Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 maí 2005

Tony BlairHeitast í umræðunni
Síðasti sólarhringur kosningabaráttunnar í Bretlandi er framundan. Landsmenn ganga að kjörborðinu á morgun og velja á milli flokkanna og stefnumála þeirra. Valið stendur auðvitað eins og við blasir um áframhaldandi stjórn Verkamannaflokksins undir forsæti Tony Blair sem nú hefur leitt landsstjórnina í samfellt átta ár, lengur en nokkur forystumaður kratanna, og hinsvegar ríkisstjórn hægrimanna sem yrði undir forsæti Michael Howard. Með sigri á morgun tekst Blair að landa þriðja kosningasigri flokksins í röð og jafna met Margaret Thatcher sem vann þrjár þingkosningar á ferli sínum. Það er því ljóst að vinni Blair á morgun kemst hann á spjöld sögunnar. Skoðanakannanir hafa seinasta sólarhringinn sýnt að bilið milli flokkanna hefur verið að aukast og allt stefni í þægilegan kosningasigur kratanna og Blair haldi áfram sömu völdum og þurfi ekki að treysta á óánægjuöflin í flokki sínum. Þar sem þetta er síðasta kosningabarátta hans blasir við að kratarnir fái brátt nýjan leiðtoga og efast enginn sem fylgist með kosningaslagnum nú hver hann verði. Þeim sem efast ætti að nægja að horfa á fréttamyndir frá kosningafundunum til að sjá skugga eftirmanns hans á eftir honum.

En á meðan allt virðist ganga upp hjá krötunum og Blair verður staðan sífellt dekkri fyrir Howard og Íhaldsflokkinn. Ef marka má nýjustu kannanirnar mun flokkurinn bæta sáralitlu við sig og svo til standa í stað. Þess ber þó að geta að þessar kannanir sem um ræðir eru þær nýjustu en um leið þær dekkstu í lengri tíma fyrir íhaldsmenn. Það er þó alveg ljóst að bæti flokkurinn ekki við sig um 40 þingsætum í kosningunum á morgun verður staða þeirra erfið og alveg ljóst að Howard hættir brátt sem leiðtogi flokksins. Hvað tekur við hjá þeim ef það gerist er svo næsta spurningin. Flokkurinn þarf að komast yfir 200 þingmenn og ná markvissari stöðu í þinginu til að eflast á næsta kjörtímabili og þurfa a.m.k. það start að þessu sinni í kosningum. Svo virðist vera sem að harðskeytt árás Howard á Blair vegna Íraksmálsins hafi mistekist og jafnvel kostað flokkinn atkvæði og veikt hann í sessi. Það er svosem ómögulegt um að segja hvort sú verði endanlega raunin. Fari svo, sem mér þykir margt benda til, að íhaldsmenn komist ekki áfram af krafti úr þingstyrk sínum í dag verður flokkurinn að endurhanna sig og sitt skipulag alveg frá grunni. Frjálslyndir demókratar geta vel við unað. Þeir sigla lygnan sjó og stefnir flest í bestu úrslit þeirra til þessa. Annars er búist við að áhugi á kosningunum verði dræmur og menn búast við slæmri kjörsókn, jafnvel enn verri en 2001 þegar hún náði sögulegu lágmarki. Jafnan hefur það, ef svo er, hagnast mun frekar íhaldsmönnum en krötunum. En kosningarnar nálgast og baráttan er alveg að taka enda. Verður fróðlegt að fylgjast með hvernig baráttan spinnst í dag á lokasprettinum. Við spyrjum að leikslokum.

