Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 ágúst 2005

Punktar dagsins
Peter Jennings (1938-2005)

Bandaríski fréttaþulurinn Peter Jennings er látinn, 67 ára að aldri. Hann lést á heimili sínu í New York í gærkvöldi. Jennings hafði barist við lungnakrabbamein seinustu mánuðina og kvaddi hann sjónvarpsáhorfendur í byrjun apríl í hinsta sinni, áður en hann hóf baráttu sína við sjúkdóminn og gekkst undir lyfja- og geislameðferðir. Þó að vitað væri að Jennings væri mjög veikur kom andlát hans mörgum að óvörum. Bandarískir sjónvarpsáhorfendur urðu flestir mjög hissa þegar að andlát Jennings var tilkynnt í beinni útsendingu á ABC-sjónvarpsstöðinni, vinnustað Jennings, laust eftir miðnættið að staðartíma. Það var vinnufélagi hans og góðvinur, Charles Gibson, sem tók við hlutverki hans tímabundið sem fréttaþulur á ABC, sem las fréttina um lát hans. Óhætt er að segja að þáttaskil fylgi andláti hins trausta fréttastjórnanda sem var andlit fréttastofu ABC í rúma tvo áratugi. Hann var í flestra huga táknmynd heiðarlegrar og traustrar fréttamennsku og var virtur um allan heim fyrir störf sín. Á löngum fréttamannsferli fjallaði hann um stærstu fréttir samtímans með trúverðugum hætti og ávann sér ævarandi sess með því. Andlát hans markar því þáttaskil í bandarískri fjölmiðlun og breytir ásýnd hennar.

Peter Jennings fæddist í Toronto í Kanada, hinn 29. júlí 1938. Fréttir og fréttamennska voru rauður þráður hjá Peter Jennings alla ævi. Faðir hans var fréttastjórnandi CBC (Canadian Broadcasting Corporation) allt frá því það var stofnað á þriðja áratugnum. Hann var þekktur og virtur fyrir störf sín að fréttamennsku. Aðeins 9 ára gamall hóf Peter að stjórna barnaþætti á stöðinni, Peter's People. Hann lauk ekki námi en dembdi sér út í fréttastörf eftir skyldunám og að hafa unnið um tíma sem bankastarfsmaður. Hann vann fyrstu árin sem slíkur hjá CBC en fluttist til Bandaríkjanna árið 1964 og hóf þá störf hjá ABC-sjónvarpsstöðinni, þar sem hann vann allt til dauðadags, en hann var kanadískur ríkisborgari allt til ársins 2003. Árið 1965 var Peter ráðinn til að vera einn af fréttaþulum ABC Evening News, en hætti því tveim árum síðar, staðráðinn í að vinna sér meiri sess sem fréttaskýrandi og hóf aftur störf við venjulega vinnu frétta. Hann sá um erlendar fréttir lengst af og varð heimsþekktur er hann fjallaði um gíslatökuna á ólympíuleikunum í München árið 1972. Árið 1977 var Jennings ráðinn sem forstöðumaður erlendra frétta hjá ABC (Chief foreign correspondent) og varð þá einn af aðalfréttaþulum ABC ásamt Frank Reynolds og Max Robinson.

Peter Jennings var ráðinn sem aðalfréttaþulur ABC eftir skyndilegt fráfall Reynolds. Allt frá því að hann tók við starfinu hinn 5. september 1983 allt til dauðadags var Jennings andlit fréttaþjónustu ABC. Hann var lykiltalsmaður fréttaþjónustunnar og ekki síður mjög áberandi á vettvangi fréttanna. Var hann í rúma tvo áratugi einn af þrem mest áberandi fréttaþulum aðalstöðva Bandaríkjanna, ásamt Tom Brokaw og Dan Rather. Á rúmu ári hefur þessi fræga þrenning fréttaþula horfið af skjánum. Brokaw hætti á NBC í desember 2004 og Rather hætti á CBS í mars 2005. Þrátt fyrir að þeir væru keppinautar voru þeir vinir utan fréttavettvangsins og hafa bæði Brokaw og Rather minnst hans í dag. Í byrjun apríl á þessu ári tilkynnti Jennings sjálfur í beinni útsendingu um veikindi sín og að hann tæki sér frí frá störfum. Hvarf hann af skjánum með ógleymanlegum hætti með tignarlegum flutningi yfirlýsingar sinnar sem bæði var blönduð af trega og gríni. Jennings var ekki bara fréttaþulur að mínu mati. Við andlát hans er minnst eins svipmesta fréttaskýranda 20. aldarinnar - heiðarlegs og trausts fréttamanns sem setti mark sitt á samtíð sína. Framlag hans til fréttaþjónustu Bandaríkjanna og ekki síður heimsins mun verða lengi í minnum haft.

