Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 apríl 2005

Gleðilegt sumar!

Gleðilegt sumar


Íslendingur, blað sjálfstæðisfélaganna hér á Akureyri, kom út í gær. Þar eru eins og fram kom hér í gær allt í senn ítarlegar greinar, fréttir um bæjarmálin og ýmislegur fróðleikur úr bæjarlífinu. Í ítarlegri grein eftir mig í blaðinu fjalla ég um skólamálin. Fyrir áhugasama birti ég hér með greinina.

Skólabærinn Akureyri - öll lífsins gæði


Í sveitarstjórnarkosningunum 1998 fórum við sjálfstæðismenn fram undir kjörorðinu: Kraftur í stað kyrrstöðu. Það hefur sannast, svo ekki verður um villst, að kraftur hefur verið mikill hér og verið áþreifanlegur og sést í öllum tölum síðan, þegar farið er yfir stöðu mála. Kraftur kom í stað kyrrstöðu undir forystu okkar sjálfstæðismanna í samstarfi okkar fyrst við Akureyrarlista og síðar Framsóknarflokk, og hefur verið til staðar í valdatíð okkar í bænum. Akureyri er svo sannarlega í öndvegi sveitarfélaga, enda vel hér haldið á málum og staða bæjarins mjög sterk og kraftmikil þegar litið er til framtíðar. Við sem búum á Akureyri vitum vel og finnum á samfélaginu okkar hversu öflugt og kraftmikið það er. Segja má að lykilorð seinustu ára hér á Akureyri séu vöxtur og kraftur. Þetta blasir við þegar allar grunntölur eru skoðaðar.

Að mínu mati er einn helsti styrkleiki Akureyrar hversu sterkur skólabær hann er. Þar eru mjög framsæknir skólar sem eru í senn bæði undirstaða og grundvöllur framtíðar. Hér er mjög öflugt framboð menntunar allt frá æskuárum til fullorðinsára. Í byrjun mánaðarins var haldið hér í bænum opið íbúaþing um skólamál. Var um að ræða stefnuþing þar sem til umræðu voru drög að skólastefnu Akureyrarbæjar. Þingið fór fram í nýjum sal Brekkuskóla, en glæsileg nýbygging skólans var tekin í notkun fyrir nokkrum mánuðum. Vel var mætt á íbúaþingið, enda eru skólamálin, og verða ávallt, stór og víðfeðmur málaflokkur sem skiptir alla máli. Skólamálin eru hjarta og sál hvers sveitarfélags - það gildir ekkert annað um Akureyri en önnur sveitarfélög. Skólamálin eru þess eðlis að þau skipta okkur öll máli.

Hér á Akureyri eru tólf leikskólar: Naustatjörn, Iðavöllur, Lundarsel, Flúðir, Síðusel, Holtakot, Pálmholt, Sunnuból, Krógaból, Klappir, Kiðagil og Tröllaborgir. Grunnskólarnir eru svo sjö talsins: Brekkuskóli, Giljaskóli, Glerárskóli, Hlíðarskóli, Lundarskóli, Oddeyrarskóli og Síðuskóli. Ennfremur eru að sjálfsögðu bæði leikskóli og grunnskóli í Hrísey. Framundan er bygging nýs leikskóla við Helgamagrastræti sem þegar er hafin af fullum krafti, en hann á að opna á næsta ári, og kemur þá til sögunnar nýr og öflugur leikskóli á Brekkunni og er það mikið gleðiefni fyrir barnafjölskyldur sem búa á Brekkunni. Við tekur svo næsta verkefnið á næsta kjörtímabili sem er bygging grunnskóla í Naustahverfi, Naustaskóla. Það er því öflugt skólalífið hér og getum við Akureyringar verið stoltir af skólamálum okkar og skóladeildinni okkar sem vinnur gott starf undir forystu Gunnars Gíslasonar.

Menntaskólarnir okkar hér í bænum eru mjög öflugir. Nemendur koma hingað til Akureyrar alls staðar að af landinu til að sækja þar nám og taka svo auðvitað þátt í félagslífinu þar með miklum krafti. Menntaskólinn og Verkmenntaskólinn eru mikilvægar stoðir samfélagsins okkar. Er mikill kraftur í framhaldsskólunum okkar. Sést það best á nýlegri hátíð ungs fólks á Akureyri er bar heitið Birting. Samhliða hátíðinni var frumfluttur söngleikur sem ber heitið Rígurinn og fjallar eins og nafnið gefur til kynna um ríginn milli skólanna tveggja en söngleikurinn var sameiginlegt verkefni skólanna. Var mjög gleðilegt að sjá skólana taka höndum saman með þessum hætti og vinna með slíkum krafti að þessari hátíð. Dagskráin á hátíðinni var litrík og skemmtileg. Þar var t.d. listasýning, tónleikar með ýmsu ívafi og fatahönnunarkeppni, svo fátt eitt sé nefnt. Rúsínan í pylsuendanum var svo söngkeppni framhaldsskólanema í Íþróttahöllinni að kvöldi 16. apríl. Er þetta í annað sinn sem keppnin er haldin hér.

