Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 apríl 2005

Michael Howard og Tony BlairHeitast í umræðunni
Aðeins sex sólarhringar eru í þingkosningar á Bretlandseyjum. Baráttan harðnar sífellt og leiðtogar stóru flokkanna nota hvert tækifæri sem þeim gefst til að kasta á milli sín árásarflaugum. Í gærkvöldi voru leiðtogarnir þrír, þeir Tony Blair leiðtogi Verkamannaflokksins, Michael Howard leiðtogi Íhaldsflokksins, og Charles Kennedy leiðtogi frjálslyndra demókrata, gestir í viðtalsþættinum Question Time á BBC. Er þetta í eina skiptið í kosningabaráttunni sem þeir koma fram og svara spurningum fréttamanna með þessum hætti. Athygli vakti þó að þeir sátu ekki samtímis fyrir svörum, heldur hófst þetta með hálftímayfirheyrslu á Kennedy, svo Howard og að lokum Blair. Kom svosem fátt nýtt fram þarna. Þó reyndi Blair með miklum herkjum að svara spurningum um Íraksmálið og nýjum uppljóstrunum tengdu því. Sögðu gárungarnir að Blair hefði svitnað eins og Nixon við að verja stöðu sína, enda segir einn lesandi á fréttavef BBC er umræðurnar eru ræddar að hann hefði átt að þurrka svitablettinn fyrir ofan vörina oftar.

Í ítarlegum pistli á vef Heimdallar í dag fer ég yfir kosningabaráttuna og kem með ýmsa mikilvæga punkta í umræðuna. Nóg er um að fjalla þegar kemur að breskum stjórnmálum og pælingum í umræðunni þar þessa dagana í kosningaslagnum. Ég hef alla tíð haft mjög mikinn áhuga á breskum stjórnmálum. Man ég vel eftir seinustu valdaárum Margaret Thatcher sem sat á forsætisráðherrastóli árin 1979-1990 og gleymi aldrei atburðarásinni að morgni 22. nóvember 1990 er spurðist út að hún væri að segja af sér embætti. Það var söguleg stund óneitanlega. Man ég vel eftir kosninganóttinni í apríl 1992 er John Major tókst þvert á allar skoðanakannanir að halda völdum og tryggja með því fjórða sigur Íhaldsflokksins í röð. Það var sögulegur sigur á skoðanakönnunum, eins og frægt varð. Kosninganóttin 1997 er svo auðvitað ógleymanleg, en þá unnu kratar og Blair sögulegan sigur á hægriblokkinni og Major féll af valdastóli. Það voru söguleg úrslit, enda varð Blair yngsti forsætisráðherrann frá árinu 1827 og var það fyrsti kosningasigur kratanna eftir óslitna 18 ára valdatíð hægrimanna. 2001 voru kosningarnar óspennandi með eindæmum og staðan breyttist lítið. Nú gæti stefnt í spennandi kosningar, allavega vonar maður það, svona sem áhugamaður um málin. Enginn vafi leikur á að íhaldsmenn hafa verið sterkari seinustu vikur en jafnan áður og Verkamannaflokkurinn á undir högg að sækja. Svo virðist þó vera nú að stjórnin haldi velli og að Blair haldi forsætisráðherrastólnum enn um sinn. En klukkan tifar já í kjördag og þrátt fyrir spennu á þessum kafla slagsins bendir þó flest til þess að úrslitin sem slík séu ráðin. En við spyrjum að leikslokum.

