Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 maí 2005

Dominique de VillepinHeitast í umræðunni
Það er algjörlega óhætt að fullyrða að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Frakklandi á sunnudag hafi verið pólitískt áfall fyrir Evrópusambandið og ekki síður Jacques Chirac forseta Frakklands. Í ítarlegri bloggfærslu minni í gær fór ég í löngu máli yfir niðurstöður kosningarinnar og afleiðingar hennar. Óhætt er að fullyrða að þær séu kjaftshögg fyrir Chirac forseta og mótandi fyrir forsetaferil hans, allavega næstu tvö árin, fram að næstu forsetakosningum. Allt frá því að niðurstaðan lá fyrir á sunnudagskvöldið til dagsins í dag hafði forsetinn setið ásamt nánustu samstarfsmönnum sínum og ráðherrum og farið yfir stöðuna og reynt að vinna úr þeirri flækju sem komin var á frönsk stjórnmál og stjórnina samhliða afgerandi afstöðu Frakka í kosningunni. Ekki var þetta ferli neinn hamingjudans fyrir forsetann og hann varð að horfast í augu við erfiðar ákvarðanir. Eitthvað varð að gera til að svara tapinu, en hann sjálfur ætlaði ekki að fara á sverðið - fórna sér vegna þessa áfalls sem stjórnin hafði orðið fyrir.

Niðurstaðan var auðvitað augljós og blasti við seinustu vikur. Hún varð þó endanlega ljós sem staðreynd strax eftir að útgönguspárnar birtust. Það var auðvitað það að Jean-Pierre Raffarin varð að víkja sem forsætisráðherra Frakklands. Hafði hann verið mjög óvinsæll undir lok valdaferilsins og beðið mikið afhroð í byggðakosningunum í fyrra. Þá blasti við að hann yrði látinn víkja. Chirac ákvað að það yrði ekki og hann sat áfram enn um sinn. En nú varð hann að fara. Eftir fund Raffarin með Chirac forseta í morgun baðst hann formlega lausnar frá embættinu, eftir þriggja ára valdaferil. Á sömu stund og Raffarin sat fundinn með Chirac komu flutningabílstjórar að Hotel Matignon, embættisbústað forsætisráðherrans, og hófu að flytja búslóð hans og Anne-Marie, eiginkonu hans, burt og héldu með hana að einkaheimili þeirra í París. Skömmu eftir að fundi forsetans og Raffarin lauk var formlega tilkynnt að Dominique de Villepin innanríkisráðherra og fyrrum utanríkisráðherra, yrði næsti forsætisráðherra. Hann hefur lengi verið náinn samstarfsmaður forsetans og varð heimsþekktur fyrir andstöðu sína við Íraksstríðið. Að loknum fundi hans og Chiracs hélt hann að Hotel Matignon og tók þátt í kveðjuathöfn starfsfólks embættisins fyrir Raffarin-hjónin.

De Villepin bíður ekki öfundsvert hlutverk í forsætisráðherratíð sinni. Honum hefur verið falið það verkefni að skapa brú aftur á milli hægriflokkanna og þjóðarinnar. Sú brú rofnaði endanlega á sunnudag í þeirri mynd sem verið hefur seinustu ár. Chirac þarf að skipta um áherslur og stefnu í kjölfar tapsins á sunnudag. Hann felur de Villepin það embætti og athygli vekur að Nicholas Sarkozy tekur við embætti de Villepin sem innanríkisráðherra og kemur aftur í stjórnina. Hann vék þaðan eftir að hann varð leiðtogi stjórnarflokksins á síðasta ári. Má telja öruggt að Chirac leiti nú meira til hægri og finni sér ný sóknarfæri. Það þurfa hann og franskir hægrimenn að gera ef þeir ætla að halda völdum eftir þetta mikla og stingandi afhroð. En ESB og forystumenn þar eru enn að ná áttum eftir þetta rothögg sem Frakkar veittu þeim á sunnudag. Á morgun kjósa svo Hollendingar. Má búast við að niðurstaða þeirra kosninga verði ekki síður rothögg og spurning hvort stjórnarskrárgemlingurinn sé tiltækur eftir seinna höggið í sömu vikunni.

Jean-Pierre Raffarin og Dominique de Villepin


Edmund Stoiber og Angela MerkelFlokksstofnanir hægriflokkanna í Þýskalandi, CDU og CSU héldu sameiginlegan fund í gærmorgun og völdu þar forystumann hægriblokkarinnar í komandi kosningum og ræddi baráttutaktík væntanlegra kosninga í september. Hafa hægriflokkarnir sameinast um bandalag í kosningunni eins og jafnan áður. Eftir fundinn héldu leiðtogar flokkanna, þau Edmund Stoiber og Angela Merkel, blaðamannafund. Í upphafi fundarins tilkynnti Stoiber um þá sameiginlegu niðurstöðu hægriflokkanna að Angela Merkel myndi leiða baráttu þeirra í kosningunum. Hún verður því kanslaraefni hægriblokkarinnar í komandi kosningum, verður hún fyrsta þýska konan sem leiðir kosningabaráttu annars af stóru flokkunum í Þýskalandi.

Mætir hún í kosningabaráttunni sem meginandstæðingi sínum, Gerhard Schröder kanslara. Framundan er því hörð og snörp kosningabarátta. Eins og staðan er núna stefnir allt í öruggan sigur hægriblokkarinnar í haust. Flest bendir því til þess að Merkel verði fyrsta konan sem verður kanslari Þýskalands. Líst mér mjög vel á þá niðurstöðu mála að dr. Angela Merkel leiði kosningabaráttu hægrimanna í Þýskalandi. Vænti ég þess að hún leiði hægrimenn alla leið og til valda í þýska þinginu í Berlín. Miklar vonir eru bundnar við hana og forystu hennar. Menn ætlast til þess að hún vinni - eins og staðan hefur verið seinustu ár er markið ekki sett á neitt annað. Vinstristjórnin hefur ekki staðið undir væntingum almennings í landinu: staðan hefur ekki batnað þar þrátt fyrir fögur fyrirheit kanslarans og stuðningsmanna hans.

Og Merkel er rétti leiðtoginn til verka, hún vonandi sigrar með glæsibrag í haust. Viðeigandi var að Stoiber tilkynnti valið á Merkel. Hann leiddi kosningabaráttuna fyrir þrem árum og tapaði mjög naumlega. En nú var tími Merkel kominn. Það var glæsilegt hvernig Stoiber vann þetta núna og vék til hliðar sjálfviljugur til að tryggja bæði einingu og samstöðu hægriblokkarinnar um leiðtogann. Ljóst er að hún hefur nú afgerandi umboð til forystunnar. Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í Merkel. Hún er töffari í þýskri pólitík og þykir í flestu andstæða kanslarans. Henni hefur tekist á nokkrum árum að styrkja ímynd sína og vinsældir hennar hafa aldrei verið meiri. Segja má að jafnaðarmenn standi nú ráðþrota frammi fyrir því að hægrimenn hafa sameinast fljótt og örugglega að baki Angelu Merkel. Menn eru búnir að ákveða leiðtogann og slagurinn er hafinn. Tími Angelu mun vonandi koma í haust. Þá verður hægristefnan að nýju aðalsmerki þýskra stjórnmála!

Punktar dagsins
Skuggamynd Fréttablaðsins af Halldóri og Davíð

Seinustu daga hefur birst langur og ítarlegur greinaflokkur um einkavæðingu ríkisbankanna á árinu 2002 og aðdragandann að því ferli öllu. Þar fer Sigríður Dögg Auðunsdóttir yfir söguna. Segja má að greinaflokkurinn sé umfangsmikill og hafi vakið athygli, um fátt hefur verið meira rætt seinustu dagana. En já, er eitthvað nýtt í þessum greinum? Hvað þá helst? Er þetta ekki helst samtíningur gamalla tíðinda? Það tel ég vera. Margir eru að deila á að stjórnmálamenn taki ákvarðanir. Varla kemur það fólki að óvörum. Í raun eru það stjórnmálamenn sem taka lokaákvarðanir um slík stórmál - það eru engin ný tíðindi. En í grunninn er þetta allt mál sem Ríkisendurskoðun og lykilstofnanir hafa farið yfir með ítarlegum hætti. Þetta er allt flókið ferli sem farið hefur verið í gegnum og árið 2002 voru margar ákvarðanir teknar. Vissulega má takast á um það hvort rétt hafi verið að selja bankana. Það var umdeild ákvörðun, á því leikur enginn vafi. En hún var rétt, ég studdi sölu bankanna fyrir formlega sölu þeirra, gerði það þegar þeir voru seldir svo loksins og er enn þeirrar skoðunar að rétt hafi verið að selja þá. Enda hefur nú sést að þeir hafa styrkst mjög mikið frá sölunni. Þeir öðluðust nýtt líf, án ríkistengslanna.

En það er mikið gert með það þessa dagana að tekist hafi verið á innan stjórnarinnar um einkavæðingarferlið. Við erum að tala um tvo flokka og lykilmál seinustu ára. Það má við því búast að áherslur þeirra séu ólíkar. Það eru alltaf einhver átök þegar verið er að vinna saman niðurstöðu sem báðum aðilum hentar. Við sjáum átök orðið í hverri viku í R-listanum um málefnin. En að lokum eru allir sáttir þar og berja saman niðurstöðu. Það er eðli stjórnmála að tekist sé á innan meirihluta um leiðir til að ná niðurstöðu. Þessi stjórn hefur setið í áratug; tekist á við mörg stórmál og leyst þau. Auðvitað hafa menn í tveim ólíkum flokkum ekki alltaf verið sammála, skárra væri það nú. En menn hafa leyst ágreiningsefnin og farið heilir frá þeim. Þessi greinaflokkur er mjög athyglisverður, ég hef lesið allar greinarnar og haft gaman af. Þetta er eins og að lesa bók eftir Arnald, spenna og dramatík í hverju orði. Eftir stendur auðvitað að það er stjórnmálamanna að taka lykilákvarðanir. Það gera ekki embættismenn í nefnd. Stjórnmálamenn eru kosnir til að leiða mál - kosnir til að bera ábyrgð á mikilvægum málum. Það er bara þannig. En þessi greinaflokkur er ágætur svona í hágúrkunni þessa dagana, eða er það ekki bara? En hann boðar ekkert nýtt.

Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti

Eins og öllum er kunnugt sem kynnt hefur sér stöðuna á verslunarmannahelgum seinustu ára hér hefur lífernið á tjaldsvæðinu hér við Þórunnarstræti verið allsvakalegt þá. Í ágúst í fyrra var íbúum hér við götuna algjörlega nóg boðið. Villimennskan og sukkið fór yfir öll mörk. Draslið og sóðaskapurinn var af því kalíberi að það tók þrifsveit nokkra daga að koma hlutunum í samt lag og áður. Ég er algjörlega búinn að fá nóg af þessu ástandi, svo ég tali alveg prívat og persónulega. Það er með ólíkindum að fólki hér sé boðið upp á þessi vinnubrögð. Að mínu mati á að loka þessu tjaldsvæði tvær stærstu helgar sumarsins - algjörlega einfalt! Í gær tjáði sr. Svavar Alfreð Jónsson sóknarprestur og íbúi við tjaldsvæðið, sig um málið í fréttum. Tek ég algjörlega undir skoðanir hans. Þetta ástand er ekki fólki bjóðandi. Það gengur ekki að íbúum hér í hverfinu sé boðið upp á ástand af þessu tagi. Dóp- og áfengisneyslan þarna og ólifnaðurinn er slíkur að erfitt er að finna honum hæfileg orð. Það sem er þó verst er að visst fólk ætlar ekkert að læra af þessu sukksvalli sem boðið er upp á. Nú er svo komið að verið er að reisa girðingu utan um tjaldsvæðið, sem minnir mann óneitanlega á að þetta er ekki lengur tjaldsvæði - minnir mann mun frekar á afgirtan dýragarð. En ég spyr bara ósköp einfaldlega: er þetta ástand fólki bjóðandi? Ég segi nei!

