Í sunnudagspistli í gær fjallaði ég um þrjú fréttamál vikunnar:
- í fyrsta lagi fjalla ég um ráðningu Ásdísar Höllu Bragadóttur bæjarstjóra í Garðabæ, í forstjórastól BYKO. Það eru óneitanlega alltaf nokkur tíðindi þegar kraftmiklir pólitískir forystumenn færa sig til með þessum hætti og takast á hendur önnur verkefni en á vettvangi stjórnmála. Það hefur verið mjög ánægjulegt að fylgjast með pólitískri forystu Ásdísar Höllu í Garðabæ. Þau fimm ár sem hún var bæjarstjóri þar hefur Garðabær eflst og hefur náð mikilli forystu á mörgum sviðum varðandi málefni sveitarfélaga almenns eðlis. Það er það besta við Ásdísi Höllu að mínu mati að hún hefur þorað að sýna sterka pólitíska forystu á eigin forsendum, vera hún sjálf og sýna afgerandi pólitíska sýn á málefni síns sveitarfélags og leiða það áfram af krafti og dugnaði. Ég óska henni góðs gengis og farsældar á nýjum vettvangi, en lýsi yfir hryggð minni á brotthvarfi hennar úr stjórnmálum. Það hefur verið ánægjulegt að kynnast forystu hennar innan flokksins. Ég trúi því og treysti að hún muni koma aftur. Hennar er svo sannarlega þörf í forystusveit stjórnmála á komandi árum!
- í öðru lagi fjalla ég um hið athyglisverða að fyrir skömmu virtist Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formannskandidat í Samfylkingunni, engar skoðanir sjálf hafa á málefnum flugvallar í Reykjavík í sjónvarpskappræðum við meðframbjóðanda sinn til formennskunnar. Það að borgarfulltrúi í Reykjavík og borgarstjóri þar í tæpan áratug segist ekki hafa skoðanir á flugvelli sem staðsettur er í því sveitarfélagi þar sem hún er í sveitarstjórn er mjög vafasamt í mínum augum. Það er eitthvað þar á bakvið segi ég bara. Hún er að reyna að hafa alla góða í kringum sig, sem segir mér ansi margt um hennar karakter í pólitík. Það er hinsvegar ekkert að gera með stjórnmálamenn sem ekki hafa skoðanir. Það er þeirra hlutverk að hafa skoðanir og vinna að málum og tjá sig um málin. En kannski er það að sanna sig með þetta mál (kannski skólabókardæmi þegar á hólminn er komið) að ISG er ákvarðanafælinn stjórnmálamaður sem getur aldrei tekið af skarið og allra síst komið með grunnáherslur sínar í málum sem skipta í raun og sann máli. Eða ég bara spyr?
- í þriðja lagi fjalla ég um þá þöglu mótmælastöðu sem við bæjarbúar hér á Akureyri stóðum fyrir á Ráðhústorgi sl. föstudag kl. 17:00. Þangað mættu um 1500 manns, staðráðnir í að tjá andstöðu sína við þá ofbeldis- og glæpaþróun sem hér hefur sést seinustu vikurnar. Það var auðvitað ómögulegt fyrir okkur Akureyringa í ljósi nýlegra atburða hér í bænum að horfa þegjandi á það sem hefur gerst. Það var komið að okkur, bæjarbúum öllum, að rísa upp og mótmæla og taka á þessum málum. Við hér, almennir bæjarbúar, getum auðvitað ekki setið þegjandi hjá og horft upp á þessa þróun að misyndismenn vegi að rótum bæjarins og okkar mannlífsbrag. Við viljum ekki þennan ósóma hér og tökum til hendinni til að sýna það, en þó með látlausum hætti og einföldum.
