Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

19 apríl 2005

Joseph Ratzinger kjörinn páfi - verður Benedikt XVI

Benedikt XVI páfi hylltur af mannfjöldanum á Péturstorgi

Þýski kardinálinn Joseph Ratzinger hefur verið kjörinn páfi og verður því trúarleiðtogi rómversk - kaþólsku kirkjunnar. Það var laust fyrir klukkan fjögur að íslenskum tíma, um sex að ítölskum tíma, sem hvíti reykurinn hóf að koma upp úr skorsteini Sixtínsku kapellunnar, til marks um að páfi hefði verið kjörinn. Deilt var um það í tvær mínútur hvort reykurinn væri svartur eða hvítur en þegar bjöllurnar á Péturstorginu tóku að hljóma varð öllum ljóst að kardinálarnir höfðu komist að niðurstöðu í kjörinu. Enginn vafi var lengur á því að kardinálarnir höfðu kjörið páfa, 17 dögum eftir andlát Jóhannesar Páls II og á öðrum degi páfakjörsins í Sixtínsku kapellunni. Það kom óneitanlega mörgum í opna skjöldu hversu fljótlega páfakjörið gekk að þessu sinni. Er um að ræða eitt fljótlegasta páfakjör á seinni árum. Sérstaklega vekur það athygli sé litið til þess hver hlaut kjör. Á síðustu 100 árum hafa aðeins Pius XII og Jóhannes Páll I verið valdir með skjótvirkari hætti. Báðir náðu þeir kjöri á fyrsta degi kjörsins: Pius XII árið 1939 en Jóhannes Páll I árið 1978. Sá fyrrnefndi sat í 19 ár en hinn síðarnefndi aðeins í 33 daga og var hann forveri hins vinsæla Jóhannesar Páls II, sem sat í 27 ár.

Um 50 mínútum eftir að ljóst varð að páfi hefði verið kjörinn kom Jorge Arturo Medina Estivez kardínáli, fram á svalir Péturskirkjunnar og tilkynnti um kjör Ratzingers í embætti páfa. Skv. gömlum hefðum var textinn hinn sami og ávallt áður. Hæst bar þegar kallað var eins og venjulega: Habemus Papam - við höfum eignast páfa. Var tilkynnt að Ratzinger hefði valið sér páfanafnið Benedikt XVI. Benedikt er eitt af vinsælustu páfaheitunum. Síðasti páfinn með þessu nafni, Benedikt XV, sat á páfastóli 1914-1922. Hann var mjög frjálslyndur og því þótti mörgum valið koma á óvart. Á það ber þó að minnast að fyrsti páfinn með nafninu var mjög íhaldssamur. Er talið að með nafnavalinu sé nýr páfi að skírskota til hins fyrsta Benedikts umfram allt. Tugþúsundir trúaðra kaþólikka hrópuðu "Benedikt, Benedikt" og "Lifi páfinn" á Péturstorginu í kjölfar tilkynningarinnar. Í stuttu ávarpi til mannfjöldans sagði hann að það væri hlutskipti sitt að taka við af hinum mikla Jóhannesi Páli II, en að hann áliti sig vera einfaldan, auðmjúkan verkamann í víngarði Drottins. Fyrsta embættisverk hans var að syngja bænina "Urbi et orbi".

Benedikt XVI mun formlega verða settur inn í embætti við hátíðarmessu á sunnudagsmorgun. Í heild sinni var ræða hins nýja páfa eftirfarandi: "Dear brothers and sisters, after the great Pope, John Paul II, the cardinals have elected me, a simple and humble worker in the Lord's vineyard. The fact that the Lord can work and act even with insufficient means consoles me, and above all I entrust myself to your prayers. In the joy of the resurrected Lord, we go on with his help. He is going to help us and Mary will be on our side. Thank you."

