Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 maí 2004

Ólafur Ragnar Grímsson forsetiHeitast í umræðunni
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, var ekki viðstaddur konunglegt brúðkaup í Danmörku í gær, er Friðrik krónprins gekk að eiga Mary Donaldson. Klukkan 10 í gærmorgun sendi forsetaskrifstofan frá sér fréttatilkynningu þar sem kom fram að vegna óvissu um hvenær Alþingi ljúki afgreiðslu mikilvægra mála hafi forsetinn ekki getað yfirgefið landið og farið í brúðkaupið. Er þessi ákvörðun forseta með öllu óskiljanleg í ljósi þess að fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar verður ekki að lögum á næstu dögum, enda er önnur umræða enn í gangi um málið og þá mun sú þriðja taka við. Ekkert lát er á málþófi stjórnarandstöðunnar í málinu. Um er að ræða fáránlega framkomu gagnvart dönsku konungsfjölskyldunni og íslensku þjóðinni í ljósi þess að forsetinn hafði áður tekið ákvörðun um að fara í brúðkaupið. Ekkert hefur gerst sem réttlætir ákvörðun forsetans og rök hans fyrir ákvörðunni eru mjög léleg svo vægt sé til orða tekið. Lítið mál hefði verið fyrir forseta að fara með morgunvélinni í gær til Kaupmannahafnar og koma heim til landsins að morgni laugardags. Ómögulegt er svo sem að spá í hvað forseti er að hugsa þessa dagana, en öllum má vera ljóst að hann er að minna á sig með þessu dæmalausa útspili sínu og dómgreindarlausum ákvörðunum sem gætu leitt til stjórnlagakreppu ef hann undirritar ekki lög sem meirihluti þingsins muni samþykkja, þegar þau koma á hans borð.

Davíð Oddsson forsætisráðherraDavíð Oddsson forsætisráðherra, tjáði sig um atburði gærdagsins í ítarlegu viðtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur fréttamann Ríkissjónvarpsins. Kom þar fram sú skoðun hans að forseti Íslands geti ekki neitað að staðfesta fjölmiðlafrumvarpið. Ef einhver væri vanhæfur til að fjalla um málið sé það forsetinn sjálfur. Hann sagði ákvörðun forsetans að breyta ferðaáætlun sinni og mæta ekki í brúðkaup Danaprins óskiljanlega vitleysu. Sagði hann forseta ekkert hafa rætt við sig, utanríkisráðherraforseta Alþingis um þingstörfin. Sagði Davíð að forseti geti ekki gengið erinda eins auðhrings því hann væri forseti allrar þjóðarinnar. Orðrétt sagði hann: "Ef einhver er vanhæfur til þess að taka á þessu máli þá er það Ólafur Ragnar Grímsson. Forstjóri Norðurljósa er formaður stuðningsmannafélags Ólafs Ragnars Grímssonar. Það hefur komið fram í fjölmiðlum að fyrrverandi forstjóri Norðurljósa, sá sem seldi, hafi verið aðal fjárhagslegur stuðningsmaður forsetans. Það hefur komið fram að forsetinn bauð jafnan til kvöldverðar þegar Stöð 2 var að taka lán... Dóttir forsetans vinnur hjá Baugi. Þannig að ef að einhver er algerlega vanhæfur til slíkra hluta, þá er það forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Þannig að á hvorn veginn sem lögfræðitúlkunin liggur þá er algerlega ljóst að hann getur ekki synjað þessum lögum." Fróðlegt viðtal og Davíð óhræddur við að tjá skoðanir sínar, venju samkvæmt. Er ég sammála forsætisráðherranum í öllum meginatriðum í þessu máli. Bendi ennfremur öllum á að lesa grein Hrafnkels A. Jónssonar í Mogganum í gær.

AlþingiEins og fyrr segir hélt önnur umræða um fjölmiðlafrumvarpið áfram á þingi í gær. Þá flutti Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna seinni ræðu sína í annarri umræðunni. Hafði hann óskað að forsætisráðherra tæki þátt í umræðum um ræðu sína og svaraði spurningum sem hann kæmi fram með. Þegar fyrir lá að forsætisráðherra yrði ekki viðstaddur fór Steingrímur hörðum orðum um forsætisráðherrann og sagði orðrétt: "og það skal þá standa að Davíð Oddsson sé slík gunga og drusla að hann þori ekki að koma hér og eiga orðastað við mig." Þessi ómerkilegu ummæli Steingríms segja mikið um innræti hans og ómálefnalegheit í umræðunni. Þau eru ekki sæmandi manni í hans stöðu sem flokksleiðtoga, alþingismanns og stjórnmálamanns með rúmlega tveggja áratuga setu að baki á þjóðþinginu. Er lágmark að hann biðjist afsökunar á þessum gífuryrðum og skammist sín!

