Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 ágúst 2005

Fjölmenni á Fiskideginum mikla
í blíðviðri á Dalvík


Fjölmenni á Fiskideginum á Dalvík 2005

32 - 35.000 manns komu saman í blíðskaparveðri á Dalvík í dag, þar sem haldinn var í fimmta skiptið Fiskidagurinn mikli. Var ég þeirra á meðal, en ég fór úteftir á ellefta tímanum. Á annað hundrað þúsund matarskammtar voru grillaðir, en fólk gæddi sér á ufsa, laxi, þorski, saltfiski, rækju, síld, fiskisúpu, hrefnukjöti, rækjukokkteil, fiskborgurum og hráum laxi, svo aðeins fátt eitt sé nefnt af því sem boðið var upp á. Sérstaklega fannst mér ufsinn, laxinn og saltfiskurinn bera af. Láta má nærri að ellefu tonn af fiski hafi verið á boðstólum í dag. Allt var ókeypis í boði fiskverkenda í Dalvíkurbyggð. Stemmningin var engu lík út á Dalvík á þessum glæsilega degi. Hef ég aldrei séð annan eins mannfjölda á Dalvík og þar var í dag. Veðrið var eins og best er á kosið: sól og rjómablíða. Varla sá ský á himni. Eru aðstandendur Fiskidagsins mikla mjög heppnir með veður, en í öll fimm skiptin hefur verið gott veður við hátíðarhöldin og mjög ánægjulegt andrúmsloft yfir Dalvíkinni. Var ótrúlegur fjöldi bíla í bænum og var bílum lagt út um allt, upp á grasbletti, við verslanir, íbúðarhús og ótrúlegustu stöðum. Var bílafjöldinn það mikill að bílum var lagt allnokkuð langt frá hátíðarsvæðinu og þurfti fólk því margt hvert sem eftir hádegið kom að ganga nokkurn spöl á svæðið. Þessi dagur var því alveg stórkostlegur.

Meðal þeirra mörgu sem sóttu Dalvíkinga heim í dag var Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra. Flutti hann ávarp á hátíðarsviðinu á þriðja tímanum. Í ávarpinu fjallaði hann um öflugan sjávarútveg á Eyjafjarðarsvæðinu og hversu sterk sjávarútvegsfyrirtæki væru þar. Lauk hann miklu lofsorði á öfluga fiskvinnslu í Dalvíkurbyggð og hrósaði heimamönnum fyrir þetta glæsilega framtak sem Fiskidagurinn er. Fjallaði hann ennfremur um mikilvægi sjávarútvegsrannsókna og vék máli sínu sérstaklega að þeim rannsóknum sem fram fara hér í firðinum. Góð dagskrá var á hátíðarsviðinu allan tímann sem hátíðarhöldin stóðu á hafnarsvæðinu. Papar tóku lagið við mikinn fögnuð, sr. Magnús G. Gunnarsson sóknarprestur á Dalvík, hélt stutta útimessu (væntanlega þá fjölmennustu hérlendis), Arngrímur Jóhannsson sýndi listflug í háloftunum, Edda Björgvinsdóttir tók gott atriði úr leikritinu Alveg brilljant skilnaður, karlakór Dalvíkur söng nokkur lög og fjöldi hljómsveita héðan úr firðinum og víðsvegar um landið tóku lagið, svo fátt eitt sé nefnt. Svo fluttu að sjálfsögðu Dalvíkingarnir Friðrik Ómar Hjörleifsson og Matthías Matthíasson Fiskidagslagið svonefnda, sem Friðrik Ómar og Gunnar Þórisson sömdu fyrir fyrsta Fiskidaginn árið 2001.

