Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 apríl 2005

Lík Jóhannesar Páls páfa II flutt á viðhafnarbörum yfir PéturstorgiðHeitast í umræðunni
Útför Jóhannesar Páls páfa II mun fara fram í Róm á föstudaginn. Jarðarförin hefst klukkan 10 að morgni að ítölskum tíma, 8 að morgni að íslenskum tíma. Þetta var ákveðið á fundi æðstaráðs Vatíkansins í morgun, en eina verkefnið sem ráðið má annast eftir andlát páfa er undirbúningur jarðarfarar hans og skipulagning vals á eftirmanni hans, sem fram mun fara á tímabilinu 18. - 22. apríl nk. Lík páfa var í dag flutt, að viðstöddu miklu fjölmenni, yfir Péturstorgið í St. Péturskirkju, þar sem páfi verður jarðsettur á föstudag. Á næstu dögum mun almenningi verða leyft að kveðja hann hinsta sinni. Búist er við því að vel á þriðja milljón manns muni leggja leið sína til Rómar til að kveðja páfann. Pílagrímar hafa þegar safnast saman við Péturskirkjuna og bíða þess að mega fara og kveðja páfa. Enginn vafi leikur á því að jarðarför Jóhannesar Páls II verði einn helsti viðburður seinni tíma, enda stórmerkilegur maður í sögu 20. aldarinnar kvaddur. Mikill fjöldi þjóðarleiðtoga og forystumanna á víðum vettvangi alheimsstjórnmála mun þar væntanlega koma saman til að sýna virðingu sína við páfann og kaþólsku kirkjuna.

Frá því að tilkynnt var um lát páfa á laugardagskvöld hefur fólk um allan heim minnst hans og 27 ára ferils hans í embættinu. Er það samdóma álit flestra að páfinn hafi verið boðberi friðar, ötull talsmaður friðarboðskapar og hans framlag skipt sköpum er kom að endalokum kommúnismans og grimmilegs einræðis sem predikað var í nafni hans. Jóhannes Páll páfi II skilur því eftir sig merkan feril seinustu þrjá áratugina nú þegar hann kveður. Því fer víðsfjarri að ég hafi verið sammála honum í öllum málum. Hinsvegar met ég mikils forystu hans í friðarmálum, hans rödd var öflug á því sviði og það leikur enginn vafi á því að hann hafði mikil áhrif. Heimsókn hans til heimalands síns, Póllands, árið 1979, markaði söguleg skref og það er ekkert vafamál á að hann var ötull talsmaður gegn kommúnisma í heimalandi sínu og forysta hans hafði áhrif við að berja hann niður í A-Evrópu að lokum. Svo má ekki gleyma sögulegri ferð hans til N-Írlands 1979 sem varð víðfræg. Þrátt fyrir átök þar hélt hann fjölmenna útimessu í Ulster. Það var söguleg messa.

En það sem helst stendur eftir er baráttan gegn einræði kommúnismans. Enda reyndi KGB að láta ráða hann af dögum í maí 1981, litlu munaði að það tækist. Það segir mikið að Lech Walesa leiðtogi Samstöðu og síðar forseti Póllands, minnist páfa með þeim orðum að hann hafi lagt mest að mörkum til þess að fella austantjaldskommúnismann niður. Hann eignar honum 50% árangursins, hitt skiptist á milli stjórnmálamannanna. Þetta er rétt. Framlag JPII til friðarmála mun halda hans merki á lofti. Sama hvað segja má um skoðanir hans t.d. á samkynhneigð, getnaðarvörnum og fleiru deilir enginn um áhrifamátt hans í friðarmálum. Þar markaði hann skref sem aldrei hverfa. Í gær átti ég notalegt spjall við nokkra vini á kaffihúsi. Ræddum við þar páfann og þátt hans í mannkynssögunni. Höfðu þeir lesið skrif mín um páfann hér að kvöldi laugardags, eftir andlát hans, og svo pistil eftir mig sem birtist í gær og fjallaði um páfann. Ræddum við þar um skoðanir páfa á málum og afstöðu mína til hans og framlags hans til trúar- og friðarmála. Enginn vafi leikur á því að ég tel hans framlag skipta sköpum. Eins og fyrr segir er ég ekki sammála öllum hans grunnáherslum, en ég tel persónu hans sýna vel að um mikinn merkismann var að ræða.