Davíð Oddsson utanríkisráðherraDavíð Oddsson utanríkisráðherra, flutti á Alþingi í morgun skýrslu sína um utanríkismál. Þar tjáði hann þá skoðun sína að áleitnar spurningar hefðu komið upp í hans huga varðandi kostnað við framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, til setu þar árin 2009 og 2010. Í ræðunni sagði hann orðrétt: "Ljóst er að á brattann verður að sækja gegn keppinautunum, en auk Íslands eru Austurríki og Tyrkland í framboði til þeirra tveggja sæta sem tilheyra Vesturlandahópnum svonefnda. Það er óneitanlega miður að honum skuli ekki hafa tekist að komast að samkomulagi um að einungis tvö ríki væru í framboði þannig að smærri aðildarríkjum gæfist kostur á að taka þátt í störfum öryggisráðsins án þess að þurfa að leggja í dýra og erfiða kosningabaráttu. Í utanríkisráðuneytinu var gerð kostnaðaráætlun upp á rúmar 600 milljónir króna vegna kosningabaráttunnar og setunnar í ráðinu. Gera verður ráð fyrir að þegar líði á kosningabaráttuna aukist harkan í henni enn frekar en orðið er og þar með kostnaðurinn. Af þessum ástæðum öllum hefur framboð Íslands verið til skoðunar, sem lýkur á næstu vikum. Ef halda á framboðinu áfram má ekki bíða mikið lengur með að hefja kosningabaráttuna af fullum krafti".

Er ánægjulegt að Davíð tjái sig með þessum hætti. Hef ég alla tíð verið mjög andvígur því að Ísland myndi sækja um þessa aðild, enda um að ræða mjög kostnaðarsama kosningabaráttu sem taki bæði langan tíma og alls óvíst sé um árangur í því. Eins og sést hefur er nauðsynlegt, ef heyja á baráttu um sætið af einhverri alvöru, að eyða í það stórpeningum án þess að nokkuð sé um það öruggt að Ísland muni vinna sætið. Er að mínu mati rétt að staldra aðeins við og hugsa málið betur. Á það ber að minnast að meirihluti þeirra mála sem tekinn er fyrir af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eru málefni sem Íslendingar hafa hingað til lítið sem ekkert beitt sér í. Eins og fram hefur komið að hálfu okkar í stjórn og utanríkismálanefnd Sambands ungra sjálfstæðismanna, og ítrekað í stjórnmálaályktunum sambandsþings í Borgarnesi 2003 og málefnaþings á Selfossi 2004, þykir ungum sjálfstæðismönnum skorta á að sýnt sé með skýrum hætti fram á hvaða ávinningur hlýst af setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Kostnaðurinn er það mikill að fá þarf betur fram hver ávinningurinn sé, eigi að halda áfram á þessari braut. Með ræðu sinni nú hefur Davíð að mínu mati opnað svo ekki verði um villst á það að slá málið út af borðinu. Tel ég einsýnt að það muni brátt gerast af krafti að umræðan um þetta mál deyji út og málið slegið af, þegar tímasetning hentar.

Punktar dagsins
Akureyri

Boðað er til þögullar mótmælastöðu gegn ofbeldi á Akureyri klukkan 17:00 í dag á Ráðhústorgi. Það er ómögulegt fyrir okkur Akureyringa í ljósi nýlegra atburða hér í bænum að horfa þegjandi á það sem hefur gerst. Það er komið að okkur, bæjarbúum öllum, að rísa upp og mótmæla og taka á þessum málum. Svona ógeðslegheit og ómenningarbragur á enga samleið með þeirri stefnu sem við í bæjarstjórnarmeirihlutanum höfum markað okkur með fjölskyldustefnu bæjarins. Akureyri á að vera þekkt fyrir að vera fjölskylduvænt sveitarfélag: fjölskyldu- og skólabær. Það er sú stefna sem við höfum markað og við getum því ekki setið þegjandi hjá og horft upp á þessa þróun að misyndismenn vegi að rótum bæjarins og okkar mannlífsbrag. Unnið hefur verið af krafti af því að marka bænum þann sess að hann sé vettvangur heilbrigðs fjölskyldulífs en ekki vettvangur misyndismanna og villimennskuaumingja sem vega að heilbrigðum rótum mannlífs. En já, í dag fáum við bæjarbúar færi á að segja okkar skoðun. Það eru því eindregin tilmæli mín til Akureyringa allra að koma á Ráðhústorg í dag klukkan fimm og taka þátt í að mótmæla. Þar munum við halda á lofti rauðu dómaraspjaldi og tjá okkar hug með því. Burtu með þennan fjárans ósóma og nú verða menn að taka til hendinni, það er ekkert sem heitir með það! Látum í okkur heyra!

