Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 ágúst 2005

Punktar dagsins
Dr. Angela Merkel og Gerhard Schröder

Þingkosningar munu fara fram í Þýskalandi þann 18. september nk. Kosningabaráttan hefur náð hámarki og barist er af krafti um atkvæði almennings. Allar skoðanakannanir benda til öruggs sigurs hægriblokkarinnar í kosningunum. Fari svo mun Dr. Angela Merkel leiðtogi CDU (Kristilegra demókrata) verða fyrsta konan sem sest á stól kanslara Þýskalands. Hatrömm kosningabarátta vinstri- og hægriblokkarinnar er jafnvel enn beittari nú en fyrir þrem árum er Gerhard Schröder kanslara, tókst naumlega að halda embætti sínu. Nú horfir enn verr fyrir honum og Jafnaðarmannaflokknum, SPD. Schröder neyddist til að boða til kosninganna í sumarbyrjun, ári áður en kjörtímabil ríkisstjórnar krata og græningja átti að ljúka. Ástæða þess var sögulegt tap kratanna í sambandsþingkosningunum í Nordrhein-Westfalen í maí. Í seinustu þingkosningum, í september 2002, hélt vinstristjórnin í landinu, undir forsæti Schröder naumlega völdum. Jafnaðarmannaflokkurinn missti mikið fylgi en stjórnin hélt velli vegna fylgisaukningar samstarfsflokksins, græningja. Munaði mjög litlu að kosningabandalag hægrimanna, undir forystu Edmund Stoiber leiðtoga CSU, næði þá völdum. Hefur stjórn Schröders allt frá því verið veik í sessi og staðið höllum fæti gegn öflugri stjórnarandstöðu í þinginu.

Angela Merkel, sem virðist hafa hnossið í höndunum, hefur þrátt fyrir allt átt frekar gloppótta kosningabaráttu. Henni tókst með kostulegum hætti að taka feil á nettó og brúttó í spjallþætti fyrir nokkrum vikum og tók feil á þekktum efnahagslegum hugtökum. Hún hefur jafnan þótt vera með harðneskjulegt yfirbragð en hefur verið mýkt verulega upp með aðstoð stílista og almannatengslaráðgjafa CDU. Hún græðir aðallega á tvennu: óvinsældum kanslarans (sem hefur ekki tekist að efna fögru loforðin frá kosningunum 1998) og frjálslegt yfirbragð. Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í henni og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum. Merkel er töffari í þýskri pólitík og þykir í flestu andstæða hins íhaldssama Edmund Stoiber. Angela komst til áhrifa innan CDU á valdatíma Helmut Kohl, sem var kanslari Þýskalands samfellt í 16 ár, og þykir almennt vera pólitísk fósturdóttir hans. Hún er fimmtug, tvífráskilin, nýlega gift í þriðja skiptið og barnlaus og því langt í frá lík t.d. Stoiber sem þótti vera ímynd hins heilbrigða fjölskyldulífs sem hinn harðgifti fjölskyldufaðir. Schröder og Merkel eiga það sameiginlegt að hafa gifst oftar en einu sinni og vera allskrautlegar týpur sem hika ekki við að taka vinnuna framyfir einkalífið - vera miklir vinnuhestar.

Schröder hefur reynt af krafti að snúa vörn í sókn - en átt erfitt uppdráttar. Svikin kosningaloforð og vandamál á mörgum sviðum samfélagsins eru honum mikill Þrándur í Götu. Hann er um margt með sömu loforðin nú og í kosningunum 2002. Mörgum þykir nóg komið - fullreynt sé með forystu hans. Ferskleiki hefur þó verið nokkur í baráttu hans og hafa Schröder-hjónin reynt af krafti að fara um landið og bæta stöðu flokksins og kanslarans. Fylgið virðist eitthvað vera að aukast, en það er þó miklu minna en fylgi CDU. Sjarmi kanslarans og persónutöfrar í samskiptum við almenning eru helsti kostur hans. Á það hefur hann óspart spilað. Hefur hann virkað mun sleipari í framkomu en Merkel í þessum kosningaslag. Hún þykir hafa mun minni útgeislun - en hún talar hreint út, er með ákveðna stefnu og mikla pólitíska plotthæfileika. Það er þó ekki sýnilegt á sjónvarpsskjánum. Því hefur Schröder óspart farið fram á sjónvarpskappræður og þær fleiri en færri. Hægriblokkin hefur aðeins samþykkt eitt sjónvarpseinvígi og það skömmu fyrir kosningar. Er það til marks um að CDU telur ekki vænlegt að etja þeim tveim saman að ræða málin og stóli á fjölmiðlaframkomu Merkel á fjöldafundum þar sem hún flytur miklar og öflugar ræður og talar af krafti til almennings um svikin loforð kratanna.

