Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 maí 2004

AlþingiHeitast í umræðunni
Önnur umræða um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar hófst á Alþingi laust fyrir klukkan 15:00 í gær, að lokinni utandagskrárumræðu um skipan hæstaréttardómara í ágúst 2003 þar sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, svaraði spurningum stjórnarandstöðuþingmanna um álit umboðsmanns Alþingis. Fór hann þar vel yfir sjónarmið sín og tjáði eigin skoðanir um ferli við skipan hæstaréttardómara. Umræður um fjölmiðlafrumvarpið stóðu í allan gærdag á þingi og allt fram á nótt og munu halda áfram í dag. Að lokinni ræðu Bjarna Benediktssonar formanns allsherjarnefndar, mælti Bryndís Hlöðversdóttir framsögumaður minnihluta nefndarinnar, fyrir áliti hans um fjölmiðlafrumvarpið. Í því kemur fram mat minnihlutans við breytingatillögum meirihluta nefndarinnar, helsta niðurstaðan er sú að minnihlutinn krefst þess að frumvarpinu verði vísað frá. Átti Bjarni í hörðum orðaskiptum að lokinni ræðu sinni við nokkra þingmenn, en yfir 20 þingmenn voru á mælendaskrá við upphaf umræðnanna og um miðnættið áttu enn 14 þeirra eftir að tala, þannig að umræðan mun standa allt til morguns. Umfjöllun um fjölmiðlafrumvarpið hefur skiljanlega yfirgnæft allt annað seinustu daga í fjölmiðlum. Fréttaflutningur fréttastöðva Norðurljósa hefur vakið sérstaka athygli, en einungis neikvæð umfjöllun er þar um frumvarpið og jaðrar hann vægast sagt við að vera mjög hlutdrægur. Það er mjög athyglisvert að fylgjast með fréttamiðlum fyrirtækisins. Nægir reyndar að skoða sérstaklega einhliða vef fyrirtækisins um þetta mál.

Saddam HusseinEins og flestum er kunnugt var Saddam Hussein fyrrum einræðisherra Íraks, handsamaður þann 13. desember sl. eftir margra mánaða leit að honum. Fannst hann í holu við bændabæ og veitti enga mótspyrnu við handtökuna. Frá þeim tíma hefur hann verið í varðhaldi Bandaríkjamanna með stöðu stríðsfanga. Tilkynnt var í gær að við valdaskiptin í landinu 1. júlí nk. muni bandaríski heraflinn í Írak, afhenda einræðisherrann fyrrverandi, íröskum stjórnvöldum. Á sama tíma verða um 100 áhrifa- og valdamenn í stjórn Husseins, t.d. Tariq Aziz og Ali Hasan Majid sem þekktur er sem Efnavopna-Ali, ennfremur afhendir stjórnvöldum í landinu. Ráðgert er að réttarhöld hefjist í upphafi ársins 2005, yfir Saddam og helstu samverkamönnum hans og þar verði þeir að svara til saka fyrir áratugalanga ógnarstjórn Baath-flokksins og Saddam verði að standa reikningsskil gjörða sinna í embætti, þau 24 ár sem hann var leiðtogi landsins. Salem Chalabi, sem hefur unnið að því að afla sönnunargagna gegn sakborningunum, hefur sagt að meðal refsinga sem þeir geti átt yfir höfði sér sé aftaka. Dómarar hafa verið skipaðir í íraska stríðsglæpadómstóllinn. Mikið ánægjuefni er að þessir stríðsglæpamenn allir saman þurfi að svara til saka fyrir verk sín og vonandi að þeir hljóti maklega refsingu.

Rauði kross ÍslandsÁ mánudag kynntu Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Úlfar Hauksson formaður Rauða Kross Íslands, íslenskaða útgáfu Genfarsamninganna. Er þetta í fyrsta skipti sem samningarnir koma út á íslensku og eru því merk tímamót. Kynningarathöfnin fór fram við Espihól í Eyjafirði og var þar mikill hópur fólks saman kominn til að fylgjast með kynningunni og heyra ræður ráðherra og fleiri um málið. Fyrsta eintak bókarinnar var afhent Þorsteini Gunnarssyni rektor Háskólans á Akureyri. Við sama tækifæri kynnti Þorsteinn mjög vel nýstofnaða Félagsvísinda- og lagadeild háskólans, en í undirbúningi er að hún muni leggja mikla áherslu á kennslu í mannréttindum og mannúðarlögum. Á vef Rauða Krossins fjallar Þórir Guðmundsson ítarlega um athöfnina og sögu samninganna og þar kemur orðrétt fram: "Genfarsamningarnir eru hornsteinn alþjóðlegra mannúðarlaga. Þeir hafa það hlutverk að draga úr eyðileggingaráhrifum stríðs og veita fórnarlömbum þess vernd. Í þeim kristallast hugmyndin um að jafnvel stríð sé takmörkunum háð. Samningarnir vernda þá sem ekki taka þátt í ófriði, eða hafa lagt niður vopn, og reisa skorður við því valdi sem stríðsaðilar geta beitt."