Jacques ChiracFrakkar ganga að kjörborðinu þann 29. maí og kjósa um fyrirhugaða stjórnarskrá Evrópusambandsins. Í gærkvöldi kom Jacques Chirac forseti Frakklands, fram í ítarlegu sjónvarpsviðtali til að reyna að sannfæra frönsku þjóðina um að greiða stjórnarskránni atkvæði sitt. Þar sagði hann að nýja stjórnarskráin væri í raun afkvæmi frönsku byltingarinnar árið 1789. Sagði hann, í viðtalinu sem tekið var upp í forsetabústaðnum Elysée-höll, að stjórnarskráin væri í raun í grundvallaratriðum undir frönskum áhrifum. Beitti forsetinn gamaldags hræðsluáróðri á fólk við að reyna að tjá sig um málið með því að segja að staða Frakklands myndi veikjast samþykktu kjósendur ekki stjórnarskrána. Sagði hann að það yrði vart hægt að segjast vera Evrópubúi og segja nei við stjórnarskránni samhliða því. Þetta færi ekki saman. Greinilegt er að forsetinn á engin ráð uppi í erminni til að sannfæra fólk um kosti stjórnarskrárinnar nema grípa til slíks örþrifaráðs að reyna að hræða kjósendur.

Chirac forseti, á auðvitað allt sitt undir því að stjórnarskráin verði samþykkt. Ef marka má skoðanakannanir er honum og stjórnvöldum almennt að takast að tryggja stjórnarskránni brautargengi í gegnum kosninguna. Kannanir sýna ljóslega að stuðningur við stjórnarskrána er að aukast mjög. Er alveg ljóst að tapi Chirac þessari kosningu veikist pólitísk staða hans mjög mikið. Enn eru rúm tvö ár eftir af öðru kjörtímabili Chirac. Um þessar mundir er nákvæmlega áratugur liðinn frá því að hann var kjörinn forseti. Ef marka má orðróminn er búist við að Chirac dragi sig í hlé árið 2007 er seinna tímabilinu lýkur. Hann er 73 ára gamall og því vart búist við að hann fari fram eftir tvö ár til annars fimm ára kjörtímabils. Menn tala almennt um að Nicholas Sarkozy fyrrum ráðherra, fari þá fram og benda kannanir til þess að hann yrði kjörinn forseti færi hann fram. Vinsældir forsetans hafa dalað mjög að undanförnu og hneykslismál hafa fylgt honum hin seinni ár. Hann var þó engu að síður endurkjörinn árið 2002. Ljóst er að Chirac er á krossgötum og enginn vafi að kosningin um stjórnarskrána ræður miklu um pólitíska framtíð hans. Enginn vafi er á að hann er í sömu sporum og forveri hans 1992 í Maastricht-málinu að fórna svo til öllu til að tryggja sigur í kosningunni.

Punktar dagsins
Margaret Thatcher

Í dag eru 26 ár liðin frá því Margaret Thatcher tók við embætti sem forsætisráðherra Bretlands. Í ítarlegum pistli á vef SUS í dag fjalla ég um ævi og stjórnmálaferil hennar. Daginn fyrir embættistöku sína á þessum degi fyrir 26 árum hafði Íhaldsflokkurinn unnið táknrænan sigur í þingkosningum og velt úr sessi ríkisstjórn Verkamannaflokksins sem James Callaghan veitti forsæti. Kjör hennar í embætti markaði mikil þáttaskil. Hún var fyrsti kvenforsætisráðherra Bretlands og hafði fjórum árum áður verið kjörin leiðtogi Íhaldsflokksins og steypt þar af stóli, Edward Heath fyrrum forsætisráðherra. Stjórnmálaferill hennar hófst árið 1951 er hún var frambjóðandi flokksins í Dartford. Hún náði ekki kjöri, en jók fylgi flokksins þar umtalsvert. 1959 var Thatcher kjörin á breska þingið fyrir Finchley hérað, sat hún á breska þinginu fyrir það kjördæmi allt þar til hún hætti þingmennsku árið 1992. Er Íhaldsflokkurinn komst til valda árið 1970 varð Thatcher menntamálaráðherra og leiddi hún í sinni ráðherratíð, uppstokkun í menntamálum og stóð fyrir miklum sparnaðaraðgerðum.

