Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

26 apríl 2005

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Þingflokkur Framsóknarflokksins birti formlega í dag upplýsingar um eignir þingmanna flokksins. Er þar um að ræða eignir þeirra í fasteignum, fyrirtækjum, sjóðum og prívateignir sem gera þarf upp almennt. Ennfremur eru talin upp laun fyrir störf utan þingsins, boðsferðir og gjafir almenns eðlis. Fór ég í dag ítarlega yfir listann með upplýsingunum og tel þetta mjög gott framtak hjá Framsóknarflokknum. Reyndar má telja líklegt að þetta leiði til þess að forsætisnefnd setji reglur um slíkt almenns eðlis hvað varðar alla þingmenn. Að mínu mati er sjálfsagt að þingmenn gefi slíkt upp, enda eiga þingmenn að vera með hreinan skjöld gagnvart umbjóðendum sínum. Að mínu mati eiga allir þingmenn nú að feta í þessi fótspor og taka upp þennan hátt á.

Undanfarnar vikur og mánuði hefur mikið verið talað um eignatengsl þingmanna Framsóknarflokksins við hin og þessi öfl í landinu og fyrirtæki af ýmsu tagi og margar dylgjur gengið í þinginu um það. Sérstaklega hafa þingmenn Samfylkingarinnar haft hátt um það og talað af krafti, að því er virðist að mestu til að reyna að dekka innri ólguna í eigin flokki og starta umræðu á annarlegum forsendum um málin. Segja má að ummæli Samfylkingarþingmanna hafi jaðrað við dylgjur og árásir á undarlegum forsendum. Það sjá allir sem fara yfir þennan lista að þingmennirnir eru margir hverjir ekki með neinn eignarhlut í fyrirtækjum en sumir þingmenn og makar þeirra eiga eitthvað í fyrirtækjum en þó verulega smávægilega hluti.

Það sannast þegar litið er yfir listann að þingmenn Samfylkingarinnar fóru offari í þingumræðum fyrr á árinu þegar dylgjað var um vissa þingmenn Framsóknarflokksins. En eftir stendur að Samfylkingin og flokkarnir á undan þeim vinstra megin, Þjóðvaki og hvað þeir heita allir, hafa talað og talað um þessi mál í rúman áratug, undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur. Það mætti þó segja mér að Jóhanna blessunin sé fúl yfir að þurfa frumkvæði framsóknarmanna til að birta tölur fyrir sinn flokk. Jóhanna hefur prívat og persónulega aldrei lagt í það sjálf að birta svona tölur opinberlega. Ekki það að ég telji hana stóreignamanneskju eða eitthvað stórhættulega í þessum efnum. En málið er það að þau hefðu getað tekið frumkvæðið en misstu það til Framsóknarflokks. Ég hef heyrt á mörgum seinustu daga sem ég þekki innan Samfylkingarinnar að fólki þar finnist blóðugt að frumkvæðið í þessu verði framsóknarmanna. En umræðustjórnmálin eru víst svona í réttinni hennar Ingibjargar Sólrúnar, menn tala þar til frumkvæðið færist annað. En hvað ætli Samfylkingin druslist ekki til núna eftir baráttu í áratug og verði eftirbátur Framsóknarflokksins í þeim efnum. Það hefur verið mál þeirra síðan 1995 allavega að taka þetta system upp en missa svo frumkvæðið til Framsóknar af öllum flokkum. Þetta er ansi kómískt, ekki satt lesandi góður?

