Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 nóvember 2004

KennslaHeitast í umræðunni
Dagurinn í dag er svartur, svartur af siðferðisleysi kennara landsins. Tugum þúsunda grunnskólanemenda var snúið frá skólum sínum víða um land þegar þeir mættu þangað í morgun. Engar tilkynningar höfðu áður borist frá skólum eða fræðsluyfirvöldum um að skólahald félli víðast hvar niður, að hluta eða þá bara alveg. Mun hafa skapast hálfgert öngþveiti við suma skólana þegar foreldrar, einkum yngstu barnanna, biðu þar með börnum sínum eftir að fá úr því skorið hvort skólahald yrði eða ekki. Tilkynningar hafa borist af öllu landinu um lokaða eða hálf lamaða skóla, einkum frá nemendum sjálfum og foreldrum. Á þónokkrum stöðum í strjálbýlinu er skólahald með nokkurnveginn eðlilegum hætti, samkvæmt fréttum.

Það er að mínu mati alvarlegur atburður, vægast sagt ótrúlega heimskulegur svo ekki sé nú minnst á að hann er ólöglegur, að kennarar mæti ekki til vinnu eftir að lög hafi verið sett á kjaradeiluna og reynt að koma málum þeirra í það ferli að tryggja nemendum þá menntun sem þeim ber, enda hefur verið augljóst frá upphafi verkfalls að deiluaðilar eru gjörsamlega ófærir um að ná einhverjum grunni að lausn með góðu. Í fréttum hafa í dag borist fregnir af starfinu, ýmist er ekkert gert og krakkar sendir heim eða að nemendum hafi verið hleypt inn í stofur, en síðan hafi kennarar einfaldlega gengið út. Búið er að skipa gerðardóm til að fara yfir kaup og kjör kennara. Gerðardómur hefur ákveðinn tíma til að skila niðurstöðu sinni, og samkvæmt lögum ber kennurum að sinna sínu starfi þangað til sú niðurstaða liggur fyrir. Kennarar hafa nú greinilega hunsað landslög, og kastað siðferðiskennd sinni algjörlega fyrir róða með því að skrópa í skólum landsins í dag. Þeir hafa einnig greinilega kennt börnum um allt land þá lexíu sem þeim er æðst nú, að ef manni líka ekki landslög, þá er bara að finna sér leið til að komast hjá því að fara eftir þeim, t.d. með því að ljúga til um veikindi. Kannski kann einhverjum að finnast þetta fínt og flott. Í mínum orðabókum er svona kallað aumingjaskapur, get því miður ekki sagt annað um þessi vinnubrögð sumra kennara.

Colin Powell utanríkisráðherra BandaríkjannaColin Powell utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði af sér embætti í dag. Hann tilkynnti um afsögn sína í yfirlýsingu sem Hvíta húsið gaf út síðdegis, og lagði fram formlega lausnarbeiðni sína á fundi með forsetanum á föstudag. Powell, sem er 67 ára gamall, hefur verið utanríkisráðherra allt frá valdatöku George W. Bush forseta Bandaríkjanna, í janúar 2001. Hann var lengi hershöfðingi í Bandaríkjaher og sat sem þjóðaröryggisráðgjafi undir lok forsetatíðar Ronald Reagan og var formaður herráðs Bandaríkjanna í forsetatíð George H. W. Bush 1989-1993, og var áberandi í fjölmiðlum sem forystumaður hernaðarátaka Bandamanna í Persaflóastríðinu 1991. Powell hefur verið litríkur og mjög farsæll í starfi sínu sem utanríkisráðherra undanfarin fjögur ár og verður eftirsjá af honum úr ríkisstjórn Bandaríkjanna og úr stjórnmálaheiminum, nú þegar hann víkur úr daglegri stjórnun Bandaríkjanna. Orðrómur hafði verið uppi allt frá sumrinu 2003 um að Powell hefði ekki hug á að sitja nema til loka kjörtímabilsins, hvort sem forsetinn hlyti endurkjör eður ei. Líklegust sem eftirmenn hans á ráðherrastóli eru Condoleezza Rice þjóðaröryggisráðgjafi forsetans, og John Danforth sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum og fyrrum öldungadeildarþingmaður frá Missouri. Talið er líklegra að Condi Rice taki við embættinu. Verði hún skipuð í embættið mun hún verða fyrsta blökkukonan sem verður utanríkisráðherra og önnur konan í sögunni, en sú fyrri var Madeleine Albright sem var seinni utanríkisráðherra Clinton-tímans, 1997-2001. Í dag tilkynntu einnig Rod Paige menntamálaráðherra, Ann Veneman landbúnaðarráðherra, og Spencer Abraham orkumálaráðherra, um afsagnir sínar. Það blasir við að mikil uppstokkun verði því á stjórn forsetans.