Benedikt XVI páfi hylltur af mannfjöldanum á Péturstorgi

Benedikt XVI er 265. páfinn í sögu kirkjunnar og er sá fyrsti sem hlýtur kjör í embættið á hinu þriðja árþúsundi. Nærri því þúsund ár eru liðin frá því að kirkjan hafði síðast þýskan mann sem sinn æðsta trúarlega leiðtoga. Það var Viktor II sem sat á páfastóli 1055-1057. Forveri Benedikts XVI var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali. Það kemur þægilega á óvart að eftirmaður hans sé ekki heldur Ítali, heldur verði Þjóðverji nú páfi í fyrsta skipti í tæp 1000 ár. Benedikt XVI hefur starfað í Vatíkaninu allt frá árinu 1981 og er annar kardinála sem sátu páfakjörið sem kusu Jóhannes Pál II árið 1978, en hann hefur setið þar frá 1977. Hann verið leiðtogi æðstaráðs Vatíkansins allt frá árinu 2002 og verið einn litríkasti forystumaður rómversk - kaþólsku kirkjunnar síðustu árin. Hann jarðsöng Jóhannes Pál II á Péturstorginu þann 8. apríl sl. Segja má að hann hafi sett mark á forystusveit kirkjunnar undanfarna þrjá áratugi og sífellt hækkað í tign og er nú orðinn trúarleiðtogi kirkjunnar. Hann þykir íhaldssamur og hefur verið nefndur Rottweiler Guðs af gárungum, vegna skoðana sinna og einbeitni í að halda í meginstoðir kirkjunnar og lykiltrúarsetningar hennar.

Kjör Benedikts XVI markar ekki mikil þáttaskil hjá rómversk - kaþólsku kirkjunni. Hinn nýkjörni páfi er 78 ára að aldri. Hann er því tveimur áratugum eldri en Jóhannes Páll II var þegar hann tók við páfadómi árið 1978. Að svo gamall maður skuli verða fyrir valinu þykir vera vísbending um þrennt: yfirlýsing um að íhaldssöm stefna páfatíðar Jóhannesar Páls II haldist óbreytt og meginstef hennar verði áfram við lýði, að kardinálarnir hafi talið óæskilegt að velja of ungan mann til embættisins og með því auðvitað að nýr páfi verði ekki lengi við völd og síðast en ekki síst að hér hafi menn sæst á málamiðlun. Að mínu mati kemur þessi niðurstaða nokkuð á óvart. Ég hafði búið mig undir það að nýr páfi yrði meiri málamiðlun en hér liggur fyrir. Menn myndu jafnvel velja lítt umdeildari páfa. Það er enginn vafi á því að Benedikt XVI hefur verið óvenju umdeildur og ófeiminn við að tjá sig um trúarleg efni með íhaldssömum og gamaldags hætti og þykir enn íhaldssamari en margir forvera hans á páfastóli.

Mér þykja það tíðindi að kjörið stóð ekki lengur en raun bar vitni og reyndar má segja að það séu stærstu tíðindin hversu fljótt kjörið tók og að jafn umdeildum manni hafi tekist að ná 2/3 greiddra atkvæða og ná samstöðu um sig með svo skjótum hætti. Um er að ræða mann sem hefur vakið athygli fyrir íhaldssamar skoðanir og áherslur. Hann hefur hafnað öllum hugmyndum um nútímavæðingu kirkjunnar og er harður andstæðingur frjálslyndari stefnu og áherslna. Hann hafnar því að konur fái að verða prestar, og að prestar fái að gifta sig auk þess sem hann fordæmir algjörlega t.d. fóstureyðingar, getnaðarvarnir, samkynhneigð og rokktónlist. Hann er andvígur því að Tyrkir fái inngöngu í Evrópusambandið og hefur sagt það myndu verða mikil mistök ef land sem að mestu væri byggt múslimum myndi ganga í sambandið. Hann er andsnúinn kommúnisma og hefur sagt í rituðu máli að slíkar stjórnir hafi verið smán okkar tíma. Kjör hans í embættið með svo fljótlegum hætti að hann nái kjöri í fjórðu umferð er staðfesting þess að hann hafi frá upphafi náð taki á kjörinu og náð að koma í veg fyrir tilraunir hófsamari og frjálslyndari kardinála til að útiloka hann.

Ég vona að nýjum páfa farnist vel í embætti og hann muni stjórna rómversk - kaþólsku kirkjunni með farsælum hætti og muni verða jafnöflugur boðberi kristinnar trúar og friðarboðskapar og forveri hans, sem sinnti embættinu í 27 ár af miklum glæsileik.