Ingibjörg Sólrún og Össur í KastljósinuFormannsefnin í Samfylkingunni, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson, áttust við í Kastljósinu í gærkvöldi. Heldur settlegra var yfir þarna en í Íslandi í dag í síðustu viku. Engum duldist þó sem á horfði að þau eru að berjast um allt eða ekkert í pólitík hvað varðar forystu í landsmálapólitík. Þrátt fyrir loforð um að bæði haldi áfram í stjórnmálum tapi þau slagnum liggur í loftinu að það þeirra semt tapi víki úr forystusveitinni og láti hinu eftir sviðið að mestu leyti. Össur sem formaður flokksins í fimm ár og leiðtogi í kjördæmi að hálfu flokksins í síðustu kosningum getur varla með góðri samvisku verið undirmaður ISG á skútunni ef hann tapar og ISG sjálf mun eiga erfitt með að koma inn á þing í haust og taka sess í þinginu hafi hún tapað formannsslagnum fyrir Össuri og þar með fyrstu einstaklingskosningu sinni í pólitík.

Voru nokkur lúmsk skot sem flugu á milli en greinilega mjög settleg. Bakvið tjöldin eru þau ekki eins settleg. Sögur eru um að fólk í öðrum flokkum hafi verið skráð í flokkinn og fengið atkvæðaseðla vegna formannskjörsins án þess að það hafi gengið í flokkinn sér vitanlega. Svo kom skondnasta dæmið í gærkvöldi þar sem voru nokkrir tíundu bekkingar í borginni sem skráðu sig í flokkinn í röðum. Það er vissulega ánægjulegt ef ungt fólk hefur skoðun í pólitík en einhvernveginn ber skráning þeirra merki smölunar fyrir annan frambjóðandann. Það er merkilegt að fylgjast með þeirri örvæntingu ISG-liða í umræðunni að ætla Sjálfstæðisflokknum það að stjórna kjörinu. Það er eitthvað nýtt að Ingibjörg og sveitin hennar opinberi hræðslu sína við Sjálfstæðisflokkinn, en það er nú einu sinni svo, lesandi góður, að öll hennar valdabarátta seinustu árin hefur einkennst af því að magna upp samstöðu gegn Sjálfstæðisflokknum. Það er skondnara en allt annað í stjórnmálaumræðunni þessa dagana að fylgjast með ISG og innstu hjörð hennar reyna að nota Sjálfstæðisflokkinn og flokksbundið fólk þar sem grýlu innan eigin raða til að reyna að fá hinn almenna flokksmann til að styðja sig þegar við blasir að engan veginn er öruggt lengur að hún nái kjöri og jafnvel gæti stefnt í að þessi forna vonarstjarna vinstrimanna tapi fyrstu einstaklingskosningu sinni.

Punktar dagsins
Charles Kennedy, Tony Blair og Michael Howard

Nú þegar níu sólarhringar eru í að kjörstaðir opni á Bretlandseyjum er kosningabaráttan að taka á sig enn harðari og óvægnari mynd en verið hefur. Ljóst er af lokasprettinum að enginn tekur neina sénsa. Þrátt fyrir gott gengi í skoðanakönnunum tefla kratarnir á engin vöð og leggja allt í slaginn, meiri kraft tel ég en 1997 og 2001. Helgast það auðvitað af því að staðan er brothættari nú en þá, þó vissulega sé fylgismunurinn nokkur miðað við skekkjumörkin. Var greinilegt að settlegt yfirbragð var yfir flokksleiðtogunum er þeir komu fram saman opinberlega í dag við afhjúpun minnismerkis um lögreglumenn í London, en heldur betur þótti kalt yfirbragð á þeim. Myndin hér að ofan segir meira en mörg orð. Harkan í slagnum er mikil og settlegheitin megna ekki að hylja kuldalegheitin milli allra þriggja helstu flokksleiðtoganna innbyrðis. Í dag sakaði Michael Howard forsætisráðherrann um að hafa sagt þjóðinni ósatt vegna Íraksmálsins æ ofan í æ. Jafnframt sagðist hann enn trúa því að íhaldsmenn gætu unnið kosningarnar, það væri enginn leikur búinn fyrr en hefði verið flautað af. Í dag urðu kratar fyrir áfalli, enda sagði þingmaðurinn Brian Sedgemore sig úr flokknum og fór yfir til frjálslyndra. Segja má að rólegt hafi verið yfir Charles Kennedy leiðtoga frjálslyndra. Flokkur hans er þó að bæta við sig í könnunum og virðist græða að hafa einn flokka verið á móti Íraksstríðinu. En klukkan tifar í kjördag og kosningabaráttan harðnar.

