Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 maí 2006

Mikil hreyfing á fylginu í Reykjavík

Ráðhúsið

Í kvöld birtist þriðja raðkönnun Gallups. Staðan í henni er mjög merkileg svo ekki fastar að orði kveðið. Gríðarlegar sveiflur eru á fylgi og staðan gjörsamlega galopin. Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstrihreyfingin - grænt framboð bæta við sig fylgi á meðan að Samfylkingin tapar miklu fylgi milli daga. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 47% og fær flokkurinn því hreinan meirihluta, 8 borgarfulltrúa af 15. Fylgi VG mælist nú 16% og fær flokkurinn 2 fulltrúa en litlu munar að flokkurinn fái þriðja fulltrúann. Fylgi Samfylkingarinnar mælist nú 24,9% og fær flokkurinn 4 borgarfulltrúa samkvæmt því - hafði t.d. sex borgarfulltrúa tæpa á sunnudag eins og fram kom hjá mér hér í gær. Fylgi Frjálslynda flokksins mælist tæp 7% og fær flokkurinn 1 fulltrúa en fylgi Framsóknarflokks mælist 4,7% og fær enn engan mann kjörinn.

Þetta eru miklar sveiflur sem þarna sjást og vekur fólk til umhugsunar um það að hvert atkvæði skiptir í raun máli. Í gær mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins 45% en mældist 43% á sunnudag. Fylgi Samfylkingarinnar var í gær rúm 27% en var 32% í könnun Gallup á sunnudag. VG mældist með tæplega 15% fylgi í gær en var með 11% á sunnudag. Fylgi Frjálslynda flokksins mældist 8,1% í gær en var um 10% í sunnudag. Framsóknarflokkurinn var með 3,9 í könnun á sunnudag en mældist með 4,2% í gær. Þetta er merkileg staða og ljóst að stefnir í mjög spennandi kosninganótt um helgina.