Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 mars 2005

Bobby FischerHeitast í umræðunni
Skákmeistarinn Bobby Fischer hefur nú hlotið formlega ríkisborgararétt og hann verið staðfestur með undirskrift handhafa forsetavalds. Eins og vel hefur komið fram í skrifum mínum er ég andvígur þessu ferli öllu eftir að það fór inn á þau mörk að veita ríkisborgararétt. Mun Fischer koma til landsins á morgun. Eins og fram hefur komið í fréttum mun hann fljúga frá Japan til Kaupmannahafnar í nótt og þaðan til Keflavíkur. Er stefnt að því að þau muni dvelja á hóteli fyrst um sinn. Ef marka má viðtal í dag við Fischer ætlar hann sér að slappa af við komuna hingað og taka því rólega. Eins og við er að búast er hann strax byrjaður að kasta óhróðrinum í allar áttir. Sagði hann í viðtalinu við RÚV að Íslendingar ættu losa sig við Bandaríkjamenn, loka herstöðinni og bandaríska sendiráðinu hérlendis. Kostuleg ummæli og með algjörum ólíkindum að íslenskir ráðamenn hafi veitt honum íslenskan ríkisborgararétt við þessar aðstæður og sveigt til reglur um ríkisborgararétt fyrir hann. Gott dæmi er að Dorrit Moussaieff forsetafrú, er ekki enn orðin ríkisborgari og hefur ekki sótt um flýtimeðferð.

Er alltaf jafnmerkilegt að fylgjast með tjáningu Sæmundar Pálssonar á þessu máli. Segist hann vonast til að Fischer hagi sér skikkanlega og láti af bölvi og blótsyrðum um Bandaríkjamenn og gyðinga. Er þetta algjör brandari, trúir því einhver að hann verði rólegur og hætti að fimbulfambast við að koma hingað? Skoðanir Fischer á gyðingum og mörgum málum eru auðvitað skelfilegar og fáir sem geta kvittað undir skoðanir mannsins. En það er vonandi að hann geri ekki þá sem hafa stutt hann hérlendis seinustu daga endanlega að aðhlátursefni við komu sína til landsins með því að fara að hrauna í allar áttir og sýni því stillingu. Annars er þetta auðvitað erfitt mál og ég hef enga trú á því að hann sýni stillingu þegar hann komi hingað. Það er bara mitt mat. Í dag kom Davíð Oddsson utanríkisráðherra í fjölmiðla og sagði að það væri af og frá að þessi málsmeðferð væri fordæmisgefandi og að þetta væri að sínu mati einstakt mál. Ég er algjörlega ósammála Davíð, eins og allir sjá sem lesið hafa skrif mín. Það er greinilegt að ég og utanríkisráðherra deilum ekki sömu skoðunum í málinu og lítum það ekki sömu augum. Það verður bara að hafa það. Það er hverjum manni frjálst að tjá skoðanir sínar. Ég áskil mér allan rétt að halda áfram að andmæla þessari ákvörðun sem ég get ekki stutt. Í mínum huga eiga svona mál að snúast um prinsipp, það er bara alveg einfalt. Ber svo við að ég tek undir mat tveggja þingmanna Framsóknarflokks á málinu í fjölmiðlum seinustu daga.

Össur SkarphéðinssonFormannskosningin í Samfylkingunni verður vettvangur átaka og láta í innsta hring á sama vettvangi, markað af fjölskyldu- og vinaslag sem ekki á sér mörg fordæmi í íslenskum stjórnmálum. Ekki er hægt að segja að það komi á óvart að Össur og Ingibjörg berjist um embættið. Það hefur blasað við í tvö ár, eða allt frá því að Ingibjörg fór í misheppnað varaþingmannsframboð og missti yfirburðastöðu sína á vinstrivængnum frá sér eftir klúðurslega framgöngu vegna ákvörðunar um framboð til þings sem leiddi til þess að hún missti trúnað samstarfsmanna sinna í R-listanum og varð að segja af sér embætti borgarstjóra í Reykjavík, í svo til beinni útsendingu fjölmiðla í kostulegri atburðarás í Ráðhúsinu. Virðist baráttan háð þessa dagana af hóflegum krafti, þó er ljóst að ólgan blundar undir niðri. Baráttan er háð með hálfkveðnum vísum og átakalínur eru markaðar í baktjaldaherbergjum. Um er að ræða leynileg skot sem þó eru beitt og eru sífellt að verða beittari.