RÚV

Menningarmálanefnd SUS hélt í gærkvöldi opinn fund um nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið, sem hefur verið lagt fram á þingi og er nú í vinnslu þar. Á fundinum sátu fyrir svörum þingmennirnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Kolbrún Halldórsdóttir fluttu framsöguerindi á fundinum og sátu að því loknu fyrir svörum ásamt Hafsteini Þór Haukssyni formanni SUS. Ef marka má umfjöllun á netinu var um að ræða fjölsóttan og öflugan fund. Er það mjög ánægjulegt, enda um að ræða málefni sem þörf er að taka vel fyrir og ræða. Mun Kolbrún hafa lýst því yfir á fundinum að ef velja þyrfti á milli þess að breyta RÚV í hlutafélag eða sameignarfélag, þá væri hún frekar hlynntari hlutafélagaleiðinni. Kom fram af hálfu Guðlaugs Þórs að hægri- og vinstrimenn gætu væntanlega náð saman um að einskorða hlutverk RÚV við svið íslenskrar menningar. Eins og fram kom í sunnudagspistli mínum þann 20. mars tel ég sem hægrisinnaður einstaklingur þetta frumvarp afleitt. Ég tel að það styrki RÚV um of og undirstöður þess með undarlegum hætti. Ég hef styrkst sífellt meir í þeirri skoðun minni seinustu vikurnar um að Ríkisútvarpið verður að einkavæða og klippa á tengingu fjölmiðla við ríkið. Það er ótrúlegt að Sjálfstæðisflokkurinn sé nú að leggja fram frumvarp á sínum vegum sem styrkir enn frekar grundvöll RÚV og það sem það byggir á. En ég hvet fólk til að lesa þau skrif mín um málið.

Jón Baldvin og Bryndís

Árið 2002 er ég varð 25 ára, fékk ég athyglisverða afmælisgjöf frá einum vina minna. Hann vissi auðvitað hvar ég var staddur í pólitík og ákvað að eigin sögn að gera mér þann óleik að gefa mér í gjöf viðtalsþáttinn Prívat þar sem Hans Kristján Árnason fjölmiðlamaður, ræddi við Jón Baldvin Hannibalsson sendiherra og fyrrum ráðherra og formann Alþýðuflokksins. Viðtalið sem gefið var út á myndbandsspólu árið 2001 og var á dagskrá Stöðvar 2 fyrr sama ár er mjög fróðlegt og gagnlegt og áhugavert á að horfa. Hrekkurinn hjá þessum mæta vini mínum, sem er vinstrimaður og krati frá æskuárum, gekk ekki upp enda tilkynnti ég honum er ég opnaði gjöfina að ég hefði lengi borið talsverða virðingu fyrir Jóni Baldvini og hefði haft álit á honum sem stjórnmálamanni, þrátt fyrir að vera stundum mjög ósammála honum, en það er önnur saga. Ég hef nokkrum sinnum horft á þetta ítarlega viðtal og alltaf haft gaman af, seinast í gærkvöldi. Einn af helstu kostum Jóns Baldvins er skemmtilegur frásagnarhæfileikinn og það er engu líkt að hlusta á hann fjalla um málefni Eystrasaltsríkjanna, EES málið og fleiri hitamál stjórnmálaferils hans. Hvet ég alla til að fá sér þessa spólu ef möguleiki er á og lesa ennfremur fyrra bindi góðrar ævisögu hans, en hún heitir Tilhugalíf og kom út á árinu 2002.

