Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 maí 2005

Dr. Angela MerkelHeitast í umræðunni
Gerhard Schröder kanslari Þýskalands, hefur tilkynnt að Þjóðverjar muni ganga að kjörborðinu og kjósa þing í september. Er það ári áður en kjörtímabil ríkisstjórnar Jafðnaðarmannaflokksins og græningja átti að ljúka. Er hann tilneyddur til að rjúfa þing og boða kosningar eftir sögulegan ósigur jafnaðarmanna í sambandsþingkosningunum í Nordrhein-Westfalen um helgina. Með tapinu þar lauk fjögurra áratuga samfelldri valdasetu jafnaðarmanna í héraðinu. Ósigurinn er gríðarlegt pólitískt áfall fyrir Schröder. Eru fáir kostir góðir í stöðunni fyrir hann og hið eina rökrétta fyrir hann í stöðunni að leita til þjóðarinnar og biðja aftur um umboð landsmanna til pólitískrar forystu. Í seinustu þingkosningum, í september 2002, hélt vinstristjórnin í landinu, undir forsæti Schröder naumlega völdum. Jafnaðarmannaflokkurinn missti mikið fylgi en stjórnin hélt velli vegna fylgisaukningar samstarfsflokksins, græningja. Munaði mjög litlu að kosningabandalag hægrimanna, undir forystu Edmund Stoiber forsætisráðherra Bæjaralands og leiðtoga CSU, næði völdum.

Hefur stjórn Schröders allt frá því verið veik í sessi og staðið höllum fæti gegn öflugri stjórnarandstöðu í þinginu. Eftir tapið um helgina er Schröder því nauðugur sá kostur að leita álits kjósenda, mun fyrr en hann hefði þurft að gera að öllu eðlilegu. Samkvæmt könnunum nú bendir allt til öruggs sigurs hægrimanna í næstu kosningum. Einn er þó galli þýskra hægrimanna - og hann nokkuð stór. Þeir hafa ekki enn getað með góðu sameinast um einn afgerandi leiðtoga fyrir hægriblokkina í komandi þingkosningum. Lengi hefur stefnt í að Stoiber og dr. Angela Merkel leiðtogi CDU (kristilegra demókrata) muni slást um hvort þeirra verði kanslaraefni hægriblokkarinnar (CDU/CSU) í þeim kosningum. Mörgum hefur þótt eðlilegt að Merkel leiddi baráttuna, enda hefur Stoiber fengið sitt tækifæri og ekki tekist að ná völdum fyrir þrem árum. Mörgum þótti hann þá orðinn of gamall og virka þreytulegur og vilja því að annar leiðtogi leiði baráttu hægrimanna að þessu sinni. Eru uppi öflugar raddir þess efnis að Merkel fái að taka slaginn og skora kanslarann á hólm í þessum kosningum. Er það óneitanlega bæði sögulega séð réttast, miðað við styrkleika CDU, og það að Merkel hefur ekki fengið tækifærið enn til að leiða bandalagið og reyna á styrk sinn pólitískt.

Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í henni og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum. Merkel er töffari í þýskri pólitík og þykir í flestu andstæða hins íhaldssama Edmund Stoiber. Angela komst til áhrifa innan CDU á valdatíma Helmut Kohl, sem var kanslari Þýskalands samfellt í 16 ár, og þykir almennt vera pólitísk fósturdóttir hans. Hún er fimmtug, tvífráskilin og barnlaus og því langt í frá lík hinum 64 ára forsætisráðherra Bæjaralands sem þykir vera ímynd hins heilbrigða fjölskyldulífs sem hinn harðgifti fjölskyldufaðir. Stoiber hefur ekki farið leynt með áhuga sinn á að reyna aftur að leggja í kanslarann og Merkel hefur hug á að verða fyrsti kvenkyns kanslari Þýskalands. Aðeins annað þeirra getur þó leitt hægriblokkina til valda. Stefnir allt í að samstaða muni nást í þessari viku um að Merkel leiði hægriblokkina. Verða hægrimenn að leysa þessi mál fyrir lok mánaðarins og hefja kosningabaráttuna formlega og með leiðtoga til taks sem taki við embætti kanslara fari kosningar í takt við kannanir. Að mínu mati hefur Merkel þann kraft og kjark sem þarf til að leggja hina máttlitlu vinstristjórn jafnaðarmanna og græningja að velli. Ég hef lengi haft áhuga á þýskri pólitík og fylgist því vel með þýsku netfréttunum þessa dagana, enda nóg um að vera nú.