Diane Keaton og Woody Allen í Annie Hall

Fór í gærkvöldi á stefnumótunarfund í Borgir. Gekk mjög vel og var mjög notalegt og gott spjall um málaflokkinn sem við tókum fyrir. Hann er reyndar stór og mikill, en það var notalegast af öllu við að fara yfir hann hvað okkur hefur gengið vel í honum. Nóg samt um að spjalla og fara yfir. Áttum við mjög góða stund þarna og ræddum málin fram og til baka. Sérstaklega var gaman að spjalla við Þóru, en hún hafði margar sögur af segja af blakmótinu, en þar landaði hún og hennar lið Íslandsmeistaratitli, glæsilegt hjá Þóru. Eftir fundinn leit ég í heimsókn til Hönnu systur. Tvíburadætur hennar, Andrea og Berglind, eru algjörar fótboltagellur og æfa og keppa bolta alveg á fullu í Boganum þessar vikurnar. Þær eru að fara í ferð til Danmerkur í júníbyrjun með liðinu. Er þar um að ræða kynnis- og æfingaferð. Þær eru alveg á fullu þessa dagana að safna sér inn fyrir ferðinni. Það vantar ekki ættardugnaðinn í stelpurnar. Dáist alveg að þeim, þær eru sko á fullu og gera þetta af sál og krafti. Eru að selja brauð, harðfisk, eldhúsrúllur og ég veit ekki hvað og hvað. Nóg um að vera. Keypti af þeim brauð og slatta af harðfiski. Það er um að gera að leggja hönd á plóginn hjá þessum upprennandi Danmerkurförum. :)

Er heim kom horfði ég á Annie Hall, hina stórfenglegu kvikmynd meistara Woody Allen. Er þetta frábær mynd, hiklaust ein af mínum uppáhaldsmyndum. Í henni eru góðir kómískir þættir en einnig má finna fyrir alvarlegum undirtón og skemmtilegri sýn á nútímaástarsamband þess tíma. Er í raun sjálfsævisöguleg úttekt á sambandi Allens og Diane Keaton en þau eru bæði tvö hreint ómótstæðileg í myndinni. Hér er nóg af hinum venjulegu en alltaf óvæntu Allenbröndurum og pælingum um ástina en líka dýpri og innilegri íhuganir, enda er Annie Hall persónulegasta mynd Allens fyrr og síðar, gerð af einstakri hlýju og miklum skilningi og ógleymanlegum húmor. Fjallar um stormasamt ástarsamband grínista og söngkonu sem á sér háleit markmið í lífinu og mikla drauma. Inn á milli fljóta hressilegir brandarar og snjallar athugasemdir um lífið og tilveruna að hætti Woody Allen. Diane Keaton hlaut óskarinn fyrir leik sinn og myndin var valin besta kvikmynd ársins og Allen hlaut leikstjóraóskarinn. Klassísk kvikmynd sem verður sífellt meira meistaraverk með hverju áhorfi. Frábær mynd sem ég horfi reglulega á. Ávallt viðeigandi - alltaf ljúf.

Vinir (Friends)