JafnréttiRáðstefna í Borgum
Um helgina var haldin hér á Akureyri, ráðstefna um samfélagsþróun, jafnrétti og umhverfismál í Borgum, nývígðu rannsóknar- og nýsköpunarhúsi Háskólans á Akureyri. Fyrir okkur sem sitjum í jafnréttis- og fjölskyldunefnd Akureyrarbæjar eða höfum tekið þátt í störfum nefndarinnar var athyglisvert að kynna sér málefnin sem þar voru til umræðu og ræðumenn á ráðstefnunni fjölluðu um í athyglisverðum erindum sínum. Spurt var hver væri framtíð kvenna og karla í jaðarbyggðum Norðurskautssvæðisins. Sjónum var beint að mögulegum sóknarfærum fyrir konur í jaðarbyggðum, möguleika á jafnrétti í samfélagi þar sem kynjahallinn eykst ár frá ári og umhverfið er hrjóstrugt og fá atvinnutækifæri bjóðast. Ræðumenn komu frá ólíkum svæðum, héðan frá Íslandi, en einnig frá Finnlandi, Noregi, Grænlandi, Færeyjum og Kanada. Í fyrsta hlutanum var rætt t.d. um aðgengi kvenna til pólitískrar ákvarðanatöku og fluttu þar mjög athyglisverð erindi þær Inga Dóra G. Markussen frá Grænlandi, Björg Jacobsen frá Færeyjum og Anna Karlsdóttir. Í atvinnumálahlutanum voru svo fróðlegar ræður hjá Ingólfi V. Gíslasyni, Sigrid Skålnes frá Noregi, og Þóroddi Bjarnasyni. Í heildina var um mjög góða ráðstefnu að ræða og var ánægjulegt að heyra ólík sjónarmið um umræðuefnin og ræða þessi mál við þá sem tóku þátt í ráðstefnunni.

Umfjöllun um Edduverðlaunin 2004

Dagurinn í dag
1923 Þórbergur Þórðarson rithöfundur, hóf að rita bréf til Láru Ólafsdóttur á Akureyri - bréfin sem hann skrifaði henni urðu undirstaðan í bók hans, Bréf til Láru, sem varð mikið tímamótarit í sögu bókmenntanna og gerði Þórberg landsfrægan sem rithöfund - Þórbergur Þórðarson lést árið 1974
1969 Samtök frjálslyndra og vinstri manna, stofnuð - var stofnað sem sérframboð Hannibals Valdimarssonar og bauð fyrst fram í alþingiskosningunum 1971 og sat í ríkisstjórn 1971-1974. Eftir slit stjórnarinnar og brotthvarf Hannibals úr pólitík fjaraði fljótt undan flokknum - lagður niður 1979
1978 Mesta slys íslenskrar flugsögu varð þegar 197 manns fórust er þota sem var í eigu Flugleiða hf. hrapaði í lendingu á Colombo í Sri Lanka. 8 íslenskir flugliðar létu lífið en fimm komust lífs úr slysinu
1990 Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti að gefa afgreiðslutíma verslana í borginni alveg frjálsan
1999 Edduverðlaun, Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, voru afhent í fyrsta skipti. Mynd Guðnýjar Halldórsdóttur, Ungfrúin góða og húsið, byggð á sögu föður hennar, varð mjög sigursæl

Snjallyrði dagsins
Og andinn mig hreif upp á háfjallatind
og ég horfði sem örn yfir fold
og mín sál var lík í tærri, svalandi lind,
og ég sá ekki duft eða mold.

Mér þótti sem hefði ég gengið upp gil
fullt með grjótflug og hræfugla-ljóð,
fullt með þokur og töfrandi tröllheima-spil,
unz á tindinum hæsta ég stóð.

Mér þótti sem hefði ég þolað allt stríð,
allt, sem þola má skjálfandi reyr,
og mér fannst sem ég þekkti ekki háska né hríð,
og að hjarta mitt bifðist ei meir.
Matthías Jochumsson prestur og skáld á Akureyri (1835-1920) (Leiðsla)