Punktar dagsins
Akureyri

Fjölmennasta íbúaþing í sögu landsins, Akureyri í öndvegi, var haldið hér á Akureyri í september 2004. Komu þar saman vel yfir þúsund manns, til að ræða málin, skiptast á hugmyndum og eiga góða stund saman og vinna af krafti að miklu framfaramáli: að móta hugmyndir til að efla hjarta okkar góða bæjar. Þar var spennandi starf unnið og gagnlegt, gaman var að móta miðbæinn okkar og framtíð okkar sem höfum fylgt Akureyri frá upphafi og viljum eyða ævinni hér og gera bæinn sem bestan fyrir samferðarmenn okkar og þau sem bæinn munu erfa í fyllingu tímans. Niðurstöður þingsins voru nýttar til að skilgreina forsendur í alþjóðlegri hugmyndasamkeppni. Í samkeppni bárust um 140 tillögur, víðsvegar úr heiminum í hugmyndasamkeppnina. Þetta var mun meiri þátttaka en búist hafði verið við og á sér enga hliðstæðu hér á landi í sambærilegri keppni. Upphaflega hafði verið ákveðið að kynna niðurstöður formlega á sumardaginn fyrsta, á fimmtudag. Svo verður ekki, enda eru tillögurnar það margar og fjölbreyttar að frestað hefur verið til 7. maí að kynna niðurstöðurnar. Í dómnefndinni sitja Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Árni Ólafsson arkitekt, Hlín Sverrisdóttir skipulagsfræðingur og landslagsarkitekt, Pétur H. Ármannsson arkitekt og Þorvaldur Þorsteinsson forseti Bandalags íslenskra listamanna. Verður mjög fróðlegt að fylgjast með framhaldi málsins og kynna sér niðurstöðurnar formlega í næsta mánuði.

Dr. Angela Merkel

Eitt og hálft ár eru til þingkosninga í Þýskalandi. Í seinustu þingkosningum, í september 2002, hélt vinstristjórnin í landinu, undir forsæti Gerhard Schröder naumlega völdum. Jafnaðarmannaflokkurinn missti mikið fylgi en stjórnin hélt vegna fylgisaukningar samstarfsflokksins, græningja. Munaði mjög litlu að kosningabandalag hægrimanna, undir forystu Edmund Stoiber forsætisráðherra Bæjaralands og leiðtoga CSU, næði völdum. Hefur stjórn Schröders allt frá því verið veik í sessi og staðið höllum fæti gegn öflugri stjórnarandstöðu í þinginu. Einn er galli hægrimannanna í þýskri pólitík. Þeir geta ekki með góðu sameinast um einn afgerandi leiðtoga fyrir næstu þingkosningar. Stefnir allt í að Stoiber og dr. Angela Merkel leiðtogi CDU (kristilegra demókrata) muni slást um hvort þeirra verði kanslaraefni hægriblokkarinnar (CDU/CSU) í þeim kosningum. Mörgum hefur þótt eðlilegt að Merkel leiddi baráttuna, enda hefur Stoiber fengið sitt tækifæri. dr. Angela Merkel fengi að taka slaginn og skora kanslarann á hólm. Er það bæði sögulega séð réttast, miðað við styrkleika CDU, og það að Merkel hefur ekki fengið tækifærið enn til að leiða bandalagið og reyna á styrk sinn pólitískt.

Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í henni og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum. Merkel er töffari í þýskri pólitík og þykir í flestu andstæða hins íhaldssama Edmund Stoiber. Angela komst til áhrifa innan CDU á valdatíma Helmut Kohl og þykir almennt vera pólitísk fósturdóttir hans. Hún er fimmtug, tvífráskilin og barnlaus og því langt í frá lík hinum 63 ára forsætisráðherra Bæjaralands sem þykir vera ímynd hins heilbrigða fjölskyldulífs sem hinn harðgifti fjölskyldufaðir. Stoiber hefur hug á að reyna aftur að leggja í kanslarann og Merkel hefur hug á að verða fyrsti kvenkyns kanslari Þýskalands. Aðeins annað þeirra getur þó leitt hægriblokkina til valda. Tel ég persónulega rétt að Angela leiði næstu kosningabaráttu, hún hefur þann kraft og kjark sem þarf til að leggja hina máttlitlu vinstristjórn jafnaðarmanna og græningja að velli. Nauðsynlegt er að þau sameini krafta sína og verði bæði í forystu kosningabaráttunnar en Angela sem leiðtogi CDU leiði slaginn að þessu sinni. Ég hef lengi haft áhuga á þýskri pólitík og fylgist vel með þýskum netfréttum af pólitíkinni og málefnum þar.