Fiskidagurinn mikli á Dalvík 2005

Eins og ég hef vel fjallað um seinustu dagana var Fiskidagurinn mikli haldinn á Dalvík í fimmta skiptið á laugardag. Var þetta alveg stórfenglegur dagur - virkilega gaman og mikil skemmtun, eins og venjulega. Rúmlega 30.000 manns voru viðstödd þetta stærsta matarboð ársins. Var mannfjöldinn slíkur að vart hefur annað eins sést. Eru flestir á því að þetta sé eitt stærsta matarboð sem haldið hefur verið hérlendis. Það eru allavega tíðindi þegar á fjórða tug þúsunda manns mætir saman á einn stað og það hafnarsvæði í 1500 manna bæ á landsbyggðinni. Þetta er mikill sigur fyrir Dalvíkinga og viðurkenning á því að hugmynd þeirra sem störtuðu verkefninu var ekki glötuð eða út í bláinn þó margir hafi í upphafi talið vonlaust að byggja stemmningu upp í kringum fiskrétti og ætla að gefa allt hráefnið. Þetta er verkefni sem hefur heppnast alveg gríðarlega vel. Fyrst og fremst tel ég að Júlíus Júlíusson sem hefur stýrt verkefninu allt frá upphafi með krafti hafi sannað að þetta sé hægt og fyrst og fremst eiga hann og eigendur fyrirtækjanna sem gefa matinn hrós fyrir þessa frábæru hugmynd og að hafa allan tímann haft trú á að hún væri möguleg og gæti heppnast. Án kraftsins í Júlla hefði þetta verkefni að mínu mati aldrei náð landi. Hann er einstakur í skipulagningu.

En já laugardagurinn var fallegur í orðsins fyllstu merkingu. Sólin og gleðin var aðalsmerki dagsins - hef ég verið viðstaddur í öll skiptin en þetta var langbest heppnaðasti Fiskidagurinn og til marks um hversu vel þetta hefur nú verið fest í sessi og hefur eflt upp stemmninguna í kringum Dalvík. Eins og sjá má af þessari mynd hér að ofan, sem tekin var á laugardag, var mannfjöldinn gríðarlegur, enda ekki á hverjum degi sem á fjórða tug þúsunda manna koma saman á einum stað í Eyjafirði. Þessi mynd segir meira en mörg orð um stemmninguna og gleðina sem allsstaðar voru yfir öllu. Sérstaklega gaman hafði ég af því að fara í siglingu með Sæfara, sem var þarna á svæðinu. Farið var smásiglingu um fjörðinn, voru siglingar á hálftímafresti allan daginn. Svo var virkilega gaman að fylgjast með listflugi Arngríms í Atlanta og ekki síður labba svo auðvitað um svæðið. Þar hitti maður ótrúlegasta fólk alveg og átti gott spjall. En mannfjöldinn var mikill og eftir stendur ekkert nema ánægja og gleði í hjarta og huga eftir þennan góða dag. Ég vil óska Dalvíkingum öllum til hamingju með þennan góða og velheppnaða dag - hann er svo sannarlega kominn til að vera!

Andri Teitsson

Andri Teitsson hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri KEA, eftir að hafa starfað þar í tvö ár, eða frá árinu 2003. Óhætt er að segja að yfirlýsing um starfslok Andra hafi verið óvænt, enda hefur Andri verið að standa sig vel í starfi og gert margt gott þar. Hættir Andri störfum vegna þess að hann fékk ekki að fara í fæðingarorlof, sem er þó lögbundið bæði fyrir karla og konur. Eins og fram hefur komið eiga Andri og kona hans von á tvíburum, og fór hann fram á níu mánaða fæðingarorlof. Stjórn Kaupfélags Eyfirðinga taldi óheppilegt að Andri tæki sér svo langt leyfi og varð sameiginleg niðurstaða að hann léti af störfum. Þetta er merkilegt mál og vekur margar spurningar um afstöðu KEA. Sérstaklega var svo merkilegt að heyra í stjórnarformanninum, Benedikt Sigurðarsyni, þar sem hann túlkaði fæðingarorlofslögin með þeim hætti að þau ættu bara við almenna starfsmenn. Þetta er ótrúleg tímaskekkja sem birtist hjá KEA. Auðvitað falla allir undir lög í landinu, sama hvort um er að ræða almenna starfsmenn eða yfirmenn þeirra. Það er ekki nema von að fólk verði gapandi hissa yfir vinnubrögðum KEA og spurt sé að því hvaða skilaboð þetta séu til handa konum á framabraut sem sækjast eftir yfirmannsstörfum hjá fyrirtækjum, ja t.d. KEA. Það er óhætt að segja að stjórn KEA valdi okkur miklum vonbrigðum í jafnréttismálum. Þvílík vinnubrögð!