Svanfríður Inga Jónasdóttir

Hitti ég mikinn fjölda góðra vina á hátíðarsvæðinu. Suma hefur maður ekki hitt til fjölda ára. Átti ég langt spjall við marga þarna og fórum við yfir málin yfir matnum og eða í biðröðinni eftir meiri mat. Þetta var sólríkur unaðsdagur á hafnarsvæðinu. Venju samkvæmt stjórnaði Dalvíkingurinn Svanfríður Inga Jónasdóttir fyrrum alþingismaður og kennari á Dalvík, athöfn á hátíðarsviðinu þar sem aðili eða aðilar tengdir sjávarútvegi í Dalvíkurbyggð eru heiðraðir fyrir framlag sitt til þróunar í sjávarútvegi eða til vaxtar og viðgangs Dalvíkurbyggðar. Árið 2001 hlaut viðurkenninguna Hilmar Daníelsson fiskútflytjandi, árið 2002 var það Snorri Snorrason skipstjóri og útgerðarmaður sem var heiðraður, árið 2003 var Þórlaug Kristinsdóttir fiskverkakona heiðruð og í fyrra Gunnar Aðalbjörnsson frystihússtjóri. Að þessu sinni heiðraði nefnd Fiskidagsins alla þá sem stunduðu útræði frá Böggvisstaðasandi og lögðu með því dugnað sinn, áræði og kraft til grundvallar byggð á Dalvík. Það var Árni Lárusson, sjómaður á tíræðisaldri sem enn stundar sjóinn á trillu sinni, sem afhjúpaði minnisvarða sem hannaður var af Jóhannesi Hafsteinssyni til minningar um sjómennina sem lögðu grunninn að tilvist Dalvíkur.

Áttum ég og Svanfríður gott spjall á hátíðarsvæðinu eftir heiðrunarathöfnina. Ræddi ég ennfremur við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur formann Samfylkingarinnar, sem stödd var á Dalvík í heimsókn hjá Svanfríði og eiginmanni hennar, Jóhanni Antonssyni. Fórum við yfir nokkur mál í góðu spjalli. Þó að við Svanfríður deilum ekki sömu pólitísku hugsjónum eða séum sammála um allt í stjórnmálum ræðum við alltaf saman þegar að við hittumst og förum yfir málin. Svanfríður var um nokkurn tíma kennari minn og hef ég alltaf metið hana mikils, burtséð frá stjórnmálum. Ræddum við nokkuð um hitamál stjórnmálanna og ekki síður nýjan þjóðmálavef, Dag, sem Svanfríður og Jóhann standa að ásamt fleirum. Er það glæsilegur vettvangur frétta og umræðu á Norðurlandi - fagna ég tilkomu hans. Ennfremur ræddi ég lengi við sjávarútvegsráðherrann. Að auki hitti ég gömul skólasystkini, flokkssystkin víða að, ættingja og fjölda vina og marga fleiri - um margt var spjallað. Tíminn var ekki lengi að líða og um fimmleytið lauk hátíðinni með ræðu framkvæmdastjórans, Júlíusar Júlíussonar, sem að vanda stóð sig gríðarlega vel við yfirstjórn og skipulagningu þessa merka viðburðar.

Fiskidagurinn mikli er kominn til að vera, það er engin spurning. Það er mikil þörf á því að heiðra sjávarútveginn með þessum hætti og borða ljúffengar afurðir úr matarkistu hafsins. Helst er þó gaman að hitta góða félaga og eiga góða stund. Það hefur svo sannarlega tekist að byggja upp jákvæða, notalega og góða stemmningu á Dalvík á þessum degi og greinilegt á þeim fjölda sem þarna hefur komið saman seinustu árin að fólk skemmtir sér konunglega í góðu veðri og hefur gaman af. Alltaf fjölgar þeim sem koma til Dalvíkur og fá sér góðan fisk að borða og kynna sér Dalvík í leiðinni. Þetta var ánægjulegur dagur á Dalvík í dag. Þangað var gaman að koma og ég þakka kærlega skipuleggjendum og aðstandendum hátíðarinnar fyrir að veita okkur góða og ánægjulega skemmtun í dag. Það verður gaman að fara að ári!