Göran Persson

Eins og fram hefur komið í skrifunum hér seinustu vikurnar hefur mjög hallað á ógæfuhliðina fyrir Göran Persson forsætisráðherra Svíþjóðar og leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins. Fylgi flokksins og persónulegt fylgi hans hefur minnkað mjög seinustu mánuðina og nýlegar skoðanakannanir hafa staðfest að helsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Moderata, er orðinn stærsti flokkur landsins og Persson hefur misst mikið fylgi. Einkum er um kennt klaufalegum viðbrögðum hans og Lailu Freivalds utanríkisráðherra, við náttúruhamförunum í Asíu og lánleysi sænsku stjórnarinnar almennt í málinu. Skv. fréttum í dag er Persson nú talinn vera að íhuga alvarlega að segja af sér embættum sínum og hætta í pólitík á landsfundi flokksins í október. Er það nýlunda að heyra það, en hann hefur fram að þessu þráfaldlega neitað að víkja úr embættum sínum. Persson hefur verið leiðtogi flokksins og forsætisráðherra frá árinu 1996, í tæpan áratug. Orðrómur hefur verið um það seinustu vikur að Margot Wallstrom varaforseti ESB, taki við leiðtogahlutverkinu af Persson. Nú hefur hún lýst því yfir að hún hafi ekki áhuga á starfinu. Það eru þó engin tíðindi, enda sagðist Persson fyrir áratug ekki hafa áhuga á að taka við af Ingvari Carlsson sem leiðtoga. Reyndin varð sú að hann varð engu að síður eftirmaðurinn. Því er staða Wallstrom sterk og ekki ólíklegt að hún taki við fyrir næstu kosningar.

Húsavík

Fór í morgun til Húsavíkur til að fara á fund og var þar meginpart dagsins. Gekk það mjög vel og farið yfir mörg góð málefni og voru góðar samræður þar og hreinskiptar um stöðuna almennt í málaflokknum. Hafði gagn og gaman af þessu. Í hádegishlénu náði ég að hóa saman nokkrum á staðnum sem ég þekki til að fá okkur að borða saman á veitingastað. Þar voru góðar umræður og fínt að fara yfir málin. Það var gott veður þar og gaman að fara þessa ferð. Á heimleiðinni stoppaði ég við hjá vini mínum sem býr á Svalbarðsströnd og áttum við þar gott spjall. Kom svo heim undir kvöld, eftir fínan dag og gott spjall við fjölda fólks.

Saga dagsins
1246 Haugsnessfundur, mannskæðasta orrusta í sögu landsins, var háð í Blönduhlíð í Skagafirði. Brandur Kolbeinsson og Þórður kakali áttust við. 100 manns féllu. Veldi Ásbirninga leið undir lok
1917 Leikfélag Akureyrar var formlega stofnað - það starfaði í upphafi sem áhugamannaleikfélag
1956 Rainier fursti í Mónakó, kvænist bandarísku óskarsverðlaunaleikkonunni, Grace Kelly - þau eignuðust þrjú börn saman: Karólínu, Albert og Stefaníu. Hjónaband þeirra var umtalað og vakti
mikla athygli. Grace furstaynja fórst í bílslysi árið 1982. Rainier ríkti allt til dauðadags árið 2005
1993 Sértrúarsöfnuður David Koresh í Waco í Texas, fyrirfer sér eftir mánaðarlangt umsátur FBI
1995 Bílsprengja grandar stjórnsýslubyggingunni í Oklahoma í Kansas - tæp 200 manns létu lífið í árásinni. Að baki henni stóðu Timothy McVeigh og Terry Nichols. McVeigh var dæmdur til dauða og tekinn af lífi árið 2001, en Nichols var dæmdur í lífstíðarfangelsi. Minnisvarði til minningar um hina látnu í sprengjuárásinni var vígður á grunni hússins, 19. apríl 2005, er tíu ár voru liðin frá árásinni

Snjallyrðið
Every artist dips his brush in his own soul, and paints his own nature into his pictures.
Henry Ward Beecher rithöfundur (1813-1887)