Abdul Kalam

Abdul Kalam forseti Indlands, er í opinberri heimsókn hér á Íslandi þessa dagana. Hefur hann farið víða frá því að hann kom til landsins á sunnudag og rætt við marga. Í gærmorgun var formleg móttökuathöfn að Bessastöðum og eftir það héldu forsetarnir sameiginlegan blaðamannafund. Í gær hitti Kalam nemendur Háskólans á fundi í náttúrufræðahúsinu Öskju, var gestur á fundi um viðvörunarkerfi vegna jarðskjálfta og annarra náttúruhamfara, heimsótti Norrænu eldfjallastöðina og Stjórnstöð almannavarna og lagði hornstein að nýrri byggingu lyfjafyrirtækisins Actavis. Mikla athygli vakti að Kalam kom hingað á sunnudag, sólarhring áður en formleg dagskrá hófst. Bauð hann vísinda- og fræðimönnum til kvöldverðar á sunnudeginum og ræddi þar málefni landsins og kynnti sér stöðu mála. Er það einsdæmi hérlendis að þjóðarleiðtogi komi fyrr til landsins en formleg dagskrá hefjist. Í gærkvöldi buðu svo forsetahjónin Kalam til hátíðarkvöldverðar í Listasafni Reykjavíkur. Segja má að sá málsverður hafi verið sögulegur. Þar voru einungis á borðum grænmetisréttir, enda er Kalam grænmetisæta og borðar því ekki kjöt. Er þetta í fyrsta skipti í sögu íslenska forsetaembættisins sem kjötréttir eru ekki á borðum í hátíðarkvöldverði.

Guðni skálar í íslensku malti

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, hefur nú tilkynnt að Landbúnaðarstofnun verði á Selfossi. Þessi ákvörðun ráðherrans lyktar af kjördæmapoti og því að heimamaðurinn ráðherrann sé að setja þessa stofnun í sitt hérað og vinna í haginn fyrir sjálfan sig. Í mínum augum er þetta ekkert annað en vildargreiðsla ráðherrans til stuðningsmanna sinna í landbúnaðarhéruðum kjördæmisins sem hann vinnur fyrir. Það vita það allir að meginþorri fylgis Guðna er í sveitunum í kringum Selfoss, það er grunnur hans pólitísku tilveru. Það að Landbúnaðarstofnun sé þar staðsett er því partur af því að ráðherrann vinni í haginn fyrir sitt kjördæmi á kostnað annarra blómlegra landbúnaðarsvæða landsins. Það er bara þannig. Að mínu mati hefði verið réttast að þessi nýja stofnun hefði komið í Skagafjörð eða Eyjafjörð. Eyjafjörður er blómlegasta landbúnaðarsvæði landsins, það verður fróðlegt hvernig ráðherrann ver þetta þegar hann á leið næst hingað á fund. Það verður ekki öfundsvert hlutverk, enda virðast rök hans fyrir valinu hafa ráðist af því að hafa þetta sem næst Brúnastöðum.

Saga dagsins
1884 John Harvey Kellogg kynnir kornflögur - Corn Flakes urðu vinsælasti morgunmatur sögunnar
1952 Dwight D. Eisenhower lætur af störfum sem hershöfðingi - hann varð forseti landsins ári síðar
1973 Richard M. Nixon forseti Bandaríkjanna, og Georges Pompidou forseti Frakklands, hittust á leiðtogafundi í Reykjavík og ræddu heimsmálin á Kjarvalsstöðum. Báðir voru þeir komnir að lokum valdaferils síns. Pompidou lést úr krabbameini 2. apríl 1974 og Nixon varð að segja af sér embætti, fyrstur forseta Bandaríkjanna, þann 9. ágúst 1974 vegna hins umfangsmikla Watergate-hneykslis
1991 Alþingi kom saman í fyrsta skipti eftir að deildaskipting hafði verið afnumin - starfaði í tveim málstofum, efri og neðri, í 116 ár. Fyrsti forseti Alþingis eftir sameiningu var Salome Þorkelsdóttir
1997 Ísland lenti í fimmta sæti á HM í handbolta í Japan - var besti árangur okkar Íslendinga á HM

Snjallyrðið
Í nótt er gott að gista Eyjafjörð
og guðafriður yfir strönd og vogum.
Í skini sólar skarta haf og jörð
og skýjabólstrar slegnir rauðum logum.

Það veit hver sál, að sumar fer í hönd,
en samt er þögn og kyrrð um mó og dranga,
og hvorki brotnar bára upp við strönd
né bærist strá í grænum hlíðarvanga.

Svo ljúft er allt í þessum heiða hyl,
svo hátt til lofts og mjúkur barmur jarðar,
að víst er engin veröld fegri til
en vornótt björt í hlíðum Eyjafjarðar.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Vor í Eyjafirði)

30 maí 2005

Franskir kjósendur hafna stjórnarskrá ESB

Jacques Chirac ávarpar frönsku þjóðina er úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar lágu fyrir í gærkvöldi

Frakkar höfnuðu stjórnarskrá Evrópusambandsins með afgerandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær. Allar skoðanakannanir seinustu viku kosningabaráttunnar höfðu gert ráð fyrir sigri andstæðinga stjórnarskrárinnar. Segja má þó að sigur andstæðinganna hafi verið mun meira afgerandi en gert hafði verið ráð fyrir. Síðustu kannanir höfðu bent til þess að staðan væri 52-48 andstæðingunum í vil og bjuggust stjórnmálaskýrendur við að hvað sem er gæti gerst. Það fór svo að 55% felldu stjórnarskrána en 45% samþykktu hana. Kjörsókn var rúmlega 70% og kusu fleiri Frakkar í þjóðaratkvæðagreiðslunni nú en fyrir þrettán árum þegar kosið var um Maastricht-samninginn. Þessi úrslit eru í senn bæði áfall fyrir Jacques Chirac forseta Frakklands, og Evrópusambandið í heild sinni. Forsetinn hafði lagt mikið undir með því að efna til þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu og treyst á að almenningur myndi samþykkja stjórnarskrána, þrátt fyrir andstöðu við hana.

Það fór á aðra lund og eflaust nagar forsetinn sig í handarbökin fyrir að hafa ekki farið með stjórnarskrána fyrir þjóðþingið eins og mörg önnur Evrópulöndin. Með því hefði hann getað klárað málið fljótt og örugglega en dalað vissulega í vinsældum. Eftir stendur hann nú eftir þessar veikari að velli að öllu leyti. Það var klukkan 22:00 að staðartíma í gærkvöldi (20:00 að íslenskum tíma) sem fyrstu tölur birtust og útgönguspár fjölmiðlanna voru þá kynntar ennfremur opinberlega. Allt frá fyrstu mínútu var staðan ljós. Munurinn var það mikill að enginn vafi lék á niðurstöðunni. Stjórnarskránni var hafnað með nokkuð afgerandi hætti. Hálftíma eftir að fyrstu tölur voru kynntar, eða klukkan 22:30 að staðartíma flutti Chirac forseti, ávarp til almennings. Bar hann sig vel þrátt fyrir tapið en það duldist engum sem á ávarpið horfði að forsetinn var vonsvikinn með úrslitin og skal engan undra. Þessi úrslit eru án nokkurs vafa mesta pólitíska áfall litríks og langs stjórnmálaferils Chiracs forseta.

Bernadette og Jacques Chirac kjósa í Sarran

Þetta er aðeins í annað skipti sem franskur forseti bíður ósigur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Árið 1969 beið Charles De Gaulle forseti, mikinn persónulegan og pólitískan ósigur er tillögur hans um breytingar á stjórnarskránni voru felldar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að kvöldi kjördags brást De Gaulle, kempan mikla sem leitt hafði Frakkland í gegnum stríðið og verið öflugasti stjórnmálamaður landsins á 20. öld, við með því að boða afsögn sína af forsetastóli. Pólitískir andstæðingar hans stóðu eftir orðlausir. Öllum að óvörum sté þessi aldni forystumaður af stól sínum og fór. Á hádegi daginn eftir hafði svo afsögn hans tekið gildi og hann hafði yfirgefið Elysée-höll í hinsta skipti. Þessi öflugi stjórnmálaleiðtogi yfirgaf stjórnmálasviðið hljótt en þó með snörpum hætti. Er hann lést ári síðar var hans minnst sem eins öflugasta pólitíska leiðtoga landsins, en árinu áður var hann óvinsæll og hafði beðið sögulegt tap. Hann var vissulega forseti á umbrotatímum og því ekki svo gott að jafna saman frægu tapi De Gaulle og endalokum stjórnmálaferils hans við þetta tap Chiracs.

Þrátt fyrir mikið tap er Chirac ekki að fara neitt. Hinn 73 ára gamli forseti hefur upplifað marga slæma tíma og oft komist í hann krappan á fjögurra áratuga löngum stjórnmálaferli. En þetta tap er hið versta á ferli hans og fullyrða má að hann nái ekki að rétta úr kútnum og verði lamaður á valdastóli fram að næstu kosningum. Segja má að franskir kjósendur hafi sent honum rauða spjaldið í þessum kosningum og lýst yfir vantrausti á verk hans og ríkisstjórnarinnar. Á síðasta ári biðu stjórnarflokkarnir afhroð í byggðakosningunum og misstu völdin í mörgum af lykilfylkjum sínum. Þá var uppi orðrómur um að Chirac myndi bregðast við með því að skipta um forsætisráðherra og víkja Jean-Pierre Raffarin úr embætti. Hann gerði það ekki og stólaði á að Raffarin myndi takast að styrkja sig og stjórnina þrátt fyrir deilurnar vegna breytingarinnar umdeildu á vinnulöggjöfinni. Það hefur ekki gerst, fylgi stjórnarinnar hefur lítið aukist og Raffarin er orðinn óvinsælli nú en hann var á sínum tíma. Það blasir við að tapið nú sé ekki síður vantraust almennings á stjórnina og verk hennar.

Jean-Pierre Raffarin

Fullyrða má að pólitísk framtíð Raffarin sé ráðin. Honum verði fórnað til að vinna í haginn fyrir forsetann. Hefur blasað við nokkurn tíma að pólitísk örlög hans ráðist af kosningunni um stjórnarskrána. Chirac forseti hefur ekki í hyggju að víkja sjálfur og mun stefna að því að klára kjörtímabil sitt. Þessi úrslit eru það afdráttarlaus að fullyrða má að þau séu rothögg fyrir ríkisstjórn Raffarin og forsetann sjálfan. Umboð beggja er vart lengur til staðar. Það er eiginlega með ólíkindum hvað Chirac hefur tekist illa að halda glæsilegu umboði sínu eftir þing- og forsetakosningarnar 2002. Í báðum kosningunum stóð Chirac eftir með pálmann í höndunum. Chirac tókst að ná endurkjöri á forsetastól með glæsilegum hætti. Í fyrri umferð kosninganna hafði Lionel Jospin forsætisráðherra og leiðtoga Sósíalistaflokksins, mistekist að tryggja sér sæti í seinni umferðina og öllum að óvörum hafði það verið þjóðernishægrimaðurinn Jean-Marie Le Pen sem varð mótherji Chiracs í seinni umferðinni. Jospin stóð eftir með sárt ennið og stjórnmálaferli hans lauk því með öðrum hætti en hann hafði óneitanlega stefnt að.

