Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 maí 2005

Þingkosningar í Bretlandi

Tony BlairMichael Howard

Snarpri kosningabaráttu í Bretlandi seinustu vikur er lokið. Breskir kjósendur ganga í dag að kjörborðinu og velja milli ólíkra flokka og stefnumála þeirra og kjósa 645 þingmenn til setu á breska þingið næstu árin. Er litið er yfir mánaðarlanga kosningabaráttu og meginlínur átakanna mánuðina þar áður blasir við að málefnaágreiningur stjórnmálaflokkanna er lítill sem enginn í grunnlínum séð. Deilt er um útfærslur stefnunnar hinsvegar með gríðarlegum krafti og hefur kosningabaráttan að þessu sinni verið harkalegri og persónulegri að sama skapi. Ef marka má seinustu skoðanakannanir sem birtar voru í gær, skömmu áður en formlegri kosningabaráttu lauk hefur dregið saman með flokkunum. Ljóst er að allt stefni í kosningasigur Verkamannaflokksins, en að meirihluti flokksins minnki til muna og svo gæti allt eins farið að hann yrði það naumur að staða Tony Blair forsætisráðherra og leiðtoga flokksins, veikist til muna. Ljóst er að Íhaldsflokkurinn stefnir fyrst og fremst á að komast yfir 200 þingmanna markið og bæta við sig um 40-50 þingmönnum hið minnsta. Þetta er grunnmarkmið þeirra. Náist það ekki í dag blasir við endurskipulagning flokksins frá grunni.

Merkilegt hefur verið í þessari kosningabaráttu að kynna sér stefnuskrár flokkanna og áherslur í kosningabaráttunni. Greinilegt er að Verkamannaflokkurinn háir baráttu sína á öðrum grunnpunktum en áður í fyrri kosningabaráttum undir forystu Blair. Hann er mun meira til vinstri núna, er minna í tískuklisjum og spunamennskunni sem hefur einkennt feril hans en leitar þess þá meira í velferðarpólitík að takti norrænna jafnaðarmanna. Einn stærsti kostur Verkamannaflokksins að þessu sinni er vel unnin kosningastefnuskrá. Þar er talað hreint út og með einbeittum hætti um komandi verkefni og áherslur á næsta kjörtímabili. Í grunninn er þó verið að leggja til sömu áherslur og verið hefur undir forystu Blair í ríkisstjórn. Kosningastefnuskrá Íhaldsflokksins er ekki síður vel gerð, þar er talað með snörpum hætti og helstu áherslur taldar upp í gegnum einbeittar áherslur. Báðar stefnuskrár eru því vel unnar útfrá átakapunktum beggja flokka í baráttunni nú og gagnast þeim á þeirra átakalínum gegn hinum flokknum. Íhaldsflokkurinn hefur mjög talað um innflytjendamálin í kosningunum og leitt þar umræðuna. Segja má að velferðar- og innflytjendamál hafi verið meginmál kosningabaráttunnar.

Gordon Brown og Tony Blair

Blair hefur staðfest að þetta verði hans seinasta kosningabarátta. Hann hefur í hyggju, að eigin sögn, að sitja út næsta kjörtímabil, ef hann heldur velli í kosningunum. Það er því ljóst að óháð kosningaúrslitunum leitar Blair nú í síðasta skipti eftir endurkjöri. Greinilegt er að Blair og Gordon Brown fjármálaráðherra, hafa samið um frið og koma nú fram við hvert tækifæri til að sýna fram á að stríðsöxin milli þeirra hafi verið grafin. Vakið hefur mikla athygli að fylgi breska Verkamannaflokksins hefur aukist eftir að Blair fór að hampa Brown meira en áður. Í stað þess að staða hans innan stjórnarinnar væri ótrygg eftir kosningarnar, að sögn Blairs í janúar, er hann orðinn lífakkeri Blair til áframhaldandi valda. Brown er því eins og skugginn á eftir Blair þessa dagana. Hvert sem Blair fer, fer Brown líka. Er þetta auðvitað til marks um það að Brown er orðinn meginsegull flokksins á kjósendur. Nýleg könnun sýndi að flokkurinn myndi hljóta 48% fylgi ef Brown væri leiðtogi hans. Er enginn vafi lengur á því að Brown er orðinn sá sem flestir telja að taki við af Blair. Segja má að svo hafi þetta verið allt frá því Blair varð leiðtogi flokksins árið 1994 og forsætisráðherra árið 1997.