Annars tjáði ég vel skoðun mína á verkum og forystu páfa í sunnudagspistli mínum í gær. Helgaði ég pistil minn að öllu leyti í gær páfa og verkum hans og vildi með því tjá þann hug minn að með honum er genginn einn merkasti maður 20. aldarinnar. Sannkallaður áhrifamaður á samtíð sína og alla framtíð, bæði kristinnar trúar og þess embættis sem hann gegndi af trúmennsku og mikilli samviskusemi í þrjá áratugi og sýndi ótrúlegan styrk sérstaklega seinustu árin, er hann barðist við veikindi og sífellt minni þrótt til starfa. Hann réði ekki yfir herstyrk eða vopnavaldi en vald hans og áhrif var öflugra en það allt til samans, hann vann á grundvelli trúar og var einlægur fulltrúi þess sem kristin trú byggir á. Áhrif hans við að tjá þann boðskap var sterkari en allt mannlegt. Hann var allt til hinstu stundar ötull og öflugur talsmaður Guðs.

Óðinn Jónsson fréttastjóriÓðinn Jónsson fréttamaður og varafréttastjóri Ríkisútvarpsins var í gær ráðinn fréttastjóri á fréttastofu Útvarps. Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, ákvað eftir hádegið í gær að bjóða Óðni starfið og ræddu þeir málið með þeim afleiðingum að þeir sömdu um að Óðinn tæki við starfinu samstundis. Með ráðningu Óðins í fréttastjórastól fréttastofu Útvarps lýkur langri atburðarás sem hófst er Kári Jónasson lét af störfum sl. haust til að fara til starfa á Fréttablaðinu. Hafði lengi verið talað um hver tæki við starfinu og loks var það auglýst og er kom að ráðningu var deilt um val útvarpsstjóra á Auðuni Georg Ólafssyni, einum af 10 umsækjendum. Ólga vegna ráðningarinnar varð til þess að Auðun Georg afþakkaði starfið. Enginn vafi leikur nú á að fagmaður er orðinn fréttastjóri og yfirmaður á fréttastofu Útvarpsins. Ég tel að Markús Örn hafi gert hárrétt í að taka strax ákvörðun um nýjan fréttastjóra og taka af skarið. Með þessu hefur útvarpsstjóri slegið öll vopn úr höndum andstæðinga sinna og tekist að snúa málinu sér í vil og samið frið við starfsmenn.

Óðinn á að baki langan feril í fréttamennsku. Hann hefur starfað sem fréttamaður á fréttastofu Ríkisútvarpsins frá árinu 1987 og hefur verið varafréttastjóri þar frá því að Sigríður Árnadóttir lét af störfum í janúarlok 2004. Óðinn hefur verið umsjónarmaður Morgunvaktarinnar frá upphafi, í mars 2003, eða í rúmlega 2 ár. Hann hefur haldið vel á þeim þætti að mínu mati og markað honum góða tilveru. Hlusta ég oftast nær á þáttinn snemma á morgnana. Þar er jafnan skemmtileg og góð blanda af málefnum samtímans og fróðleg úttekt á því sem er að gerast og tekið á áhugaverðum málum. Það er grunnmál að mínu mati að fréttastjóri, alveg sama hvort það er á útvarpi eða sjónvarpi meðan ríkið á það, sé fagmaður í fréttamennsku og hafi langan feril á að skipa og geti haldið með trúverðugleika utan um fréttapakkann. Verkefni fréttastofunnar er að segja fréttir og því er fréttastjórinn auðvitað yfirmaður fréttastofu, faglegur stjórnandi frétta. Hann er ekki baunateljari. Því skiptir fréttamannsreynsla miklu í þessum efnum. Ég hef enga hugmynd um það hvað Óðinn Jónsson kýs þegar hann er einn í kjörklefanum. Um það snýst ekki málið. Það snýst um að fréttastjórinn sé fagmaður frétta og hafi reynslu á að skipa. Einfalt mál. Ég tel Óðinn hæfan til verksins og hef væntingar í þá átt að hann nái að vinna af krafti og skapa þann trúverðugleika sem nauðsynlegur er á fréttastofunni. Reynir nú á það. Ég óska honum til hamingju með starfið og vona að honum muni ganga vel í starfinu á komandi árum.