Í seinni umferðinni sameinuðust meira að segja svarnir andstæðingar Chiracs um að kjósa hann til að koma í veg fyrir að Le Pen yrði forseti. Það var skondið að sjá Sósíalistaflokkinn hvetja fólk til að kjósa Chirac og forða Frökkum frá stjórn Le Pen. Og Chirac hlaut 82% greiddra atkvæða. Í kjölfarið vann bandalag hægri- og miðflokka í Frakklandi afgerandi sigur í þingkosningum og Raffarin tók við embætti í júní 2002. Þá var hann afburðavinsæll og sterkur að velli. Nú er hann aðeins svipur hjá sjón og ljóst að hann verður látinn gjalda fyrir þetta tap. Hann verður blóraböggullinn fyrir Chirac. Þó er algjörlega ljóst að forsætisráðherraskipti breyti litlu fyrir stöðuna. Kjósendur eru ekkert síður að senda Chirac rauða spjaldið og vilja breytingar. Þetta er ekki ólíklegt því og var í kosningunni um Maastricht fyrir 13 árum er munaði nær engu að sáttmálanum yrði hafnað vegna óvinsælda François Mitterrand. Er ljóst að Chirac stendur mjög höllum fæti vegna tapsins. Er merkilegt hvernig hann hefur misst stuðning landsmanna á þessum þrem árum eftir sögulegan sigur sinn og hægriflokkanna.

Andstæðingar stjórnarskrárinnar fagna sigri

Gríðarlegur fögnuður braust út á Bastillutorginu í París er úrslitin urðu ljós í gærkvöldi. Andstæðingar stjórnarskrárinnar héldu þar mikla sigurhátíð og fögnuðu sigrinum af miklum krafti. Ekki er það óeðlilegt. Þetta er stór sigur almennings á Evrópusambandinu og reglugerðafarganinu þar. Fólkið tók afstöðu og tók stjórnarskrárferlið í sínar hendur. Það er mjög ánægjulegt. Eftir þessa niðurstöðu er stjórnarskráin í lausu lofti og ljóst að stjórnarskrárferlið allt er komið í annað ferli og alls óvíst hver örlög þess verður. Enginn vafi er á því að jarðskjálfi leikur eftir þessa niðurstöðu í stjórnkerfi bæði Frakklands og Evrópusambandsins. Óhætt er að fullyrða að Evrópusambandið hafi ekki gengið í gegnum meiri kreppu í sögu sinni. Og ekki er víst að vandræðin séu að baki. Á miðvikudag munu Hollendingar ganga að kjörborðinu og taka afstöðu til stjórnarskrárinnar. Allar skoðanakannanir benda til þess að þeir hafni stjórnarskránni. Hafni Hollendingar henni eins og Frakkar eru allar líkur á að þar með verði saga stjórnarskrárinnar sé öll.

Frakkar og Hollendingar eru tvær af sex stofnþjóðum Efnahagsbandalags Evrópu, sem er forveri Evrópubandalagsins, sem varð að Evrópusambandinu árið 1994. Það er algjörlega ljóst að hafni Hollendingar eins og Frakkar er stjórnarskráin ekkert nema pappírssnepill og einskis virði. Án samþykkis Hollendinga tekur við flókið og erfitt ferli. Hinsvegar er afstaða Frakka mesta áfall sem mögulega gat riðið yfir ESB. Með þessu hefur ein meginþjóð sambandsins hafnað tilögunum frægu og í raun sett málið allt út af sporinu. Á því leikur enginn vafi. Viðbrögð forystumanna ESB og leiðtoga þjóðanna sem leiða starfið þar bar öll merki vonbrigða í gærkvöldi. Sem er engin furða. Öll vinna seinustu ára að stjórnarskránni og forystuferli sambandsins hefur verið sett á ís. Ekkert er þar lengur öruggt. Synjun Frakka sem lykilþjóðar þar setur allt starf þess í vafa og erfitt er að spá í framtíðina. Staðan er einfaldlega þannig að enginn veit með vissu hvað tekur við. Hollendingar eiga næsta leik og beðið verður eftir niðurstöðu mála þar.

Jacques Chirac og Jean-Pierre Raffarin

Mér fannst merkilegt að sjá afneitunina sem kom fram í gær í orðum forseta ESB, krataþingmannanna á Evrópuþinginu og forsætisráðherra Lúxemborgar sem leiðir nú starf ESB fram á sumarið. Þar töluðu allir eins og þetta væri bara eins og hvert annað tap og hvert annað vandamálið að vinna úr. Að mínu mati er það ekki svo. Það er merkilegt að sjá að Össur Skarphéðinsson alþingismaður og fyrrum formaður Samfylkingarinnar, er öllu raunsærri í orðavali um úrslitin en flokksbræður hans um Evrópu alla. Staðan er einfaldlega sú að málið er allt í vandræðum og ekkert lengur öruggt. Enda segir Össur í skrifum sínum: "Drögin að stjórnarskrá Evrópusambandsins verða annaðhvort söltuð um langa hríð og síðan breytt verulega áður en lagt er í næsta ferðalag með þau, eða stjórnarskráin verður einfaldlega send rakleiðis í líkhúsið. Það er hinn blákaldi veruleiki sem blasir við eftir að Frakkar höfnuðu stjórnarskránni með afgerandi hætti í gær. Í því sambandi skiptir óskhyggja þeirra forystumanna ESB sem töpuðu í kjörkössum Frakklands engu máli." Orð að sönnu - gleðiefni að sjá svona skrif hjá fyrrum leiðtoga íslenskra jafnaðarmanna.

Í gærkvöldi fór Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, yfir stöðu mála í ítarlegum pistli á vef sínum. Þar segir hann orðrétt: "Fyrir kosningarnar í Frakklandi hefur almennt verið kveðið svo fast að orði, að sigur nei-liðsins, sérstaklega ef hann yrði afgerandi, þýddi hið sama og dauði stjórnarskrárinnar í núverandi mynd. Sé munurinn 10% á jái og neii er um afgerandi neitun að ræða. Þegar minniháttar ríki fella eitthvað ESB-skjal í þjóðaratkvæðagreiðslu er beðið um tíma og síðan kosið aftur, þegar talið er víst, að já-liðinu hafi aukist fylgi, eða samið er um takmarkaða aðild viðkomandi ríkis að einhverju samstarfi á vettvangi ESB. Öðrum augum er litið á Frakka og þess verður áreiðanlega langt að bíða að póltíska-elítan, sem fór fyrir já-liðinu í Frakklandi vilji aftur láta á það reyna, hvort afstaða hennar nýtur hylli almennings eða ekki." Þetta er alveg rétt hjá Birni, í raun kjarni málsins að mínu mati. Staða stjórnarskrárinnar er þannig að málið er strandað. Frakkar höfnuðu henni afdráttarlaust og settu málið af sporinu. Hvernig menn ná áttum eftir það er svo næsta spurning. Forystumenn ESB og franskra stjórnmála eiga erfitt með að horfast í augu við það en verða að gera það nú.

Jacques Chirac

Um miðjan þennan mánuð hafði Chirac setið á valdastóli í áratug. Ekki er hægt að segja að hann hafi getað fagnað þeim áfanga. Hann lagði allt sitt af mörkum til að stjórnarskrárin færi í gegn og yrði samþykkt. Ávarpaði hann þjóðina þrisvar til að reyna að hafa áhrif á afstöðu almennings. Hann hafði ekki erindi sem erfiði. Tap hans er mikið. Eins og fyrr segir er þetta mesta pólitíska krísa Chiracs á löngum valdaferli og hefur hann þó oft átt við ramman reip að draga. Vinsældir forsetans hafa dalað mjög að undanförnu og hneykslismál hafa fylgt honum hin seinni ár. Þrátt fyrir mikinn sigur í forsetakosningunum fyrir þrem árum er ljóst að hann hefur misst umboð almennings. Chirac hefur í gegnum tíðina verið með ímynd baráttumannsins og talinn hafa níu líf eins og kötturinn þegar kemur að pólitískri forystu. Forsetanum hefur alltaf tekist að koma standandi niður úr hverju fallinu á eftir öðru, þrátt fyrir að blásið hafi á hann. Honum tókst fyrir áratug að vinna forsetaembættið í þriðju atrennu sinni að því.

Ljóst er eftir þetta mikla tap að Chirac er á krossgötum og enginn vafi að ósigur hans hefur mikil áhrif á arfleifð hans og næstu ár á valdastóli. Hætt er við að þeir 23 mánuðir sem framundan eru til forsetakosninga verði honum erfiðir. Chirac-isminn sem svo hefur verið kallaður er alvarlega skaddaður eftir vantraust fransks almennings á forsetanum og pólitískri forystu hans, bæði í Evrópumálunum og í innanríkismálum. Nú er það forsetans að bregðast við þessu mikla tapi. Ljóst var af ræðu hans í gærkvöldi að hann ætlar sér að fara rólega í næstu skref. Tapið er mikið og áfallið er honum erfitt verkefni að vinna úr. Telja má öruggt að forsetinn víki af valdastóli í næstu kosningum. Þó er erfitt að afskrifa Chirac eftir tapið, en aldrei hefur blásið eins á hann og nú og ljóst að hann hefur aldrei verið veikari að velli. En við fáum brátt að sjá hvernig hann vinnur úr stöðunni, væntanlega í kjölfar ráðherrahrókeringa og breytinga í stefnuáherslum.

ESB

Hvert stefnir svo Evrópusambandið á þessum maídegi eftir þennan gríðarlega jarðskjálfta á svæði þess? Menn eru að meta skemmdirnar og eflaust eru margir postularnir þar innbyrðis komnir í heljarinnar áfallahjálp. Sumir forystumennirnir þar neituðu lengi vel að horfast í augu við það að Frakkar myndu fella. Nú verða þeir að vakna og horfast í augu við að stjórnarskrármálið er komið af sporinu og blasir við að Hollendingar felli. Það að Frakkar felli er þó lykiláfallið. Það er meiriháttar kjaftshögg. Annars var merkilegast að heyra viðbrögð Jack Straw utanríkisráðherra Bretlands. Hann var eiginlega eini leiðtoginn þarna sem var raunsær í gær og talaði hreint út. Hann leit svo á að úrslitin leiddu til óvissuskeiðs innan sambandsins. Taldi hann ESB þurfa að fara í vissa naflaskoðun.

Það blasir við að það sé rétt. En það verður fróðlegt að fylgjast með atburðarás næstu daga eftir þessi þáttaskil málsins. Pólitíska forystan í Frakklandi verður undir smásjá allra fjölmiðla næstu daga og ESB-elítan eftir kosningarnar í Hollandi á miðvikudag. Þar ræðst væntanlega hvað gerist. Felli þeir erum við án vafa að horfa á skipbrot vinnuferlisins að stjórnarskrárpælingunum. Þá er útilokað væntanlega að Bretar fari í þjóðaratkvæði og allur grunnur málsins mun væntanlega annaðhvort bresta alveg eða allavega kikna eitthvað af þunga málsins. Við fylgjumst öll spennt með jarðskjálftavirkninni á heimasvæði ESB-tröllsins, reglugerðarsambands allra tíma.

Saga dagsins
1431 Jóhanna af Örk brennd á báli - var þá 19 ára gömul. Jóhanna var gerð að dýrlingi 16. maí 1920
1768 Eggert Ólafsson lögmaður og skáld, drukknaði í slysi á Breiðafirði. Hann var þá 42 ára að aldri
1851 Jón Sigurðsson var kjörinn forseti Kaupmannahafnardeildar Hins Íslenska bókmenntafélags -
Jón var lengi áberandi í starfinu þar og gegndi hann embættinu allt til dauðadags í desember 1879
1984 Sett voru stjórnskipunarlög á þingi sem kváðu á um fjölgun alþingismanna landsins úr 60 í 63
2001 Roland Dumas fyrrum utanríkisráðherra Frakklands og einn nánasti pólitíski samstarfsmaður François Mitterrand fyrrum forseta Frakklands, dæmdur til fangavistar vegna pólitískrar spillingar

Snjallyrðið
Do what you feel in your heart to be right - for you'll be criticized anyway. You'll be damned if you do, and damned if you don't.
Eleanor Roosevelt forsetafrú Bandaríkjanna (1884-1962)

29 maí 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um góðar skipulagstillögur sjálfstæðismanna í Reykjavík sem gera ráð fyrir byggð á eyjunum við borgina. Tillögurnar hafa vakið verðskuldaða athygli og opnað á umræðu um skipulagsmál. Greinilegt er að R-listinn er gríðarlega fúll, sem von er auðvitað, með stöðu mála. Þau hafa misst frumkvæðið í þessum efnum til Sjálfstæðisflokksins. Sárindi þeirra og gremja leyna sér ekki. R-listinn er orðinn svo upptekinn af því að berja í sprungurnar sínar að þau hafa gleymt hinum almenna kjósanda og eru heillum horfin í einhverjum fílabeinsturni að því er virðist. Það sem vekur þó mikla athygli mína er að Steinunn Valdís gefur í skyn aðra stundina að hugmyndinni að skipulaginu sé stolið frá sér og á næsta augnabliki að þetta sé afleit hugmynd sem leiði til hækkunar á lóðaverði og sé því afleit. Þetta fer vart saman. Hvar og hvenær hefur R-listinn annars komið með hugmyndir í þá átt að byggt verði á Geldinganesi, Engey og Akurey? Já, eða þá bara mögulega í Viðey? Þeir eru að tala um að umræða hafi verið uppi um byggð jafnvel (takið eftir nota bene orðinu jafnvel) á Örfirisey og unnið þannig. En lengra nær framtíðarsýn þeirra ekki. Ennfremur vík ég að málefnum Vatnsmýrarsvæðisins og flugvallar í borginni.

