Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 maí 2004

JónsiHeitast í umræðunni
Úkraína bar sigur úr býtum í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, en hún var haldin í 49. skipti í gærkvöldi í Istanbul í Tyrklandi. Framlag Úkraínu, Wild Dances, er sungið var af söngkonunni Ruslönu Lyzichko, hlaut 280 stig í atkvæðagreiðslunni. Serbar og Svartfellingar urðu í öðru sæti með 263 stig, Grikkir í því þriðja með 252 stig, Tyrkland varð í fjórða með 195 stig og í fimmta til sjötta sæti urðu Kýpur og Svíþjóð með 170. Önnur lög hlutu mun færri stig. Jónsi, Jón Jósep Snæbjörnsson, sem söng framlag Íslands, Heaven, lenti í 19. sæti með 16 stig alls. Jónsi fékk 5 stig frá Norðmönnum og Mónakó og 2 stig frá Dönum, Finnum og Rússum. Er þetta fjórði lakasti árangur okkar í keppninni, við urðum í neðsta sæti 1989 og 2001 og í 20. sæti árið 1997. Norðmenn fengu fæst stig þetta árið, aðeins 3, og Írar og Belgar fengu hvor um sig 7 stig. Jónsi stóð sig mjög vel með lagið, og var kraftmikill í flutningi sínum og eru Íslendingar ánægðir með flutning lagsins og stoltir af frammistöðu hans. Sjálfur hefur hann sagst vera mjög sáttur við útkomuna í viðtali við fjölmiðla í dag. Greinilegt var á stigagjöfinni að nágrannaþjóðir kusu hvor aðra og launuðu samherjum sínum, óháð lögunum sjálfum. Er greinilegt á öllu að breyta verði fyrirkomulagi við keppnina og stokka hana upp. 50. söngvakeppnin verður því haldin í Kiev í Úkraínu að ári.

Nr. 10Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, er sífellt að verða valtari í sessi sem leiðtogi breska Verkamannaflokksins. Skv. heimildum sem fréttastofa BBC telur áreiðanlegar eru nokkrir af óbreyttum ráðherrum flokksins orðnir óþreyjufullir í biðinni eftir að forsætisráðherrann hætti afskiptum af stjórnmálum. Hefur verið opinbert leyndarmál í nokkur ár að Gordon Brown fjármálaráðherra, vilji taka við af Blair og telur hann nú tíma sinn kominn og vill hann taka við embættinu fyrir lok þessa kjörtímabils og leiða flokkinn í næstu þingkosningum. Blair hefur ekki farið leynt með að hann vilji klára tímabilið og leiða flokkinn í næstu kosningum og hætta fljótlega að því loknu. Það er þó orðið sífellt ólíklegra að svo fari og leiða menn líkum að því að hann muni hætta síðar á þessu ári, með haustinu sennilega. Þegar Blair varð leiðtogi flokksins árið 1994 í kjölfar andláts John Smith, sömdu þeir sín á milli um að Brown tæki við af Blair á vissum tímapunkti. Munu Brown og Blair hafa átt einkafund um málið í baksæti bíls Blairs fyrir nokkrum vikum. Óvíst er talið að leið Browns að leiðtogasætinu verði trygg og spá menn í að það verði hörð átök um það.