Gerhard SchröderStaðan er þó ekki það einföld að Schröder geti einhliða boðað til kosninga. Gert er ráð fyrir að kjörtímabilið sé fjögur ár og ekkert getur breytt því nema samþykkt vantrausts á ríkisstjórnina í þinginu eða þá það að forsetinn rjúfi þingið í kjölfar hennar. Það stefnir flest í að kanslarinn fari fyrri leiðina, boði vantraustskosningu í júnímánuði og stjórnin falli fyrir eigin tilstilli og því verði knúið á um kosningar með þeim hætti. Þýska þingið starfar út júnímánuð og því verður slík kosning að koma til fyrir lok mánaðarins. Er mun líklegra að kanslarinn geri það heldur en að leita til forsetans, hægrimannsins Horst Köhler, sem er auðvitað svarinn andstæðingur ríkisstjórnarinnar. Hann vill frekar knýja kosninguna í gegn með eigin ákvörðun og láta þingið slíta kjörtímabilinu með eigin hætti. Eftir að slík tillaga hefur verið samþykkt verða kosningar að fara fram innan 60 daga. Felli þingið tillöguna getur forsetinn gripið sjálfkrafa inn í að henni lokinni án þess að kanslarinn hafi beðið um það. Er ljóst að slík tillaga verður samþykkt, enda nýtur hún meirihlutafylgis innan þingsins.

Síðast var þessari aðferð til að rjúfa þing og boða til kosninga fyrir lok kjörtímabilsins beitt árið 1983. Hægrimaðurinn Helmut Kohl varð kanslari án kosninga árið 1982 er slitnaði upp úr stjórnarsamstarfi jafnaðarmanna og frjálslyndra demókrata og þeir fóru í samstarf með hægrimönnum í CDU/CSU. Þá missti Helmut Schmidt völdin og Kohl tók við eftir vantraustskosningu innan þingsins. Kohl vildi sjálfur hljóta umboð þjóðarinnar til verka og boðaði vantraust um eigin stjórn árið 1983 og kusu þingmenn hægriblokkarinnar gegn eigin stjórn til að knýja á kosningar. Þær vann Kohl með nokkuð afgerandi mun og hann hélt völdum og sat á valdastóli lengst allra í Þýskalandi, eða í 16 ár, eða þar til jafnaðarmenn komust til valda árið 1998 undir forystu Schröder. Enginn vafi leikur á því að Schröder ætlar að nota þetta fyrirkomulag til að snúa taflinu sér í vil og treystir á að hægriblokkin komi sér ekki saman um leiðtoga og verði ósamstíga í kosningabaráttunni. Hann ætlar að reyna á samstöðu stjórnarandstöðunnar til að tryggja sjálfan sig í sessi og reyna með því að halda völdum þriðja kjörtímabilið í röð. Lítil gleði er innan herbúða Jafnaðarmannaflokksins með þessa ákvörðun, enda stendur flokkurinn illa í könnunum og samstarfsflokkur þeirra, Græningar horfa með hryllingi til kosninga í ljósi nýlegra hneykslismála tengdum leiðtoga þeirra, Joschka Fischer utanríkisráðherra, og ljóst að þeir standa mjög höllum fæti.

Punktar dagsins
Guðmundur Árni og Ingibjörg Sólrún

Orðrómur er nú uppi í vissum fjölmiðlum um að kratahöfðinginn og fyrrum ráðherrann Guðmundur Árni Stefánsson verði sendiherra í Svíþjóð og hætti því afskiptum af stjórnmálum samhliða því. Greinilegt er að Guðmundur Árni telur fullreynt með pólitíska framtíð sína og sér sæng sína útbreidda innan Samfylkingarinnar í kjölfar þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur nú verið kjörin formaður flokksins. Guðmundur Árni studdi fyrrum formann flokksins í kosningunni og hefur gagnrýnt harkalega vinnubrögð Ingibjargar Sólrúnar í framtíðarnefndinni. Hann telur því fullreynt með pólitíska stöðu sína þar og leitar annað og verður væntanlega sendiherra ef þessi orðrómur er réttur. Guðmundur Árni var lengi vel ein skærasta stjarna íslenskra jafnaðarmanna og framan af talinn einn helsti vonarpeningur þeirra. Hann varð bæjarstjóri í Hafnarfirði eftir kosningasigur krata árið 1986 og varð það áfram eftir kosningarnar 1990 er flokkurinn vann hreinan meirihluta. Hann lét af bæjarstjórastarfi árið 1993 er hann tók sæti á Alþingi er Jón Sigurðsson varð seðlabankastjóri. Samhliða því tók hann við embætti heilbrigðisráðherra. Við afsögn Jóhönnu Sigurðardóttur árið 1994 varð hann félagsmálaráðherra. Í kjölfar hneykslismála neyddist hann til að segja af sér ráðherrastólnum í nóvember 1994.