Greinilegt er að Össur er farinn að fægja vopnin. Gott dæmi um það er nýjasta færslan á bloggsíðu hans. Þar segir orðrétt: "Ægivald Baugs stingur marga í augu. Við stjórnmálamenn gætum vafalítið bent á dæmi um það hvernig vild Baugs virðist stundum birtast í sérstakri umhyggju fyrir þeim stjórnmálamönnum og konum sem Baugur hefur velþóknun á. Í atvinnulífinu kvarta menn hástöfum undan því að Baugsmiðlarnir hygli fyrirtækjum sem þeim tengjast með fréttum og umfjöllun sem þeir eiga í eða hafa tengsl við." Engum þarf að blandast hugur um hvert þessu skoti er beint, þó það sé mjög pent og í fagurlega skreyttum búningi. Það er mjög beitt í eðli sínu. Greinilegt er að Össur er að opna á umræðu t.d. okkar sjálfstæðismanna fyrir nokkrum árum, fyrir og eftir þingkosningarnar 2003, um að Ingibjörg Sólrún sé boðberi fyrirtækis og sérstaklega í boði þeirra á markaðnum. Þetta er merkilegt og eiginlega ánægjulegt að formaður Samfylkingarinnar skjóti svona beint á varaformann sinn og taki undir með því sem andstæðingar Ingibjargar Sólrúnar sögðu um hana og framgöngu hennar í kosningabaráttunni. En eins og segir að þá er spennan að verða nokkur í slagnum og hún að taka á sig hvassari myndir. Þetta verður gaman á að horfa, einkum fyrir okkur andstæðinga flokksins.

Punktar dagsins
Akureyri

Stjórn Varðar samþykkti eftirfarandi ályktanir á fundi sínum í gærkvöldi:

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, lýsir yfir ánægju sinni með að samgönguráðherra hafi nú tilkynnt um tímaramma framkvæmda við Héðinsfjarðargöng. Er mikilvægt að mati félagsins að staðfest hafi verið endanlega sú pólitíska ákvörðun að flytja Siglufjörð í annað kjördæmi og tengja það með því að verða hluti af Eyjafjarðarsvæðinu. Er ánægjulegt að mati félagsins að ráðherra standi við þann tímaramma sem lofað var árið 2003 þegar framkvæmdum var frestað tímabundið. Að mati Varðar eru þessi göng, þessar framkvæmdir, hagsmunamál fyrir Eyfirðinga alla og munu styrkja svæðið sem heild og efla það.

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, lýsir yfir vonbrigðum með þá ákvörðun Ríkiskaupa að ganga að tilboði pólskrar skipasmíðastöðvar í viðgerðir á varðskipunum Tý og Ægi. Með þessari ákvörðun sinni vegur Ríkiskaup að mati félagsins að íslenskum iðnaði og tekur afstöðu í þá átt að ekki skipti máli hvort verkið sé unnið hérlendis. Það að taka ekki tilboði Slippstöðvarinnar á Akureyri leiðir í ljós allmikinn skort á vilja og metnaði til þess að vinna að því að efla þessa mikilvægu atvinnugrein. Skorar félagið á ráðherra ríkisstjórnarinnar að beita sér fyrir því að ákvörðun Ríkiskaupa um að taka pólska tilboðinu verði endurskoðuð svo viðgerðirnar fari fram hérlendis.

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, lýsir yfir andstöðu við þau áform að stofna sameignarfélag um rekstur RÚV og telur að með nýju frumvarpi menntamálaráðherra sé stigið of stórt skref í þá átt að tryggja stöðu RÚV sem ríkisstofnunar. Verði frumvarpið að lögum getur RÚV staðið að annarri starfsemi sem tengist starfsemi félagsins með frjálsari hætti en áður. Lýsir félagið yfir andstöðu sinni við frumvarpið og telur það fara í vitlausa átt miðað við grunnstefnu Sambands ungra sjálfstæðismanna og margoft hefur komið fram á þingum þess. Vörður minnir á mikilvægi þess að einkavæða Ríkisútvarpið. Að mati félagsins er tímaskekkja að ríkið standi í fjölmiðlarekstri í samkeppni við einkaaðila.

Leikskólinn Naustatjörn á Akureyri

Mikið hefur verið rætt og ritað seinustu vikuna um málefni leikskólans í kjölfar kostulegra yfirlýsinga borgarstjóra. Nú ber orðið svo við að enginn má hafa skoðun á henni eða verkum hennar þá er hún komin út í skítkastið og svarar fyrir sig með ómálefnalegum hætti. Henni virðist algjörlega fyrirmunað að geta svarað fyrir sig með málefnalegum hætti. Í pistli sínum í dag fjallar, vinur minn Gísli Freyr, um málefni leikskólans og kemur með marga góða punkta. Nokkra þeirra hafði ég bent honum á, sérstaklega hvað varðar Akureyrarbæ og stöðu hans. Eins og vel hefur komið fram er staða okkar góð, nægir fólki að líta á ársreikninga sveitarfélagsins, en reksturinn hér var jákvæður um tæpar 240 milljónir króna. Hvet ég alla til að lesa þennan pistil. Þar segir meðal annars um kostuleg vinnubrögð og tjáningu væludúkkunnar borgarstjórans: "Ef einhver gagnrýnir vinnubrögð Steinunnar Valdísar getur hún ekki svarað til baka á málefnalegan hátt. Það er fjöldi manns (m.a. Geir H. Haarde) sem fara vel með það sem skattgreiðendur borga. Það hefur R-listinn hins vegar ekki gert og ætlar sér aldrei að gera. Steinunn Valdís ætti að sjá sóma sinn í því að biðja fjármálaráðherra afsökunar á þessum orðum. Hún minnir á óþroskaðan ungling sem ekkert hefur til síns máls nema að kalla menn nöfnum."

