Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

25 apríl 2005

AkureyriHeitast í umræðunni
Óhætt er að fullyrða að okkur íbúum Akureyrar hafi brugðið mjög í síðustu viku, rétt eins og eflaust öllum landsmönnum, vegna atburða sem átti sér stað er 17 ára strákur hér í bænum var keyrður upp á Vaðlaheiði og skotið á hann úr loftbyssu. Enginn vafi er á því að þar var um að ræða aðför að stráknum af hálfu handrukkara sem voru að innheimta fíkniefnaskuld. Ég verð að segja það fyrir mig alveg hreint út að ég varð orðlaus yfir þessum fréttum og hef ekki talið rétt að skrifa hér vegna þessa máls fyrr en nú.

Satt best að segja átti ég ekki von á að skuggahliðarnar væru orðnar svona áberandi í bæjarlífinu og mér er einfaldlega brugðið. Það er ljóst að dópdraugurinn er kominn hingað af enn meiri krafti en okkur hafði órað fyrir og menn verða að horfast í augu við stöðu mála og það sem meira er að leggja til atlögu gegn vágestinum af krafti nú. Samkvæmt fréttum þessa dagana munu mennirnir tveir sem áttu hlut að máli í árásinni að stráknum ganga nú lausir en þeir voru þó báðir á skilorði. Er engin furða þó reiði bæjarbúa kraumi undir af enn meiri krafti vegna þess.

Mér er ofboðið vegna þessa máls, sem og flestum bæjarbúum. Nú er komið að því að við segjum hingað og ekki lengra! Nú verða menn að taka til hendinni og leggja til atlögu. Svona ógeðslegheit og ómenningarbragur á enga samleið með þeirri stefnu sem við í bæjarstjórnarmeirihlutanum höfum markað okkur með fjölskyldustefnu bæjarins. Akureyri á að vera þekkt fyrir að vera fjölskylduvænt sveitarfélag: fjölskyldu- og skólabær. Það er sú stefna sem við höfum markað og við getum því ekki setið þegjandi hjá og horft upp á þessa þróun að misyndismenn vegi að rótum bæjarins og okkar mannlífsbrag. Unnið hefur verið af krafti af því að marka bænum þann sess að hann sé vettvangur heilbrigðs fjölskyldulífs en ekki vettvangur misyndismanna og villimennskuaumingja sem vega að heilbrigðum rótum mannlífs.

Það er ómögulegt að horfa þegjandi á það sem hefur gerst hér seinustu daga. Það er komið að okkur, bæjarbúum öllum, að rísa upp og mótmæla og taka á þessum málum. Ég og fleiri bæjarbúar undir forystu Ragnars Hólms Ragnarssonar höfum ákveðið að standa fyrir mótmælum hér í bænum á föstudag og tjá skoðun okkar á þessari ómenningu og lýsa yfir eindreginni andstyggð okkar á þessum verknaði og dópmenningunni yfir höfuð sem virðist verða æ meira áberandi hér. Á þeim fundi fáum við bæjarbúar færi á að segja okkar skoðun. Það eru því eindregin tilmæli mín til Akureyringa allra að koma á Ráðhústorg klukkan fimm á föstudag og taka þátt í að mótmæla. Þar munum við halda á lofti rauðu dómaraspjaldi og tjá okkar hug með því. Burtu með þennan fjárans ósóma og nú verða menn að taka til hendinni, það er ekkert sem heitir með það! Látum í okkur heyra!

Gordon Brown og Tony Blair10 dagar eru til þingkosninga á Bretlandi. Kannanir sýna öruggt forskot Verkamannaflokksins á Íhaldsflokkinn. Að óbreyttu munu þeir því halda velli og Tony Blair halda forsætisráðherrastólnum enn um sinn og ná að landa sögulegum áfanga á ferli sínum: að leiða kratana til þriðja kosningasigurs síns í röð. Fram til þessa hefur aðeins Margaret Thatcher tekist í breskri pólitík að vinna þrisvar í röð. Svo virðist vera að þrátt fyrir að Íraksmálið brenni á fólki og mörgum kjósendum blöskri forysta Blairs í því máli og vinnubrögð hans muni honum verða falin forystan áfram. Allar kannanir það sem af er gefa það eindregið til kynna. Svo virðist vera sem að sú yfirlýsing hans um að þetta verði síðasta kosningabarátta hans hafi gert það að verkum að það slagorð gangi að það sé allt í lagi að kjósa Blair áfram því hann sé að fara að hætta og menn vilji hrósa honum að einhverju leyti. The Sun sem hefur lýst yfir stuðningi við kratana hefur sagt að það sé í lagi að kjósa Blair enn einu sinni, en nefnir engar málefnalegar ástæður fyrir því.