Háskólinn á Akureyri er svo óneitanlega helsta djásnið okkar í skólamálunum. Hann hefur sífellt vaxið og dafnað, þá tæpu tvo áratugi sem hann hefur verið til. Að mínu mati er uppbygging Háskólans á Akureyri einhver mikilvægasta og þarfasta byggðaaðgerð, sem gripið hefur verið til hérlendis á síðari árum. Alla tíð hefur ríkt mikil samstaða á gervöllu Norðurlandi um mikilvægi háskólanáms á Akureyri. Leikur enginn vafi á því að tilkoma hans og það að hann hafi verið efldur til muna á seinustu árum hefur skipt miklu máli hvað varðar samfélagið okkar. Háskólinn er ein helsta meginstoð fólks hér þegar það velur sér framtíðarbraut: hvað það ætli að taka sér fyrir hendur og gera í kjölfar náms. Skólinn er nú sem fyrr hornsteinn uppbyggingar hér á þessu svæði. Þar er öflugt námsframboð og stendur fólki sem kemur úr framhaldsskólunum til boða nægir valkostir er tekin er sú ákvörðun hvert skuli stefna á framtíðarbrautinni.

Það er gott að alast upp á Akureyri, samfélagið er traustur grunnur öflugs mannlífs og einn helsti styrkleiki þess eru öflugt skóla- og menningarlíf. Lengi hef ég talið bæinn okkar vera kjörinn vettvang til að búa á. Hér er allt sem einkenna má kraftmikinn byggðakjarna, en þó með blæ stórborgar. Hér er barna- og fjölskylduvænt umhverfi, nálægðin er mikil milli heimilis annarsvegar og hinsvegar skóla og vinnustaðar, mikið og öflugt úrval menningarviðburða, góð útivistar- og íþróttaaðstaða og síðast en ekki síst góðir menntunarmöguleikar sem felast í öflugu skólaumhverfi okkar, eins og fyrr segir. Á Akureyri eru einfaldlega öll lífsins gæði.

Saga dagsins
1800 Sex bátar frá Staðarsveit og Breiðafirði farast í miklu norðanveðri í firðinum - 37 manns létust
1926 Elísabet II Englandsdrottning fæðist - hún hefur setið á valdastóli í rúm 53 ár, frá árinu 1952
1945 Rauði herinn hertekur úthverfi Berlínarborgar og færist mjög nær innstu kjörnum þess sem eftir var af veldi Hitlers og þriðja ríkisins - stjórn nasista féll undir lok mánaðarins og í kjölfar þess sviptu Adolf Hitler og nánustu samverkamenn hans sig lífi. Átökum seinni heimsstyrjaldarinnar við nasistaríki Þjóðverja lauk með friðardeginum 8. maí. Stríðinu lauk um sumarið með uppgjöf Japana
1965 Staðfest voru á þingi lög um útgáfu nafnskírteina til allra einstaklinga sem eru eldri en 12 ára
1971 Mikið var um dýrðir í Reykjavík er fyrstu íslensku handritin komu aftur til landsins frá Danmörku með herskipinu Vædderen. Þetta voru Flateyjabók og Konungsbók Eddukvæða. Alls voru afhent 1807 handrit á tímabilinu 1971-1997. Koma handritanna til landsins var sýnd í beinni útsendingu Sjónvarps

Snjallyrðið
Ó, blessuð vertu sumarsól,
er sveipar gulli dal og hól
og gyllir fjöllin himinhá
og heiðavötnin blá.
Nú fossar, lækir, unnir, ár
sér una við þitt gyllta hár.
Nú fellur heitur haddur þinn
á hvíta jökulkinn.

Þú klæðir allt í gull og glans,
þú glæðir allar vonir manns,
og hvar sem tárin hvika á kinn
þau kyssir geislinn þinn.
Þú fyllir dalinn fuglasöng,
nú finnast ekki dægrin löng,
og heim í sveitir sendirðu æ
úr suðri hlýjan blæ.
Páll Ólafsson skáld (1827-1905)