir, sem studdu forsætisráðherrann og fráfarandi stjórn. Eitt af fyrstu verkefnum nýs forseta verður væntanlega að reyna að styrkja samskipti Úkraínu og Rússlands og sameina þjóðina að baki sér eftir mikil átök, enda hætt við því að íbúar austurhluta landsins fari fram á aukið sjálfstæði.

Jarðskjálfi í AsíuMikill harmur er kveðinn yfir heimsbyggðinni eftir hina skelfilegu jarðskjálfta sem gengu yfir Asíu á öðrum degi jóla. Skjálftinn, sem varð um klukkan átta að morgni þess dags er einn sá öflugasti sem orðið hefur vart á jörðinni í yfir fjörutíu ár og sá fimmti öflugasti síðan á aldamótunum 1900. Upptök skjálftans, sem mældist 9 á Richter-skala, voru nálægt eyjunni Súmötru á Indónesíu. Hann varð neðan sjávar og minnst sex eftirskjálftar urðu í kjölfarið, þar af einn sem mældist yfir 7 á Richter. Á eftir fylgdu gríðarlegar flóðbylgjur, sem líklega náðu yfir 10 metra hæð. Flóðbylgjurnar hafa skollið á ströndum Indlands, Indónesíu og Sri Lanka og valdið þar gríðarlegri eyðileggingu. Hugsanlegt er að rúmlega 100.000 manns hafi farist af völdum flóðbylgjunnar. Það eitt er ljóst að fjöldi látinna hefur aukist mjög seinustu daga, fyrst var talað um 10.000, svo um tæp 30.000 og hefur nú tala látinna hækkað hratt í 60.000 og hækkar sífellt. Sorglegust er þó sú staðreynd að aldrei verði hægt með vissu að staðfesta endanlegar tölur, enda eru engar mannfjöldaskrár til staðar yfir fjölda þeirra svæða sem um ræðir. Liggur fyrir að flest fórnarlömb náttúruhamfaranna voru í Indónesíu og á Sri Lanka.

Óumdeilt er ef marka má fréttir að Indónesía og Sri Lanka hafi farið verst út úr hamförunum. Flóðbylgjur skullu þar eftir endilangri strandlengju landsins. Ekki hafa færri en 20.000 manns farist í hvoru landi. Ef marka má fréttir CNN af hamförunum misstu allt að milljón íbúa í hvoru af löndunum t.d. heimili sitt, austurströnd landsins varð sérstaklega mjög illa úti og ástand þar mjög dapurt. Hafa landsmenn ekki séð það verra þó þeir hafi átt í stríði og átökum í nokkra áratugi. Talið er að allt að 12.000 Indverjar hafi farist. Mikið var af ferðamönnum í Asíu um jólin og sérstaklega bendir margt til þess að margir norðurlandabúar hafi beðið þar bana. Um 1.500 Svía er enn saknað og ekki er vitað um afdrif 600 Norðmanna. Talið er að a.m.k. 700 erlendir ferðamenn séu meðal þeirra 60.000 sem þegar hefur verið staðfest að létust í hamförunum. Virðist vera að stór hluti þeirra komi frá Svíþjóð. Á blaðamannafundi í dag sagði Laila Freivalds utanríkisráðherra Svíþjóðar, að líklega hefðu ekki jafnmargir Svíar farist síðan farþegaskipið Estonia sökk haustið 1994 með þeim afleiðingum að 500 létust. 200 Finna og 16 Dana er enn saknað. Ekki hefur enn heyrst frá 12 Íslendingum sem voru staddir á þessum slóðum. Þessar hörmungar eru skelfilegar og setur mann hljóðan við þessi tíðindi sem þarna hafa átt sér stað. Hvet ég alla til að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins, 907 2020, og láta með því renna 1000 krónur til hjálparstarfsins. Margt smátt gerir eitt stórt!

