Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 janúar 2006

Stefán Friðrik

Það er ljóst að stefnir í spennandi og gott prófkjör þann 11. febrúar - eins og ég spáði hér í gær þegar ég ræddi um málefni þess og kratana sem til okkar hafa komið. Alls gefa 20 manns kost á sér í prófkjörinu, þar af eru sex konur en við karlarnir erum 14 talsins. Eins og ég sagði hér í gær lýst mér vel á það sem framundan er - er vel til í slaginn. Það er auðvitað visst áhyggjuefni að ekki skuli fleiri konur taka þátt í þessu prófkjöri. En þarna eru sterkur konur eins og Ella Magga, Sigrún Björk og Jóhanna Hlín sem allar hafa tekið þátt í starfinu innan flokksins um nokkurt skeið og vel þekktar fyrir störf sín þar. Þarna eru Kristján Þór og Doddi Blomm sem hafa setið í bæjarstjórn alla meirihlutatíð okkar. Doddi hefur reyndar verið í bæjarstjórn frá 1994 og fór þá í gegnum síðasta prófkjör sem þá var haldið. Hann er sá eini af okkur sem hefur farið í gegnum prófkjör hér hjá flokknum í bænum.

Athygli vekur að allir varabæjarfulltrúar flokksins gefa ekki kost á sér í prófkjörinu. Það stefnir því auðvitað í mikla uppstokkun á fólki, enda taka þátt þrír af fjórum efstu á listanum 2002 - en aðrir ekki af átta efstu. Þarna er svo auðvitað líka mikið af nýju fólki sem ekki hefur starfað af neinu ráði og fögnum við auðvitað því að fólk hafi áhuga á að starfa innan Sjálfstæðisflokksins - þó aldrei hafi það sést í Kaupangi eða í innsta starfinu. Svo eru jú þarna fyrrum alþingismaður Alþýðuflokksins og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar meginþorra kjörtímabilsins - hef fjallað um þau. Hjalti Jón skólameistari er svo kominn þarna og ætti það að vekja skemmtilega umræðu um það hvort að menn í hans stöðu eigi að vera í framboði. Já það stefnir í hörkuspennu bara tel ég og ljóst að baráttan verði bara nokkuð skemmtileg með að fylgjast - bæði fyrir okkur sem tökum þátt og aðra sem fylgjast með en hafa áhuga á stjórnmálaumræðunni.


Frétt dagsins er auðvitað að Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður og formaður VG, slasaðist þegar að bíll hans valt í Bólstaðahlíðarbrekku ofan við Húnaver seint í gærkvöldi. Var Steingrímur einn í bílnum. Var allnokkur hálka á þessum slóðum og hríðarkóf. Bíllinn fór nokkrar veltur - var þyrla Landhelgisgæslunnar send frá Reykjavík til að sækja Steingrím, sem fluttur var til Blönduóss. Er Steingrímur J. illa brotinn, ekki þó mænuskaddaður sem betur fer, en hann hafði meðvitund allan tímann. Er guðs mildi að Steingrímur J. slapp þetta þó vel miðað við aðstæður. Brá mér mjög að heyra í morgun af slysinu sem Steingrímur lenti í, enda veit ég að brekkan er ekki góð í vetrarveðrum. Foreldrar eins vinar míns lentu þar í slæmu slysi fyrir um áratug og slösuðust illa - þekki því vel hversu vond hún er á þessum árstíma. Hugur okkar allra er hjá Steingrími og fjölskyldu hans á þessari stundu - vona ég að hann nái sem fyrst góðri heilsu.

Erlend pólitík er mér alltaf mjög hugleikin. Nú er aðalfréttin erlendis auðvitað staða stjórnmálanna í Mið-austurlöndum. Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, er enn fárveikur og í dái á sjúkrahúsi í Jerúsalem - ljóst er að hann mun ekki eiga afturkvæmt í stjórnmálaforystu. Á meðan ljær pólitísk forysta landsins, undir forystu Ehud Olmert, máls á friðarviðræðum við stjórn Palestínu undir forystu Mahmoud Abbas. Er ljóst að spennandi tímar eru framundan, enda eru þingkosningar framundan bæði í Ísrael og Palestínu. Ef marka má kannanir nú bendir flest til þess að Kadima (Áfram!) vinni kosningarnar og Olmert verði forsætisráðherra að þeim loknum. Þó að aldrei hafi reynt á Olmert sem þjóðarleiðtoga fyrr en nú blasir við að hann njóti trausts Ísraela. Fyrst og fremst virðast átakalínur í ísraelskri pólitík verða um hvort semja eigi við Palestínumenn. Í dag skrifaði ég ítarlegan pistil um stöðu stjórnmálanna þarna á vef SUS - alltaf gaman að velta fyrir sér erlendri pólitík og skrifa um.

Golden Globe-verðlaunin voru afhend í nótt. Einhverntíma hefði ég eytt miklum tíma í analísum um niðurstöðurnar en nú gefst ekki mikill tími. Ætla að skauta svona yfir það helsta sem stóð eftir nóttina. Kvikmyndin Brokeback Mountain var valin besta dramatíska kvikmyndin - hlaut alls fjögur verðlaun. Leikstjórinn Ang Lee var verðlaunaður fyrir sitt verk. Myndin sem fjallar um tvo samkynhneigða kúreka á sjöunda áratugnum hefur skapað umtal í Bandaríkjunum, sérstaklega í suðurríkjunum þar sem hún víða fæst ekki sýnd. En myndin er rómuð sem falleg ástarsaga um sannar tilfinningar og ást sem lifir í skugga fordóma. Hlakka til að sjá hana. Philip Seymour Hoffman var verðlaunaður fyrir hlutverk sitt í Capote. Joaquin Phoenix og Reese Witherspoon voru verðlaunuð fyrir hlutverk sín í kvikmyndinni Walk the Line, sem fjallar um líf Johnny Cash. Felicity Huffman, var svo verðlaunuð fyrir hlutverk sitt í Transamerica.

Valdir partar af verðlaunaafhendingunni verða sýndir á Stöð 2 í kvöld - hvet alla sem ekki gátu skiljanlega vakið í nótt að horfa á þá það helsta sem uppúr stóð eftir kvöldið. Það er ljóst að fjöldi góðra mynda eru á leiðinni upp á skerið og nóg af úrvalsefni fyrir okkur kvikmyndaáhugafólk að sjá - sérstaklega hlakkar mér til að sjá Munich og Walk the Line - enda Johnny Cash lengi í uppáhaldi hjá mér. Allar upplýsingar um Golden Globe 2006.