3 dagar eru til þingkosninga á Bretlandseyjum. Segja má að hvernig sem þessar kosningar muni fara verði sigurvegari þeirra þó enginn af helstu flokksleiðtogunum þremur. Það verður Gordon Brown fjármálaráðherra. Nú þegar er hann meðhöndlaður sem leiðtogaefni. Hann fylgir Tony Blair forsætisráðherra, eftir hvert fótmál og fer með honum á alla fjöldafundi sem máli skiptir. Þetta eru tíðindi kosningabaráttunnar. Verkamannaflokkurinn sem hefur verið byggður utan um vinsældir Blair seinasta áratuginn flaggar nú öðrum ráðherra flokksins sem leiðtoga-material en heldur Blair á kantinum. En stjörnuljómi hans er farinn og segullinn á almenning er annar maður. Segja má að Brown sé orðinn forsætisráðherraefni kratanna, en Blair sitji eftir til hliðar sem leiðtoginn sem sé að fara að hætta eða sé þarna en sé þarna meira punt og skraut en beint meginpunkturinn næsta kjörtímabilið. Þetta er það sem blasir við og auðvitað allir sjá með afgerandi hætti. Kosningabaráttan hefur verið mjög hvöss og beitt seinustu dagana, eins og við má búast þegar hún er að taka endi. Kannanir eru svo til óbreyttar eftir helgina, en þó hefur dregið saman. Eins og staðan er núna er konkrett staðan svona: hvoru megin við 100 sæta meirihluta fá kratarnir? Þó gæti svo farið að kratarnir endi í svo naumu spili að meirihlutinn fari undir 50. Eitthvað í líkingu við þá stöðu skilur kratana eftir í bóndabeygju vinstrisinnuðustu þingmanna sinna.
Loksins, loksins hefur eflaust einhver sagt um helgina þegar litið var á vefinn forseti.is, vefsetur íslenska forsetaembættisins. Eftir 9 ára japl, jaml og fuður hefur forsetinn loksins opnað heimasíðu sína á þessari slóð. Núverandi forseti, hafði uppi fögur fyrirheit um embættið og fleira því tengt í kosningabaráttunni 1996. Færa átti það nær þjóðinni og gera nútímalegra. Í viðtali við forsetann í Morgunblaðinu 3. ágúst 1996 kom fram að forsetaembættið myndi opna heimasíðu og auðvelda fólki að eiga samskipti við forsetann í krafti nýrrar tækni. 30. júlí 1996 sótti forsetaskrifstofan um lénið www.forseti.is, þá var Vigdís Finnbogadóttir enn forseti Íslands. Opnaður var þessi vefur með fyrirheit um að brátt kæmi öflug síða embættisins. Það hefur, nú níu árum síðar, loksins gerst. Þar er að finna ræður og ávörp forsetans, þætti úr dagskrá hans, skrá verðlauna og viðurkenninga sem forseti veitir almennt og lýsingu á ýmsum samtökum sem honum tengjast. Á heimasíðunni er einnig ágrip af sögu Bessastaða og efni um Bessastaðakirkju og fornleifar á staðnum. Einnig upplýsingar um fána, skjaldarmerki og þjóðsöng Íslendinga. Þar er einnig að finna æviágrip fyrri forseta, innsetningarræður þeirra og öll nýársávörp. Þá eru ítarleg og góð myndasöfn. Það er ánægjulegt að þjóðhöfðingi Íslands, hefur loks, mörgum árum eftir að allir aðrir forystumenn landsins hafa opnað vefi sína, loksins opnað eigin vef. Embættinu sendi ég hamingjuóskir með að hafa loks drifið í þessu. Vefurinn er embættinu mjög til sóma.
Benedikt XVI páfi kom að glugga íbúðar sinnar við Péturstorgið í Róm í gær í fyrsta skipti á embættisferli sínum. Í dag er mánuður liðinn síðan forveri hans, Jóhannes Páll II lést, en hann sat á páfastóli í tæp 27 ár. Kom hann í síðasta skipti að glugganum þann 30. mars, örfáum dögum fyrir andlát sitt. Eftirmaður hans sem kjörinn var á páfastól 19. apríl sl. sagði í fyrstu ræðu sinni við gluggann vilja halda í heiðri þessa hefð forvera sinna og einkum tileinka þetta fyrsta skipti sitt forvera sínum, sem hefði af trúmennsku og hlýju gætt embættið lífi í þrjá áratugi. Í fyrstu sunnudagspredikun sinni við gluggann talaði páfi um bætt kjör verkamanna í tilefni frídags verkalýðsins, 1. maí, sem fram fór í gær auk þess sem hann sagðist vonast til að friður kæmist á í Afríkuríkinu Togo. Tugþúsundir manna söfnuðust saman á torginu fyrir neðan gluggann. Benedikt XVI páfi blessaði mannfjöldann og var við gluggann í tæplega tíu mínútur. Nýlega kom fram opinberlega í þýsku blaði að haft væri eftir páfanum að hann hefði vonast til að vegna aldurs síns myndi honum ekki verða falið embættið. Hann taldi sjálfan sig fyrir páfakjörið vera orðinn of gamall til að hljóta kjör og ekki hefðu átt von á eftir lát forvera síns að hann yrði eftirmaður hans. Nýr páfi er 78 ára gamall, aðeins sjö árum yngri en forverinn.