Nú í vikunni var ég að kaupa restina af hinum frábæru Friends-þáttum á DVD. Um þessar mundir er ár liðið síðan að þessi einn vinsælasti sjónvarpsþáttur seinasta áratugar, og óneitanlega ein af helstu táknmyndum tíunda áratugarins, leið undir lok er lokaþátturinn var sýndur í Bandaríkjunum. Til marks um vinsældir þáttanna horfðu rúmlega 50 milljón manns á lokaþáttinn í Bandaríkjunum, er hann var sýndur þann 6. maí 2004. Þættirnir um Vini nutu alla tíð mikilla vinsælda, frá því fyrsti þátturinn var sýndur í Bandaríkjunum þann 22. september 1994. Þættirnir voru á þessum áratug sýndir í rúmlega 100 löndum. Aðalleikarar þáttanna: Courtney Cox Arquette, Matthew Perry, Jennifer Aniston, David Schwimmer, Lisa Kudrow og Matt Le Blanc (sem voru öll nær óþekkt við upphaf sýninga þáttanna), fengu við lok framleiðslu þeirra, alls eina milljón dollara, um 73 milljónir íslenskra króna, fyrir hvern þátt. Mikil leynd ríkti yfir sögulokum þáttarins í fyrra og t.d. voru mörg atriði lokaþáttarins tekin upp leynilega án áhorfenda í upptökusal og leikendur og aðrir sem unnu að gerð þáttanna voru látnir sverja þagnareið. Fylgdist ég með þáttunum um Vini allt frá byrjun fyrir 10 árum og alltaf haft mjög gaman að þeim. En já, það er gott að það verður hægt um langa hríð að ylja sér við hinar góðu minningar um Vinina á DVD.

Eskifjörður

Ég er að fara austur um helgina. Það er alltaf gaman að fara austur, eiginlega fer maður þangað alltof sjaldan. Austfirðirnir skipa sérstakan sess í hjarta mínu, enda á ég þar marga ættingja og vini. Mamma er frá Eskifirði og þangað er því alltaf gaman að koma í heimsókn. Afi minn, Friðrik Árnason, bjó þar alla tíð, allt til dánardags árið 1990. Hann var hreppstjóri þar til fjölda ára og varð fyrsti heiðursborgari Eskifjarðarbæjar. Amma mín, Sigurlín Kristmundsdóttir, fluttist austur árið 1923 með foreldrum sínum og bræðrum og bjó þar allt til ársins 1974 er hún fluttist með mömmu og fjölskyldu minni norður. Pabbi er að norðan og fór svo að mamma fluttist norður með honum þá. Ég bjó því aldrei fyrir austan sjálfur. Amma var jarðsett fyrir austan er hún lést fyrir fimm árum, en hún bjó í Eyjafirði seinustu 26 árin. Á laugardaginn ætla ég mér að fara í kirkjugarðinn á Eskifirði og eiga þar stund með sjálfum mér við legstað ömmu og afa. Það er alltaf gott að helga þeim sem eru farnir stund í huga sér. Á ljósmyndavef Helga Garðarssonar á Eskifirði er að finna fjöldann allan af gömlum og góðum myndum. Er viðeigandi að benda á nokkrar myndir hér sem mamma hefur nýlega sent Helga úr ljósmyndasafni fjölskyldunnar.

Lína amma - Friðrik afi - mamma - Afi og Frissi - langafi og langamma - mamma og Hjalli frændi

Saga dagsins
1834 Tvö skip og fjórtán bátar fórust í gríðarlegu ofsaveðri á Faxaflóa og með þeim fórust 42 menn
1923 Albert Bretaprins (síðar George VI konungur) kvænist Elizabeth Bowes-Lyon - varð konungur Englands árið 1936 og ríkti allt til dauðadags árið 1952. Elizabeth lifði George í hálfa öld og lést 2002
1986 Kjarnorkuslys verður í kjarnorkuverinu í Chernobyl í Úkraínu - hið mesta í mannkynssögunni
1991 Davíð Oddsson þáv. borgarstjóri, tók í notkun móttöku- og flökkunaraðstöðu Sorpu í Gufunesi
1993 Niðursveiflu í efnahagsmálum á Englandi lýkur formlega - þrátt fyrir að staða efnahagsmála bættist til mikilla muna árin á eftir tapaði Íhaldsflokkurinn þingkosningunum í landinu á árinu 1997

Snjallyrðið
Freedom consists not in doing what we like, but in having the right to do what we ought.
Jóhannes Páll II páfi (1920-2005)