Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 desember 2005

Afmæli

Stefán Friðrik Stefánsson

Í dag fagna ég 28 ára afmæli mínu. Árin líða orðið heldur betur hratt. Í dag hef ég fengið mörg símtöl frá vinum og kunningjum, góðar kveðjur á MSN, góðar óskir og gjafir frá þeim sem ég þekki og eru mér nákomnir. Um síðustu helgi hélt ég upp á afmælið með lágstemmdum hætti hér heima og bauð til mín nokkrum vinum og ættingjum. Það er alltaf gaman að finna fyrir góðum straumum og því að fólk muni eftir manni. Það er alltaf jafn ánægjulegt að finna fyrir því á degi sem þessum. Ég þakka öllum þeim sem mundu eftir deginum og komu til skila góðum heillaóskum og kveðjum - eru sannir vinir. Jafnframt þakka ég líka þeim sem sendu mér tölvupóst í tilefni dagsins. Ég met þetta allt mjög mikils, annars er aldrei nægilega hægt að þakka fyrir eða meta til fulls að ég tel sanna og góða vináttu, en ekki virðist mér skorta vinina ef marka má þessi viðbrögð. Það var notalegt að finna fyrir hlýjum kveðjum og því að svo margir skyldu muna eftir deginum. Kærar þakkir!

Kristján Þór lýsir yfir framboði

Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri

Í morgun sendi Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri út svohljóðandi yfirlýsingu:

"Ég hef ákveðið að gefa kost á mér áfram sem oddviti framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og set því stefnuna á 1. sæti í prófkjöri flokksins þann 11. febrúar næstkomandi. Að því loknu hyggst ég leggja mig allan fram, ásamt félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum, um að vinna að glæstum árangri flokksins á Akureyri í næstu bæjarstjórnarkosningum.

Ég hef ítrekað verið spurður að því undanfarnar vikur hvort ég hyggist gefa kost á mér á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kosningum til Alþingis vorið 2007. Í því sambandi vil ég taka fram:

Þegar ég tilkynnti um framboð mitt til varaformanns Sjálfstæðisflokksins sl. haust lýsti ég því yfir að ég stefndi að því að næsta viðfangsefni mitt á pólitískum vettvangi yrði að leiða lista Sjálfstæðismanna á Akureyri til forystu í bæjarstjórn að loknum kosningum vorið 2006. Þessi skoðun mín hefur ekkert breyst.

Jafnframt lýsti ég því yfir að ég hefði alla tíð haft áhuga á því að takast á við ný og ögrandi verkefni á pólitískum vettvangi. Meðan sá áhugi er fyrir hendi þá útiloka ég ekki neitt það viðfangsefni sem kjósendur og stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins kunna að fela mér í framtíðinni.

Á meðan mér er falið umboð til að vinna að framfaramálum í þágu Akureyringa skiptir það mig höfuðmáli að hafa sem víðtækan stuðning við úrlausn þeirra verkefna sem unnið er að hverju sinni. Ég vonast því eftir víðtækum stuðningi við þá ákvörðun mína að gefa kost á mér í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í komandi bæjarstjórnarkosningum.

Ég óska Akureyringum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs."

Ég fagna þessari yfirlýsingu Kristjáns Þórs - ég styð hann heilshugar í fyrsta sæti framboðslista flokksins í þessum sveitarstjórnarkosningum. Undir hans forystu hefur okkur gengið vel og hann hefur leitt flokkinn farsæla braut. Ég met forystu hans mikils og mun styðja hann áfram til þess að leiða lista okkar í maímánuði.

Saga dagsins
1897 Klukka er sett upp í turni Dómkirkjunnar í Reykjavík - hún telur enn stundirnar fyrir borgarbúa.
1989 Einræðisstjórn kommúnistaleiðtogans Nicolae Ceausescu fellur í Rúmeníu. Ceausescu-hjónin reyndu að flýja höfuðborgina Búkarest þegar sýnt var að uppreisn almennings yrði ekki stöðvuð með valdi lengur, en þau voru handsömuð skömmu síðar. Þau voru tekin af lífi eftir réttarhöld á jóladag.
1989 Brandenborgar-hliðið í Berlín, sem skildi að austur- og vesturhluta Berlínarborgar opnað fyrir almenningi að nýju, eftir tæplega þriggja áratuga hlé, í kjölfar falls Berlínarmúrsins sem stóð í 28 ár.
1991 Rússneska þingið staðfestir að Rússland verði sjálfstætt ríki og hluti af samveldi sjálfstæðra ríkja frá 1. janúar 1992. Með þessu var formlega staðfest að Sovétríkin heyrðu sögunni til, flest ríki landsins höfðu þá lýst yfir sjálfstæði sínu og staðfest það. Mikhail Gorbachev forseti Sovétríkjanna, stóð eftir valdalaus sem þjóðhöfðingi án ríkis í raun og veru. Hann tilkynnti formlega um afsögn sína í ávarpi til þjóðarinnar á jóladag og batt með því enda á vangaveltur um hvað yrði um pólitíska stöðu sína eftir þessi sögulegu þáttaskil. Gorbachev, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels 1990, hætti í pólitík.
2000 Halldór Kiljan Laxness rithöfundur, valinn maður aldarinnar í aldamótakönnun Gallup. Í sömu könnun var frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti Íslands, valin kona aldarinnar. Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var hinsvegar valinn stjórnmálamaður aldarinnar.

Snjallyrðið
Ó helga nótt, þín stjarna blikar blíða,
Þá barnið Jesús fæddist hér á jörð.
Í dauða myrkrum daprar þjóðir stríða,
uns Drottinn birtist sinni barna hjörð.
Nú glæstar vonir gleðja hrjáðar þjóðir
því Guðlegt ljós af háum himni skín.
Föllum á kné.
nú fagna himins englar,
Frá barnsins jötu blessun streymir,
blítt og hljótt til þín.
Ó helga nótt, ó heilaga nótt.

Vort trúar ljós, það veginn okkur vísi,
hjá vöggu Hans við stöndum hrærð og klökk
Og kyrrlát stjarna kvöldsins öllum lýsi,
er koma vilja hér í bæn og þökk.
Nú konungurinn Kristur Drottinn fæddist
hann kallar oss í bróður bæn til sín.
Föllum á kné,
nú fagna himins englar,
hjá lágum stalli lífsins kyndill,
ljóma, fagurt skín.
Ó helga nótt, Ó heilaga nótt.
Sigurður Björnsson framkvæmdastjóri (1935) (Ó, helga nótt)