Ljóst er að mikil vatnaskil þurfa að eiga sér stað næstu 26 dagana í þýskum stjórnmálum eigi Dr. Angelu Merkel að mistakast ætlunarverkið; að fella Schröder af valdastóli. Nú, er þetta er skrifað, skilja rúm tíu prósentustig að íhaldsmenn og krata í slagnum. Sigur Merkel er í sjónmáli. Hún talar af krafti, segir að án nýrrar stefnu og forystu sé framundan glundroði á atvinnumarkaði, gjaldþrot og uppsagnir, algjört skuldafen og jafnvel gjaldþrot ríkiskassans. Hefur hún þegar valið lykilhóp sinn með í stjórn muni flokkurinn vinna kosningarnar. Hún græðir hiklaust á beittum tóni og skýrum valkosti með mannskapi og stefnu. Hún talar það mál sem Þjóðverjar skilja. Þeir finna dapra stöðu og svikin loforð vinstristjórnarinnar á eigin persónulegu stöðu. Það er því rökréttast fyrir hægrimenn að nota staðreyndir efnahagslífsins og atvinnumálin sem sinn kosningagrunn. Staðan er enda ekki beysin. Það er því ekki furða að Schröder og kratarnir tali minna um málefni og reyni að vega að hægrimönnum með öðrum hætti og tali um gífuryrði og svartnættishjal. Þeir reyna að stóla á gullfiskaminni kjósenda. Eins og sést á könnunum eru æ minni líkur á því að Schröder takist að sjarmera kjósendur.

En eins og fyrr segir er innan við mánuður í kjördaginn í Þýskalandi. Það ræðst því fyrr en síðar hvort að "stúlkan hans Kohls" eins og hin fimmtuga austurþýska járngella íhaldsmanna er almennt kölluð nái völdum og komist í sögubækurnar eða hvort að Schröder tekst að næla sér í þriðja kjörtímabilið, þvert á allar kosningaspár. Framundan er harðskeyttur lokasprettur í þessum kosningaslag.

Matur

Eins og fram hefur komið í fréttum seinustu daga átti Sláturfélag Suðurlands eina tilboðið í skólamáltíðir í mötuneytinu í grunnskólanum í Dalvíkurbyggð. Því var tekið. Það þætti svosem varla í frásögur færandi nema vegna þess að maturinn verður keyrður frá Hvolsvelli til Dalvíkur, um 500 kílómetra leið, á hverjum virkum degi. Um er að ræða foreldaðan mat sem fluttur er í bökkum norður og hitaður svo upp fyrir neyslu. Því er nú varla hægt að neita að þessi tíðindi séu allmerkileg. Það eru greinilega engin vandkvæði virðist vera að keyra mat um langan veg til neyslu í mötuneytum ef þetta form gengur upp. Það eru þó vissulega vonbrigði að ekkert fyrirtæki eða aðili á Eyjafjarðarsvæðinu, nú eða hér á gervöllu Norðurlandi, bjóði í þetta tiltekna verkefni. Eðlilegast hefði mér þótt að kokkur á svæðinu hefði einfaldlega tekið að sér verkefnið eða boðið í það og styrkt hefði verið við bakið á matseld héðan á svæðinu. Það eru því auðvitað tíðindi að ekkert slíkt tilboð berist. Í flestum mötuneytum er starfandi kokkur sem eldar mat ofan í viðkomandi aðila sem þar borða.

Segja má að það marki mikil þáttaskil þegar að nemendur í skóla í Eyjafirði eru farnir að borða álbakkakeyrðan mat sunnan frá Hvolsvelli, matvinnslu SS, sem er í nokkurra hundruða kílómetra fjarlægð. Það eru tíðindi sem fá allavega mig til að hugsa um hvernig komið sé fyrir norðlenskum matvinnslufyrirtækjum.

Johnny Depp í Ed Wood

Í gærkvöldi horfði ég á hina ógleymanlegu kvikmynd Ed Wood. Í henni er sönn saga þessa eins af kostulegustu leikstjórum í Hollywood á 20. öld sögð. Snemma kom í ljós að hann bar í brjósti sér þann draum að verða kvikmyndagerðarmaður. Þegar fyrstu myndir hans bar fyrir augu gagnrýnenda var samdóma álit þeirra að verri og lélegri myndir hefðu vart verið gerðar í Hollywood. En dómarnir höfðu engin áhrif á Ed Wood, sem hélt sínu striki og safnaði um sig hópi fólks sem átti það sameiginlegt að vilja starfa með honum, þrátt fyrir algert hæfileika- og eða getuleysi. Þeirra á meðal var hinn útbrunni drykkjumaður, Bela Lugosi, en hann lék í velflestum myndum Wood og lét sér yfirleitt nægja áfengi að launum. Leikstjóri þessarar frábæru myndar er Tim Burton sem fékk brennandi áhuga á Ed Wood og lífshlaupi hans eftir að hann sá myndir á borð við Plan 9 From Outer Space og Glen or Glenda eftir Wood, og einsetti hann sér að gera mynd um þennan sérstaka mann sem lét engan segja sér fyrir verkum eða trufla sig á leið sinni að takmarkinu. Johnny Depp fer á kostum í hlutverki Wood og Martin Landau hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun á Bela Lugosi. Meistaraleg úttekt á lífi, starfi og persónu þessa litríka kvikmyndaleikstjóra sem fór á spjöld kvikmyndasögunnar sem einn af misheppnuðustu leikstjórum allra tíma.