Punktar dagsins
Tony Blair

Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, ákvað að fresta því að boða formlega til bresku þingkosninganna í dag vegna fráfalls páfa. Í staðinn mun hann væntanlega tilkynna um kosningarnar á morgun. Verða þær að öllum líkindum haldnar eins og áður hafði verið talið líklegast: þann 5. maí. Er því ljóst að snörp og beinskeytt kosningabarátta er framundan næstu vikurnar í Bretlandi. Hún hefur þó staðið nokkurn tíma nú þegar, segja má að hún hafi hafist af krafti strax í febrúar. Þess er nú bara beðið að þingið verði leyst upp og frambjóðendur og forystumenn flokkanna geti farið heim í hérað og kynnt sig og stefnu sína betur og án skugga þingstarfanna í London. Við blasir að kosningabaráttan verði spennandi, eflaust mun spennandi en kosningabaráttan 1997 og 2001. Þessar tvær kosningar vann Verkamannaflokkurinn með afgerandi mun og aldrei var vafi á sigri flokksins. Skv. nýrri könnun Daily Telegraph í dag getur allt gerst. Munurinn er einungis þrjú prósent: LP hefur 36% en CP hefur 33%. Frjálslyndir hafa 22%. Þessi munur er því mun minni nú en var þegar boðað var áður til kosninganna. Ljóst er að þreytan er orðin nokkur með Blair og kratana og viðbúið að baráttan verði eitilhörð og beitt. Verður fróðlegt að fylgjast með lokahnykk baráttunnar.

Camilla Parker Bowles og Karl Bretaprins

Fyrirhuguðu brúðkaupi Karls prins af Wales og unnustu hans Camillu Parker Bowles hefur verið frestað til laugardags. Átti það upphaflega að fara fram á föstudag, en sú dagsetning gengur ekki lengur, enda stangast hún á við útför Jóhannesar Páls páfa II. Hefði það orðið algjör hneisa fyrir bresku konungsfjölskylduna ef haldið hefði verið til streitu, eins og áður hafði verið lýst yfir, að hafa brúðkaupið á föstudag þrátt fyrir útför páfa. Sérfræðingar í málefnum hirðarinnar voru fljótir að benda á að ákvörðun þess eðlis að hafa brúðkaupið á sama degi og útför páfa hefði orðið PR slys allra tíma fyrir hina álappalegu konungsfjölskyldu. Karl og Camilla hætta ekki á þann dans sem hefði hlotist af því, ofan á allt annað PR ruglið í kringum borgarfógetagiftingu þeirra. Hefur þessi undirbúningur markast af hverju klúðrinu eftir öðru. Hef ég áður rakið það sem hefur átt sér stað. Það nýjasta er að Camilla getur borið prinsessutitil af Wales eftir giftinguna. Er það auðvitað titill Díönu prinsessu, sem hún bar frá því hún giftist Karli allt þar til hún lést sumarið 1997. Varla fer Camilla þó að bera hann nema þau ætli endanlega að gera allt vitlaust.

