Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 apríl 2005

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Óhætt er að segja að Framsóknarflokknum og Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra, hafi tekist að slá öll vopn úr höndum andstæðinga sinna á þingi með því að taka vel á umræðu þeirra um að flokkurinn sé spilltur og táknmynd óheiðarleika. Sú ákvörðun flokksins að setja sér reglur um og ráðast í það að birta opinberlega upplýsingar um fjárhag og eignir og eftir atvikum eignarhlut þingmannanna í atvinnurekstri, þóknun fyrir önnur launuð störf, og aðild að hagsmunasamtökum og upplýsingar um gjafir, hlunnindi og boðsferðir er hárrétt. Um er að ræða gott fordæmi fyrir aðra flokka og ætti að hreinsa dægurþrasaumræðuna sem stjórnarandstaðan stendur fyrir í þinginu æ ofan í æ. Einkum er hún þó sett fram til að dekka yfir valdabaráttuheiftina innan Samfylkingarinnar, þar sem formaður og varaformaður flokksins eru í baráttu um allt eða ekkert í forystusveitinni. Tel ég það hárrétt hjá Framsóknarflokknum að beina því til forsætisnefndar þingsins að hún setji slíkar reglur sem Framsókn leggur til og hefur sett sjálfri sér nú.

Mun þetta vonandi taka á umræðunni. Er reyndar stórmerkilegt að fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem hvað hæst hafa galað um að stjórnarflokkarnir séu spilltir og sé með lokað bókhald hreinsi ekki til hjá sjálfri sér eða hafi sett sjálfri sér slíkar vinnureglur sem Framsóknarflokkurinn hefur sett fram. Er það þá þeim væntanlega ánægjuefni að geta hætt að karpa og opnað eigin híbýli og sýnt landsmönnum stöðuna hjá þeim sjálfum fyrst málið er komið í þennan farveg. Það þarf þá varla að karpa endalaust um sömu hlutina æ ofan í æ. Ekki er ég mikill pólitískur stuðningsmaður forsætisráðherrans og Framsóknarflokksins - hinsvegar hefur mér gramist að sjá aðför vissra þingmanna aftur og aftur að forsætisráðherranum og væna hann um að vera peð fyrirtækja og sjávarútvegsgreifa vegna eignarhlutar hans í Skinney-Þinganesi á Hornafirði. Hefur nú verið upplýst að forsætisráðherra á heil 2,2% í því fyrirtæki, sem hann erfði eftir foreldra sína. Það er nú allt og sumt, smávægilegur hlutur sem ekkert segir í raun. Enda virðist mér að menn séu nú hættir að fimbulfamba um að forsætisráðherra sé kvótagreifi. Það eru æði margir kvótasægreifar ef þeir sem eiga 2,2% í sjávarútvegsfyrirtæki eru það. Eða ég get ekki betur séð. En menn taka nú á umræðunni og tel ég þetta skref Framsóknarflokksins mjög jákvætt. Reyndar fannst mér svo Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, taka vel á umræðu vissra afla gegn einkavæðingarferlinu í hreint frábærum pistli sem ég hvet alla til að lesa. En hvað gerir stjórnarandstaðan nú? Nú er það þeirra að gera slíkt hið sama, ella er allur málflutningur þeirra eins og spangól í holri tunnu.

Paul Martin séð með augum skopmyndateiknaraPaul Martin forsætisráðherra Kanada, hefur nú formlega beðið kanadísku þjóðina afsökunar vegna spillingar sem upplýst var í flokki hans, Frjálslynda flokknum, sem stjórnað hefur landinu allt frá árinu 1993. Hann ávarpaði þjóðina í því markmiði að reyna að bjarga stjórninni og flokknum frá stjórnmálakrísu. Peningaþvætti og fjárspilling er meðal þeirra þátta sem Frjálslyndi flokkurinn hefur verið sakaður um. Martin hét því í sjónvarpsávarpi sínu í gærkvöldi að allir í flokknum myndu gangast undir rannsókn, hann eins og allir aðrir forystumenn hans og þingmenn. Hann hét því í ávarpinu að efna til nýrra þingkosninga um leið og rannsókn málsins hefur verið lokið. Enginn vafi leikur á því að kosningar nú muni leiða til falls ríkisstjórnarinnar. Almenningur í Kanada virðist hafa misst alla trú á forystu flokksins og þeir sem hafa trúað honum, þrátt fyrir umræðuna, hafa misst trúna á forystu Martin, eftir að sannanirnar voru afhjúpaðar um tengsl flokksins vegna spillingarmálanna.