DiddúJóhann Friðgeir

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands býður til söngveislu í kvöld í Íþróttahúsi Síðuskóla. Á tónleikunum með hljómsveitinni koma fram þau Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) sópransöngkona og Jóhann Friðgeir Valdimarsson tenór. Á efnisskránni verður t.d. flutt tónlist úr Kátu ekkjunni eftir F. Lehar og Leðurblökunni eftir Johann Strauss. Að auki er hægt að nefna hin sívinsælu hljómsveitarverk Keisaravalsinn, Tritsch tratsch polka og Radetzky mars eftir Johann Strauss. Stjórnandi hljómsveitarinnar er Guðmundur Óli Gunnarsson. Sinfóníuhljómsveitin okkar hér fyrir norðan er sannkölluð perla og alltaf gaman þegar hún kemur saman og heldur tónleika. Ógleymanlegir eru tónleikar þeirra með Kristjáni Jóhannssyni og Diddú sem haldnir voru í Íþróttahöllinni í október 1998 til minningar um söngvarann Jóhann Konráðsson, föður Kristjáns. Það var alveg söguleg stund og frábærir tónleikar, eflaust þeir bestu sem ég hef farið á, á minni ævi. Í kvöld mun sveitin vera skipuð yfir 50 hljóðfæraleikurum, sem flestir koma héðan að norðan. Sannkölluð veisla, ég ætla að fara. Missi ekki af svona frábærum tónleikum. Segi frá þessu á morgun betur.

Gettu betur

Í kvöld verður úrslitaviðureignin í Gettu betur. Fer úrslitakeppnin fram í Smáranum í Kópavogi. Keppa til úrslita Borgarholtsskóli og Menntaskólinn á Akureyri. Gengi Akureyringanna í keppninni hefur verið gott. Í sjónvarpsviðureignum til þessa hafa þeir slegið út Menntaskólann á Egilsstöðum og Verzlunarskólann, meistara síðasta árs. Hefur MA ekki keppt til úrslita í keppninni frá árinu 1992 er MA vann VMA í sannkölluðum Akureyrarslag. Vonandi gengur MA vel í kvöld. Ég óska þeim Ásgeiri, Bensa og Tryggvi Páli góðs gengis í kvöld.

Saga dagsins
1663 Ragnheiður Brynjólfsdóttir biskupsdóttir, lést í Skálholti, 21 árs að aldri - við útför Ragnheiðar var sálmur sr. Hallgríms Péturssonar, Allt eins og blómstrið eina, fluttur í fyrsta skipti. Einn þekktasti sálmur landsins og er hann sá sálmur sem oftast er spilaður við jarðarfararathafnir í kirkjum landsins
1937 Sundhöllin í Reykjavík var vígð að viðstöddu fjölmenni - markaði mikil þáttaskil í íþróttamálum
1950 Leikkonan Olivia De Havilland hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á hefðarmaddömunni Catherine Sloper í kvikmyndinni The Heiress - De Havilland hlaut áður óskarinn þrem árum áður fyrir leik sinn í To Each his Own. Hún var ein vinsælasta leikkona gullaldarsögu Hollywood og túlkaði margar sterkar kvenpersónur á hvíta tjaldinu. De Havilland hlaut heiðursóskar fyrir æviframlag að kvikmyndum 2003
1998 Leikarinn Jack Nicholson hlaut óskarinn fyrir magnaða túlkun sína á sérvitringnum Melvin Udall í kvikmyndinni As Good as it Gets. Þetta var þriðji óskar hans, en hann hafði áður hlotið verðlaunin fyrir leik sinn í One Flew Over the Cuckoo´s Nest og Terms of Endearment. Hefur verið tilnefndur til verðlaunanna tólf sinnum, oftar en nokkur annar karlleikari. Á þessari sömu óskarsverðlaunahátíð hlaut kvikmyndin Titanic alls ellefu óskarsverðlaun. Titanic varð vinsælasta mynd 20. aldarinnar í bíó
2003 Breska leikkonan Catherine Zeta-Jones hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Velmu Kelly í Chicago

Snjallyrðið
Disciplining yourself to do what you know is right and importance, although difficult, is the highroad to pride, self-esteem, and personal satisfaction.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)