- í öðru lagi fjalla ég um leiðaraskrif Morgunblaðsins á föstudag, þar sem blaðið talar fyrir uppstokkun í forystusveit stjórnmálanna. Skrif Moggans skilur eftir sig fleiri spurningar en nokkru sinni svör. Þegar litið er á nokkra punkta er enn erfiðara að skilja þessi skrif. Hvað hefur gerst í stjórnmálum á kjörtímabilinu sem nú er rétt rúmlega hálfnað, spyr sig sjálfsagt einhver. Jú, nefnum nokkur atriði - strax dettur mér í hug einir fimm punktar sem varpa ljósi á málið. Í fyrsta lagi: við upphaf kjörtímabilsins var samið um forsætisráðherraskipti er 15 mánuðir yrðu liðnir af kjörtímabilinu. Í öðru lagi: ákveðið var að nýr menntamálaráðherra tæki við á gamlársdag 2003. Í þriðja lagi: ákveðið var að umhverfisráðuneytið færi til Sjálfstæðisflokks og vegna þess kom Sigríður Anna Þórðardóttir inn í stjórn 15 mánuðum eftir kosningar. Í fjórða lagi: gefið var í skyn er Siv Friðleifsdóttir missti ráðherrastól sinn fyrir tæpu ári að ráðherrahrókering yrði í Framsóknarflokki ekki seinna en árið 2006. Og síðast en ekki síst voru ákveðin forsetaskipti í þinginu sem gert er ráð fyrir að fari fram í októbermánuði. Það er því engin furða að þessi skrif veki furðu.

- í þriðja lagi fjalla ég um aðalfund Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, sem haldinn var í vikunni. Þar var kjörin ný stjórn fyrir næsta starfsár, sannkallaðan vinnuvetur á kosningaári. Verð ég formaður félagsins áfram næsta starfsárið. Á fundinum var formlega opnuð heimasíða félagsins. Netið hefur opnað mörg spennandi tækifæri til samskipta á milli fólks og þau geta skipt sköpum í harðri baráttu þar sem mikilvægt er að hrífa fólk með sér og setja fram stefnu sína og skoðanir á markvissan og öflugan hátt. Slík miðlun upplýsinga skiptir mjög miklu og skapar mörg sóknarfæri fyrir fólk að geta tjáð skoðanir sínar. Það mun bæta alla vinnu okkar í félaginu og starfið í heild sinni að hafa eignast vef. Hann er nauðsynleg upplýsingaveita til fólks, þarna koma fram skoðanir okkar á málum og fréttir af starfinu, þegar við á. Með tilkomu vefsins opnum við á tengsl við fólk utan félagsins, almennan lesanda og opnum leið inn í félagið fyrir þá sem ekki eru í því en vantar tengsl til að fara inn í starfið.

Að lokum fjalla ég um tveggja ára afmæli sunnudagspistlanna minna og heimasíðunnar í þeirri mynd sem lesendur þekkja hana. Það var þann 1. júní 2003 sem vefur minn í þessari mynd opnaði og fyrsti sunnudagspistillinn birtist þar.

Punktar dagsins
dr. Kristján Eldjárn forseti

Í gær opnaði forseti Íslands nýja Kristjánsstofu í Byggðasafninu Hvoli á Dalvík. Hún er til minningar um dr. Kristján Eldjárn þriðja forseta Íslenska lýðveldisins. Kristján fæddist að Tjörn í Svarfaðardal þann 6. desember 1916. Hann nam fornleifafræði við Kaupmannahafnarháskóla 1936-1939 og var skipaður þjóðminjavörður 1947. Hann var kjörinn forseti Íslands í forsetakosningunum 1968. Sat hann á forsetastóli í þrjú kjörtímabil, 12 ár, eða allt til ársins 1980. Hann lést á sjúkrahúsi í Cleveland í Ohio í Bandaríkjunum þann 14. september 1982. Kristján vann afgerandi kosningasigur í forsetakjörinu 1968. Hann var forseti fólksins, honum auðnaðist alla tíð að tryggja samstöðu landsmanna um verk sín og naut virðingar allra landsmanna. Kristján var forseti á miklum umbrotatímum hérlendis, bæði í þjóðmálum og á vettvangi stjórnmála. Kristján var mjög kraftmikill ræðumaður. Hef ég kynnt mér ítarlega ævi hans og starfsferil og skrifaði langa ritgerð um hann í skóla eitt sinn. Þegar ég kynnti mér verk hans og ævi þótti mér helst standa upp úr hversu farsællega hann vann öll sín verk. Hann var öflugur þjóðarleiðtogi og ávann sér virðingu fólks með alþýðlegri og tignarlegri framkomu, jafnt hér heima sem á erlendum vettvangi. Hann var sannkallað sameiningartákn landsmanna. Er mjög ánægjulegt hversu kröftuglega Dalvíkingar standa vörð um að heiðra minningu þessa merka Svarfdælings.

Big Ben

Þau stórmerku tíðindi áttu sér stað að kvöldi föstudags að hin heimsþekkta klukka, Big Ben í London, hætti að ganga í tæpan einn og hálfan tíma. Þessi ein frægasta klukka heims hefur aðeins örsjaldan áður stoppast alveg og verið að margra mati talin áreiðanlegri en allt annað. Hvað sem á bjáti, alltaf sé Big Ben rétt. Er almennt talið að miklum hita í borginni sé um að kenna en þar hefur hitinn farið yfir 30 stig. Það var klukkan 22:07 að staðartíma á föstudagskvöldið sem klukkan stoppaðist. Hún fór aftur í gang skömmu síðar en stoppaði aftur á 22:20 og varð þá stopp samfellt í einn og hálfan tíma. Voru viðgerðarmenn þá komnir og komu þeir klukkunni af stað aftur og stilltu hana. Big Ben er tæplega 150 ára gömul og er eitt helsta tákn London-borgar. Nokkrar undantekningar eru þó á þessu þar sem klukkunni hefur seinkað og stundum stoppað alveg. Frægasta dæmi þess að hún hafi stoppað var árið 1962 er klukkan varð stopp vegna ísingar. Big Ben gekk alla seinni heimsstyrjöldina þrátt fyrir að sprengjuregn þýska flughersins hafi verið yfir borgina. Big Ben dregur nafn sitt af 13 tonna bjöllu sinni, er var nefnd eftir Sir Benjamin Hall sem reisti Big Ben.

Samband ungra sjálfstæðismanna

Stefnir, blað Sambands ungra sjálfstæðismanna, hefur nú komið út. Er það að þessu sinni í ritstjórn Snorra Stefánssonar og Kristins Más Ársælssonar. Mikið af spennandi efni er í blaðinu. Þar er ítarleg grein eftir Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóra, er ber heitið: Hugleiðingar frá höfuðborg hins bjarta norðurs um íbúalýðræði. Þar fer Kristján Þór yfir íbúalýðræði og hugtök á bak við það með góðum hætti. Ásdís Halla Bragadóttir forstjóri BYKO og fyrrum bæjarstjóri í Garðabæ, og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi, fara í athyglisverðri grein yfir þjónustu sveitarfélaganna og ný skref í þeirri þjónustu. Hafsteinn Þór Hauksson formaður SUS, fjallar um tískuhugtök vinstrimanna. Ásta Möller fyrrum alþingismaður, fjallar um stjórnsýslu í grein sinni. Atli Harðarson heimspekingur, skrifar svo athyglisverða grein um lýðræði og almannavilja. Síðast en ekki síst meðal áhugaverðra efna er grein Jóns Hákons Halldórssonar um ferð okkar SUS-ara til Cato Institute og spjall okkar við dr. Tom Palmer í ferð okkar til Washington í október 2004. Þetta er því í senn bæði áhugavert og spennandi blað. Það var mjög gaman að lesa það, ég hvet alla til að fá sér það.

Leikfélag Akureyrar

Leikárinu hjá Leikfélagi Akureyrar er nú lokið. Ljóst er nú að um glæsilegt starfsár hefur verið að ræða. Staða Leikfélagsins, sem til nokkurra ára, hefur verið afar slæm, er á góðri uppleið. Með markvissu og góðu vali á uppsetningum á leikárinu hefur tekist að bæta stöðuna verulega. Er um að ræða besta leikár félagsins í heil 17 ár. Í fyrsta skipti í nokkurn tíma er afgangur af rekstrinum. Er leikfélagið nú hálfnað við að greiða upp þann mikla skuldahalla sem safnast hafði þar upp. Með ráðningu Magnúsar Geirs Þórðarsonar í stöðu leikhússtjóra var stefnt að öflugu starfi og því að tryggja undirstöður leikhússins og sækja fram. Það hefur svo sannarlega tekist. Magnúsi Geir hefur tekist að bæta stöðuna verulega. Hátt í 17.000 manns sáu sýningar LA á leikárinu. Enginn vafi er á að söngleikurinn Óliver hafi verið aðalaðdráttaraflið í vetur og komust færri að en vildu að lokum. Þetta er því glæsilegt starfsár sem nú er á enda. Það er fagnaðarefni fyrir okkur unnendur leiklistar í bænum að sjá hversu mikið leikhúsið er að rétta úr kútnum.