Guðmundur Árni varð varaformaður Alþýðuflokksins árið 1994 en tapaði svo í formannskjöri í flokknum árið 1996 fyrir Sighvati Björgvinssyni. Láti Guðmundur Árni af þingmennsku og hætti í stjórnmálum verður Rannveig Guðmundsdóttir aftur leiðtogi Samfylkingarinnar á kragasvæðinu. Rannveig tapaði leiðtogastöðunni á þessum slóðum til Guðmundar Árna fyrir seinustu kosningar í prófkjöri. Þótt ótrúlegt megi virðast var það í fyrsta skiptið sem Guðmundur Árni leiddi framboðslista fyrir þingkosningar. Rannveig og Guðmundur Árni hafa um langt skeið eldað grátt silfur, fyrst hjá Alþýðuflokknum og svo hjá Samfylkingunni. Eftir að hafa sagt af sér ráðherrastólnum í nóvember 1994 tók Rannveig við embætti félagsmálaráðherra af Guðmundi Árna. Þau buðu sig bæði fram í kjölfarið í prófkjör Alþýðuflokksins í Reykjaneskjördæmi, sem haldið var í janúar 1995 og einnig tókust þau á um leiðtogastól Samfylkingarinnar í kjördæminu fyrir kosningarnar 1999; í bæði skiptin hafði Rannveig sigur. Töp Guðmundar Árna í þessum tveim prófkjörum veiktu mjög stöðu hans. Sigur hans síðast styrkti hann aftur svo til muna og flest benti til þess að hann gæti orðið ráðherraefni fyrir Samfylkinguna. Greinilegt er að sigur Ingibjargar gerir út af við feril hans.

Ráðhús Reykjavíkur

Í þessari viku er nákvæmlega ár til sveitarstjórnarkosninga. Það er kominn kosningaskjálfti í umræðuna greinilega. Þess sést helst stað í Reykjavík. Þar er kosningabaráttan eiginlega að hefjast. Farið er að ræða um hvernig listar framboðanna í Reykjavík verði skipaðir og með hvaða hætti. Viðræður flokkanna sem mynduðu R-listann fyrir seinustu kosningar eru farnir að ræða saman um framhald samstarfsins. Þó virðist vera sem að menn strandi þar nú helst á því hvernig átta efstu sæti listans verði valin. Samfylkingin vill í ljósi góðs gengis í borginni í þingkosningum 2003 og skoðanakannana hljóta betri sess en áður. Vilja þeir fjögur af átta efstu sætunum, en síðast höfðu flokkarnir þrír hver tvö sæti, en tveir voru stimplaðir sem óháðir: Ingibjörg Sólrún og Dagur B. Eggertsson. Greinilegt er að stífla er komin í viðræðurnar um hvernig þetta verði leyst og greinilegt að engin samstaða er um að Samfylkingin fái þennan sætafjölda. Hjá Sjálfstæðisflokknum er baráttan að hefjast og bendir flest til þess að prófkjör verði um listann, væntanlega í nóvember. Um helgina var Gísli Marteinn í Moggaviðtali og er hann greinilega að stefna á eitt af efstu sætunum og nokkrir borgarfulltrúar stefna hærra en síðast. Ljóst er ennfremur að leiðtogi flokksins stefnir á þann stól áfram. Það eru því spennandi tímar framundan þar.

