Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 júní 2005

Punktar dagsins
Richard Nixon

Seinustu dagana hefur Watergate-málið verið að nýju í fréttum vegna þess að nú er vitað hver heimildarmaðurinn frægi Deep Throat var en hann veitti The Washington Post upplýsingarnar sem leiddu til þess að málið spann upp á sig. Því lauk að lokum með afsögn Richard Nixon forseta Bandaríkjanna. Það var lengi sannfæring Nixon að Mark Felt aðstoðarforstjóri FBI, væri Deep Throat. Þetta kom fram allt frá upphafi á hinum frægu spólum sem urðu Nixon að lokum að falli, en þær innihéldu einkasamtöl hans við nánustu samverkamenn hans. Þar reyndist Nixon sannspár, en Felt neitaði í 33 ár sannleikanum. Það er alveg ljóst að án gagnanna sem Felt veitti The Washington Post hefði málið aldrei náð alla leið. Það hóf ferli málsins. Lengi hefur mér þótt merkilegt að fylgjast með stjórnmálaferli Nixons. Fyrr í vetur las ég bókina RN: The Memoirs of Richard Nixon. Það er góð bók, sem veitir fágæta innsýn inn í pólitískan feril hans. Er alveg merkilegt að kynna sér persónu Nixons betur. Hef ég áður lesið margar bækur um hann og séð heimildarþætti um feril hans, Watergate og forsetatíðina, sem var mjög umdeild.

Nixon var merkilegur persónuleiki, það er merkilegast að komast að því í allri umfjöllun um hann hversu ótraustur hann var og allt að því taugaveiklaður og andlega bæklaður. Hann var mikill skapmaður og var fljótur að missa stjórn á sér. Nánustu samstarfsmenn hans lýsa seinasta ári forsetaferils hans sem púðurtunnu fyrir hann persónulega. Eftir stendur að hann áorkaði miklu í embættistíð sinni, en mörg merkustu verk hans hafa gleymst vegna Watergate-málsins. Jafnvel þótt Richard M. Nixon hafi verið einn mest áberandi stjórnmálamaður 20. aldarinnar og að um hann hafi verið skrifaðar fleiri greinar en nokkurn annan mann, er persóna hans enn í dag flestum hulin ráðgáta. Margir vita varla enn hver hann var í raun þessi maður sem reis til hæstu metorða í landi sínu og - eins og hann orðaði það gjarnan sjálfur - féll niður í þá dimmustu dali sem lífið felur í sér, að lokum. Nixon var sonur fátækra en stefnufastra hjóna og þurfti ásamt fjölskyldu sinni að þola missi tveggja bræðra sinna sem dóu úr berklum.

Hef ég jafnan dáðst af því hvernig hann kom sér áfram og hélt dampi þrátt fyrir mörg áföll lengst af. Hann varð öldungardeildarþingmaður 37 ára og varaforseti 39 ára. Hann bauð sig fram til forseta árið 1960 en tapaði fyrir John F. Kennedy. Honum tókst síðan að ná kjöri sem forseti Bandaríkjanna árið 1968 og var endurkjörinn 1972. Hann stjórnaði landinu í gegnum mikla og erfiða pólitíska tíma og vann sér sess með því. Merkilegast af öllu á hans ferli þykir mér hvernig honum tókst að opna Bandaríkjunum leið í austurveg með frægum fundi sínum og Mao árið 1972. Áhrif þessa fundar gætir enn, þau opnuðu tengslin yfir að nýju. Watergate-málið voru klaufaleg mistök hjá reyndum stjórnmálamanni - afdrifarík mistök sem hann varð að gjalda að sjálfsögðu fyrir með embætti sínu. Það var ólöglegur verknaður og gott dæmi um persónuleikabresti Nixons sem að lokum urðu honum að falli. En ég hvet alla aðdáendur stjórnmála til að lesa þessa bók, eða sjá kvikmyndina um Watergate-málið eða heimildarþætti um hið fræga mál vegna fréttanna þessa dagana.

Ráðhús Reykjavíkur

Með ólíkindum hefur verið að fylgjast seinustu árin með óráðsíunni sem viðgengst innan Orkuveitu Reykjavíkur. Öll höfum við orðið vitni að því hvernig henni hefur verið stjórnað undanfarinn áratug af Alfreð Þorsteinssyni borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, innan R-listans. Meirihluti stjórnar Orkuveitunnar samþykkti á fundi sínum í vikunni að reisa sumarhúsabyggð við Úlfljótsvatn. Ekki er hægt að sjá að uppbygging af þessu tagi tengist að nokkru leyti rekstri Orkuveitu Reykjavíkur og því auðvitað mjög undarlegt að borgarbúum sé gert að taka þátt í honum. Er þetta fráleitt fyrsta málið sem Orkuveitunni stendur nærri sem horfir undarlega við. Nægir að nefna undarlegar fjárfestingar í risarækjueldi og fyrirtækjarekstur á sviði gagnamiðlunar sem vakið hefur mikla athygli fyrir sukk og óráðsíu. Vegna þessa þótti SUS við hæfi að gefa stjórnarformanninum á framsóknarbásnum Monopoly-spilið margfræga. Var það við hæfi enda snýst það um að fjárfesta í götum, húsum og hótelum. Það er ágætis skilaboð sem send eru með því.