Eftir þingkosningarnar 1974 misstu íhaldsmenn völdin og Heath missti leiðtogastólinn ári síðar eins og ég hef vikið að, og Thatcher tók við leiðtogahlutverkinu. Forsætisráðherraferill Margaret Thatcher markaðist af nýjum og ferskum tímum í breskum stjórnmálum. Stjórn hennar bætti stöðu bresks efnahagslífs gríðarlega, kom stjórn á útgjöld ríkissjóðs, minnkaði hlut ríkisins í efnahagslífinu og einkavæddi fjölda ríkisfyrirtækja. Thatcher lét af embætti 28. nóvember 1990 eftir rúmlega 11 ára valdaferil og sigur í þrennum þingkosningum, hún var eini forystumaður breskra stjórnmála sem náði slíkum áfanga á 20. öld og sat lengst á þeim tíma. Margaret Thatcher er einstakur stjórnmálamaður og fyrirmynd okkar allra sem teljum okkur eiga hugsjónalegt heimili á hægrivæng stjórnmálanna. Hún var forsætisráðherra Bretlands í rúman áratug og vann sigur í þrennum þingkosningum, hún var eini forystumaður breskra stjórnmála sem náði slíkum áfanga á 20. öld og sat lengst á þeim tíma. Að mínu mati leikur enginn vafi á því að Thatcher er einn af fremstu leiðtogum hægrimanna á 20. öld og markaði mikinn sess í sögu aldarinnar.

Muggi

Það var mjög merkilegt að heyra í símtali á föstudagskvöldið austur á land um það að í vikublaðinu Vikudegi sem kemur út hér í bæ hafi blaðið og ritstjóri þess, Hjörleifur Hallgríms, sent föðurbróður mínum, Guðmundi Ómari Guðmundssyni formanni Félags byggingarmanna í Eyjafirði, kaldar kveðjur. Þannig er mál með vexti að í síðasta blaði er auglýsing frá fjórum stéttarfélögum. Neðst í auglýsingunni stendur orðrétt: "Hér átti að vera kveðja frá félagi byggingamanna, Eyjafirði, en er ekki að sinni því Guðmundur Ómar formaður er í fýlu við ritstjóra Vikudags.". Það er vissulega svo að félagið hefur ekki auglýst í blaðinu vel á annað ár í ljósi þess að því þótti umfjöllun blaðsins um visst mál á sínum tíma vera köld kveðja í sinn garð. Það er auðvitað þess en ekki annarra hvort það auglýsi í sínu nafni. Þessi vinnubrögð ritstjórans eru mjög barnaleg. Það er svo auðvitað kostulegt að þau félög sem þó borga auglýsinguna sé boðið upp á svona aðför að Mugga og félaginu sem hann stýrir. Þetta eru ómerkileg og lúaleg vinnubrögð sem ritstjóri þessa blaðs viðhefur. Áður hefur þetta blað bæði sent mér persónulega og því félagi sem ég er formaður í skot og fjallað með kostulegum hætti almennt um mörg málefni í bæjarlífinu. Ég held að það sé kominn tími til að ritstjóri þessa blaðs líti í eigin barm áður en hann fimbulfambar meira en orðið er.

Akureyri

Seinnipartinn í gær var haldinn borgarafundur í Ketilhúsinu og málefni seinustu vikna varðandi eiturlyfja- og ofbeldisvandann í bænum þar til umræðu. Fluttu forsvarsmenn þriggja foreldrafélaga í skólum bæjarins framsögu auk þeirra Hilmars Oddfríðarsonar ráðgjafa SÁÁ hér í bænum, og Eddu Hermannsdóttur formanns Hugins, nemendafélags Menntaskólans á Akureyri. Framsögur þeirra voru mjög fróðlegar og var víða farið yfir. Sérstaklega þótti mér gaman að heyra í þeim Hilmari og Eddu. Hilmar hefur mjög mikla reynslu af forvarnarmálum og gat miðlað af þeirri reynslu í góðri ræðu sinni. Fór hann yfir vandann og hvað þyrfti að gera með góðum hætti. Edda fór yfir það sem ungt fólk hefur gert vegna þessa máls, en þau hafa velt af stað þessari umræðu og átt fyrsta skrefið að mótmælunum á föstudag og því að umræðan er komin fram á yfirborðið og menn fara yfir meginpunkta málsins. Það er jákvætt, mjög svo. Að loknum framsögunum gafst fundargestum færi á að tjá sig um málið. Sérstaklega þótti mér fróðlegt að heyra ræður Láru Stefánsdóttur og sóknarpresta okkar Akureyringa, sr. Svavars Alfreðs Jónssonar og sr. Jónu Lísu Þorsteinsdóttur. Þessi fundur var jákvætt skref og margir sátu hann, sem segir okkur auðvitað að áhuginn er til staðar að ræða þessi mál og taka á vandanum.

