Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

21 maí 2005

Ingibjörg Sólrún GísladóttirIngibjörg Sólrún kjörin formaður
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi og verðandi alþingismaður, var kjörin formaður Samfylkingarinnar í póstkosningu flokksmanna. Sigur Ingibjargar Sólrúnar var afgerandi og glæsilegur. Kosningaþátttakan í formannskjörinu var 60%, 12.007 gild atkvæði bárust í póstkosningunni. Ingibjörg Sólrún hlaut 7.997 atkvæði, eða um tvo þriðju greiddra atkvæða, 67%, og Össur Skarphéðinsson 3.970, eða um þriðjung, 33%. Ingibjörg Sólrún flutti eftir að úrslit lágu fyrir ræðu og þakkaði þar flokksmönnum stuðninginn og traustið, og kvaðst meta mjög traust flokksmanna í kjörinu. Lagði hún mikla áherslu á gott samstarf við Össur og stuðningsmenn hans og lagði áherslu á kosningabaráttuna fyrir næstu þingkosningar. Er nú ljóst að Ingibjörg Sólrún sem tekur sæti á þingi þann 1. ágúst nk. mun leiða kosningabaráttu Samfylkingarinnar fyrir næstu þingkosningar.

Þessi úrslit komu ekki á óvart og ekki voru tölurnar fjarri því sem ég hafði búist við í prósentum sett fram. Ingibjörg Sólrún vann sigur í kosningunni, en veganesti hennar er mikið. Hún setur allt í næstu kosningar, enda fær hún ekki annan séns. Þetta veit hún og þetta vita flokksmenn. Össur Skarphéðinsson tók ósigri með fádæma glæsibrag. Á stund ósigurs sannaði Össur hversu gríðarlega öflugur ræðumaður hann er. Hann flutti að mínu mati bestu ræðu ferils síns er úrslitin voru kynnt og það á þeirri stund sem hann missti formannsstólinn, eftir fimm ára starf af hans hálfu. Hann talaði blaðlaust og af krafti, gott ef ekki mikilli sannfæringu frá hjartanu og sannaði kraft sinn sem karakters. Sú ræða var öflug og eiginlega sagði hún mér margt um bakgrunn hans. En tap er tap, en greinilegt er að Össur ætlar sér að halda áfram í pólitísku baráttunni.

Það er raunalegt fyrir alla stjórnmálamenn að tapa, en viðbrögð þeirra við tapinu segja mest um karakterinn. Össur hefur vaxið mjög af þessari baráttu. Þó hann hafi tapað er hann meiri karakter að henni lokinni. Því allt sem hann gerir er gert frá hjartanu. Þannig þurfa stjórnmálamenn að vera. Það er gott að næsta kosningabarátta verður spennandi og öflug. Til er ég í öfluga kosningabaráttu. Það er öllum gott að hafa skýrar og afdráttarlausar línur og við sjálfstæðismenn erum ánægðir með að vita hver á að leiða annars undarlega fleytu Samfylkingarinnar í næstu kosningum. Skiljanlegt er að Ingibjörg Sólrún hafi látið til skarar skríða núna í slaginn og lét reyna á stöðu sína með þessum hætti. Það hefur blasað við í tvö ár, eða allt frá því að Ingibjörg fór í misheppnað varaþingmannsframboð og missti yfirburðastöðu sína á vinstrivængnum frá sér eftir klúðurslega framgöngu vegna ákvörðunar um framboð til þings sem leiddi til þess að hún missti trúnað samstarfsmanna sinna í R-listanum og varð að segja af sér embætti borgarstjóra í Reykjavík, í svo til beinni útsendingu fjölmiðla í kostulegri atburðarás í Ráðhúsinu.

26. ágúst 2003 lýsti Ingibjörg Sólrún yfir framboði sínu til varaformennsku í flokknum og kynnti jafnframt þá ákvörðun sína að stefna að framboði til formennsku á flokksþingi 2005. Í stað þess að leggja þegar til við að ná fullum völdum í flokknum beið hún álengdar, varð varaformaður hans og stefndi að formannsframboði síðar. Össur varð formaður flokksins áfram og hefur sýndi í aðdraganda þessa landsfundar ekki á sér neitt fararsnið af sjálfsdáðum. Hann fór í kjörið og ætlaði ekki að víkja af stóli til að tryggja Ingibjörgu forystusess, umfram það sem varð í alþingiskosningunum 2003. Allt frá því Ingibjörg varð að velja á milli borgarstjórastóls og þingframboðs í desember 2002, hafa verið á lofti raddir þess efnis að hún yrði formaður Samfylkingarinnar. Eftir að taka fimmta sætið á framboðslista flokksins í RN, varð hún jafnframt forsætisráðherraefni flokksins. Hún var andlit flokksins í allri kosningabaráttunni og stefnan var sett á þrennt; koma ISG á þing, gera Samfylkinguna að stærsta flokk landsins og fella ríkisstjórnina. Ekkert af þessu gekk eftir. Ingibjörg Sólrún var valdalaus eftir kosningar og náði ekki kjöri á þing, var varaþingmaður og óbreyttur borgarfulltrúi.