Eins og sjá má af meðfylgjandi mynd er Gordon Brown eins og skugginn á eftir Blair þessa dagana. Hvert sem Blair fer, fer Brown líka. Er þetta til marks um það að Brown er orðinn meginsegull flokksins á kjósendur. Nýleg könnun sýndi að flokkurinn myndi hljóta 48% fylgi ef Brown væri leiðtogi hans. Er enginn vafi lengur á því að Brown er orðinn sá sem flestir telja að taki við af Blair. Segja má að svo hafi þetta verið allt frá því Blair varð leiðtogi flokksins árið 1994 og forsætisráðherra árið 1997. Er enn talað mjög um leynisamning þeirra um skiptingu valda við andlát John Smith fyrir 11 árum. Segja margir að Blair hafi svikið þann samning, en sé nauðsynlegt nú að fá Brown með sér í kosningaferðir til að styrkja sig. Hefur hann talað um að hann muni sitja út næsta kjörtímabil. Er þó ólíklegt að hann muni gera það, ef marka má vilja Brown til að hljóta embættið. Þessa dagana er harkan sífellt að aukast í slagnum. Í dag sökuðu kratarnir hægrimenn um að svíkja stefnu Thatcher í efnahagsmálum með tillögunum og sögðu að henni hlyti að bregða við stefnu flokks síns. Á móti svaraði Michael Howard því til að kratarnir væru að reyna að hlaupa undan því að svara fyrir afglöp sín í Íraksmálinu. Skotin ganga á milli og baráttan harðnar, dag frá degi, þó flest bendi til að úrslitin sem slík séu ráðin.

Punktar dagsins
Ronald Reagan (1911-2004)

Í ferð minni til Washington DC fyrir hálfu ári keypti ég fjöldann allan af bókum um bandarísk stjórnmál og ævisögur þekktra stjórnmálamanna. Er ég var staddur í bókaverslun Barnes and Noble í Georgetown stóðst ég sérstaklega ekki mátið og ákvað að kaupa ævisögu Lou Gannon um Ronald Reagan 40. forseta Bandaríkjanna. Átti ég smárit byggt á bókinni en lengi viljað eignast allt ritið, sem eru tvær þykkar bækur í veglegri öskju. Þarna var bókin og ég gat ekki hugsað mér að fara án þess að kaupa kassann með bókunum tveim. Eftir að ég kom heim fór ég að lesa bækurnar og er óhætt að fullyrða að um er að ræða mjög vandaða umfjöllun um ævi forsetans og verk hans. Hef ég lesið margar bækur um ævi hans og verð í sannleika sagt að telja þessa þá bestu og jafnframt ítarlegustu. Er þetta gríðarlega vönduð samantekt og sennilega ein sú besta í bókarformi um forsetaferil Reagans og ekki síður um verk hans sem ríkisstjóra í Kaliforníu. Gannon fylgdist sem blaðamaður með ríkisstjórakosningunum 1966 þegar Ronald Reagan tók fyrst þátt í stjórnmálum og síðar í forsetakosningunum 1980, er Reagan náði kjöri til forsetaembættis, og hefur mikið skrifað um stjórnmálaferil hans.

Segir Gannon á leiftrandi hátt frá persónu Reagans og stefnumálum hans á valdastóli. Reagan var fyrsti forseti Bandaríkjanna sem beitti sér ákveðið gegn auknum ríkisútgjöldum og afskiptasemi ríkisins. Ásamt Margaret Thatcher færði hann hægrimönnum um allan heim þá trú að hægt væri að vinda ofan af gríðarlegum ríkisafskiptum. Afskipti ríkisins af viðskiptum og fleiri ráðandi þáttum samfélagsins var alla tíð sem eitur í beinum hans. Kraftmikil trú hans á einstaklinginn og mátt einkaframtaksins var grundvallarstef í öllum orðum og gerðum hans sem stjórnmálamanns og æðsta manns heims í 8 ára valdatíð sinni. Hann leiddi Kalda stríðið til lykta, tryggði endalok kommúnismans og trygga forystu Bandaríkjamanna á vettvangi heimsmálanna. Ronald Reagan setti sem forseti Bandaríkjanna mark sitt á söguna með baráttu sinni fyrir lýðræði og ekki síður með því að fylgja sannfæringu sinni í hvívetna og vera trúr lífshugsjónum sínum. Það er því mikil lífslexía fyrir alla hægrimenn að lesa þessa vönduðu ævisögu forsetans og hvet ég alla til þess að gera það. Um er að ræða góða og vel gerða bók með lifandi lýsingu um ógleymanlegan mann í sögunni.

