Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 maí 2005

Blair heldur velli - breytingar framundan?

Cherie og Tony Blair fagna kosningasigrinum

Verkamannaflokkurinn sigraði í bresku þingkosningunum í gær. Flokkurinn hlaut 36% greiddra atkvæða, en Íhaldsflokkurinn hlaut 33% atkvæða og frjálslyndir demókratar hlutu 22%. Þetta er í fyrsta skipti í sögu Verkamannaflokksins sem hann sigrar í þrennum kosningum í röð, en flokkurinn hefur nú setið við völd allt frá því að hann vann sögulegan sigur á Íhaldsflokknum þann 2. maí 1997. Í dag er leiðtogi flokksins, Tony Blair forsætisráðherra, 52 ára. Það er því ástæða fyrir hann vissulega til að gleðjast á þessum degi, enda hefur hann með þessum sigri náð þeim glæsilega árangri að leiða flokk þrisvar í röð til sigurs í breskum stjórnmálum. Er hann aðeins annar stjórnmálamaðurinn í sögu landsins sem nær þeim áfanga. Margaret Thatcher leiddi Íhaldsflokkinn til sigurs í þingkosningunum 1979, 1983 og 1987. Hún sat í embætti forsætisráðherra lengur en nokkur annar á 20. öld, í heil ellefu og hálft ár, á árunum 1979-1990.

Með kosningasigrinum í gær hefur því Tony Blair markað sér sögulegan sess og er orðinn sigursælasti leiðtogi í sögu Verkamannaflokksins, sem var stofnaður árið 1900. Þrátt fyrir að forsætisráðherrann geti glaðst yfir þeim árangri að hafa leitt flokkinn til sigurs í kosningunum marka úrslitin ekki eintóma gleði. Verkamannaflokkurinn missti mikið fylgi í kosningunum og þingmeirihluti hans hefur minnkað til muna. Í stað þess að hann hafi verið rúm 160 þingsæti er hann nú um 70. Það blasir því í senn bæði annað pólitískt landslag og nýr pólitískur veruleiki við Tony Blair á afmælisdeginum, eftir að hann hefur tryggt sér þriðja kjörtímabilið við stjórnvölinn. Búast má við því að hann þurfi nú mun frekar að semja við óánægjuöflin í flokknum og það verði því bæði erfiðara fyrir hann að ná í gegn málum sínum gegnum þingið og að stjórnarandstaðan eigi auðveldara með að höggva í hann og veita honum pólitíska áverka í ljósi naumari meirihluta.

Cherie og Tony Blair fagna úrslitunum í Sedgefield

Í þau átta ár sem Tony Blair hefur verið forsætisráðherra hefur hann getað farið sínu fram í ljósi gríðarlega öflugs þingmeirihluta og ekki þurft í raun að taka tillit til vinstrisinnaðasta arms flokksins. Hann hefur í raun getað farið sína leið og látið þar við sitja. Með þessum úrslitum breytist staðan að því leyti að nú reynir til muna á sáttasemjarataktík forsætisráðherrans til að þoka málum í gegn. Hann verður að spila meiri millileiki og venjast því að vera með brothættari meirihluta sem gæti leitt til þess að vissir þingmenn verði honum óþægur ljár í þúfu og leiki meiri sóló. Blair hefur því veikst til muna og verður vart úr þessu hinn sterki leiðtogi sem keyrir mál í gegn og þarf ekki að láta óánægjuöfl innan flokksins ráða stefnumótun sinni. Nú þegar meirihlutinn er aðeins um 70 sæti breytist því staðan að þessu leyti. Það er því ljóst að bæði mun stjórnarandstaðan geta sparkað meira frá sér og meirihlutinn mun eiga í vök að verjast, t.d. gæti innri valdabarátta aukist til muna.

Má búast við að umræðan magnist enn frekar um það nú hvort Blair muni sitja til loka kjörtímabilsins. Fyrir kosningarnar staðfesti Blair að þetta væri hans seinasta kosningabarátta og hann ætlaði sér ekki að sitja lengur en út kjörtímabilið. Segja má að Verkamannaflokkurinn hafi í þessum kosningum unnið sigur þrátt fyrir Blair en ekki vegna hans, eins og í þingkosningunum 1997 og 2001 þegar hann var markaðssettur sem hinn öflugi og vinsæli leiðtogi. Í kosningabaráttu seinustu vikna hefur þessu verið allt öðruvísi farið. Verkamannaflokkurinn sem hefur verið byggður utan um vinsældir Blair seinasta áratuginn flaggaði öðrum ráðherra flokksins sem leiðtoga-material en hélt Blair á kantinum. En stjörnuljómi hans er farinn og segullinn á almenning er annar maður. Segja má að Brown sé orðinn forsætisráðherraefni kratanna, en Blair sitji eftir til hliðar sem leiðtoginn sem sé að fara að hætta eða sé þarna en sé þarna meira punt og skraut.