Saga gærdagsins
1972 Edward VIII deyr í Frakklandi, 77 ára að aldri. Edward varð konungur Englands í janúar 1936, en varð að segja af sér krúnunni í desember sama ár til að geta gifst unnustu sinni, Wallis Warfield Simpson. Hún var tvífráskilin og þingið og þjóðkirkjan sættu sig ekki við ráðahaginn. Frá afsögn sinni til dauðadags bjó Edward í útlegð í Frakklandi og sleit nær öllu sambandi við fjölskyldu sína, en hafði undir lok ævi sinnar mikil samskipti við Karl ríkisarfa, frænda sinn. Edward og Wallis hvíla í Windsor
1978 Meirihluti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn fellur - vinstriflokkar ná meirihluta í fyrsta skipti
1983 Eldgos hófst í Grímsvötnum í Vatnajökli - gosið var frekar máttlítið og stóð aðeins ekki lengi
1994 R-listinn vinnur kosningasigur í borgarstjórnarkosningum - listinn hefur setið við völd síðan
1999 Þriðja ríkisstjórnin undir forsæti Davíðs Oddssonar tekur við völdum - hún sat til ársins 2003

Saga dagsins
1886 Lyfjafræðingurinn John Pemberton kynnir fyrsta sinni nýjan svaladrykk að nafni Coca Cola sem slær í gegn í fyllingu tímans. Coca Cola varð vinsælasti gosdrykkur sögunnar og alþjóðlegt tískutákn
1917 John F. Kennedy 35. forseti Bandaríkjanna, fæðist í Brookline - Kennedy var kjörinn forseti árið 1960 og sat í embætti allt til dauðadags, þann 22. nóvember 1963, er hann féll í Dallas í Texas fyrir byssukúlum tilræðismanns. Morðið á Kennedy forseta er ráðgáta og hefur aldrei verið upplýst
1947 Flugvél er var á leið frá Reykjavík til Akureyrar ferst við Hestfjall í Héðinsfirði - 25 manns fórust, þ.á.m. Garðar Þorsteinsson alþingismaður. Um er að ræða mannskæðasta flugslys Íslandssögunnar
1953 Edmund Hillary og Tenzing Norgay ná fyrstir manna á tind hins 8.847 m. fjalls, Mount Everest
1999 Selma Björnsdóttir varð í öðru sæti í Eurovision söngvakeppninni með lag sitt All Out of Luck - lagið hlaut 146 stig, 17 stigum færra en framlag Svía. Er besti árangur Íslands í keppninni til þessa

Snjallyrðið
There is nothing on this earth more to be prized than true friendship.
Thomas Aquinas heimspekingur (1225-1274)

27 maí 2005

Jacques ChiracHeitast í umræðunni
Frakkar ganga að kjörborðinu á sunnudag og kjósa um stjórnarskrá Evrópusambandsins. Í gær gerði Jacques Chirac forseti Frakklands, úrslitatilraun til að sannfæra kjósendur um að samþykkja stjórnarskrána í ávarpi til þjóðarinnar frá forsetabústaðnum í Elysée-höll á besta sjónvarpstíma. Ef marka má skoðanakannanir í dag hefur ávarp forsetans lítil áhrif á kjósendur. Fjölda óákveðinna kjósenda hefur fækkað til muna seinustu dagana eftir því sem kosningabarátta já og nei-sinna í baráttunni hefur verið að ná hámarki. Flest bendir til þess nú að Frakkar muni hafna stjórnarskránni. Um tíma var munurinn mikill andstæðingum stjórnarskrárinnar í vil en svo náðu stuðningsmenn hennar forskoti um stundarsakir. Það hefur nú snúist við í seinustu skoðanakönnunum - í könnun t.d. Le Figaro í dag eru 45% Frakka hlynnt stjórnarskránni en 55% eru henni andvígir. Tap já-sinna virðist því vera handan við hornið.

Seinustu daga hafa allar kannanir ólíkra fjölmiðla verið að segja sömu söguna - stjórnarskránni verði hafnað og það jafnvel með nokkrum mun. Annars ber að taka könnunum með vara. Til dæmis spáðu flestir því árið 1992 að Maastricht-sáttmálinn yrði samþykktur með nokkrum mun en er á hólminn kom stóð hann mjög tæpt. Það munaði aðeins prósentustigi að Frakkar hefðu fellt hann og sett það ferli allt út af sporinu. Þá barðist forveri Chirac á forsetastóli, François Mitterrand, mjög fyrir Maastricht og náði með miklu harðfylgi að halda velli í málinu. En þrátt fyrir það veðja flestir nú á tap stjórnarskrársinna, sem muni leiða til pólitískrar uppstokkunar án vafa í Frakklandi. Tap á sunnudag yrði verulegt pólitískt áfall fyrir Chirac forseta, sem hefur barist af krafti fyrir málinu og lagt mikið í sölurnar. Hann hefur þó lagt mikla áherslu á að hann muni ekki segja af sér embætti, þó stjórnarskráin yrði felld í kosningunum. Fullyrða má að tapi hann verði hann lamaður í embætti verulega fram að bæði næstu þing- og forsetakosningum í landinu.

Ljóst er að stjórnarskráin stendur víðar veikt að velli. Framundan er svo næst kosning í næsta mánuði í Hollandi um hana. Við blasir að hún verði þar felld. Allar kannanir þar gera ráð fyrir að rúm 60% landsmanna muni hafna henni. Það stefnir því í mjög eindregna útkomu úr kosningunni þar. Frakkar og Hollendingar eru tvær af sex stofnþjóðum Efnahagsbandalags Evrópu, sem er forveri Evrópubandalagsins, sem varð að Evrópusambandinu árið 1994. Það er algjörlega ljóst að hafni þessar tvær þjóðir stjórnarskránni er stjórnarskráin ekkert nema pappírssnepill og einskis virði. Án samþykkis þessara tveggja landa tekur við flókið og erfitt ferli fyrir ESB að vinna og ekki síður pólitísk kreppa heima fyrir hjá ráðandi öflum. Eins og fyrr segir á Chirac mikið undir því hvort stjórnarskráin verði felld eður ei. Er það talið hafa úrslitaáhrif á um það hvort hann fari fram í forsetakosningunum eftir tvö ár, en hann hefur ekki enn viljað loka á þann möguleika. Þó er talið öruggt að tapist kosningarnar á sunnudag neyðist Jean-Pierre Raffarin forsætisráðherra, til að segja af sér, en hann hefur verið í því embætti frá árinu 2002. En nú er kosningabaráttunni lokið og málið í höndum Frakka. Verður fróðlegt að sjá hver niðurstaðan verði. Hver sem niðurstaðan verður mun hún hafa veruleg áhrif á því hvernig frönsk stjórnmál spilast á næstunni og hafa lykiláhrif á forsetaferil Chiracs.

Betri borg!Í dag er ár til sveitarstjórnarkosninga. Framundan er því ár framboðspælinga og kosningabaráttu - mikill vinnuvetur fyrir þá sem ætla að taka þátt í kosningaslagnum. Nú hafa sjálfstæðismenn í Reykjavík hafið kosningabaráttu sína af miklum krafti, enda mikilvægt að flokkurinn þar sæki fram af krafti og nái völdum að ári. Kynntu þeir á blaðamannafundi í gær framsækna og spennandi hugmynd í skipulagsmálum. Í glæsilegri og líflegri framsetningu leggja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að byggð verði ný hverfi á eyjunum við borgina: í Akurey, Engey og Örfirisey auk Geldinganess. Ennfremur vilja sjálfstæðismenn að til komi lítil og lágreist, vistvæn íbúðabyggð, í Viðey. Gera tillögurnar ráð fyrir því að eyjarnar muni verða tengdar með bæði jarðgöngum og brúm.

Þessar hugmyndir sjálfstæðismanna eru mjög í takt við athyglisverða hugmynd Hrafns Gunnlaugssonar, sem hann setti fram um byggð á eyjunum í heimildarmynd sinni, Reykjavík í nýju ljósi, árið 2001. Þar kynnti hann þetta ásamt fleiri framsæknum hugmyndum. Hrafn vakti mikla athygli þá með hugmyndum og hreyfði við mörgum og gerði hið besta í stöðunni, kom af stað líflegri umræðu um skipulagsmál í borginni. Segja má að lykilspurningin sem Hrafn kom með þá hafi verið hvort það sé rétt stefna að því að byggja upp í sveit endalaust og dreifa byggðinni í allar áttir, þegar nægt byggingarland blasir við t.d. á eyjunum við borgina. Þar eiga sóknarfærin að vera - það á að vera vinnuplanið. Lýsti ég mig sammála mati Hrafns í grein sem ég ritaði fyrir fjórum árum er myndin var gerð. Mun ég bráðlega setja þá grein á netið og gera hana aðgengilega, svo fólk geti kynnt sér skoðun mína á því þá. Það er við hæfi í ljósi þess að hugmyndin hefur nú að nýju öðlast líf. Hef ég lengi verið talsmaður þess að byggt verði á þessum eyjum, sérstaklega þá auðvitað Geldinganesinu, sem hefur auðvitað lengi verið baráttumál okkar sjálfstæðismanna í borgarmálunum.

Það er gott hjá sjálfstæðismönnum að opna umræðuna af krafti og koma með markvisst innlegg í þessa átt. Hið besta er einmitt að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík lætur ekki hér við sitja og ætlar að vinna málið áfram af miklum krafti. Borgarstjórnarflokkurinn ætlar að gefa íbúum kost á að hafa áhrif á þessar hugmyndir með því að efna til íbúaþings í júní, funda í öllum hverfum borgarinnar og opna hugmyndabanka um skipulagsmál á vef sínum. Eftir stendur þó í annars spennandi og markvissum tillögum eitt stórt og mikið gap í skipulagsmálum borgarinnar. Það er auðvitað Vatnsmýrin, vettvangur innanlandsflugsins, meginátapunktur væntanlegra borgarstjórnarkosninga í skipulagsmálum að mínu mati. Það er mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn tjái stefnu sína af krafti í þeim málum. Eins og flestir vita (og ég lýsti í ítarlegum pistli þann 22. apríl sl.) vil ég að áfram verði flugvöllur innan borgarmarkanna. Ef fórna á Vatnsmýrarsvæðinu verða Reykvíkingar að standa undir hlutverki sínu og tryggja grundvöll innanlandsflugsins áfram á öðrum stað innan borgarmarkanna. Það er algjörlega einfalt í mínum huga.

Punktar dagsins
John Bolton

Allt frá því að George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilkynnti um útnefningu John Bolton aðstoðarutanríkisráðherra á sviði vopnaeftirlits, í embætti sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, á blaðamannafundi þann 7. mars sl. hefur verið tekist á af krafti um þá skipan mála. Hefur ferlið sífellt þyngst eftir því sem liðið hefur á. Deilt hefur verið um fortíð Bolton og orð hans og gjörðir á ýmsum sviðum. Dregin hefur verið upp dökk mynd af honum og á það minnt að hann hafi til fjölda ára bæði verið andvígur Sameinuðu þjóðunum og starfi þeirra. Það sem í upphafi byrjaði sem smávægileg gagnrýni hefur aukist jafnt og þétt. Öldungadeild Bandaríkjaþings verður að staðfesta skipan forsetans á Bolton í embættið og það stefnir í að það verði krappur dans að ná því í gegn. Svo gæti jafnvel farið að hann hljóti ekki náð fyrir augum þingmeirihlutans. Virðast repúblikanar ekki vera heilir í stuðningi við hann. Það sást best þann 12. maí þegar utanríkismálanefnd þingsins vísaði tilnefningu Boltons til öldungadeildarinnar án þess að mæla með honum. Þrátt fyrir að repúblikanar hafi afgerandi meirihluta í deildinni, 55 sæti á móti 45, er alls óvíst að hann fái samþykki. Vaxandi þrýstingur er nú á Bush að draga tilnefninguna til baka. Væntanlega verður kosið um Bolton í næstu viku og mun þá koma í ljós hvort skipan verði staðfest eða hafnað hreinlega.

Angela Merkel

Þingkosningar verða í Þýskalandi í september. Öflug kosningabarátta er því framundan þar. Í ítarlegum pistli mínum í dag á íhald.is fjalla ég um þýsk stjórnmál. Kosningarnar munu fara fram ári áður en kjörtímabil ríkisstjórnar Jafnaðarmannaflokksins og græningja átti að ljúka. Er Gerhard Schröder kanslari, tilneyddur til að rjúfa þing og boða kosningar eftir sögulegan ósigur jafnaðarmanna í sambandsþingkosningunum í Nordrhein-Westfalen um helgina. Með tapinu þar lauk fjögurra áratuga samfelldri valdasetu jafnaðarmanna í héraðinu. Ósigurinn þar var gríðarlegt pólitískt áfall fyrir Schröder. Eru fáir kostir góðir í stöðunni fyrir hann og hið eina rökrétta fyrir hann í stöðunni að leita til þjóðarinnar og biðja aftur um umboð landsmanna til pólitískrar forystu. Í kosningunum mun hann væntanlega mæta Angelu Merkel leiðtoga CDU. Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í henni og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum. Merkel er töffari í þýskri pólitík og hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu í stjórnarandstöðu. Hún hefur verið áberandi í stjórnmálum allt frá níunda áratugnum og þykir vera pólitísk fósturdóttir Helmut Kohl. Hún er fimmtug, tvífráskilin og barnlaus og því týpa framakonunnar. En ég fer nánar yfir þessi mál í pistlinum og hvet fólk til að lesa hann.