Reyðarfjörður

Ferðinni er heitið austur um helgina. Er eitt og annað þar á seyði sem gaman verður að taka þátt í. Fór ég síðast austur undir lok janúarmánaðar. Var það mjög ánægjuleg og góð ferð. Sérstaklega var gaman að kynna sér stöðu mála á Reyðarfirði vegna álversframkvæmdanna. Þar var allt komið á fullt þá og er enn meiri kraftur kominn í dæmið núna. Verður fróðlegt að líta á málin þar og framkvæmdirnar. Þar hefur nýlega verið vígð vegleg verslunarmiðstöð og svo eru þar nokkrar deilur um væntanlegt íþróttahús þar, sem er í stíl við Bogann, hér á Akureyri. Ekki vantar því málefnin þar og nóg að líta á þar. Ætla ég að kynna mér þetta allt um helgina ásamt fleiru. Það leikur enginn vafi á því að Fjarðarbyggð er orðinn miðpunktur Austurlands og er það ánægjuefni. Sérstaklega er gleðilegt að sjá hversu mjög Reyðarfjörður hefur styrkst. Verður fínt að eiga stund og líta á hvað er að gerast þarna og kynna sér málin vel. Það er því svo sannarlega skemmtileg helgi framundan austur á fjörðum.

Saga dagsins
1106 Jón Ögmundsson var vígður sem fyrsti biskupinn að Hólum í Hjaltadal - hann lést á árinu 1121
1958 Söngleikurinn víðfrægi, My Fair Lady var frumsýndur í London - varð kvikmyndaður árið 1964
1986 Wallis Warfield Simpson hertogaynja af Windsor, jarðsungin við látlausa athöfn - ástarsamband hennar og Edward VIII konungs Englands, leiddi til þess að hann afsalaði sér bresku krúnunni 1936. Giftust árið eftir og bjuggu eftir það í Frakklandi. Edward lést 1972. Þau hvíla hlið við hlið í Windsor
1992 Fjöldaóeirðir í Los Angeles í kjölfar sýknudóms yfir þeim sem réðust á Rodney King árið áður
1994 Steingrímur Hermannsson skipaður seðlabankastjóri - þá baðst hann lausnar sem formaður Framsóknarflokksins og alþingismaður Framsóknarflokksins. Hann hafði þá setið á þingi frá árinu 1971 og verið ráðherra nær samfellt árin 1978-1991. Steingrímur var dóms- og landbúnaðarráðherra 1978-1979, sjávarútvegs- og samgönguráðherra 1980-1983, forsætisráðherra 1983-1987 og 1988-1991 og utanríkisráðherra 1987-1988. Hann hafði verið formaður flokksins frá 1979. Eftirmaður hans á formannsstóli Framsóknarflokksins var Halldór Ásgrímsson, sem verið hafði varaformaður frá 1980

Saga morgundagsins
1945 Adolf Hitler sviptir sig lífi ásamt Evu Braun eiginkonu sinni í neðanjarðarbyrgi í Berlín - Hitler hafði þá tapað stríðinu. Hann ríkti yfir Þýskalandi allt frá 1933, en tók sér einræðisvald á árinu 1936
1973 Richard Nixon forseti, tekur ábyrgð á Watergate málinu en hafnar persónulegri aðild að því - málið jókst sífellt að vöxtum og eftir því sem á leið varð ljóst að Nixon hafði verið tengdur því. Hann sagði af sér fyrstur forseta Bandaríkjanna í ágúst 1974, enda blasti við að þingið myndi ákæra hann
1975 Víetnamstríðinu langa lýkur formlega er Saigon stjórnin tilkynnir uppgjöf sína fyrir Vietcong
1991 Davíð Oddsson verður forsætisráðherra er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks tók við völdum - stjórnin sat til 1995 en Davíð sat á forsætisráðherrastóli samfellt til 15. september 2004
1993 Ein fremsta tennisstjarna heims, Monica Seles, var stungin í bakið - náði ekki aftur fyrri stöðu

Snjallyrðið
The best minds are not in government. If any were, business would steal them away.
Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna (1911-2004)