Enginn vafi leikur á því að stjórnarandstaðan muni nota þetta mál til að klekkja á forsætisráðherranum og flokki hans. Martin er sérlega tengdur málinu enda var hann fjármálaráðherra þegar spillingin á að hafa átt sér stað árið 2002. Í kosningunum í fyrra munaði hársbreidd að stjórnin félli en Martin hefur ríkt síðan í minnihlutastjórn, sem hefur verið varin vantrausti af smærri flokkum. Nú er staðan orðin þannig að þeir eru orðnir tvístígandi og stjórnin riðar til falls. Er enginn vafi á því að með þessu sjónvarpsávarpi er Martin að spinna atburðarás til að friða kjósendur og reyna, þrátt fyrir loforð um annað, að koma í veg fyrir þingkosningar síðar á árinu og friða með þessu smáflokkana. Vandséð er að það muni takast. Við blasir að mikil valdþreyta er komin í frjálslynda og þetta mál sligar þá mjög, enda hafa lög að öllum líkindum verið brotin. Martin hefur verið forsætisráðherra frá 12. desember 2003, er forveri hans, Jean Chretien, lét af embætti eftir 10 ára forsætisráðherraferil. Skv. skoðanakönnunum í Kanada myndu frjálslyndir missa tæplega 2/3 þingmanna sinna ef kosið væri nú. Íhaldsflokkurinn mælist nú með rúm 40% fylgi og hefur ekki mælst hærri síðan á níunda áratugnum er hann var leiddur af Brian Mulroney sem þá var forsætisráðherra landsins. Að óbreyttu stefnir því í hægristjórn bráðlega í Kanada.

Punktar dagsins
Minjasafnskirkjan - mynd Jóns M.

Það var alveg yndislegt að vakna snemma í gærmorgun hér á Akureyri. Sólin var björt og fögur er hún skein inn um eldhúsgluggann meðan ég fékk mér kaffi og ristað brauð og vorblærinn yfir öllu. Ég fór snemma í góðan hjóltúr út í þorp og svo inn í Kjarnaskóg og fékk mér þar góðan göngutúr í góða veðrinu. Fátt er eins gott til að slappa virkilega af að fá sér góðan hjóltúr og svo fínt labb í Kjarnaskógi. Gulls ígildi hreint út sagt. Í hádeginu fór ég í hádegismat til Hönnu ömmu. Þar var eins og venjulega yndislega góður matur, hún amma er snilldarkokkur. Eftir það fórum við amma inn í kirkjugarð og vorum þar aðeins að dytta að, en amma setur jafnan sumarblóm á leiði ættingja sinna. Vorum við þar dágóða stund í blíðunni. Um þrjúleytið fórum við saman í Minjasafnið. Þar var yndisleg fjölskyldustemmning og skemmtilegt andrúmsloft. Ilmur af lummum og heitu súkkulaði fyllti þar loftið í bland við kátínu og gleði. Hallgrímur Gíslason flutti stutta ræðu um sumardaginn fyrsta og gamlar hefðir tengdar honum. Var það fróðlegt og gott erindi. Ennfremur flutti Guðrún Kristinsdóttir safnvörður, ræðu um dagskrá safnsins í sumar og til ársloka og það sem gert hefði verið þar það sem af er árinu.

Að því loknu var boðið upp á lummur og soðbrauð. Með brauðinu var svo boðið upp á ekta-gott og heitt súkkulaði og Svala fyrir börnin. Var þetta virkilega gaman og það er vissulega alltaf ánægjulegt að líta á þetta góða safn okkar allra. Samhliða þessu var í safninu ljósmyndasýning Ragnars Axelssonar, Framandi heimur. Þar getur að líta mannlífsmyndir teknar á ferðum Ragnars víða um heim. Þetta er í fyrsta skipti sem myndir Ragnars eru til sýnis á Akureyri. Mikill fjöldi lagði leið sína á safnið og munu á fjórða hundrað manns hafa þegið þar veitingar og litið á sýninguna. Er það svo sannarlega ánægjulegt, allavega var skemmtileg stemmning á safninu. Hittum við þarna Önnu, konu Mugga föðurbróður míns, og Hönnu Þóreyju dóttur þeirra og fjölskyldu hennar, og var því um margt rætt. Á fimmta tímanum var svo fjöldasöngur í gömlu Minjasafnskirkjunni og sungum við þar ekta sumarlög, sem alltaf eiga við í sumar og sól eins og var í gær. Benni frændi og Andri leiddu sönginn og tók ég þátt í þessu með þeim. Svo skemmtilega vildi til að í gær voru einmitt 27 ár síðan ég var skírður í kirkjunni. Var þetta skemmtilegur dagur á safninu. Í gærkvöldi fórum við Benni svo í bíó og sáum kvikmyndina, Sahara, sem er alveg ágæt.