Merkilegast að mínu mati við bresku þingkosningarnar er kosningakerfið. Í Bretlandi eru einmenningskjördæmi og því ráðast úrslitin ekki af prósentutölum á landsvísu. Flokkarnir verða að vinna einmenningskjördæmin til að hala inn þingsætum. Gerst gæti því að einn flokkur vinni kosningarnar en sé undir í prósentum talið. Til dæmis hlaut Verkamannaflokkurinn síðast 40% atkvæða og rúmlega 160 þingsæta meirihluta. Ef marka má kannanir er meirihluti flokksins tryggur, en það gætu verið blikur á lofti. Það sem Verkamannaflokkurinn óttast einmitt mest af öllu, nú á kjördegi, er að kosningaþátttakan verði dræm og menn telji sigurinn of vísan. Það gæti leitt til þess að þeir standi veikar að vígi í baráttu í lykilhéruðum - þannig að flokkurinn hali ekki inn atkvæðin sem þeir telja sig eiga og kjósendur sjái sér ekki hag af því að kjósa því úrslitin séu ljós og þeim hafi þótt kosningabaráttan frekar litlaus. Íhaldsmenn eiga traustari hóp kjósenda, fólk sem kýs og mætir snemma og skilar sér á kjörstaði. Verkamannaflokkurinn er smeykari við þetta og telur t.d. áhugaleysi kjósenda geta orðið sér fjötur um fót.

Dyrnar að Downingstræti 10, embættisbústað forsætisráðherra Bretlands

Í síðustu þingkosningum, árið 2001, var kosningaþátttakan sú minnsta í sögunni, 59%, en flokkurinn hélt engu að síður völdum með afgerandi hætti. Slíkt gæti auðvitað gerst aftur núna. Verður merkilegast að fylgjast með grunntölum í dag: kosningaþátttöku, hversu margir kjósa og hvenær þeir kjósa og svo síðast en ekki síst hvernig tölurnar leggjast upp. Hefð er fyrir því í Bretlandi að kosningar fari fram á fimmtudegi í byrjun maímánaðar. Kjörtímabil breska þingsins er 5 ár. Jafnan er þó kosið ári fyrir lok kjörtímabilsins, fer það þó oftast eftir því hversu örugg stjórnarforystan telur sig um sigur. Margaret Thatcher lét t.d. aldrei líða lengra en fjögur ár milli kosninga, en hún fór í gegnum þrennar kosningar: 1979, 1983 og 1987, og vann þær allar. Eftirmaður hennar, John Major, sem tók við embætti af Thatcher í nóvember 1990, lét líða fimm ár á milli kosninga í þau tvö skipti sem hann leiddi flokk sinn í kosningum: 1992 og 1997. Þær fyrri vann hann þvert á allar kosningaspár en tapaði þeim seinni stórt fyrir Verkamannaflokknum. Í þeim kosningum komst Blair til valda eftir 18 ára valdaeyðimörk krata í Bretlandi.

Með því að ljá Verkamannaflokknum mildari blæ og færa hann inn á miðjuna tókst honum að leiða flokkinn til valda. Blair hélt velli í kosningunum 2001 með svipaðri stefnu og náði að halda nokkurnveginn sínu. Frá þeim tíma hafa Blair og flokkurinn gengið í gegnum hvern öldusjóinn á eftir öðrum. Tony Blair hefur nú setið sem leiðtogi Verkamannaflokksins í ellefu ár og verið forsætisráðherra í átta ár, frá 2. maí 1997. Hann varð leiðtogi breska Verkamannaflokksins er John Smith, forveri hans, varð bráðkvaddur sumarið 1994 og náði að sveigja flokkinn inn á miðjuna og vann þingkosningarnar 1997 með því að gera Verkamannaflokkinn að miðjuflokki sem náði að höfða til fleiri hliða en fyrri leiðtogar hans höfðu gert. Verkamannaflokkurinn varð nútímalegri og meira heillandi en t.d. undir forystu Neil Kinnock sem var með flokkinn mun meira til vinstri og náði aldrei að leiða flokkinn til sigurs, að því er margir segja einmitt vegna vinstriáherslu sinnar. Blair stokkaði upp öll vinnubrögð og áherslur innan flokksins er hann tók við valdataumunum innan hans og náði að gera flokkinn að stórveldi í breskum stjórnmálum á ný.

Gordon Brown og Tony Blair

Lykillinn að farsælum valdaferli Tony Blair í Downingstræti 10 hefur einkennst af því að hann hefur haft tögl og hagldir innan flokksins og náð að halda vinsældum meðal þjóðarinnar vegna mannúðlegrar stefnu sem hefur náð að hitta inn á miðjuna. Hann vann þingkosningarnar 2001 einkum vegna þess að hann hélt áfram að boða sama boðskap og 1997 og lofaði að halda áfram á sömu braut. En á kjörtímabilinu sem er að ljúka hefur öldusjórinn verið meiri og ógæfan aukist sífellt. Þátttaka Breta í Íraksstríðinu varð til þess að tveir ráðherra hans, Robin Cook og Clare Short, fóru úr ríkisstjórninni og andstaða magnaðist innan flokksins við forystu Blair. Í kjölfar stríðsins var krafist rannsóknar á því hvort forsætisráðherrann hefði blekkt þing og þjóð. Síðar svipti vopnaeftirlitsmaðurinn David Kelly sig lífi vegna fréttaflutnings á Íraksmálinu og varð það mál mjög til vandræða fyrir Blair. Þrátt fyrir að skýrsla Huttons lávarðar, um dauða dr. Kelly, hafi hreinsað hann og stjórnina af öllum vandræðagangi með allundarlegum hætti, hvarf ekki umræðan og enn var deilt um þátt stjórnvalda, forsætisráðherrans og nánustu samstarfsmanna hans í Íraksmálinu.