Í takt við tímannÍ takt við tímann
Á öðrum degi jóla fór ég í bíó og sá kvikmyndina, Í takt við tímann. Hún er sjálfstætt framhald vinsælustu og eftirminnilegustu kvikmyndar íslenskrar kvikmyndasögu, Með allt á hreinu. Hún sló öll aðsóknarmet og um 115.000 Íslendingar sáu hana í bíó, 1982 og 1983. Ágúst Guðmundsson leikstýrði myndinni og í aðalhlutverkum voru hljómsveitirnar Stuðmenn og Grýlurnar, sem börðust af krafti til að tryggja stöðu sína á ballmarkaðnum og beittu til þess öllum mögulegum brögðum. Nú, 22 árum síðar er Ágúst mættur aftur til sögunnar og færir okkur ásamt Stuðmönnum, sögu þeirra sem við fylgdumst með fyrir tveim áratugum og hvað á daga þeirra hafi drifið á þeim árum sem liðin hafa verið. Óhætt er að fullyrða að margt hafi breyst og líf söguhetjanna okkar tekið stakkaskiptum. Aðalsögupersónurnar eru nú sem áður söngvararnir Kristinn Styrkársson Proppé og Harpa Sjöfn Hermundardóttir, en örlögin réðu því að leiðir þeirra skildu á þjóðhátíð í Herjólfsdal.

Í upphafi myndarinnar eru Stuðmenn aðeins lítið tríó á hótelbar á Spáni, þó að hljómsveitarstjórinn Frímann eigi sér enn drauma um litríkan frama á tónlistarbrautinni. Stuðmenn vita líka að Ísland er land tækifæranna, þar sem nýsköpunarverkefnin bjóðast hvert sem litið er. Dúddi er löngu hættur að róta og leggur nú stund á öllu andlegri störf og virðist sá eini sem hefur slegið almennilega í gegn, ótrúlegt en satt. Merkilegar aðstæður verða til þess að leiðir Stinna og Hörpu liggja saman að nýju. En sjón er sögu ríkari. Egill Ólafsson, Ragnhildur Gísladóttir, Eggert Þorleifsson, Jakob Frímann Magnússon, Ásgeir Óskarsson, Tómas M. Tómasson og Þórður Árnason eru í aðalhlutverkum sem fyrr. Handritið er eftir Ágúst Guðmundsson, Eggert Þorleifsson og Stuðmenn. Öll höfum við beðið í fjölda ára eftir að sjá hvað hefur gerst hjá þessum kunningjum okkar, sem gerð voru okkur ódauðleg í fyrri myndinni. Við þessu fáum við svör í kvikmyndinni Í takt við tímann. Hafði ég gaman af myndinni, hef svo sem alla tíð verið mikill aðdáandi Stuðmanna og haft gaman af húmor þeirra í fyrri myndinni. Ómögulegt er þó að bera saman fyrri myndina og þessa. Sú fyrri er slíkt meistaraverk að það er bara þannig. En þeir sem fara á myndina til að hafa gaman af henni og búast ekki við mynd sem toppar þá fyrri munu skemmta sér vel. Allavega hlæja mikið, ég allavega hló mestallan tímann og hafði gaman af myndinni.

Dagurinn í dag
1832 John C. Calhoun verður fyrsti varaforseti Bandaríkjanna, sem segir af sér embætti í sögu þess
1871 Leikritið Nýársnóttin eftir Indriða Einarsson fyrst sýnt - varð opnunarverk Þjóðleikhússins 1950
1897 Leikritið Cyrano de Bergerac, frumsýnt í París - er eitt af frægustu leikverkum í sögu Frakklands
1908 Jarðskjálfti í Messina á Sikiley verður 75.000 manns að bana - skjálftinn í Messina varð einn af stærstu jarðskjálftum aldarinnar og telst hiklaust einn af fimm stærstu og mannskæðustu á öldinni
1967 Borgarspítalinn í Fossvogi var tekinn í notkun - hann varð hluti af Landsspítalanum árið 1999

Snjallyrði dagsins
Hvert örstutt spor var auðnuspor með þér,
hvert andartak er tafðir þú hjá mér
við sólskinsstund og sæludraumur hár,
minn sáttmáli við guð um þúsund ár.

Hvað jafnast á við andardráttinn þinn?
Hve öll sú gleði er fyrr naut hugur minn,
er orði hljómlaus utangátta og tóm,
hjá undrinu að heyra þennan róm,

Hjá undri því, að líta lítinn fót,
í litlum skóm, og vita að heimsins grjót,
svo hart og sárt er honum fjarri enn,
og heimsins ráð sem brugga vondir menn,

Já vita eitthvað anda hér á jörð,
er ofan standi minni þakkargjörð,
í stundareilífð eina sumarnótt.
Ó alheimsljós, ó mynd sem hverfur skjótt
Halldór Kiljan Laxness skáld (1902-1998) (Hvert örstutt spor)