Þórgnýr Dýrfjörð menningarfulltrúi Akureyrarbæjar, Hlynur Hallsson, Þórkatla Sigurbjörnsdóttir, Erlingur Sigurðarson, Lilja Hallgrímsdóttir, Guðmundur Jónsson, Bogi Pétursson, Alma Dís Kristinsdóttir og Sigrún Björk Jakobsdóttir formaður menningarmálanefndar

Menningarmálanefnd Akureyrarbæjar hélt síðdegis í gær í Amtsbókasafninu sína árlegu Vorkomu á sumardeginum fyrsta. Veitti Sigrún Björk Jakobsdóttir formaður menningarmálanefndar Akureyrarbæjar, við það tækifæri hinar ýmsu viðurkenningar frá nefndinni. Meðal þess voru starfslaun listamanna til sex mánaða. Þau hlutu að þessu sinni þeir Hlynur Hallsson fyrir myndlist og Erlingur Sigurðarson fyrir ritstörf. Hlynur hefur farið ótroðnar slóðir í listsköpun sinni og vakið athygli utan landsteinanna. Erlingur er rithöfundur og einn helsti fræðimaður þjóðarinnar í rannsóknum á Davíð Stefánssyni skáldi frá Fagraskógi. Nýsköpunarverðlaunin hlaut að þessu sinni Alma Dís Kristinsdóttir, Guðmundur Jónsson hlaut viðurkenningu fyrir byggingarlist, viðurkenning húsverndarsjóðs var veitt til minningar um Kristján Pétursson húsasmíðameistara og Lilja Hallgrímsdóttir var heiðruð fyrir framlag sitt til tónlistarlífs á Akureyri. Síðast en ekki síst hlaut Bogi Pétursson, oftast kenndur við Ástjörn, viðurkenningu fyrir framlag sitt til menningar- og félagsmála. Mikið innilega á Bogi það skilið. Ég fór til hans í sumarbúðirnar á Ástjörn þrenn sumur í röð, 1986-1988, og kynntist því vel hversu yndislegur og gefandi persónuleiki Bogi er. Það var heilsteypt og góð mótandi reynsla að dvelja þar. Alla tíð hefur Bogi verið gulls ígildi í mínum huga.

Tony Blair og Gordon Brown

13 dagar eru nú til þingkosninganna á Bretlandi. Baráttan hefur harðnað mjög seinustu daga og hefur hún einkennst af hnútuköstum leiðtoga stóru flokkanna um ágæti flokkanna og grunnstefnumála sinna. Greinilegt er að LP háir baráttu sína á öðrum grunnpunktum en áður undir forystu Blair. Hann er aðeins meira til vinstri núna, er minna í tískuklisjum og spunamennskunni en leitar þess þá meira í velferðarpólitík að takti norrænna jafnaðarmanna. Einn stærsti kostur LP að þessu sinni er vel unnin stefnuskrá. Það má líka segja um grunnstefnu CP, þar er vel talað og hreint út og hnitmiðað. Báðar stefnuskrár eru vel unnar útfrá átakapunktum beggja flokka í baráttunni nú og gagnast þeim á þeirra átakalínum gegn hinum flokknum. Íhaldsflokkurinn hefur mjög talað um innflytjendamálin í kosningunum og leitt þar umræðuna. Nú hefur Blair farið inn á þá braut líka og komið með sína punkta í umræðuna. Velferðar- og innflytjendamál verða að öllum líkindum meginmál kosningabaráttunnar.