Til að friða almenning lét Blair spunaráðgjafa sinn til margra ára, Alastair Campbell, gossa. Róaðist umræðan mjög eftir það, en skaðinn var skeður fyrir Blair. Síðan hefur Blair virkað þreytulegur og úr tengslum við kjarnann, bæði í flokknum og hinn almenna kjósanda. Ekki urðu öll þessi vandræði það eina sem reið yfir. Meðal annars sem á gekk var að fram komu hneykslismál tengd eiginkonu forsætisráðherrans, Cherie Blair, sem rýrðu mjög trúverðugleika hennar. Allt leiddi þetta auðvitað til minnkandi trausts kjósenda í garð Blair. Eitt mesta áfall hans á ferlinum varð svo í byrjun júní 2004 í sveitarstjórnarkosningum. Missti Verkamannaflokkurinn þá 476 sveitarstjórnarfulltrúa sína og varð fyrir áfalli, enda missti flokkurinn jafnvel forystuhlutverk sitt í héruðum sem almennt voru talin traust vígi flokksins. Úrslitin þá voru sem köld vatnsgusa framan í hann. Náði hann með öflugum vinnubrögðum nánustu samstarfsmanna sinna að snúa vörn í sókn og halda velli innan flokksins, þó tekið væri þá að efast um að hann væri nægilega öflugur til að leiða flokkinn áfram. Komu þá fram raddir um að Gordon Brown ætti að taka við flokknum, en af því varð ekki.

Michael Howard

Helsti mótherji Blair og Verkamannaflokksins er Íhaldsflokkurinn. Michael Howard hefur verið leiðtogi flokksins frá því að forvera hans, Iain Duncan Smith, var steypt af stóli í vantraustskjöri innan flokksins í októberlok 2003. Howard er mjög reyndur stjórnmálamaður. Hann hefur setið á breska þinginu frá 1983. Howard varð ráðherra í ríkisstjórn eftir valdauppstokkunina eftir brotthvarf Margaret Thatcher árið 1990. Sat Howard í stjórn John Major allan forsætisráðherraferil hans. Hann var atvinnumálaráðherra 1990-1992, umhverfisráðherra 1992-1993 og innanríkisráðherra 1993-1997. Eftir ósigur flokksins í kosningunum 1997 gaf Howard kost á sér í leiðtogakjöri flokksins, er Major ákvað að hætta sem leiðtogi hans. Hann tapaði fyrir William Hague í kjörinu og varð minna áberandi í forystunni. Hann varð svo eins og fyrr segir loks afgerandi leiðtogi hans árið 2003 eftir mikil ógæfuár þar á undan í sögu flokksins. Þegar Michael Howard tók við forystu Íhaldsflokksins í nóvembermánuði 2003, var almennt litið á hann sem einn af hinum misheppnuðu leiðtogum flokksins sem til komu eftir kosningaósigurinn fyrir Blair árið 1997.

Framundan er kjördagurinn og kosningavakan. Það verður allavega horft á hana á þessu heimili og vonandi verður spenna í henni. Deilur um Íraksmálið og innri valdabarátta innan Verkamannaflokksins hafa eins og fyrr segir veikt mjög stöðu forsætisráðherrans og flokksins. Ljóst er að mun minni munur mun verða með stærstu flokkunum í þessum kosningum og langt í frá öruggt að Blair hljóti afgerandi sigur í þriðju kosningunum í röð, líkt og Margaret Thatcher einni hefur tekist til þessa í breskri stjórnmálasögu. Enginn vafi leikur á að íhaldsmenn hafa verið sterkari seinustu vikur en jafnan áður og Verkamannaflokkurinn á undir högg að sækja. Svo virðist þó vera nú að stjórnin haldi velli og að Blair haldi forsætisráðherrastólnum enn um sinn og nái að landa sögulegum áfanga á ferli sínum: að leiða kratana til þriðja kosningasigurs síns í röð. Á morgun verður Blair 52 ára. Hvort hann fagnar þá eða sleikir sárin ræðst í kvöld. En við spyrjum að leikslokum.

Downingstræti 10


Saga dagsins
1639 Brynjólfur Sveinsson var vígður biskup að Skálholti - hann hafði mikil áhrif í embættistíð sinni
1945 Guðmundur Kamban rithöfundur, skotinn til bana í Kaupmannahöfn - var þá 56 ára að aldri
1981 Bobby Sands deyr, 27 ára að aldri - hann var í hungurverkfalli í 66 daga í fangelsi á N-Írlandi
1998 GSM þjónusta Tals hefst - stækkaði ört á skömmum tíma. Tal varð hluti af Og Vodafone 2003
2000 Össur Skarphéðinsson alþingismaður og fyrrum umhverfisráðherra, kjörinn fyrsti formaður Samfylkingarinnar í póstkjöri meðal flokksmanna. Össur sigraði Tryggva Harðarson í kosningunni

Snjallyrðið
My grandfather once told me that there are two kinds of people: those who work and those who take the credit. He told me to try to be in the first group; there was less competition there.
Indira Gandhi forsætisráðherra Indlands (1917-1984)