Hillary Rodham Clinton og Ariel Sharon

Hillary Rodham Clinton öldungadeildarþingmaður, hefur nú hafið formlega kosningabaráttu sína fyrir endurkjöri í þingkosningunum í New York. Munu kosningarnar fara fram í nóvembermánuði 2006. Hefur Clinton setið á þingi frá sigri sínum á repúblikanum Rick Lazio í nóvember 2000. Tók hún við þingsætinu af Daniel Patrick Moynihan í janúar 2001. New York hefur jafnan verið mjög traust vígi demókrata hvað varðar þingkosningarnar. Öðru hefur gilt með ríkisstjórastólinn þar og borgarstjórastólinn í borginni. Nú hafa repúblikanar þau sæti bæði en demókratar bæði öldungadeildarsæti borgarinnar. Ef marka má nýjar skoðanakannanir í New York er Hillary ekki eins sterk og var á miðju kjörtímabilinu, er hún mældist með allt að 70% fylgi. Er hún með rúm 50% í nýrri könnun. Sóknarfæri repúblikana eru því til staðar fái þeir réttan og öflugan frambjóðanda. Nú hefur lögfræðingurinn Edward Cox tilkynnt framboð sitt þar fyrir repúblikana. Ekki eru margir sem kannast við nafnið, en Cox er þó vel tengdur inn í pólitík. Hann er eiginmaður Triciu Nixon Cox, dóttur Richard Nixon fyrrum forseta Bandaríkjanna. Er ekki vitað mikið um möguleika hans, en hann á án vafa mjög traustan grunnstuðning til framboðs. Er ljóst að Hillary mun leggja allt í sölurnar til að vinna kosningarnar í New York, enda er sigur þar algjör forsenda þess að hún geti boðið sig fram í forsetakjöri að þrem árum liðnum.

Hemmi Gunn

Hemmi Gunn hefur aldeilis hitt í mark með þætti sínum Það var lagið. Endurkoma Hemma á sjónvarpsskjáinn hefur vakið mikla athygli. Þjóðin virðist skemmta sér konunglega ef marka má nýjustu áhorfskannanir. Þættirnir hafa verið vel heppnaðir. Það er greinilega mikill áhugi á svona tónlistargetraunaþætti. Það sem er þó best að þetta sameinar þjóðina við tækin. Fólk sest saman fyrir skjáinn, syngur saman og á góða stund. Þetta er þéttur og góður pakki. Hemmi er konungur skemmtunar í sjónvarpi seinustu áratugina og ánægjuefni að hann sé kominn á skjáinn á ný. Allavega eru þetta skemmtileg föstudagskvöld með Hemma Gunn.

Saga dagsins
1883 Alexander III krýndur keisari Rússlands - Alexander sat á valdastóli allt til dánardags árið 1894. Sonur hans, Nikulás (er tók við völdum af honum) og fjölskylda hans voru drepin í byltingunni 1917
1937 Golden Gate-brúin í San Francisco vígð - brúin hefur alla tíð verið helsta tákn San Francisco
1964 Jawaharlal Nehru fyrsti forsætisráðherra Indlands, lést í Nýju Delhi, 74 ára að aldri - hafði verið forsætisráðherra frá stofnun Indlands 1948. Dóttir hans, Indira Gandhi, og dóttursonur, Rajiv Gandhi, urðu bæði forsætisráðherrar Indlands. Indira og Rajiv féllu bæði fyrir morðingjahendi
1983 Hús verslunarinnar formlega vígt - reist til að efla íslenska verslun og einingu samtaka þeirra
1999 Slobodan Milosevic þáv. forseti Serbíu, og fleiri leiðtogar landsins ákærðir fyrir stríðsglæpi í Haag - Milosevic missti völdin árið 2001 og var svo framseldur til Haag og bíður dóms fyrir glæpi sína

Snjallyrðið
Whatever else history may say about me when I'm gone, I hope it will record that I appealed to your best hopes, not your worst fears; to your confidence rather than your doubts. My dream is that you will travel the road ahead with liberty's lamp guiding your steps and opportunity's arm steadying your way.
Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna (1911-2004)

26 maí 2005

AkureyriHeitast í umræðunni
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, kynnti þann 10. maí sl. hugmyndir sínar um að efla löggæsluna almennt hér í bænum. Gerðu tillögur hans ráð fyrir því að lögreglumönnum á Akureyri yrði fjölgað um fjóra. Jafnframt var gert ráð fyrir því að samhliða þessu myndu fjórir sérsveitarmenn í lögregluliðinu verða leystir undan föstum vöktum. Með þessu var löggæsla hér á Akureyri og Norðausturlandi öllu efld til muna. Samhliða þessari ákvörðun var tilkynnt að athafnasvæði sérsveitarmannanna myndi ekki verða bundið við umdæmi sýslumannsins á Akureyri. Þetta er mjög jákvætt og gott skref óneitanlega sem stigið var með þessu. Skrautlegt hefur þó verið að fylgjast með því í skrifum Samfylkingarmanna hér á Akureyri að þar sé reynt að þakka Láru Stefánsdóttur varaþingmanni, þessa ákvörðun ráðherra.

Það er nú bara svo að dómsmálaráðherra er með þessu að framkvæma áætlun frá því um áramót 2003/2004 um stækkun sérsveitarinnar með því að fjölga lögreglumönnum hér á Akureyri um 4 og losa þannig um sérsveitarmennina. Það tengist auðvitað ekki fyrirspurn Láru á þingi á þessu ári. Ekki koma þessi vinnubrögð Samfylkingarinnar svosem á óvart, en eru óneitanlega allsérstök svo ekki sé nú meira sagt. Muna lesendur annars ekki hvernig Samfylkingin kom fram við dómsmálaráðherra í þinginu á sínum tíma þegar rætt var um málefni sérsveitarinnar? Þessi málatilbúnaður Samfylkingarinnar er einfaldlega til marks um, að flokkurinn er alltaf að reyna að eigna sér verk annarra - verk, sem varaþingmaðurinn og flokkurinn var á móti á sínum tíma. Ekki er það svosem neitt nýtt eða tíðindi í sjálfu sér, en það er orðið óþolandi að fylgjast með þessari tækifærismennsku Samfylkingarinnar.

Fyrir þá sem ekki muna eftir umræðunum á þingi í mars 2004 er rétt að rifja málið eilítið upp. Í sunnudagspistli mínum þann 7. mars 2004 fór ég yfir það sem gerst hafði í málefnum sérsveitarinnar og umræðunni um málið. Björn hafði kynnt hugmyndir um eflingu hennar og lögreglunnar almennt í marsbyrjun, í vikunni áður en pistillinn var ritaður. Þá var grunnur þessa máls kynntur og þær hugmyndir til eflingar sérsveitinni sem hefur svo verið unnið eftir alla tíð síðan. Sjálfur hafði Björn farið yfir málefni sérsveitarinnar í ítarlegum pistli á vef sínum þann 6. mars 2004. Þessi umræða var mjög beinskeytt og barst inn í sali þingsins. Þar var fremstur í flokki gagnrýnenda tillagna Björns um styrkingu sérsveitarinnar og löggæslunnar, þingmaðurinn Helgi Hjörvar. Réðst Helgi að ráðherranum með skætingi og útúrsnúningum. Sakaði hann Björn um að með tillögum sínum væri hann að vinna að gömlu gæluverkefni og bernskudraumi um her í landinu. Þeir sem vilja kynnast málinu betur geta lesið pistla okkar Björns frá þessum tíma. Samfylkingarmenn hér í bænum geta þá vonandi kynnt sér vinnubrögð Helga betur og skrifað um þau, en því sem hann var að berjast gegn á þingi í mars 2004 var unnið eftir þegar menn voru að styrkja lögregluna hér í bænum.

UmferðEins og fram kom í bloggfærslu minni þann 13. apríl sl. tel ég að Umferðarstofu hafi brugðist hrikalega bogalistin seinustu vikur í framsetningu í auglýsingum. Mér hefur blöskrað nýlegar auglýsingaherferðir Umferðarstofu, það er alveg einfalt mál og lái mér hver sem vill. Þær skjóta hátt í efnistökum en það er skotið svo langt yfir markið að vart hefur sést annað eins lengi. Birst hafa auglýsingar sem eru Umferðarstofu til skammar. Sérstaklega ein þeirra sem sýndi barn detta fram af svölum. Sjálfsagt var vissulega að fá fram umræðu og vekja fólk til lífs um þessi mál og tryggja umferðaröryggi. En þarna er alltof langt gengið. Verst fannst mér að sjá börn notuð í þessu skyni með þessum grófa hætti þar sem farið er langt yfir strikið. Er það ekki Umferðarstofu til framdráttar að auglýsa með þessum hætti og taldi ég að þessi lágkúrulega framsetning myndi fá menn á þeim bænum til að hugsa sinn gang. Það kemur varla að óvörum að Samkeppnisráð hefur nú ákveðið að banna þessar umdeildu auglýsingar.

Þetta verður Umferðarstofu vonandi væn lexía. Reyndar tel ég þá hafa unnið mikinn skaða með nýjustu auglýsingaherferðum sínum og hafa slegið rangar nótur í annars mikilvæga baráttu. Lengi hef ég verið mikill talsmaður þess að hafa öfluga umfjöllun um umferðarmál og minna fólk sífellt á mikilvægi þess að keyra varlega og varast slys. Umferðarslys eru sorgleg og tíðni þeirra hérlendis er alltof mikil. Umferðarslys breyta lífi fólks að eilífu. Ekkert verður samt eftir þau. Þeir vita það best sem misst hafa náinn ættingja eða vin í slíku slysi hversu þung byrði það er að lifa eftir þau sorglegu umskipti og sárin sem fylgja slíku dauðsfalli gróa seint eða aldrei. Síðustu ár hafa Umferðarráð og síðar Umferðarstofa staðið sig vel í að tjá sig um þessi mál og koma boðskapnum sem einfaldast og best til skila. En menn verða að halda sig á vissum grunni, það er alveg einfalt. Sérstaklega fannst mér þeim takast að feta réttu brautina í auglýsingaherferð á síðasta ári þar sem hljómaði tónverk Jóns Ásgeirssonar við Vísur Vatnsenda Rósu og á meðan voru sýndar myndir af vegum og myndir látinna kristölluðust þar. Það er dæmi um auglýsingaherferð sem heppnast, látlaus en þó áhrifamikil og kemur mikilvægum boðskap til skila.

Nú seinustu vikur hefur birst okkur nýjasta herferð Umferðarstofu þar sem smákrakkar á leikskóla ausa út úr sér fúkyrðunum og sjást svo í lokin fara heim með foreldrunum sem ausa þar fúkyrðum yfir næsta ökumann. Þessar auglýsingar missa marks og eru ekki til neins. Nema þá að Umferðarstofa sé orðin að málverndarráði allt í einu! Umferðarstofa á að beita sér fyrir auglýsingum í takt við það sem hefur birst seinustu árin, mun frekar en feta sig á þessa braut. Mega auglýsingar um stórmál sem þarf að vekja fólk til umhugsunar um ekki ganga of langt og þurfa aðilar að passa sig, enda auðvelt að feta sig út af brautinni og misstíga sig hrapalega. Til Umferðarstofu eru skilaboðin frá mér einföld: það þarf ekki að skjóta hátt til að hitta í mark. Einfaldur og beinskeyttur boðskapur með mannlegu yfirbragði virkar best. Einfalt mál! Bestar af auglýsingum Umferðarstofu að undanförnu eru sérstaklega tvær einfaldar auglýsingar en mjög einbeittar í tjáningu án ofsa eða hvassleika. Um er að ræða auglýsingar sem bera heitið Dáinn og Hægðu á þér.