Ekki hafði liðið löng stund frá því að Jón Hákon Halldórsson framkvæmdastjóri SUS, hafði farið með spilið í rándýrt hús Orkuveitunnar, sem gárungar nefna Royal Alfreð Hall, að það var endursent. Með því fylgdi orðsending sem hafði ennfremur verið send til allra fjölmiðla. Þar kastar Alfreð til baka og kemur með háðsglósur til SUS en svarar auðvitað í engu málefnalegri aðfinnslu okkar með gjöfinni. Ekki kemur það mjög á óvart. Alfreð Þorsteinsson er einn spilltasti stjórnmálamaður landsins og hefur farið sínu fram undanfarinn áratug í umboði hinna ýmsu vinstriflokka sem hafa myndað regnhlífarvaldabandalag gegn Sjálfstæðisflokknum seinasta áratug. Það er þarfaverk að benda honum á verk sín. Það að hann endursendi spilið er gott dæmi um að hann getur ekki horfst í augu við verk sín. En það væri enn betra að spyrja aðra innan R-listans hvort það ætli sér að kjósa Alfreð til valda aftur ef sameiginlegt framboð verður og tryggja með því áhrif hans áfram. Hann situr í umboði allra þeirra sem styðja hina flokkana þarna inni - gleymum því ekki!

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri

Í gær undirrituðu Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, og Sigurður Hallgrímsson arkitekt, fyrir hönd Arkþings ehf, hönnunarsaming um húsnæði menningarhúss og tónlistarskóla á Akureyri. Eins og fyrr hefur verið ákveðið verður menningarhúsið í miðbæ Akureyrar, við gatnamót Geislagötu og Strandgötu. Þann 7. apríl 2003 undirrituðu Kristján Þór og Tómas Ingi Olrich þáverandi menntamálaráðherra, samning milli ríkisins og Akureyrarbæjar um byggingu menningarhúss í bænum. Í kjölfar þess var efnt til hönnunarsamkeppni vegna hússins og skilaði dómnefnd niðurstöðum sínum á menningarvöku á afmæli bæjarins í ágúst í fyrra. Í október var ákveðið að staldra aðeins við og huga betur að forsendum málsins. Byggingarnefnd var falið að nota tímann til að styrkja ákvarðanatökuna með frekari athugunum á kostnaði við bygginguna og rekstur hússins. Er nú ætlað að Tónlistarskólanum á Akureyri verði fundinn staður til framtíðar á þriðju hæð hússins. Bæjarstjórn Akureyrar hefur nú ákveðið að ráðast í byggingu menningarhússins. Stefnt er að því að það verði tilbúið til notkunar fyrir árslok 2007. Þetta eru mjög ánægjuleg tíðindi.

ESB

Í dag birtist ítarlegur pistill minn á vef Heimdallar þar sem ég fer yfir Evrópumálin í ljósi þess að Hollendingar og Frakkar hafa hafnað stjórnarskrá Evrópusambandsins. Mikil pólitísk óvissa vofir yfir Evrópusambandinu vegna stöðunnar. Nú hefur forsætisráðherra Lúxemborgar, sem er í forystu ESB-starfsins þetta starfstímabilið, sett embætti sitt að veði fyrir samþykkt stjórnarskrárinnar heima fyrir. Annars blasir mjög erfið staða við leiðtogum ESB og framundan eru margir neyðarfundir meðal leiðtoganna til að fara yfir stöðuna. Til dæmis munu leiðtogar Frakklands og Þýskalands funda um helgina í Berlín. Staðan er einfaldlega þannig að enginn veit með vissu hvað tekur við. Þó er ljóst að mjög hefur dregið af hinu mikla og langa plaggi, stjórnarskrá ESB, og framtíð hennar í vafa. Það ætti að ráðast fljótlega hvort stjórnarskráin muni bresta eða bara kikna af þunga málsins og menn leggi í annað vinnuferli - aðra atlögu að því að endurlífga plaggið. Við fylgjumst öll spennt á næstunni með þeirri jarðskjálftavirkni sem nú vofir yfir heimasvæði ESB-tröllsins, reglugerðarsambands allra tíma.