Mýrin eftir Arnald Indriðason

Nú á seinustu árum hef ég stúderað mikið í skáldsögum Arnaldar Indriðasonar, en ég er mikill unnandi spennusagna hans og á þær allar. Sérstaklega er notalegt hvernig Arnaldur yfirfærir spennusagnaformið á íslenskt samfélag og fléttar persónurnar saman við veruleika sem allir ættu að geta kannast við. Ein af mínum uppáhaldsbókum eftir Arnald er Mýrin. Það er bók sem ég las algjörlega upp til agna er ég las hana fyrst á jólum fyrir nokkrum árum. Nú verður þessi stórfenglega saga brátt kvikmynduð. Fyrirfram var ég mjög áhugasamur um hvernig mannað yrði í helstu hlutverk. Nú hefur verið tilkynnt að Ingvar E. Sigurðsson muni leika Erlend Sveinsson lögreglumann, og þau Elva Ósk Ólafsdóttir og Björn Hlynur Haraldsson leiki samstarfsfólk hans, þau Elínborgu og Sigurð Óla. Merkilegt val. Ég er reyndar hissa á vali Ingvars, enda hafði ég byggt mér upp Erlend sem annan karakter og eldri en þetta. En ég er engu að síður bara nokkuð sáttur, enda um góða leikara að ræða. Er enginn vafi á í mínum huga að myndin verður vel heppnuð, enda góður efniviður í henni.

Saga dagsins
1880 Útför Jóns Sigurðssonar forseta, og konu hans, Ingibjargar Einarsdóttur, fór fram í Reykjavík
1979 Margaret Thatcher verður forsætisráðherra Bretlands eftir kosningasigur Íhaldsflokksins og varð fyrsta konan til að leiða ríkisstjórn í Bretlandi. Forsætisráðherraferill hennar markaðist af nýjum og ferskum tímum í breskum stjórnmálum. Henni tókst að bæta stöðu bresks efnahagslífs til muna, koma stjórn á útgjöld ríkissjóðs, minnkaði hlut ríkisins í efnahagslífinu og einkavæddi mikinn fjölda ríkisfyrirtækja. Thatcher lét af embætti í nóvember 1990 eftir rúmlega 11 ára valdaferil og sigur í þrennum þingkosningum, hún var eini forystumaður breskra stjórnmála sem náði slíkum áfanga á 20. öld og sat lengst á þeim tíma. Hún breytti bæði Íhaldsflokknum og megingrunni hans og ekki síður Verkamannaflokknum. Má nú varla á milli sjá hvor flokkurinn fylgir meira grunnstefnu ferils hennar
1980 Josip Bros Tito einræðisherra Júgóslavíu, deyr, 88 ára að aldri - hafði setið á valdastóli í 35 ár
1986 Solveig Lára Guðmundsdóttir kjörin, fyrst kvenna, sóknarprestur í almennum prestskosningum
2000 Ken Livingstone kjörinn borgarstjóri í London - söguleg úrslit og mjög mikið áfall fyrir stjórnina

Snjallyrðið
I love argument, I love debate. I don't expect anyone just to sit there and agree with me, that's not their job.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)