Punktar dagsins
Carrie Underwood - poppstjarna Bandaríkjanna 2005

Carrie Underwood fór með sigur af hólmi í bandarísku stjörnuleitinni og var því kjörin poppstjarna Bandaríkjanna árið 2005. Carrie er 22 ára gömul og kemur frá smábænum Checotah í Oklahoma. Hún bar sigurorð af keppinaut sínum í úrslitaþættinum, Bo Bice, en hann er 29 ára gamall frá bænum Huntsville í Alabama. Carrie er sveitasöngkona en Bo er eldheitur rokkari. Sigur Carrie var ágætlega afgerandi, hún hlaut um 6% fleiri atkvæði en Bo. Tæp 70 milljón manns greiddi atkvæði í símakosningunni, fleiri en nokkru sinni fyrr. Fyrirfram þóttu bæði standa mjög sterkt að vígi og eiga góðar sigurlíkur. Bæði höfðu þau vaxið mjög sem söngvarar í gegnum ferli keppninnar seinasta hálfa árið og hefur verið fróðlegt að fylgjast með þeim á seinustu mánuðum. Það er enginn vafi á því að þátttaka í svona keppni jafnast á við margra ára söngnám og þjálfun í sviðsframkomu. Fyrir sigur í keppninni fær Carrie plötusamning, líkt og fyrri sigurvegarar keppninnar, þau Kelly Clarkson, Ruben Studdard og Fantasia Barrino. Fyrsta smáskífa hennar verður með laginu Inside Your Heaven, sem samið var sérstaklega fyrir sigurvegara keppninnar, en báðir keppendur sungu í úrslitaþættinum. Carrie hefur sagst ætla að helga sig country-tónlistinni, þar séu rætur hennar og uppruni sem söngkonu og hún verði trú því. Verður fróðlegt að fylgjast með hvernig henni og Bo gangi á tónlistarbrautinni eftir keppnina.

Liverpool fagnar titlinum í Istanbul

Liverpool varð í gærkvöldi Evrópumeistari í knattspyrnu með sigri á AC Milan í lstanbul - í leik sem lengi verður í minnum hafður. Óhætt er að segja að sigur Liverpool í Meistaradeild Evrópu fari á spjöld sögunnar, enda einstakt að lið nái að vinna sig upp úr stöðunni 3-0 í hálfleik og vinna. Þetta er í ellefta skipti sem breskt lið vinnur titilinn, hið fimmta sem Liverpool vinnur hann. Leikurinn var vægast sagt mögnuð skemmtun og algjört augnakonfekt. AC Milan komst í 3-0 strax í fyrri hálfleik og benti þá flest til þess að þeir myndu hljóta titilinn. Liverpool var enda arfaslakt í fyrri hálfleik. Þeir komu sterkir til leiks í seinni hálfleik og náðu tökum á leiknum. Á rúmlega sex mínútum og frábærum kafla í leiknum náðu þeir að jafna leikinn. Því var auðvitað gripið til framlengingar. Ekkert mark var skorað en Dudek markmaður Liverpool varði tvö skot AC Milan-manna og var bjargvættur Liverpool. Vítaspyrnukeppni tók svo við eftir framlenginguna. Enn og aftur kom þar Dudek til bjargar og varði tvö víti. Enginn vafi að Dudek sé sá sem hafi tryggt liðinu þennan titil. Sú undarlega staða er uppi að Liverpool getur ekki varið titilinn að ári. Þeir urðu fimmtu í deildinni heima og fá því ekki sæti. Óneitanlega súr niðurstaða og skyggir á glæsilegan árangur liðsins í gærkvöldi. Allavega er hægt að segja að Liverpool hafi sannað kraft sinn, svo um munar.

Ismail Merchant

Indverski kvikmyndagerðarmaðurinn Ismail Merchant lést í gær, 68 ára að aldri. Merchant var einn af öflugustu kvikmyndagerðarmönnum Breta á 20. öld og stóð að mörgum helstu lykilmyndum Breta seinustu áratugina. Hann vann að mörgum þeirra helstu með Bandaríkjamanninum James Ivory. Óhætt er að fullyrða að samstarf þeirra hafi fætt af sér marga af helstu gullmolum kvikmyndagerðar seinustu áratuga. Samstarf þeirra tvímenninga við handritshöfundinn Ruth Prawer Jhabvala var mjög farsælt og hlutu þau saman fjölda verðlauna fyrir glæsilegar kvikmyndir á áttunda og níunda áratugnum. Ég hef alla tíð verið mikill aðdáandi verka Merchant. Hann hafði til að bera það sem þurfti til að skapa ógleymanleg meistaraverk að mínu mati: það var allt í senn næmt auga fyrir útliti kvikmyndar og listrænni tjáningu. Verk hans og Ivory urðu að algjöru augnakonfekti. Merchant/Ivory er án vafa eitt af betri tvíeykjum kvikmyndasögunnar og eftir standa stórbrotin meistaraverk á borð við The Remains of the Day, Howards End og A Room with a View. Þessar myndir voru aðeins toppurinn á glæsilegum samstarfsferli þeirra. Nú þegar Merchant hefur kvatt þennan heim verður okkar hugsað til verka þeirra félaga, sem höfðu áhrif á kvikmyndagerð og það hvernig við metum þessa miklu list.

Steingeitin

Fékk í gær að gjöf kort með upplýsingum um stjörnumerki mitt, steingeitina. Ég á afmæli 22. desember, en tímabil merkisins er 22. desember til 19. janúar. Á kortinu stendur eftirfarandi (hvort þetta sé lýsing á mér er spurning, en óneitanlega er margt þarna sem vinir mínir eflaust heimfæra á undirritaðan): "Steingeitin er alvarlegasta stjörnumerkið og oft er sagt að hún fæðist gömul og verði yngri eftir því sem árin færist yfir. Steingeitin er mjög skipulögð og vanaföst. Steingeitin vill hafa lífið í föstum en þó markvissum skorðum. Steingeitin er haldin fullkomnunaráráttu og óttast fátt meira en að missa sjálfsstjórn og þar með tök á tilverunni. Hún verður mjög óörugg ef hún hefur ekki gamalgrónar reglur og hefðir til að styðjast við og ef þær eru ekki til staðar er hún fljót að búa til reglur sjálf. Steingeiturnar eru jafnan mjög athugular, fróðastar allra, skynsamar og metnaðargjarnar og dæmigerðar geitur vita allra merkja fyrst hvað þær ætla sér í lífinu. Steingeitin er tilfinningavera en á erfitt með að vinna úr flækjum og innri áföllum. Mikilvægt er að kenna steingeitinni að tjá tilfinningar sínar, slaka á og sjá bjartari hliðar tilverunnar. Einn helsti kostur steingeitarinnar er litrík kaldhæðni." Jahérna hér, segi ég nú bara. :)

Saga dagsins
1056 Fyrsti íslenski biskupinn, Ísleifur Gissurarson, hlaut vígslu til embættis biskups að Skálholti
1845 Jónas Hallgrímsson ljóðskáld og náttúrufræðingur, deyr í Kaupmannahöfn, 37 ára að aldri - Jónas var ennfremur einn af brautryðjendum rómantísku stefnunnar á Íslandi með smásagnaritun í blaðinu Fjölni. Jarðneskar leifar Jónasar voru fluttar heim á árinu 1946 og jarðsettar að Þingvöllum
1968 Hægri umferð formlega tekin upp á Íslandi - vinstri umferð hafði áður verið í tæpa sex áratugi
1983 Fyrsta ríkisstjórn undir forsæti Steingríms Hermannssonar tekur við völdum - hún sat til 1987
2002 Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segist eftir þriðja kosningasigur R-lista ekki stefna á þingframboð í alþingiskosningunum 2003 - ákvað þó þingframboð síðar sama ár og varð að segja af sér í kjölfarið

Fræg yfirlýsing ISG um að hún ætli ekki í þingframboð 2003 - 26. maí 2002

Snjallyrðið
Remember, always give your best. Never get discouraged. Never be petty. Always remember, others may hate you. But those who hate you don't win unless you hate them. And then you destroy yourself.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna (1913-1994)

25 maí 2005

Ráðhús ReykjavíkurHeitast í umræðunni
Allt virðist loga í illdeilum innan R-listans. Er þetta sífellt að verða algengara og hversdagslegra að þar sé allt á kafi í innri valdaerjum og deilum um meginatriði í málefnum borgarinnar. Þessar vikurnar eiga sér stað samningaviðræður um áframhaldandi samstarf Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs eftir að þessu kjörtímabili lýkur. Eftir þrjá borgarstjóra á jafnmörgum árum er R-listinn óneitanlega orðinn frekar tuskulegur og stendur mun veikar að velli en oft áður. Ekkert sameiningartákn er meginpunktur listans eins og var lengi vel. Þegar að formaður Samfylkingarinnar var borgarstjóri var henni stillt upp án prófkjörs í áttunda sætið, meira að segja þrátt fyrir prófkjör R-listaflokkanna 1998. Hún stóð einfaldlega til hliðar og þurfti ekkert að leggja á sig að fara í slíkt. Enda hverjum ætli hefði dottið í hug að borgarstjórinn þeirra þyrfti að fara í prófkjör. Hún var auðvitað undanþegin því, meðan frambjóðendurnir urðu að fara í slíkt. Þetta er auðvitað alveg kostulegt.

Ég tel að R-listinn hafi í raun dáið í þeirri mynd sem við höfum þekkt hann í valdatíð hans fyrir hálfu þriðja ári þegar að formaður Samfylkingarinnar hrökklaðist frá borgarstjóraembætti vegna trúnaðarbrests við samstarfsfólk sitt. Síðan hafa menn samið um tímabundnar ráðstafanir til að klára kjörtímabilið. Eftirmaðurinn varð að segja af sér vegna hneykslismála og nýji borgarstjórinn, sá þriðji á innan við þrem árum, var valin vegna þess að hún var lægsti samnefnari hópsins. En nú er R-listinn að því er virðist endanlega vera að fuðra upp í innri hnútuköstum og leiðindum þessa dagana. Svo virðist vera þessa dagana í samningaviðræðunum að helst muni bera á milli vegna skiptinga á sætum á lista, ekki eru það málefnin. En það sem er að gerast innan R-listans núna segir allt um stöðu mála á því heimili. Þetta er eins og að horfa á hjónaband sigla í þrot. Og þessa dagana erum við að horfa framan í nýjustu erfiðleikana á þessu vandræðaheimili borgarstjórnarmeirihlutans. Annars er R-listinn með blæ hjónabands sem hefur þjónað tilgangi sínum. Það vill þó enginn flytja út eins og við segjum og hjónin dankast saman þetta af gömlum vana. Og hvað annað en orkumálin, sem er klassískt deilumál innbyrðis í R-listanum, er það sem nú ber á milli flokkanna.

Afturhald alls íslensks afturhalds, VG, hefur nú ákveðið að vera andsnúin á vettvangi borgarkerfisins, innan borgarstjórnar og stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, raforkusölu til stóriðju. Það er því ljóst að borgarstjórnarmeirihlutinn í heild er ekki sá bógur að standa við fyrri áform í þá átt að OR selji álveri í Helguvík raforku. Í fréttatíma í gærkvöldi lét Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi, að því liggja að afstaða VG skipti ekki máli í raun því að þá myndi bara koma til meirihluti með Sjálfstæðisflokknum innan stjórnar Orkuveitunnar, því að þeir styðji eflaust slíka ákvörðun. Þessi ummæli Alfreðs hleyptu mjög illu blóði í vinstri græna og þeir sendu frá sér ályktun í morgun þar sem þeir fara yfir málið. Telja þeir að afstaða Alfreðs sé ekki til annars fallin en að spilla viðræðum um framtíð R-listans og setja framtíð samstarfsins í uppnám. Segja þau ummæli Alfreðs hótanir um að slíta meirihlutanum og stofna nýjan. Hann geri lítið semsagt úr þeirra skoðunum. Og hverju svarar Alfreð. Hann segir að fyrri orð standi og gerir lítið með tal VG. Með öðrum orðum: hann kemur bara og segir við VG: Fariði bara ef þið þorið! Einfalt mál. R-listinn sem verið hefur alla tíð samnefnari flokka og fólks um að halda sem lengst í völdin veikist sífellt.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherraÓhætt er að fullyrða að yfirlýsingar Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra, um orkumál vegna álvers hafi vakið ólgu á Suðurnesjum. Þar eru menn af miklum krafti rétt eins og við hér fyrir norðan að berjast fyrir stóriðju. Gott og vel, það er vart óeðlilegt að fólk vilji fá slíkan kost í sitt hérað og berjist fyrir því. Þeir eru greinilega ósáttir með það að ráðherra hafi allt að því lokað á þá og telja að hún sé að tala eingöngu fyrir hagsmunum síns kjördæmis, vinni semsagt á okkar kostnað gegn þeim. Ég verð nú að segja alveg eins og er að ég hef ekki séð forystu Valgerðar að neinu leyti í þessu máli. Ekki er hún að vinna að neinni ákveðinni staðsetningu hér eða beitir sér í einhverja ákveðna átt. Ég hef gagnrýnt framsetningu hennar við kannanir fyrr á þessu ári og ítreka það hér. Ég veit ekki alveg hvert Valgerður er að fara eða hvaðan hún þá er að koma.