Robin Cook
1946-2005


Robin Cook (1946-2005)

Robin Cook fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, er látinn, 59 ára að aldri. Hann varð bráðkvaddur í fjallgöngu í hálöndum Skotlands í dag. Hann hné niður á göngu sinni á fjallið Ben Stack, þar sem hann var á ferð ásamt eiginkonu sinni, Gaynor. Var hann fluttur á sjúkrahús í Inverness í Skotlandi, þar sem hann var úrskurðaður látinn. Viðbrögð Breta urðu á einn veg - andlát Robin Cook kemur öllum að óvörum. Hann var heilsuhraustur, að því er virtist, var áberandi í breskum stjórnmálum og hafði tvíeflst í stjórnmálabaráttu sinni og unnið enn einn stórsigurinn í kjördæmi sínu í kosningunum í maí. Á klukkutímunum eftir að lát hans spurðist út gáfu allir helstu stjórnmálamenn Bretlands út yfirlýsingu vegna andláts hans. Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, gaf út yfirlýsingu þar sem segir að Cook hafi verið framúrskarandi stjórnmálamaður sem hafi verið prýddur í senn bæði miklum gáfum og hæfileikum á sínu sviði. Nánustu samstarfsmenn Cook innan flokksins til fjölda ára, þeir Gordon Brown, John Prescott og Jack Straw, gáfu ennfremur út hjartnæmar yfirlýsingar þar sem þeir minnast félaga síns og segja þeir lát hans vera mikið áfall fyrir bresk stjórnmál og Verkamannaflokkinn. Michael Howard leiðtogi breska Íhaldsflokksins, sagði í yfirlýsingu sinni að Cook yrði saknað úr hringiðu breskra stjórnmála.

Robin Cook fæddist í Bellshill í Skotlandi, hinn 28. febrúar 1946. Hann nam enskar bókmenntir við Edinborgar-háskóla, áður en hann fór í stjórnmálabaráttu. Hann var kjörinn á breska þingið fyrir Edinborg árið 1974. Var hann þingmaður kjördæmisins til ársins 1983 en var þá kjörinn á þing fyrir Livingston og sat á þingi fyrir kjördæmið allt til dauðadags. Var Robin Cook þekktur fyrir það hversu vel hann vann fyrir umbjóðendur sína og lagði alla tíð áherslu á að hann væri aldrei það upptekinn að hann gæti ekki rætt við kjósendur í kjördæmi sínu og unnið að erindum þeirra og verkefnum. Hann hlaut fljótt frægð fyrir mælsku sína og fimni á pólitískum vettvangi. Hann tók sæti í skuggaráðuneyti Verkamannaflokksins árið 1983 og sat á fremsta bekk þingliðs flokksins samfellt í tvo áratugi. Hann varð utanríkisráðherra í ríkisstjórn Verkamannaflokksins árið 1997, er flokknum tókst að komast til valda eftir 18 ára stjórnarandstöðu. Hann var áberandi í embætti sínu, í ráðherratíð hans tóku Bretar þátt í íhlutunum í Kosovo og Sierra Leone og Cook var áberandi í flokki erlendra þjóðarleiðtoga í þeim málum. Í miðjum klíðum þess varð fjölmiðlamál heima fyrir þegar að hann fór frá eiginkonu sinni til þriggja áratuga, Margaret, og tók saman við ritara sinn, Gaynor Regan, árið 1999.

Robin Cook

Veiktist hann nokkuð í sessi pólitískt vegna þess máls, en þótti styrkja stöðu sína að nýju með fjölmiðlaframkomu sinni á erlendum vettvangi í lykilmálum. Það kom því mörgum í opna skjöldu er hann missti utanríkisráðuneytið í uppstokkun forsætisráðherrans eftir hinn afgerandi kosningasigur Verkamannaflokksins í júní 2001. Cook missti stól sinn til samherja síns í flokknum til langs tíma, Jack Straw. Í staðinn var hann lækkaður í tign og gerður að leiðtoga þingsins. Sú staða er í Bretlandi ráðherraígildi og því sat hann áfram í ríkisstjórn og tilheyrði innsta valdakjarna flokksins. Engum leyndist þó vonbrigði Cook með niðurstöðuna. Honum lenti saman við Blair í aðdraganda ákvörðunar um þátttöku Bretlands í Íraksstríðinu árið 2003. Hann tjáði eindregna afstöðu sína gegn stríðinu og tók snerrur við Blair innan stjórnarinnar. Var mikið talað um átökin milli þeirra bakvið tjöldin. Þegar að allt stefndi í að stríðið yrði staðreynd tók Cook hatt sinn og staf. Hann sagði af sér formlegum valdaembættum sínum innan innsta kjarnans í leiftrandi ræðu (sem lengi verður í minnum höfð) í breska þinginu hinn 18. mars 2003 (daginn fyrir upphaf stríðsins). Hann tók sæti á aftari bekkjum þingsalarins og var þar allt til loka. Ekki greri um heilt milli hans og Blair og tilheyrði hann eftir það órólegu deildinni innan flokksins, sem fékk meira vægi eftir kosningarnar í vor.