Það er vissulega martröð hvers þess sem vill vera í forystu í landsmálapólitík. Formaður flokksins tók skýrt fram daginn eftir kosningar að hann færi fram til formennsku á ný. Forsætisráðherraefnið var slegið af í beinni sjónvarpsútsendingu og formaður Samfylkingarinnar, bauð formanni Framsóknarflokksins forsætið ef til samstjórnar flokkanna kæmi. Svo fór ekki, stjórnarsamstarfið var áfram við völd og Samfylkingin áhrifalaus í landsmálapólitíkinni. Ekkert að því sem stefnt var að gekk eftir. Segja má að niðurstaða mála eftir kosningar hafi verið Össuri áfall en Ingibjörgu meiriháttar áfall. Staða Össurar var þó sterkari en Ingibjargar sem hefur allt síðan mátt lifa við algjört valdatómarúm. Staða Ingibjargar eftir kosningarnar var því ekki öfundsverð, afsalaði sér borgarstjóraembætti og hlutverki sameiningartákns þriggja flokka innan R-listans en sat eftir sem óbreyttur borgarfulltrúi og varaþingmaður. Varaformennska flokksins hjálpaði henni frá algjörri pólitísku eyðimerkurgöngu en greinilegt er að Ingibjörg telur það hlutverk ekki ásættanlegt í stöðunni og sækir fram til formennsku. Þetta er barátta um völd og áhrif og ekkert er gefið eftir.

Það var skiljanlegt að Ingibjörg vildi leggja í þetta núna, áður en hún fuðraði endanlega upp. Hún uppskar sigur úr baráttunni og tefldi á rétt vað. En nú ræðst hvort hún leiðir þennan flokk til einhverra áhrifa. Það er alltaf svo að það er kjósenda að velja pólitíska framtíð þjóðarinnar. En nú eru komnar skýrar línur. Samfylkingin hefur hafnað forystu Össurar og haldið á vit pólitískrar vegferðar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Það er að mínu mati vinstrisinnaður stjórnmálaflokkur og vinstrilituð stefna í íslenskum stjórnmálum. Það opnar skýr sóknarfæri fyrir okkur sjálfstæðismenn - sóknarfæri sem við bæði munum nýta og eigum að tefla fram til að tryggja okkur áframhaldandi forystu í landsmálum. Næsta kosningabarátta verður spennandi - í þeim kosningum ætlum við okkur að sýna Ingibjörgu Sólrúnu og hennar liði að Sjálfstæðisflokkurinn er kjölfestan í íslenskum stjórnmálum. Hún hefur verið það í tæpa átta áratugi - og verður ávallt!

Saga dagsins
1991 Rajiv Gandhi fyrrum forsætisráðherra Indlands, myrtur í sprengjutilræði hryðjuverkasamtaka Tamíl tígra, á kosningaferðalagi í Tamil Nadu héraðinu - Gandhi tók við embætti forsætisráðherra í kjölfar morðsins á móður sinni Indiru Gandhi sem verið hafði í forystu indverskra stjórnmála í tvo áratugi. Rajiv sat á forsætisráðherrastóli 1984-1989 og stefndi allt í að hann kæmist aftur til valda
1997 Þrír Íslendingar komust á tind Mount Everest, hæsta fjalls heims, sem er 8.848 metrar á hæð
2000 Söngkonan Björk Guðmundsdóttir valin besta leikkonan á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir túlkun sína á Selmu Jezkova í kvikmyndinni Dancer in the Dark í leikstjórn Danans Lars Von Trier
2000 Óskarsverðlaunaleikarinn Sir John Gielgud deyr í London, 96 ára að aldri - Sir John var einn af bestu leikarum Breta á 20. öld og hlaut mörg verðlaun á löngum ferli. Hann hlaut óskarinn árið 1982
2003 Davíð Oddsson tilkynnir að hann muni láta af embætti forsætisráðherra, þann 15. september 2004 - hann var forsætisráðherra samfellt árin 1991-2004 og var borgarstjóri í Reykjavík 1982-1991

Snjallyrðið
Humor is also a way of saying something serious.
T. S. Eliot ljóðskáld (1888-1965)