Tony Blair forsætisráðherraInn í þessar vangaveltur hafa í dag blandast niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar er gerð var fyrir blaðið Sunday Times. Þar kemur fram að nærri helmingur landsmanna vilji að Blair láti af embætti fyrir næstu þingkosningar. Hafa ótrúleg umskipti orðið í persónulegu fylgi við forsætisráðherrann á rúmu ári, frá upphafi Íraksstríðsins. Við upphaf valdatíðar hans í maí 1997, hafði hann um 80% persónufylgi, nú eru innan við 30% landsmanna sem vilja hann beinlínis sem forsætisráðherra og styðja hann persónulega. Hvað gerist nú er stór spurning en greinilega er kominn flótti í þá þingmenn Verkamannaflokksins sem tæpastir voru inn á þing í seinustu kosningum og telja að nú verði að stokka upp til að flokkurinn eigi möguleika á sigri í næstu kosningum. Um er að ræða nákvæmlega eins stöðu og kom upp í breska Íhaldsflokknum árið 1990 er tók að fjara undan Margaret Thatcher þáverandi forsætisráðherra og leiðtoga flokksins. Það var þá skriða andstæðra afla í eigin flokki sem velti henni úr sessi. Sama virðist vera að byrja að gerast nú í Verkamannaflokknum, 14 árum síðar.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um umræðu á Alþingi um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar og vík að málþófi stjórnarandstöðunnar í annarri umræðu málsins og gífuryrðum formanns VG í garð forsætisráðherra og hvernig fréttamiðlum er beitt miskunnarlaust til að hygla eigendunum. Ennfremur fjalla ég um fjölmiðlasirkus forseta Íslands sem hefur birst almenningi í kjölfar þess að hann sneri heim frá Mexíkó og hætti á seinustu stundu við að mæta í konunglegt brúðkaup í Kaupmannahöfn. Forsetinn ákvað að morgni föstudags að fara ekki í brúðkaup krónprins Danmerkur og tilkynnt var formlega í fréttatilkynningu að vegna óvissu um hvenær Alþingi ljúki afgreiðslu mikilvægra mála hafi forsetinn ekki getað yfirgefið landið og farið í brúðkaupið. Var þessi ákvörðun forseta með öllu óskiljanleg í ljósi þess að fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar verður ekki að lögum á næstu dögum, enda var þá önnur umræða málsins enn í fullum gangi og langt í frá lokið og enn eftir þriðja umræðan. Um var að ræða fáránlega framkomu gagnvart dönsku konungsfjölskyldunni og íslensku þjóðinni í ljósi þess að forsetinn hafði áður tekið ákvörðun um að fara í brúðkaupið. Ekkert hafði gerst frá heimkomu forsetans til þess tíma í málefnum Alþingis sem réttlætti ákvörðun forsetans og rök hans fyrir henni voru ekki haldbærar, enda lítið mál fyrir forseta að fara með morgunvél til Danmerkur á föstudag og koma svo heim morguninn eftir. Hvort 26. grein stjórnarskrár er dauður bókstafur eins og forsetinn taldi árið 1977 mun ráðast á næstunni. Hvet alla til að líta á pistilinn.

Stefán Friðrik StefánssonPistill Björns
Í ítarlegum pistli á heimasíðu sinni fjallar Björn um mál málanna seinustu vikurnar: fjölmiðlafrumvarpið og öll þau mál sem því hafa tengst á svo mikinn hátt undanfarna daga. Einkum víkur hann að bréfi sem hann fékk í tölvupósti í maí 2002, skömmu fyrir borgarstjórnarkosningar og birtir í pistlinum og hann las upp á þingfundi í gær. Orðrétt segir hann um viðbrögðin eftir lestur þess á þingi: "Eftir að ég hafði lesið þetta bréf í þingsalnum, hrópaði Mörður Árnason, sem alltaf er með frammíköll, þegar ég tala: Stóra bomba! Ingibjörg Sólrún sagði, að nú hefði "skjalavörðurinn" talað og gaf til kynna, að bréfritari hefði ef til vill ekki verið með sjálfum sér og ég væri á barmi örvæntingar. Bryndís Hlöðversdóttir sagði bréfið endurspegla líðan mína. Kristján L. Möller taldi málið snerta Aflvaka og viðskipti með lén! Björgvin G. Sigurðsson bað um að fá að bera af sér sakir og sagðist ekkert vita um fjármál Reykjavíkurlistans! Fréttablaðið segir ekki frá þessu í sunnudagsblaði sínu, þótt greint sé þar frá ræðum, sem voru fluttar síðar þennan sama dag á þinginu. Ég hef ekki heyrt frá þessu sagt í öðrum miðlum Norðurljósa og ekki heldur í Ríkisútvarpinu. Um viðbrögð Samfylkingarfólksins á þingi er það að segja, að þau ræddu ekki efni málsins heldur leituðust við að drepa því á dreif."

Dagurinn í dag
1920 Benedikt XV páfi tilkynnir að Jóhanna af Örk hafi verið tekin í dýrlingatölu
1929 Óskarsverðlaunin afhent í fyrsta skipti í Los Angeles
1942 Fyrsta ríkisstjórn Ólafs Thors tekur við völdum. Hún sat í sjö mánuði. Á ferli sínum varð Ólafur alls fimm sinnum forsætisráðherra, oftar en nokkrir aðrir stjórnmálaleiðtogar
1952 Bandarísk flugvél fórst í norðanverðum Eyjafjallajökli og með henni fimm manns
1966 Karnabær opnaður í Reykjavík - verslunin hafði mikil áhrif á tískustrauma hérlendis

Snjallyrði dagsins
Wisdom is what's left after we've run out of personal opinions.
Cullen Hightower