Lawrence of Arabia

Ein er sú kvikmynd sem almennt er talin skyldueign fyrir hvern kvikmyndaáhugamann og er því eitt af meistaraverkum kvikmyndasögunnar. Ég horfði á þessa mynd í gærkvöldi. Í Lawrence of Arabia er rakin saga hins goðsagnakennda landkönnuðar T.E. Lawrence, sem lést árið 1935. Hann hélt út í eyðimörkina í fyrri heimsstyrjöldinni sem breskur hermaður og náði að sameina Araba í stríðinu gegn Tyrkjum. Þetta stórglæsilega kvikmyndaverk David Lean er ævintýralegt í jafnt umgjörð sem innihaldi, frábærlega kvikmynduð, klippt, skrifuð og leikin og nýtur sín hvergi betur en á breiðtjaldi. Sögulegur stórmyndastíll leikstjórans er varla tilþrifameiri en í þessu verki, það er mjög listilega spunnið við hið smáa mannlega. Leikaraliðið er ekki af verri endanum með Peter O'Toole í sínu frægasta og langbesta hlutverki, en hann fer á kostum í hlutverki Lawrence og vann sinn stærsta leiksigur í þessu hlutverki. Myndin var tilnefnd til 10 óskarsverðlauna en hlaut sjö, þ.á m. sem besta kvikmynd ársins, fyrir leikstjórn Lean, magnaða tónlist Maurice Jarré og kvikmyndatöku Freddie Young, sem enn er jafn stórfengleg nú og árið 1962. Ég hvet alla kvikmyndaunnendur til að sjá þetta magnaða meistaraverk ef þeir eiga tök á því, betri mynd er vart hægt að sjá. Ráðlegg ég að horft sé á lengstu útgáfu sem mögulegt er að sjá, því lengri sem myndin er, því betra og heilsteyptara meistaraverk sérðu.

Strákarnir á Stöð 2

Óhætt er að segja að mikið hafi verið deilt um þáttinn Strákana á Stöð 2 seinustu vikur og mánuði, eða allt frá því þeir hófu göngu sína á stöðinni í febrúar. Áður voru Auddi, Sveppi og Pétur með þáttinn 70 mínútur á PoppTíví sem sló í gegn en óhætt er að segja að þeir félagar hafi vakið athygli þar og verið alls óhræddir við að gera allt milli himins og jarðar. Þátturinn var sýndur á PoppTíví milli 22:00 og 23:10 og því var áhorfendahópurinn eldri en þeir sem horfa á Strákana milli 20:00 og 20:30 öll virk kvöld nema föstudaga. Ég verð að viðurkenna að ég hef oft lúmskt gaman af að horfa á þáttinn og lít reglulega á hann. En deila má vissulega um hvort um sé að ræða þroskandi efni fyrir krakka, enda er margt sprellið og hugdetturnar langt yfir velsæmismörk. En sumt er aðallega fyndið og saklaust. Nú hefur Ingibjörg Rafnar umboðsmaður barna, sent yfirmönnum Stöðvar 2 bréf og hvatt þá til að færa þáttinn lengra inn í kvölddagskrána, til að yngstu áhorfendurnir sjái ekki þáttinn. Er ég satt best að segja ekki sammála umboðsmanninum. Við megum ekki gleyma að börnin eru ekki sjálfs sín herrar á heimilinu. Það eru foreldrarnir sem ráða því auðvitað hvort þau fái að horfa á þáttinn. Það á að vera þeirra að bera ábyrgð á börnum sínum og ráða hvort og hvenær þau sjá þessa þætti, en ekki yfirmanna Stöðvar 2. Það er alveg einfalt mál.

Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar

Líflegt var yfir bænum um helgina. Telja má öruggt að vel á þriðja þúsund manns hafi verið hér í bænum vegna öldungamóts Blaksambands Íslands og Andrésar andar leikanna á skíðum. Íþróttalífið hér er alltaf blómlegt og sérstaklega skemmtilegt að sjá hversu margir hafa komið til bæjarins víðsvegar að af landinu. Um þarsíðustu helgi var líka hér talsverður fjöldi vegna söngkeppni framhaldsskólanna, sem gekk mjög vel og var skemmtilegt á að horfa. En mótin hér um helgina voru víst mjög vel heppnuð og ánægjuleg, ef marka má það sem ég hef heyrt. Annars varð vinkona mín, Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar, og lið hennar Íslandsmeistari í sínum flokki í blakinu á mótinu. Ég vil óska Þóru innilega til hamingju með þann glæsilega árangur.

Saga dagsins
1915 Hótel Reykjavík og ellefu önnur hús við Austurstræti í Reykjavík, brunnu í miklum eldsvoða
1944 Fyrsta alíslenska óperan, Í álögum, eftir Sigurð Þórðarson, var frumflutt í leikhúsi LR í Iðnó
1991 Bifreið var ekið í fyrsta skipti upp á tindinn á Hvannadalshnjúk, sem er hæsti tindur landsins
1999 Haldið var upp á Dag umhverfisins í fyrsta skipti hérlendis - leiddi til meiri umræðu um málin
2002 Tveir táningsbræður voru sýknaðir af því að hafa myrt hinn 10 ára gamla Damilola Taylor, sem var myrtur í Peckham í London í nóvember 2000. Með þessu fór rannsóknin að mestu á byrjunarreit

Snjallyrðið
The greatest honor history can bestow is that of peacemaker.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna (1913-1994)