Klárlega vill Valgerður álver í sitt kjördæmi, það dylst varla neinum. En ekki getur hún tekið af skarið. Það er jákvætt svosem að hún hafi fært það skref yfir til bæjarstjórans hér á Akureyri. Ekki kvarta ég yfir því. En Valgerður hefur greinilega með framgöngu sinni sært Suðurnesjamenn og greinilega þá einna helst framsóknarmenn á þeim slóðum. Ekki er Hjálmari Árnasyni þingmanni framsóknarmanna frá Keflavík, sama um hvernig flokkssystir hans heldur á málum. Hann er þó jafnan þekktur fyrir að vera úrræðagóður. Ekki get ég neitað því að ég hafi brosað út í eitt þegar ég heyrði af því í morgun að Hjálmar hefði fengið ráðherrann í óopinbera heimsókn til Keflavíkur og henni kynnt staða mála þar. Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ, fór með ráðherranum og Hjálmari í Helguvík og sýndi henni þar staðhætti og aðstæður. Óneitanlega skondið. En menn bregðast skjótt við og framsóknarmenn þar öðrum mönnum fremur við að reyna að hafa stjórn á orðum og framsetningu ráðherrans í þessu máli. Valgerður hefur greinilega sært flokksbræður sína á Suðurnesjunum og reynir nú að hafa þá góða og gerir svo lítið að ferðast til Helguvíkur til að heilla Hjálmar. Húmor, ekki satt?

Punktar dagsins
Stefán Friðrik StefánssonJóna Jónsdóttir

Aðalfundur Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, var haldinn í Kaupangi á Akureyri í gærkvöldi. Fundurinn fór mjög vel fram. Í upphafi fundar flutti ég skýrslu fráfarandi stjórnar. Þar fór yfir síðasta starfsár og þau verkefni sem blöstu við í upphafi nýs starfsárs. Að því loknu gerði Sindri Guðjónsson gjaldkeri, grein fyrir fjármálum félagsins. Á fundinum tók ný stjórn við félaginu. Ég gegni áfram formennsku í Verði næsta starfsárið. Með mér í stjórn munu sitja á næsta starfsári: Bergur Þorri Benjamínsson, Hanna Dögg Maronsdóttir, Henrik Cornelisson, Jóna Jónsdóttir, Sindri Alexandersson og Sindri Guðjónsson. Á fundinum var Jóna kjörin varaformaður, Bergur Þorri gjaldkeri og Sindri Guðjónsson ritari. Í varastjórn voru kjörnir: Atli Hafþórsson, Júlíus Kristjánsson og Sigurgeir Valsson. Á fundinum var formlega opnuð heimasíða félagsins. Netið hefur opnað mörg spennandi tækifæri til samskipta á milli fólks og þau geta skipt sköpum í harðri baráttu þar sem mikilvægt er að hrífa fólk með sér og setja fram stefnu sína og skoðanir á markvissan og öflugan hátt. Slík miðlun upplýsinga skiptir mjög miklu og skapar mörg sóknarfæri fyrir fólk að geta tjáð skoðanir sínar. Því er mikilvægt að þessi vefur okkar hefur nú opnað - góður vettvangur okkar í pólitískri baráttu.

Einar Kristinn Guðfinnsson

Einar Kristinn Guðfinnsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur opnað heimasíðu sína að nýju með nýju og glæsilegu útliti. Einar Kristinn hefur verið með vef á netinu í þrjú ár. Hann hefur verið þar með öflug skrif og tekið virkan þátt í að tjá sig á netinu. Þar heldur hann úti vönduðum og líflegum upplýsingavef um sig og störf sín. Í nýjasta pistli sínum á vefnum fjallar hann um landsfund Samfylkingarinnar og formannsskiptin í flokknum. Frábær skrif, sem vert er að mæla með. Þar segir hann orðrétt: "Landsfundurinn var flugeldasýning, sem við fylgdumst með af mis miklum áhuga. Nú er þeirri sýningu lokið. Þegar rýnt er í raunveruleikann blasir við mynd sem er öllu ókræsilegri. Flokkur sem er lemstraður af innanflokksátökum. Flokkur sem er með málefnalega veika stöðu. Og flokkur sem greinilega leggur áherslu á að tala sig út úr vandræðum sínum. Formaðurinn grípur síðan til gamalkunnugs ráðs. Reynir að bægja athyglinni frá vandræðunum með aumkunarverðu tali um klíkurnar í landinu. Sama tilbrigðið og reynt var í Borgarnesi forðum tíð með hörmulegum árangri. Og þetta leyfir sér að segja sá stjórnmálamaður, sem einmitt þessa dagana liggur undir harkalegu ámæli félaga sinna í R-listanum, fyrir klíkuskap og flokksvæðingu borgarkerfisins í Reykjavík."

Sjálfstæðisflokkurinn

Í dag eru 76 ár liðin frá stofnun Sjálfstæðisflokksins. 25. maí 1929 sameinuðust þingflokkar Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins í Sjálfstæðisflokkinn. Við stofnun voru tvö mál tilgreind sem aðalstefnumál Sjálfstæðisflokksins. Hið fyrra var að vinna að því og undirbúa, að Ísland myndi taka að fullu í sínar hendur eigin mál, samhliða því að 25 ára samningstímabili sambandslaganna væri á enda. Hið seinna var að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta að leiðarljósi. Með þessu voru markaðir tveir höfuðþættir sjálfstæðisstefnunnar: sjálfstæði þjóðarheildarinnar og sjálfstæði einstaklinganna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt frá upphafi staðið vörð um einkaframtakið og hefur frelsi einstaklingsins og ábyrgð í ríkisfjármálum verið einkunnarorð Sjálfstæðisflokksins. Forysta flokksins í landsmálum hefur verið traust og leitt til hagsældar og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum. Sjálfstæðisstefnan er nú rétt eins og 1929 sú stefna sem mun reynast íslensku þjóðinni farsælust. Er flokkurinn varð 75 ára fyrir ári ritaði ég ítarlegan pistil í tilefni þess sem ég minni á nú.

ESB

Frakkar ganga að kjörborðinu á sunnudag og kjósa um stjórnarskrá Evrópusambandsins. Flest bendir til þess nú að Frakkar muni hafna stjórnarskránni. Um tíma var munurinn mikill andstæðingum stjórnarskrárinnar í vil en svo náðu stuðningsmenn hennar forskoti um stundarsakir. Það hefur nú snúist við í seinustu skoðanakönnunum - í könnun Paris Match eru 46% Frakka hlynntir stjórnarskránni en 54% andvígir. Hefur forskot andstæðinganna stigvaxið seinustu vikuna. Ljóst er að andstæðingarnir séu með mikið forskot í Hollandi, en þar á að kjósa um stjórnarskrána í næsta mánuði. Frakkar og Hollendingar eru tvær af sex stofnþjóðum Efnahagsbandalags Evrópu, sem er forveri Evrópubandalagsins, sem varð að Evrópusambandinu árið 1994. Það er algjörlega ljóst að hafni þessar tvær þjóðir stjórnarskránni er stjórnarskráin ekkert nema pappírssnepill og einskis virði. Verður fróðlegt að sjá hvað Frakkar gera á sunnudag og Hollendingar í framhaldi af því. Á þessari stundu stefnir flest í sigra andstæðinga stjórnarskrárinnar. Slík niðurstaða hefði gríðarleg áhrif og myndi auðvitað ganga frá þeirri stjórnarskrá sem er verið að kjósa um.

Í dag birtist á Íslendingi pistill eftir mig og vin minn, Berg Þorra Benjamínsson gjaldkera Varðar, um aðgengismál fatlaðra. Þótti okkur félögum rétt að fjalla um þessi mál og vekja á þeim athygli.

Saga dagsins
1787 Stjórnarskrárráðstefna haldin í Philadelphiu í Bandaríkjunum - undirbúningur að stjórnarskrá
1929 Sjálfstæðisflokkurinn stofnaður - þá sameinuðust Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn
1958 Steinn Steinarr, er var eitt merkasta ljóðskáld 20. aldarinnar, deyr í Reykjavík, 49 ára að aldri
1961 John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, kynnir stórhuga geimferðaráætlun ríkisstjórnar sinnar
1997 Strom Thurmond verður sá þingmaður Bandaríkjanna sem lengst hefur setið, þá alls í 47 ár og 10 mánuði - Thurmond sat á þingi til janúarmánaðar 2003. Hann lést í júní 2003, var þá aldargamall

Snjallyrðið
The best preparation for good work tomorrow is to do good work today.
Elbert Hubbard rithöfundur (1859-1915)

24 maí 2005

Björn Bjarnason dómsmálaráðherraBjörn sigrar í frelsisdeildinni
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, sigraði í frelsisdeild Sambands ungra sjálfstæðismanna sem haldin var í vetur. Í fréttatilkynningu SUS segir orðrétt: "Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra er sigurvegari Frelsisdeildar SUS veturinn 2004-2005 og hlaut hann að launum veglegan farandbikar í hádegisverði sem Samband ungra sjálfstæðismanna efndi til í Valhöll í dag. Mikil spenna var á lokakafla þingsins og skaust Björn í toppsætið í lokaumferð Frelsisdeildarinnar, en Pétur H. Blöndal hafði lengst af setið á toppnum. Pétur lenti í öðru sæti, einungis tveimur stigum á eftir Birni.

Björn er sá þingmaður sem tókst að gera flest jákvæð frumvörp að lögum, en Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson lögðu fram flest góð frumvörp, eða átta hvor. Ekkert þeirra varð að lögum. Það er reyndar áhugavert að engum þingmanni, sem ekki gegnir ráðherraembætti, tókst að koma eigin frumvarpi í gegnum þingið. Besta einstaka þingmálið er tvímælalaust breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, sem Geir H. Haarde, fjármálaráðherra lagði fram og fékk samþykkt.

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra hlaut flest mínusstig og endaði í síðasta sæti deildarinnar. Á nýafstöðnu þingi kaus enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins gegn þeim málum, sem dómarar Frelsisdeildarinnar álíta að feli í sér frelsisskerðingu. Rétt er þó að geta þess að í sumum tilfellum sátu þingmenn hjá. Fjórir þingmenn enduðu í mínus eftir tímabilið. Að lokum er vert að geta þess að gerðar voru breytingar á stigagjöf fyrir þetta keppnistímabil til þess að gefa betri mynd af raunverulegum árangri þingamanna í baráttunni gegn járnkló ríkisvaldsins."

Þetta er glæsilegur árangur hjá Birni. Segja má ennfremur að frelsisdeildin sé ánægjulegur vettvangur hjá okkur í SUS til að verðlauna þá þingmenn flokksins sem standa sig vel og vinna af krafti. Í fyrra sigraði Sigurður Kári í samskonar frelsisdeild sem var þá til af hálfu Heimdallar. En eftir stendur að gott er að verðlauna þá þingmenn sem vinna vel og eru öflugir í störfum sínum. Björn hefur verið jafnan þekktur fyrir að vera vinnusamur og uppsker vel fyrir það.