Tony Blair og Gordon Brown á síðasta degi kosningabaráttunnar

Segja má að Gordon Brown hafi verið sigurvegari þessara kosninga, en ekki Tony Blair eins og í hinum tveim kosningasigrum flokksins. Blair vissulega leiðir flokkinn áfram til valda í hið sögufræga þriðja kjörtímabil en hann er ekki sá sem er aðalstjarnan í raun, eins merkilegt og það hljómar. Það var Brown sem halaði inn sigur flokksins og var meginpunktur kosningabaráttu flokksins. Sást þetta best af nýlegri skoðanakönnun sem sýndi að væri Brown leiðtogi flokksins myndi hann hljóta 48% atkvæða. Hann fylgdi Blair eftir hvert fótmál og var sá sem mesta athyglin snerist um. Segja má að Brown hafi verið eins og skugginn á eftir forsætisráðherranum alla baráttuna og á hann var baráttan markaðssett. Blair var fastur í neikvæðri umræðu og beinlínis orðinn óvinsæll og því notuðu menn niðurstöður kannana og drógu Brown fram og tefldu meginpunkta baráttuna á honum. Hann var orðinn algjör dragbítur og því varð það að ráði af hálfu spunameistara flokksins að sviðsljósinu skyldi deilt.

Þetta er merkileg þróun í ljósi þess hvernig Blair hefur alltaf verið aðalsegull flokksins á kjósendur. Nú var hann hinsvegar eins og aðskotahlutur. Flokkurinn vissi varla hvernig ætti að auglýsa hann upp og beindu því miðpunktinum að mestu annað og fengu Brown fram í sviðsljósið með forsætisráðherranum. Sterk staða Blair í breskum stjórnmálum hefur því breyst mjög seinustu árin og ekki síst mánuðina og þessi kosningaúrslit munu leiða til þess að umræðan magnast um hvenær hann muni víkja. Líklegast er að það gerist á kjörtímabilinu að Blair víki af sviðinu og afhendi eftirmanni sínum innan flokksins valdataumana. Það er frekar ólíklegt að þau valdaskipti muni eiga sér stað við lok kjörtímabilsins eins og hann hafði sagt og langlíklegast að það gerist innan tveggja ára að nýr húsbóndi verði kominn í Downingstræti 10. Langlíklegast er að sá eftirmaður verði fjármálaráðherra hans, hinn fyrrnefndi Gordon Brown.

Sandra og Michael Howard

Úrslit kosninganna eru viss vonbrigði fyrir Íhaldsflokkinn. Í þriðja skipti í röð tapar hann fyrir Tony Blair og Verkamannaflokknum og þarf að halda áfram stjórnarandstöðu sinni og leita að nýjum megingrunni og tilveru á pólitískum vettvangi. Sú breyting hefur þó vissulega orðið á núna að flokkurinn hefur styrkst. Hann bætti við sig mörgum þingsætum í þessum kosningum og náði kjöri í mörgum kjördæmum sem Verkamannaflokkurinn hefur ráðið yfir. Það er vissulega styrkleiki og íhaldsmenn munu væntanlega byggja á því í vinnu komandi ára. Það er enginn vafi á því í mínum huga að íhaldsmenn verða að hefja nýja sókn og nýja vinnslu á sóknarfærum í hægristefnu á komandi árum. Michael Howard tókst í þessari kosningabaráttu að taka vissa grunnvinnu í að efla grunn flokksins og náði að styrkja hann mjög í kosningabaráttu seinustu vikna. Flokkurinn er samhentari og öflugri nú en áður í stjórnarandstöðu seinustu átta ára.

En betur má ef duga skal fyrir íhaldsmenn. Það er ljóst að flokkurinn hefur náð að bæta við sig rúmlega 30 þingsætum og hefur náð að lyfta sér af þeim botni sem hann fór á í afhroðinu mikla 1997 og bætti sig verulega frá kosningunum 2001, þegar flokkurinn í raun stóð í stað. Nú er hinsvegar komið að krossgötum fyrir Íhaldsflokkinn í starfi sínu. Þar þarf að fara fram mikil endurnýjun í forystuliði að mínu mati og ekki síður hugmyndafræðileg vinna við að bæði marka flokknum nýja tilveru og sóknarfæri. Það er alltaf svo að nýjir leiðtogar koma til sögunnar og þessi grunnvinna skilar árangri. Við sjáum bara hvernig Verkamannaflokkurinn hafði það lengi vel. Þeir voru í stjórnarandstöðu í heil 18 ár og áttu lengi í miklu basli við að marka sér grunn til að lyfta sér til nýrra hæða. Það tókst og það mun íhaldsmönnum takast, fyrr en síðar. Hvort Michael Howard leiðir það starf er óvíst, en hitt er ljóst að hann á stóran þátt í að sú grunnvinna hefur hafist af krafti.

