Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 maí 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um tvö fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um sigur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í formannskjöri Samfylkingarinnar. Segja má að sá sigur hafi verið stór og mikill og öflugt veganesti fyrir hana inn í pólitíkina er hún tekur sæti á þingi í haust. Í pistlinum fjalla ég um það sem við blasir hjá Ingibjörgu Sólrúnu eftir sigurinn og ekki síður Össuri Skarphéðinssyni sem tapaði formannsstólnum eftir fimm ára starf í þágu Samfylkingarinnar. Merkilegt var að líta á fjölmiðlana í dag, eftir þennan sigur Ingibjargar Sólrúnar á svila sínum. Í Fréttablaðinu er Sigríður Auðunsdóttir með langa fréttaskýringu um sigur hennar. Þar vekur athygli að hún kemur með þær niðurstöður að Ingibjörg Sólrún sé farsæll leiðtogi og hafi verið þekkt fyrir að sjá pólitíska stöðu vel fyrir og geta dæmt hana.

Mér varð við þessi skrif hugsað til hinna örlagaríku daga um jólaleytið 2002 þegar R-listinn logaði vegna þingframboðs Ingibjargar Sólrúnar. Hvar var nú stöðumatið hennar farsæla þegar sú ákvörðun var kynnt? Eitthvað fataðist þessari konu flugið þá. Það er því engin furða að sumir Samfylkingarmenn séu lítt ánægðir með þau skipti að Össuri sé hent út eftir grasrótarstarf sitt og Ingibjörgu fært keflið með þessum hætti. Einnig var Elín G. Ólafsdóttir fyrrum borgarfulltrúi Kvennalistans, í Silfri Egils í dag og þar varð henni tíðrætt um stefnu og staðfestu Ingibjargar Sólrúnar í stjórnmálum. Hún sagði að hún hefði skýra rödd og skýr markmið. Já, gott og vel, varð mér eiginlega að orði við þessi ummæli og varð hugsað til flugvallarmálsins. Hvar voru skýra röddin og skýru markmiðin hennar Ingibjargar Sólrúnar þá? Ekki varð ég var við þau, en ég tók eftir ákvarðanafælnum leiðtoga mun frekar. Sem þorði nota bene ekki að styggja neinn með skoðun sinni.

- í öðru lagi fjalla ég um álvershugmyndir á Norðurlandi í ljósi stofnunar nýrrar hreyfingar okkar Norðlendinga í stóriðjumálum og yfirlýsinga bæjarstjóra. Kristján Þór hefur nú tjáð sig um þessi mál og nefnt þar að Húsavík verði fyrsti kostur okkar í fjórðungnum. Ég tek undir það mat hans. Ég tel að við verðum að ná grunnpunkti í þessi mál, grunnpunkti um samstöðu í því. Það getum við vonandi gert með þessu. Komi álver til sögunnar í Þingeyjarsýslu verður þó margt fleira að koma þar með. Fyrir það fyrsta nefni ég göng um Vaðlaheiði. Þau eru forsenda þess að álver komi fyrir austan heiði. Það er viss meginpunktur þess að sú samstaða náist. Menn hér vilja þann samgöngukost, sem myndi breyta mjög mörgu. En eins og fyrr segir tel ég rétt að menn fari að tala af samstöðu og sameinuðum krafti. Það er nauðsynlegt til að snúa megi málinu okkur í vil - niðurstaðan verði okkur í senn jákvæð og farsæl. En eftir stendur eftir vikuna sú niðurstaða að ég hlakka til þess að taka þátt í starfi þessara nýstofnuðu samtaka og mun stoltur síðar meir verða af því að vera stofnfélagi í þeim. Spennandi tímar eru framundan í þessu máli!

Punktar dagsins
Helena Paparizou

Söngkonan Helena Paparizou sigraði í gærkvöldi í Eurovision, söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Hún söng af hálfu Grikklands lagið My Number One. Helena hefur áður keppt af hálfu Grikkja í keppninni. Hún varð í þriðja sæti í keppninni árið 2001. Í öðru sæti varð Chiara Siracusa frá Möltu, en hún söng lagið Angel. Í því þriðja varð rúmenska söngkonan Luminita Anghel sem söng lagið Let Me Try. Uppáhaldslögin mín að þessu sinni voru hið norska með Wig Wam (sem varð í níunda sæti) og lagið frá Moldavíu með ömmu gömlu þenjandi trommuna. Alveg frábær. :) Það var Victor Yuschenko forseti Úkraínu, sem afhenti sigurverðlaun keppninnar til Helenu og lét um svo mælt á úkraínsku að þetta væru sigurlaunin - en ennfremur verðlaunin sem sameinuðu Evrópu alla. Keppnin var kostuleg, sérstaklega stigatalningin. Það er greinilega mottó stigagjafarinnar að eiga góða nágranna. Get ekki betur séð. Mikla athygli vekur vissulega að í neðstu fjórum sætunum voru Þjóðverjar, Spánverjar, Bretar og Frakkar. Semsagt stórkanónur í sögu keppninnar. Þessi lönd eiga samkvæmt hefð fast sæti í keppninni því þær greiða mest til keppninnar. Í gærkvöldi var svo upplýst um röðina í forkeppninni. Selma var víðsfjarri því að komast áfram í úrslitin. Hún lenti á sögulega kunnuglegum slóðum fyrir okkur Íslendinga. Jú, þú átt kollgátuna, lesandi góður. Hún lenti í sextánda sæti! Talandi um slæma tölu. :)