Hjörleifur PálssonSvona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu pistill eftir Hjölla og fjallar um nýlegan samning ríkisins við mjólkurbændur og gilda mun til næstu 8 ára. Orðrétt segir í pistli Hjölla: "Það er engum greiði gerður með núverandi kerfi. Neytendur eru að borga allt of hátt verð fyrir matvæli, gríðarlega miklu skattfé er sóað, og þrátt fyrir allt þetta þá eru kjör sjálfra bændanna ekkert til að hrópa húrra fyrir. Offjárfesting einkennir kerfið, of margir starfa í greininni og flest er gert til að koma í veg fyrir hagkvæmni. Er þar skemmst að minnast ummæla landbúnaðarráðherra fyrir eigi löngu síðan, sem var ekki hægt að skilja öðruvísi en að hann vildi byggja greinina á gamaldags kotbúskap, með mörgum, litlum, ótæknivæddum og óhagkvæmum búum. Íslendingar hafa áður umbreytt heilli atvinnugrein úr ríkisstyrktri og óhagkvæmri atvinnugrein yfir í frjálsa og hagkvæma grein, þar sem sjávarútvegurinn er. Það er engin ástæða til að ætla að hið sama geti ekki tekist með landbúnaðinn." Hvet alla til að líta á pistilinn, enda mjög vel fjallað um málið þarna. Að auki er á vefnum góð Moggagrein Atla Rafns um umræðuna um jafnréttismál.

LeadershipUmræða um fjölmiðlafrumvarpið - góð bók
Eins og fyrr er vikið að er mikil umræða þessa dagana um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar, enda er það aðalmálið í stjórnmálaumræðunni á þinginu. Í gær var þetta að sjálfsögðu umræðuefni dægurmálaspjallþáttanna. Í Íslandi í dag mættust Bjarni Benediktsson formaður allsherjarnefndar, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður. Þar fór Bjarni mjög málefnalega yfir málið af sinni hálfu og tjáði sínar skoðanir. Merkilegt er hinsvegar hversu Ingibjörg Sólrún tekur algjörlega undir sjónarmið forystumanna Norðurljósa og fjallar ekkert um efnisatriði sjálfs málsins. Ingibjörg virðist ekki geta tjáð sig um málið nema með sjónarmið Baugs að leiðarljósi. Reyndar eru merkileg ummæli hennar þess efnis hvort forystumenn fyrirtækja hafi sjálf óskað eftir aðlögunartíma um frumvarp um eignarhald. Reyndar kom vel fram í þessum þætti og eins Kastljósinu síðar um kvöldið er Bjarni mætti Bryndísi Hlöðversdóttur að Samfylkingin hefur enga stefnu í þessu máli nema hentistefnu og vill ekkert gera í þessu máli og horfir í sífellu allt annað en að aðalatriðunum, umræðunni beint um eignarhald á fjölmiðlum sem skýrslan víkur að. Er það í takt við allt annað í málflutningi þessa flokks og leiðir hugann að því hvaða hagsmuna flokkurinn hefur að gæta. En að öðru, er þessa dagana að lesa alveg frábæra bók, Leadership eftir Rudolph Giuliani fyrrum borgarstjóra í New York. Hvet alla til að lesa hana, eigi þeir tækifæri til þess.

Dagurinn í dag
1882 Konur fengu ótvíræðan en takmarkaðan kosningarétt til sveitarstjórna
1935 Golf var leikið í fyrsta skipti á Íslandi þegar sex holu golfvöllur var vígður í Laugardal
1937 George VI Englandskonungur krýndur - hann sat á valdastóli í sextán ár, 1936-1952
1949 Sovétríkin aflétta vega- og flugbanni til Berlínar, er gilt hafði í rúmt ár
1994 John Smith leiðtogi breska Verkamannaflokksins, deyr úr hjartaslagi í London, 55 ára að aldri - hann hafði leitt flokkinn í tvö ár. Eftirmaður hans varð Tony Blair og leiddi hann flokkinn til sigurs í þingkosningunum 1. maí 1997 og varð forsætisráðherra Bretlands

Snjallyrði dagsins
Hafa fyrirtækin beðið um þennan aðlögunartíma? Hefur starfsfólkið beðið um hann?
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaþingmaður (í Íslandi í dag, 11. maí 2004 - um hvort fyrirtæki sem þurfi að stokka upp starfsemi sína vegna fjölmiðlafrumvarps ríkisstjórnarinnar hafi óskað eftir aðlögunartíma)