Sarah og Charles Kennedy

Frjálslyndir demókratar styrktu stöðu sína í kosningunum og náðu sínum bestu kosningaúrslitum í marga áratugi. Undir forystu leiðtoga síns, Charles Kennedy, hefur flokkurinn styrkt sig sem þriðja aflið í breskum stjórnmálum og hefur eflt sig í pólitíska litrófinu og hefur leitt flokkinn af krafti og fylgt eftir árangri forvera síns, Paddy Ashdown. Enginn vafi leikur á því að afstaða flokksins í Íraksstríðinu fyrir tveim árum hafi styrkt flokkinn. Hann var eini flokkurinn sem tjáði afgerandi andstöðu gegn stríðinu og hefur náð fylgi út á það með greinilegum hætti. Segja má þó að sú andstaða hafi rist dýpra en það, enda var Verkamannaflokkurinn klofinn í málinu og leiddi það til þess að margir öflugir forystumenn hans fóru þaðan. Sérstaklega vakti athygli að hinn brottrekni þingmaður úr flokknum, George Galloway, náði kjöri í Bethnal Green og felldi þingmann kratanna, hina þeldökku Oonu King. Þau úrslit gerðu marga krata orðlausa og flutti Galloway mikla ádrepu yfir Blair og sínum gamla flokki er hann fagnaði sigrinum.

Það var þreytulegur en þó glaður Tony Blair sem ávarpaði stuðningsmenn sína í Sedgefield í gærkvöldi eftir að hann náði þar kjöri í sínum síðustu þingkosningum. Hann var ánægður með sigur sinn í kjördæminu og flokksins á landsvísu. Það var þó ljóst af tali hans og fasi að sigurinn er mjög súrsætur. Meirihluti hans er eins og fyrr segir mun tæpari en áður og svigrúm hans til forystu í takt við það sem verið hefur er mjög takmarkað. Við blasir að kjósendur séu að senda honum þau skilaboð að hans tími sé liðinn. Við blasir að breytingar verði brátt í breskum stjórnmálum. Eftir tæplega áratug á valdastóli eru augljós þreytumerki á pólitískri forystu Tony Blair og pólitískt leiðarljós hans hefur leitt flokksmenn inn á braut sigurs en þó markast leiðin framundan af nokkurri óvissu. Við blasir þó að vaktaskipti verði fyrr en seinna og Gordon Brown setjist við stýrið á þessu kjörtímabili. Eitt merkilegasta slagorð kosningabaráttunnar var jú Vote Blair - Get Brown.

Tony Blair

Enginn vafi er á því að Tony Blair hefur stefnt að því að slá met hinnar kraftmiklu járnfrúar, Margaret Thatcher, sem sat lengur á forsætisráðherrastóli en aðrir í seinni tíma stjórnmálasögu. Vissulega getur Blair náð því, enda náð kjöri á valdastól á kjörtímabil sem getur varað í allt að fimm ár. Ef hann situr til loka þess án þess að boða til kosninga áður hefur hann setið samfellt í þrettán ár og hefur þá náð að skáka frú Thatcher. Blair er ekki gamall maður, aðeins 52 ára og fagnar þeim árafjölda á afmælisdegi sínum í dag. En líkurnar á því að forsætisráðherrann sitji tímabilið á enda teljast vart miklar. Þreyta kjósenda og ekki síður flokksmanna með pólitíska forystu Blairs er orðin mjög greinileg. Vaktaskipti blasa því við á komandi árum. Breytingar eru framundan. Þrátt fyrir sögulegan sigur og nokkurn áfanga stendur afmælisbarn dagsins á krossgötum. Þrátt fyrir að vera orðinn sigursælasti leiðtogi vinstrimanna í pólitískri sögu landsins er óneitanlega að koma endastöð hjá Tony Blair á pólitískum leikvangi.

Saga dagsins
1912 Mjög öflugur jarðskjálfti reið yfir á Suðurlandi, við Heklu - mikið eignatjón varð í skjálftanum
1954 Alfredo Stroessner rænir völdum í Paraguay í S-Ameríku - einræðisstjórn hans var felld 1989
1966 Ian Brady og ástkona hans Myra Hindley, sakfelld fyrir hin frægu og hrottalegu Moors morð
1986 Hornsteinn lagður að húsi Seðlabankans við Kalkofnsveg - húsið var tekið í notkun í apríl 1987
1994 Elísabet Englandsdrottning og François Mitterrand forseti Frakklands, vígja Ermarsundsgöngin

Snjallyrðið
The art of leadership is saying no, not yes. It is very easy to say yes.
Tony Blair forsætisráðherra Bretlands (1953)