Ennio Morricone

Ítalinn Ennio Morricone er eitt virtasta tónskáld í sögu kvikmynda seinustu áratuga. Hann á að baki mikinn fjölda ógleymanlegra tónverka sem sett hafa svip sinn á kvikmyndasöguna. Nýlega keypti ég heildarsafn (það allra besta af glæsilegum ferli) bestu verka hans sem er á geislaplötunni: Very Best of Ennio Morricone. Hann hóf feril sinn með því að semja hina ódauðlegu tónlist í Spagettívestrum Sergio Leone. Allir þeir sem horft hafa á The Untouchables, A Fistful of Dollars, The Good, The Bad & The Ugly, The Mission, Cinema Paradiso, Love Affair, My Name is Nobody, Unforgiven, The Bridges of Madison County, Malena, Il Postino, Bugsy, In the Line of Fire og Frantic (svo aðeins örfá dæmi eru nefnd) muna eftir ógleymanlegri tónlist þessa mikla meistara, sem setti órjúfanlegan svip sinn á þær. Í huga mínum standa þrenn verk eftir sem það besta sem hann hefur gert: það eru Gabriel's Oboe úr The Mission, The Death Theme úr The Untouchables, og síðast en ekki síst Love Theme úr Cinema Paradiso (sem er að mínu mati fallegasta kvikmyndastef seinustu aldar). Öll síðastnefndu stefin snerta hjartað, svo falleg eru þau. Morricone er sannkallaður meistari kvikmyndatónlistarinnar. Hann er maður tilfinninga í tónlist kvikmyndanna. Þessi geisladiskur er fyrir þá sem elska kvikmyndirnar og stefin í þeim.

(Smellið á nöfn kvikmyndanna að ofan og heyrið brot úr nokkrum verkum Ennio Morricone)

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi

Eins og athugulir lesendur hafa eflaust tekið eftir hef ég birt fjölda ljóða Davíðs Stefánssonar skálds frá Fagraskógi, að undanförnu. Það er engin tilviljun á bakvið það. Davíð hefur mjög lengi verið mitt uppáhaldsljóðskáld. Ljóð hans eru full af tilfinningu og þar er taug beint til þess sem les þau. Fáum íslenskum skáldum tókst betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við t.d. gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn. Davíð tjáði af stakri snilld sannar tilfinningar og varð eitt ástsælasta skáld okkar á 20. öld. Davíð orti frá hjartanu og talaði beint til hjarta þess sem las. Þess vegna mun minning hans verða okkur kær og kveðskapur hans festast í sessi um ókomin ár. Hann var sannur í yrkisefnum og sannur í tjáningu um sannar tilfinningar. Hann allavega talar til hjartans míns - þess vegna er hann ávallt í heiðurssessi þessa vefs þegar ljóð eru annarsvegar.

Saga dagsins
1954 Steinkista Páls biskups Jónssonar, sem lést árið 1211, fannst við fornleifauppgröft í Skálholti.
1967 Íslendingar töpuðu fyrir Dönum í frægum landsleik í fótbolta í Kaupmannahöfn. Úrslitin: 14:2.
1990 Saddam Hussein birtist í íröksku sjónvarpi með gíslum - þetta atvik var fordæmt út um allan heim. Valdaferli Saddams lauk 13 árum síðar, er honum var steypt af stóli, og hann bíður nú dóms.
1990 Tilkynnt um sameiningu V-Þýskalands og A-Þýskalands - hún tók loks gildi hinn 3. október 1990.
2000 Airbus A320 flugvél frá Gulf Air ferst við Bahrain í Persaflóa - 143 manns létu lífið í flugslysinu.

Snjallyrðið
Margt er það, já margt er það,
sem minningarnar vekur,
og þær eru það eina,
sem enginn frá mér tekur.

Þær eru það eina,
sem ég á í þessum heimi.
Uppi í háu hömrunum
er hugurinn á sveimi.

Gott var uppi í hömrunum
í hreiðrinu mjúka.
Þangað leitar hugurinn,
er hríð og stormar fjúka.

Þangað leitar hugurinn,
er þöglar stjörnur skína.
Þær eru einu vinirnir,
sem vita um gleði mína.

Þyngri voru sporin
en því verði lýst með orðum.
Vilji minn er sá sami
og undir vængjunum þínum forðum.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Söknuður)