Svo er Howard að koma með spennandi skattatillögur í umræðuna. Hann er að lofa að niðurgreiða einkalífeyrissparnað einstaklinga með því að leggja til að ríkisstjórnin leggi til 10 pund fyrir hver 100 sem sett eru í slíkan sparnaðarkost. Spennandi tillaga. Kannanir eru að sýna þá stöðu að allt geti gerst en þó virðist halla að sigri LP, þriðju kosningarnar í röð. En það er spurt að leikslokum. Vakið hefur mikla athygli að fylgi breska Verkamannaflokksins hefur aukist eftir að Blair fór að hampa Brown meira en áður. Í stað þess að staða hans innan stjórnarinnar væri ótrygg eftir kosningarnar er hann orðinn lífakkeri Blair til áframhaldandi valda. Honum er flaggað eins mikið og mögulegt má vera. Þetta er alveg kostulegt. Enginn vafi er á að staða forsætisráðherrans hefur veikst. Meirihluti þjóðarinnar, rúmur helmingur hennar, treystir honum ekki til að segja satt lengur, en fyrri tvö skiptin sem hann hefur leitt flokkinn hefur hann verið langt innan slíkra marka. Greinilegt er að dagar Blairs eru svo til liðnir og hvernig sem þessar kosningar fari taki Brown brátt við.

Reykjavíkurflugvöllur

Í dag birtist ítarlegur pistill minn um málefni Reykjavíkurflugvallar á íhald.is. Mín skoðun á málefnum vallarins er alveg skýr - ég vil að hann verði áfram á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir það fyrsta í mínum huga snýst þetta mál um þá ábyrgð og þær skyldur sem höfuðborgin okkar þarf að bera gagnvart öllum landsmönnum öllum. Þar er allt í senn miðpunktur stjórnsýslunnar og þar á viðskipta- og menningarlíf landsins sínar höfuðstöðvar. Það er mjög einfalt í mínum huga að greiðar samgöngur allra landsmanna, til og frá Reykjavík, eru forsenda þess að höfuðborgin geti sinnt sínu hlutverki með eðlilegum hætti. Fari völlurinn hlýtur hlutverk svæðisins þarna að breytast, eða ég tel það augljóst. Grunnpunktur af minni hálfu er að völlurinn sé á höfuðborgarsvæðinu. Það er innri ákvörðun yfirvalda í sveitarfélaginu hvar hann sé ætli Reykjavík og svæðið þar í kring að standa undir nafni sem höfuðborg og vera áfram sá miðpunktur sem hann hefur verið til fjölda ára. En ég hvet áhugasama til að lesa pistilinn.

Saga dagsins
1917 Jón Helgason, 51 árs guðfræðiprófessor, kjörinn biskup - hann gegndi embættinu allt til 1938
1942 Bandaríkjamenn tóku við yfirstjórn alls heraflans á Íslandi af Bretum, er hernámu landið 1940
1950 Leikritið Íslandsklukkan, er byggt var á þekktri skáldsögu Halldórs Kiljans Laxness, í leikgerð Lárusar Pálssonar, frumsýnt í Þjóðleikhúsinu - var í fyrsta skipti sem verkið var sett upp á leiksvið
1971 Francois Duvalier einræðisherra Haiti, er nefndur var Papa Doc, lést, 64 ára að aldri. Duvalier var forseti Haiti frá 1957 til dauðadags en stjórnaði við algjört einræði frá 1964. Sonur hans, Jean-Claude Duvalier, er nefndur var Baby Doc, tók við völdum en var steypt af stóli í uppreisn árið 1986
1994 Richard Nixon fyrrum forseti Bandaríkjanna, lést, í New York, 81 árs að aldri. Nixon var einn af umdeildustu stjórnmálamönnum Bandaríkjanna á 20. öld. Hann varð fulltrúadeildarþingmaður árið 1947, öldungardeildarþingmaður árið 1950 og varaforseti Bandaríkjanna, fertugur að aldri, árið 1953. Hann bauð sig fram til forseta árið 1960 en tapaði fyrir John F. Kennedy. Honum tókst að ná kjöri á forsetastól árið 1968. Hann varð að segja af sér forsetaembætti 1974, vegna Watergate-hneykslisins

Snjallyrðið
Nothing is a waste of time if you use the experience wisely.
Auguste Rodin myndhöggvari (1840-1917)