Sjónarsviptir er að Robin Cook er hann er kvaddur nú alltof snemma. Hans verki í stjórnmálum var ekki lokið að flestra mati. Þótti allt stefna í að hann gæti orðið ráðherraefni og forystumaður innan flokksins að nýju er Blair léti af embætti og hætti í stjórnmálum á komandi árum. Spáð hafði verið um hvaða stöður biðu hans og margir höfðu spáð honum að nýju stóli utanríkisráðherrans í ráðuneyti Gordon Brown á komandi árum. Aldrei hefur farið leynt að Brown var ekki sáttur við brotthvarf vinar síns á sínum tíma úr utanríkisráðuneytinu og harmaði hann með áberandi hætti hlutskipti hans, þó þeir hafi sjálfir reyndar deilt um tíma en samið frið. Merkum stjórnmálaferli þessa kraftmikla skoska hugsjónamanns í pólitík lauk snögglega. Er hann yfirgefur sviðið með þessum sviplega hætti er ljóst að fráfall hans er gríðarlegt áfall fyrir Verkamannaflokkinn. Cook var einn af mest áberandi forystumönnum flokksins, þó hann hafi talað frá aftari bekkjunum seinustu tvö árin. Það sem var aðall Robin Cook var að hann var hugsjónamaður, allt til enda. Hann setti sér markmið og vann að þeim óhikað allt til enda. Hann vann í anda þeirra gilda sem hann taldi mikilvægastar allt til enda. Ég tel að sagan muni meta hann mest þannig, er á hólminn kemur.

Saga dagsins
1880 Fyrsti maðurinn, William Kemmler, líflátinn í rafmagnsstól, fyrir að myrða konu sína með exi.
1907 Lárus Rist fimleikakennari, syndir yfir Eyjafjarðarál, alklæddur (í sjóklæðum) - þótti mikið afrek.
1945 Bandaríkin varpa kjarnorkusprengju á borgina Hiroshima í Japan. Talið er að 140.000 manns hafi látist í sprengingunni, eða helmingur borgarbúa. Árásin var aðferð Bandaríkjanna til að þvinga Japani til uppgjafar og ljúka með því seinni heimsstyrjöldinni. Uppgjöf Japana tók loks gildi 14. ágúst 1945.
2000 Þorgeirskirkja við Ljósavatn í S-Þingeyjasýslu vígð - til minningar um Þorgeir Ljósvetningagoða.
2005 Robin Cook fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, verður bráðkvaddur í fjallgöngu í Skotlandi - hann var 59 ára gamall er hann lést. Hann sat á breska þinginu frá 1974 til dauðadags. Cook varð utanríkisráðherra Bretlands við valdatöku Verkamannaflokksins árið 1997 og sat á þeim stóli í fjögur ár. Hann varð þá leiðtogi þingsins, en sagði af sér vegna andstöðu sinnar við Íraksstríðið árið 2003.

Snjallyrðið
Komið allir Caprisveinar
komið, sláið um mig hring
meðan ég mitt kveðju kvæði
um Catarinu litlu syng.
Látið hlæja og gráta af gleði
gítara og mandólín.
Catarina, Catarina,
Catarina er stúlkan mín.

En nú verð ég að kveðja Capri
og Catarinu litlu í dag.
Horfa mun ég út til eyjar,
einn, um næsta sólarlag.
Grátið með mér gullnu strengir,
gítarar og mandólín.
Ó, Catarina, Catarina,
Catarina, stúlkan mín.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Capri Catarina)