Ólafur Ragnar Grímsson

Opinberri heimsókn Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands, og eiginkonu hans, Dorrit Moussaieff, til Kína lauk formlega í gær. Fóru þau víða um landið og kynntu sér stöðu mála þar. Í byrjun ferðarinnar ræddi forsetinn við kínverskan starfsbróður sinn og mun hann hafa tekið upp mannréttindamál í því spjalli, ef marka má orð forsetans. Er það gott mál, eiginlega ekki nema sjálfsagt sé litið á skelfileg mannréttindabrot kínversku kommúnistastjórnarinnar. Í gærkvöldi var mjög athyglisvert viðtal í fréttum við forsetann í Sjóvík, sjávarútvegsvinnslu í Kína. Þar varð honum tíðrætt um að Íslendingar hefðu gott af því að kynna okkur kínversk vinnubrögð og atvinnustarfsemi. Mér varð eiginlega að orði: bíddu nú hægur, er ekki unnið þarna brjálæðislega langan vinnudag og fólk eiginlega keyrt áfram af fítonskrafti án tillits til vinnureglugerða og þessháttar. Eða ég veit ekki betur, var ekki þáttur um það í Sjónvarpinu í vetur? Mig minnir það. Og þetta er forseti Íslands að ljúka lofsorði yfir og vill að við lærum af því. Alveg kostuleg ummæli og framsetning. Er ekki nema von að íslenskum almenningi verði orðafátt þegar litið er yfir þessi ummæli og svo kostulegan talsmáta forsetafrúarinnar um demanta. Maður veit ekki alveg í hvaða hugarheimi þetta fólk er í.

Halldór, Arnbjörg og Kristján Þór

Í gærkvöldi var fundur í Kaupangi sem bar heitið: Rabbað saman eftir þinglok. Gestir fundarins voru alþingismenn Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, þau Halldór Blöndal forseti Alþingis, og Arnbjörg Sveinsdóttir varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, og ennfremur Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri og leiðtogi bæjarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Fóru Halldór og Arnbjörg yfir málefnin í pólitíkinni í ítarlegum framsögum og þau mál sem hæst standa í Norðausturkjördæmi nú um stundir. Kristján Þór fjallaði um sameiningarmál sveitarfélaga og stöðu stóriðjumála á Norðurlandi. Eftir framsögur svöruðu þau spurningum fundargesta. Að fundi loknum og góðu spjalli var boðið upp á góðar veitingar og málin voru rædd fram eftir kvöldi.

Í dag birtist svo pistill eftir mig á Íslendingi um pólitískt veganesti og klíkutal Ingibjargar Sólrúnar. Eru þau skrif viðeigandi eftir landsfund Samfylkingarinnar um helgina. Viðeigandi að fara aðeins yfir þau mál.

Saga gærdagsins
1555 Páll IV kjörinn leiðtogi rómversk-kaþólsku kirkjunnar - sat á páfastóli í 4 ár. Hann lést 1559
1934 Bankaræningjarnir Clyde Barrow og Bonnie Parker drepin í Louisiana - voru þekkt útlagapar
1949 Lýðveldi formlega stofnað í Þýskalandi - markaði endalok endurreisnarinnar eftir seinna stríð
1998 Friðarsamkomulag sem kennt var við föstudaginn langa, samþykkt í þjóðaratkvæði á N-Írlandi
2003 Fjórða ríkisstjórnin undir forsæti Davíðs Oddssonar tók formlega við völdum á Bessastöðum - Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ákváðu eftir þingkosningarnar 2003 að vinna saman þriðja kjörtímabilið í röð. Flokkarnir hafa starfað saman allt frá apríl 1995. Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins, tók við forsætisráðherraembættinu í stjórninni af Davíð, 15. september 2004

Saga dagsins
1153 Malcolm IV verður konungur Skotlands - Malcolm ríkti í Skotlandi allt til dauðadags árið 1165
1626 Peter Minuit kaupir Manhattan eyjuna í New York - sem nú er einn stærsti hluti borgarinnar
1883 Brooklyn-brúin vígð formlega - brúin tengir saman hverfin Manhattan og Brooklyn í New York
1941 Breska herskipið Hood, sem var eitt af stærstu, sekkur um 250 sjómílum vestur af Reykjanesi
1973 Einn fjölmennasti mótmælafundur aldarinnar í Reykjavík - 30.000 manns mótmæla formlega flotaíhlutun Breta vegna útfærslu fiskveiðilögsögu Íslendinga í 200 mílur, 1972 - baráttan varð hörð

Snjallyrðið
An eye for eye only ends up making the whole world blind.
Mahatma Gandhi frelsishetja Indverja (1869-1948)