Friðrik krónprins Danmerkur og eiginkona hans, María krónprinsessaBrúðkaup í Kaupmannahöfn
Friðrik krónprins Danmerkur, kvæntist í gær hinni áströlsku Mary Donaldson, við hátíðlega athöfn í Frúarkirkju í Kaupmannahöfn. Þjóðhátíðarstemmning er í landinu vegna brúðkaupsins. 9 ár eru liðin frá seinasta konunglega brúðkaupi í Danmörku, en 1995 kvæntist Jóakim, yngri sonur Margrétar Danadrottningar, Alexöndru eiginkonu sinni. 37 ár eru liðin síðan Margrét kvæntist Hinrik greifa, en þau játuðust hvoru öðru þann 10. júní 1967. Friðrik prins er fæddur 26. maí 1968, en brúðurin er fædd árið 1972. Þau kynntust á bar í Sydney í Ástralíu, á Ólympíuleikunum árið 2000. Fór samband þeirra mjög leynt fyrst um sinn, en í febrúar 2002 staðfesti danska krúnan loks að Friðrik og Mary ættu í ástarsambandi. Snemma ársins 2003 fluttist Mary, sem er lögfræðingur að mennt, til Danmerkur, og hóf störf hjá dótturfyrirtæki Microsoft þar. 8 október 2003 var formlega tilkynnt um trúlofun þeirra og giftingu. Mary Donaldson er fyrsti Ástralinn sem giftist inn í evrópska konungsfjölskyldu og verður væntanlega fyrsta ástralska konan sem verður drottning í Evrópulandi. Var brúðkaupið mjög tilkomumikið. Fulltrúi Íslands við athöfnina var Dorrit Moussaieff forsetafrú, en eins og flestum er kunnugt sá forseti Íslands sér ekki fært að fljúga til Danmerkur. Um er að ræða gleðidag fyrir dönsku konungsfjölskylduna og ástæða er til að samfagna henni á þessum tímamótum.

Jónsi - HeavenIdol - Eurovision
Hálfur mánuður er þar til næsta poppstjarna Bandaríkjanna verður valin í símakosningu í American Idol. Aðeins eru eftir fjórir þátttakendur og í þættinum sem sýndur var í gærkvöldi tókust Diana, Fantasia, La Toya og Jasmine á um að komast í þriggja manna úrslitin eftir viku. Þær þrjár fyrstnefndu stóðu sig frábærlega og eiga allar skilið að vinna keppnina, en Jasmine er að slappast nokkuð finnst mér. Það kom því þónokkuð á óvart að bandaríska þjóðin skyldi senda La Toyu heim, enda var hún alveg mögnuð í túlkun sinni á lögunum sem hún flutti. Greinilegt að margir voru hissa á þessari niðurstöðu símakosningarinnar. Í kvöld er hinsvegar komið að stóru stundinni hjá Jónsa í Eurovision-keppninni í Istanbúl. Vona að honum gangi sem allra best með flutninginn á Heaven, veit að hann mun gera sitt besta og verða okkur til sóma. Við vonum það besta með kvöldið og að Ísland nái góðum árangri. Hvet alla til að lesa blogg Eurovision faranna.

Dagurinn í dag
1941 Alþingi samþykkir að fresta þingkosningum um allt að fjögur ár vegna hernámsins
1952 Fiskveiðilögsaga Íslendinga færð úr þremur sjómílum í fjórar - breytt næst sex árum síðar
1967 Fyrsta sjónvarpsleikritið, Jón gamli, eftir Matthías Johannessen ritstjóra, frumsýnt
1972 Geðtruflaður maður skýtur í bakið á George Wallace ríkisstjóra Alabama og forsetaframbjóðanda, á kosningafundi í Laurel í Maryland. Wallace lamaðist fyrir neðan mitti
1991 Edith Cresson verður fyrsti kvenforsætisráðherra Frakklands - sat í rúmt ár á þeim stóli

Snjallyrði dagsins
Forsetinn getur ekki verið að ganga erinda eins auðhrings. Hann er forseti allrar þjóðarinnar. Það gefur augaleið.
Davíð Oddsson forsætisráðherra (í kvöldfréttum Sjónvarpsins - 14. maí 2004)