Akureyri að vori 2003

Akureyrarbær hefur að nýju hafið auglýsingaherferðina Akureyri - öll lífsins gæði! sem stóð áður 2001-2003 með góðum árangri. Er þetta hárrétt ákvörðun og mikilvægt að kynna vel alla kosti bæjarins og þá mikilvægustu punkta sem máli skipta. Unnið hefur verið markvisst að markaðssetningu bæjarins á síðustu árum og markaði skipun umboðsmanna bæjarins í byrjun marsmánaðar upphaf þessarar nýju herferðar þar sem verði lögð hefur verið áhersla á þann árangur sem náðst hafi og að bjartar horfur séu framundan í málum bæjarins. Í sveitarstjórnarkosningunum 1998 fórum við sjálfstæðismenn fram undir kjörorðinu: Kraftur í stað kyrrstöðu. Það hefur sannast, svo ekki verður um villst, að kraftur hefur verið mikill hér og verið áþreifanlegur og sést í öllum tölum síðan, þegar farið er yfir stöðu mála. Kraftur kom í stað kyrrstöðu undir forystu okkar sjálfstæðismanna í samstarfi okkar fyrst við Akureyrarlista og síðar Framsóknarflokk, og hefur verið til staðar í valdatíð okkar í bænum. Akureyri er svo sannarlega í öndvegi sveitarfélaga, enda vel hér haldið á málum og staða bæjarins mjög sterk og kraftmikil þegar litið er til framtíðar.

Bubbi Morthens

Bubbi Morthens hefur lengi verið einn af mínum uppáhaldstónlistarmönnum. Ég met mikils tónverk Bubba og framlag hans til íslenskrar tónlistar. Það fer ekki framhjá neinum að hann er einn af fremstu tónlistarmönnum landsins seinustu áratugina. Hefur hann seinustu árin samið hvern smellinn á eftir öðrum og náð að toppa sig sem tónlistarmann með hverri plötunni. Í fyrra samdi hann að mínu mati sitt besta lag til fjölda ára, sannkallaðan gullmola. Er ég að tala um lagið Fallegur dagur. Þetta er glæsilegt lag sem hittir beint í mark. Í dag gaf hann formlega út annað nýtt lag, sem verður ásamt Fallegum degi á nýrri plötu hans sem kemur út á afmælisdegi hans, 6. júní. Er þetta lagið Þú. Hlustaði ég á lagið á tonlist.is um leið og það var kynnt þar í morgun. Er þar komið annað stórfenglegt lag sem hittir beint í mark. Hvet alla til að fara á vefinn og hlusta á þetta frábæra lag Bubba. Greinilegt að Bubbi og Barði í BangGang eru að semja eðalefni saman og samstarf þeirra að skila af sér frábærum lögum.

Saga dagsins
1897 Hið íslenska prentarafélag stofnað - er félag prentara elsta starfandi verkalýðsfélag landsins
1960 Kvikmyndin Ben-Hur hlýtur 11 óskarsverðlaun - engin kvikmynd hafði fram að þeim tíma hlotið fleiri óskarsverðlaun. Nokkrum áratugum síðar jöfnuðu Titanic og The Lord of the Rings: The Return of the King þetta met myndarinnar og hlutu ennfremur 11 óskarsverðlaun. Aðalleikari myndarinnar, Charlton Heston hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Judah Ben-Hur og Hugh Griffith einnig, en hann túlkaði Sheik Ilderim. Leikstjóri myndarinnar, William Wyler hlaut á sömu óskarshátíð bæði leikstjóraóskarinn og heiðursóskar fyrir æviframlag sitt. Ben-Hur er ein besta kvikmynd 20. aldarinnar
1968 Blökkumannaleiðtoginn Martin Luther King, er var einn af ötulustu málsvörum mannréttinda blökkumanna á 20. öld, skotinn til bana á svölum hótelherbergis í Memphis í Tennessee-fylki, 39 ára að aldri. James Earl Ray var dæmdur fyrir morðið en hann hélt alla tíð fram sakleysi sínu. Hann lést í fangelsi árið 1998, en reyndi í mörg ár að vinna að því að mál hans væri tekið upp á nýjan leik
1979 Zulfikar Ali Bhutto fyrrum forseti og forsætisráðherra Pakistans, tekinn af lífi - Bhutto sat á forsetastóli landsins 1971-1973 og forsætisráðherra 1973-1977 er honum var steypt af stóli. Dóttir hans, Benazir Bhutto, varð forsætisráðherra Pakistans árið 1988, fyrst allra kvenna í íslömsku ríki
1995 Ragnar Th. Sigurðsson og Ari Trausti Guðmundsson komust á Norðurpólinn, fyrstir Íslendinga

Snjallyrðið
Good works are links that form a chain of love.
Móðir Teresa (1910-1997)