Gerhard Schröder

Óhætt er að fullyrða að þýski Jafnaðarmannaflokkurinn hafi orðið fyrir gríðarlegum vonbrigðum í sambandsþingkosningunum í Nordrhrein-Westfalen í dag. Flokkurinn galt þar afhroð og missti völdin eftir langan valdaferil til hægrimanna í CDU. Sögulega séð eru þetta jafnaðarmönnum vonbrigði, enda hafa jafnaðarmenn ríkt þarna frá árinu 1966, eða í 39 ár. Fljótlega eftir að úrslitin urðu ljós ávarpaði Gerhard Schroeder kanslari, fjölmiðlamenn í kanslarabústaðnum í Berlín og tilkynnti að ríkisstjórn sín hefði ákveðið að flýta þingkosningum í landinu um eitt ár. Þær verða væntanlega í septembermánuði, en kjörtímabilið er ekki búið fyrr en í september 2006. Endanleg ákvörðun verður þingsins en við blasir að þar sé meirihlutavilji við kosningar. Í raun hefur ríkisstjórnin verið með nauman meirihluta allt kjörtímabilið og hún því mjög veik í sessi í heild sinni. Greinilegt er að það er ekki Schröder mjög að skapi að boða til þessara kosninga en hann er svo til tilneyddur að gera það eins og staðan er orðin. Hann verður að leita eftir öðru umboði enda staðan orðin verulega veik. En hvort hann nái að tryggja sér þriðja kjörtímabilið í haust er svo stóra spurningin.

Star Wars

Um helgina fór ég í bíó á þriðja hlutann í myndaröðinni um Stjörnustríð (Star Wars). Var gaman að fá að sjá þessa mynd og loka því hringnum um þessa frægu og goðsagnakenndu ævintýrasögu kvikmyndanna á seinni árum. Í myndinni sjáum við hvernig að Anakin Skywalker verður að hinum illa og myrka Svarthöfða (Darth Vader) sem við kynntumst fyrir grimmd sína og kuldalegheit í eldri myndunum. Magnaðasta sena myndarinnar er bardagasena Anakins og Obi Wan Kenobi og fræg vinslit þeirra. Er óhætt að fullyrða að þetta atriði sé eitt táknrænasta kvikmyndaatriði seinni ára. Var það stóri molinn í söguna sem vantaði en bardaga þeirra hafði oft verið lýst. Er ekki ofsögum sagt að ég hafi haft mikinn áhuga á að fá þennan stóra bita í heildarmyndina, svo hún verði skýr og ein heild að lokum. Alla tíð hefur sagan um Stjörnustríð heillað mig mjög. Þegar ég var yngri voru gömlu myndir kvikmyndabálksins nær algjörlega í guðatölu hjá manni. Þessar myndir hef ég getað horft á hreinlega aftur og aftur. Það var því gaman að fara í bíó og ljúka loks hringnum í sögunni miklu.

Laura Welch Bush á Vesturbakkanum

Seinustu daga hefur Laura Welch Bush forsetafrú Bandaríkjanna, verið á ferðalagi í Jerúsalem og Jeríkó og farið um staðina. Í dag veittust bæði múslímar og gyðingar að forsetafrúnni þar sem hún var á ferð sinni á Vesturbakkanum. Var það gert af gyðingum til að krefjast þess að njósnaranum Jonathan Pollard, sem situr í fangelsi í Bandaríkjunum, skyldi látinn laus úr haldi. Mun hópur manna hafa gert hróp að forsetafrúnni við innganginn í Klettamoskuna í Jerúsalem. Var sagt við hana af Palestínumönnum að hún væri ekki velkomin. Greinileg ólga er á þessu svæði og biturleiki og hatur gegnumsýrir allt. Þetta er því döpur og ömurleg staða sem blasir við óneitanlega. Greinilegt er að bundin er mikil von við friðarviðræðurnar sem hafnar eru að nýju. Nauðsynlegt er að þær skili nýjum tímum og bjartari fyrir íbúana á svæðinu.

Saga dagsins
1133 Sæmundur fróði lést, 77 ára að aldri - Sæmundur bjó lengst af ævinnar í Odda á Rangárvöllum
1339 Mikill jarðskjálfti reið yfir á Suðurlandi - eignatjón varð mikið í skjáltanum og nokkrir létu lífið
1921 Fyrstu hljómsveitartónleikarnir haldnir hérlendis - markaði mikil tímamót í íslensku tónlistarlífi
1982 Sjálfstæðisflokkurinn endurheimtir meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur eftir að hafa verið í fjögur ár í minnihluta þar - Davíð Oddsson varð borgarstjóri og sat til 1991 - meirihlutinn féll 1994
2004 Felipe krónprins Spánar, gekk að eiga hina landsþekktu spænsku sjónvarpskonu Leticiu Ortiz

Snjallyrðið
My formula for living is quite simple. I get up in the morning and I go to bed at night. In between, I occupy myself as best I can.
Cary Grant leikari (1904-1986)