Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 febrúar 2006

Ungt fólk í forystu!

Stefán Friðrik Stefánsson

Í sveitarstjórnarkosningunum 1998 fórum við sjálfstæðismenn fram undir kjörorðinu: Kraftur í stað kyrrstöðu. Það hefur sannast, svo ekki verður um villst, að kraftur hefur verið mikill hér og verið áþreifanlegur og sést í öllum tölum síðan, þegar farið er yfir stöðu mála. Kraftur kom í stað kyrrstöðu undir forystu okkar sjálfstæðismanna í samstarfi okkar fyrst við Akureyrarlista og síðar Framsóknarflokk, og hefur verið til staðar í valdatíð okkar í bænum.

Akureyri er í öndvegi sveitarfélaga, enda vel hér haldið á málum og staða bæjarins mjög sterk og kraftmikil þegar litið er til framtíðar. Við sem búum á Akureyri vitum vel og finnum á samfélaginu okkar hversu öflugt og kraftmikið það er. Segja má að lykilorð seinustu ára hér á Akureyri séu vöxtur og kraftur. Á yfirstandandi kjörtímabili var sameining Akureyrar og Hríseyjar samþykkt og hefur gengið vel að vinna með Hríseyingum - sameiningin gekk mjög vel.

Í dag fer fram prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Þar sækjum við sjálfstæðismenn fram í aðdraganda kosninga og veljum framboðslista okkar í kosningunum þann 27. maí - forystusveit flokksins á næsta kjörtímabili. Mikilvægt er að vel takist til og að Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri kom þar sterkur út - flokkurinn verði öflugur og samhentur í komandi verkefnum. Í prófkjörinu gefa 20 einstaklingar kost á sér - ég er þeirra á meðal.

Ég hef verið flokksbundinn í rúman áratug, tekið þátt í ungliðastarfi flokksins mjög lengi, verið í stjórn SUS frá 2003 og formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna hér í bænum, frá árinu 2004. Ég hef mikinn áhuga á stjórnmálum, hef skrifað mikinn fjölda pistla um stjórnmál til fjölda ára á vef mínum, www.stebbifr.com, og kynnt skoðanir mínar á málefnum samtímans af þeim krafti sem einkennir netskrifin.

Hef ég mikinn áhuga á að taka þátt í kosningunum í vor - vinna hag flokksins sem mestan. Umfram allt vil ég leggja mitt af mörkum fyrir flokkinn í forystusveit framboðslistans okkar í kosningabaráttunni í vor. Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri hefur leitt bæjarpólitíkina í átta ár og hefur sá tími einkennst af kraftmikilli uppbyggingu á mörgum sviðum. Farsæl forysta okkar hefur skipt Akureyri miklu máli og getum við verið stolt af verkum okkar. En alltaf eru næg verkefni framundan.

Að mínu mati eru framundan mjög spennandi tímar fyrir Akureyringa. Prófkjörsbaráttan seinustu vikur hefur verið mjög gefandi - ég hef kynnst nýju fólki og fundið kraftinn í þeim sem hafa unnið í flokknum hér til fjölda ára. Fyrst og fremst hef ég kynnst því að Akureyringar hafa brennandi áhuga á málefnum sveitarfélagsins. Ég hóf þessa baráttu mína seint á síðasta ári með jákvæðni og bjartsýni umfram allt sem veganesti.

Hef ég unnið þessa baráttu á mínum vegum með þeim hætti og hagað skrifum og baráttuandanum með þessi grunngildi að leiðarljósi. Ég er mjög þakklátur þeim sem hafa sýnt mér velvilja og stuðning í þessum prófkjörsslag. En nú er komið að úrslitastund.

Ég býð mig fram til að taka fullan þátt í kosningabaráttunni í vor. Ég vil leggja fram mína reynslu í stjórnmálum og félagsstörfum og vinna fyrir flokkinn minn í forystusveit sigurliðsins okkar í vor. Til þess þarf ég stuðning þinn!

stebbifr@simnet.is