Helgin fyrir austan var virkilega skemmtileg. Ég heimsótti marga vini og ættingja og hélt ekki heim aftur fyrr en í morgun. Það var mjög ánægjulegt að taka sér gott helgarleyfi og fara um Austfirðina. Þar er mjög mikil uppbygging og krafturinn er áþreifanlegur. Á laugardag sat ég aðalfund Hávarrs, félags ungra sjálfstæðismanna á Eskifirði og Reyðarfirði. Þar ætlaði ennfremur að vera gestur auk mín Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður. Því miður varð hún veðurteppt í Kaupmannahöfn og komst ekki austur. Fundurinn gekk vel og þar var lífleg og góð umræða um málin. Vinur minn, Gunnar Ragnar Jónsson, var þar kjörinn formaður félagsins. Er það mjög ánægjulegt, enda þekki ég Gunnar af góðu einu. Þar fer vandaður og góður strákur sem vill vinna vel, bæði í ungliðamálum kjördæmisins og fyrir flokkinn. Hlakka ég til að vinna með honum og öllum sjálfstæðismönnum fyrir austan á komandi mánuðum og árum að málefnum þeim sem skipta okkur í flokknum máli, bæði til að styrkja heildina okkar á öllum sviðum innan kjördæmisins og svo auðvitað fyrir austan þar sem vinna þarf vel til að styrkja flokkinn og efla. Ég vil vinna með þeim fyrir austan að því og því var það mér bæði ljúft og ánægjulegt að þiggja boðið um að fara á fundinn og ræða þar málin. Var þetta ánægjuleg helgi og auðvitað alltaf gaman að fara austur, enda tengja mig mörg bönd þangað.
2. maí er dagur sem skiptir mig alltaf máli. Er ég kom aftur norður í dag fór ég upp í kirkjugarð og lagði eina rós á leiði Kötu. Það eru að verða sex ár síðan hún fór en minning hennar mun aldrei gleymast. Þeir sem hafa skipt mig máli í gegnum tíðina gleymast ekki.
Saga gærdagsins
1923 Alþýðusamband Íslands heldur í fyrsta skipti formlega upp á baráttudag verkalýðsins hérlendis
1936 Maístjarnan, vel þekkt baráttukvæði Halldórs Kiljans Laxness birtist í blaðinu Rauða fánanum
1945 Tilkynnt var formlega um dauða Adolf Hitler - þeim tíðindum var fagnað mjög um allan heim
1961 Fidel Castro forseti Kúbu, bannar kosningar á Kúbu - einræðisstjórn hans hefur setið frá 1959
1994 Brasilíski formúlukappinn Ayrton Senna lést í ökuslysi á San Marino formúlubrautinni á Ítalíu
Saga dagsins
1945 Sovétmenn hernema Berlín, tveim dögum eftir dauða Hitlers - stríðið var þá að mestu á enda
1970 Búrfellsvirkjun, stærsta vatnsorkuver Íslendinga, vígt við hátíðlega athöfn, af forseta Íslands
1972 Vinstrisinnaðir mótmælendur reyna að meina William Rogers utanríkisráðherra Bandaríkjanna, aðgang að Árnastofnun og Bessastöðum vegna Víetnamsstríðsins - lögreglan greip inn í mótmælin
1992 Jón Baldvin Hannibalsson þáv. utanríkisráðherra, undirritar EES samninginn af hálfu Íslands, í Oporto í Portúgal - samningurinn var alls um 20.000 blaðsíður og tók hann loks gildi 1. janúar 1994
1997 18 ára valdatíð hægrimanna á Bretlandi lýkur er stjórn þeirra missir meirihluta sinn - Tony Blair verður forsætisráðherra Bretlands eftir stórsigur Verkamannaflokksins í þingkosningum daginn áður
Snjallyrðið
Only those who dare to fail greatly can ever achieve greatly.
Robert F. Kennedy öldungadeildarþingmaður (1925-1968)
<< Heim