Clint Eastwood í hlutverki Dirty Harry

Seinustu vikur hef ég verið að rifja upp kynni mín af kvikmyndunum um Dirty Harry. Skjár einn hefur fært okkur þessar perlur með Clint Eastwood á skjáinn seinustu vikurnar. Þetta eru með betri spennumyndum síðustu aldar og Eastwood túlkar aðalsöguhetjuna, harðjaxlinn Harry Callahan, mjög vel. Er mjög gaman að sjá myndirnar með þessum eitilharða lögreglumanni í morðdeild lögreglunnar í San Francisco. Alltaf finnst mér sú fyrsta (Dirty Harry) langbest og þar er ferskasta spennan og flottasti hasarinn. Dirty Harry hefur markað skref í sögu spennumyndanna og segja má að ófáir karakterar seinni tíma spennumyndasögu hafi fetað í fótspor hans og fengið marga bestu eiginleika hans til að krydda sig upp. Eftirlíkingarnar eru ófáar og oft sér maður í góðum spennumyndum vitnað í Dirty Harry-myndirnar með ýmsu tagi í framsetningunni. Það segir allt um Dirty Harry og túlkun Clint Eastwood. Ómissandi myndir fyrir spennufíkla, þær verða allir að sjá.

Saga dagsins
1844 Síðustu tveir geirfuglarnir í heiminum drepnir á syllu við Eldey, sem er suðvestur af Reykjanesi.
1932 Ríkisstjórn undir forsæti Ásgeirs Ásgeirssonar tekur við völdum - stjórn Ásgeirs sat í rúm 2 ár. Ásgeir sat lengi á þingi og var ennfremur bankastjóri. Hann var kjörinn forseti Íslands sumarið 1952.
1989 Jóhannes Páll II páfi kemur í opinbera heimsókn til Íslands, fyrstur allra páfa. Ferð hans var því söguleg. Jóhannes Páll II sat á páfastóli í 27 ár, allt frá október 1978 til dauðadags þann 2. apríl 2005.
1989 Ayatollah Khomeini erkiklerkur og trúarleiðtogi Írans, lést, 89 ára að aldri - hafði ríkt frá 1979.
2001 Óskarsverðlaunaleikarinn Anthony Quinn lést í Boston, 86 ára að aldri - var einn af þekktustu leikurum síns tíma og eftirminnilegur fyrir margar túlkanir. Hlaut óskarinn tvisvar á sjötta áratugnum.

Saga morgundagsins
1917 Pulitzer - blaðamannaverðlaunin frægu afhent í fyrsta skipti, við hátíðlega athöfn í New York.
1940 Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands, sigurviss eftir að tókst að verja Dunkirk.
1959 Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra, stofnað - sett á fót til að hafa forystu í málefnum fatlaðra.
1989 Kosningabandalagið Samstaða vinnur kosningasigur í fyrstu frjálsu þingkosningunum í Póllandi.
1989 Her og lögregla einræðisstjórnarinnar í Kína ráðast að mótmælendum stjórnarinnar á torgi hins himneska friðar í Peking. Námsmenn höfðu þar mótmælt og kröfðust lýðræðisumbóta í landinu. Að minnsta kosti hundruðir manna, sennilega þúsundir, létu lífið er stjórnin sigaði skriðdrekum á fólkið og murkaði úr því lífinu. Atburðarás dagsins var sýnd í beinni útsendingu út um allan heim - leiddi til einangrunar Kína frá samfélagi siðaðra þjóða um allan heim og andstöðu mannréttindasamtaka. 16 árum síðar leyfir kínverski kommúnistaflokkurinn enga sjálfstæða stjórnmálastarfsemi og hneppir alla andófsmenn sem tjá aðrar skoðanir en stjórnin samþykkir, í fangelsi eða þá rekur þá úr landi. Margir í Kína hafa horfið sporlaust vegna skoðana sinna og talið fullvíst að stjórnin standi að hvarfi þeirra.

Snjallyrðið
Nú skil ég stráin, sem fönnin felur
og fann þeirra vetrarkvíða.
Þeir vita það best, sem vin sinn þrá,
hve vorsins er langt að bíða.

Að haustnóttum sá ég þig sigla burtu,
og svo kom hinn langi vetur.
Þótt vald hans sé mikið, veit ég þó,
að vorið, það má sín betur.

Minningin talar máli hins liðna,
og margt hefur hrunið til grunna.
Þeir vita það best, hvað vetur er,
sem vorinu heitast unna.

En svo fór loksins að líða að vori
og leysa mjallir og klaka.
Ég fann, að þú varst að hugsa heim
og hlaust að koma til baka.

Þú hlýtur að vera á heimleið og koma
með heita og rjóða vanga,
því sólin guðar á gluggann minn,
og grasið er farið að anga.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Nú skil ég stráin)