KÞJ tekur fyrstu skóflustunguna í Naustahverfi í maí 2003

Rúm tvö ár eru nú liðin síðan Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, tók fyrstu skóflustunguna að fyrsta íbúðarhúsinu í Naustahverfi, nýjasta hverfi bæjarins. Síðan hefur hverfið byggst upp og fjöldi húsa risið þar. Áætlað hefur verið að Naustahverfi byggist upp á 15 árum og áætlaður íbúafjöldi verði þar 6-8.000 manns í 2300-3000 íbúðum þegar það verður orðið fullbyggt. Hverfið mun skiptast upp í tvö skólahverfi og eina kirkjusókn. Fyrsta byggingin sem ráðist var í, í hinu nýja hverfi, var glæsilegur fjögurra deilda leikskóli, Naustatjörn, sem tekinn var í notkun 18. ágúst 2003, áður en fyrstu íbúar hverfisins fluttu inn. Var ráðist í byggingu hans áður en tekin var fyrsta skóflustungan að íbúðarhúsi á svæðinu. Þetta var að öllum líkindum einsdæmi í byggingu íbúðarhverfa hérlendis. Nýr grunnskóli mun rísa við hlið leikskólans þegar íbúafjöldi hefur náð tilsettu marki. Í hverfinu hefur verið lögð áhersla á umferðaröryggi og góðar og öruggar gönguleiðir. Nú berast svo þær fréttir að borist hafi 193 umsóknir frá einstaklingum og byggingarfyrirtækjum um lóðir undir 430 íbúðir í næsta vinnuhluta hverfisins, en umsóknarfresturinn rann út í lok júlí. Á morgun verður dregið úr 92 umsóknum um 17 einbýlishúsalóðir þar. Þetta er mjög ánægjulegt að heyra - gaman að fylgjast með uppbyggingu þessa nýjasta hverfis í bænum.

Dagur

Á föstudag hóf göngu sína nýr eyfirskur þjóðmála- og fréttavefur sem ber nafnið Dagur. Að honum standa eigendur héraðsfréttablaðanna Norðurslóð og Bæjarpósturinn í Dalvíkurbyggð. Er vefnum fyrst og fremst ætlað að þjóna Eyjafjarðarsvæðinu og ætlað að vera frétta- og upplýsingaveita svæðisins á netinu. Er þetta ánægjulegt og mjög jákvætt framtak, einkum nú í aðdraganda sameiningarkosningar hér í firðinum þann 8. október nk. Þá verður kosið um sameiningu allra sveitarfélaga í firðinum utan Grímseyjar. Ritstjórn vefsins skipa hjónin Svanfríður Inga Jónasdóttir fyrrum alþingismaður og kennari á Dalvík, og Jóhann Antonsson, og ennfremur þeir Hjörleifur Hjartarson og Halldór Ingi Ásgeirsson. Jóhann var einn þeirra sem stofnuðu Norðurslóð árið 1978 - sem verið hefur alla tíð einn öflugasti prentmiðill í firðinum. Hitti ég þau hjón Jóhann og Svanfríði um helgina á Fiskideginum og áttum við Svanfríður mjög notalegt spjall um vefinn. Mér hefur svo verið sýndur sá heiður að eiga fyrstu greinina sem birtist í undirdálkinum Sarpurinn (þar sem áður birt efni er kynnt). Er það grein mín um fjölskylduhátíðina hér heima um versló og birtist á Íslendingi. Ég óska Jóhanni og Svanfríði innilega til hamingju með þennan góða og glæsilega vef.

Saga dagsins
1863 Robert E. Lee hershöfðingi, sagði af sér embætti sínu eftir tapið í baráttunni um Gettysburg - Jefferson Davis forseti samb.ríkjanna, hafnaði beiðni hans og Lee sat áfram. Hann lést árið 1870.
1959 Matthías Johannessen, 29 ára blaðamaður, ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins - hann var ritstjóri blaðsins í rúma fjóra áratugi, til loka ársins 2000, og hafði þá verið blaðamaður og ritstjóri í hálfa öld.
1963 Eitt frægasta lestarrán sögunnar framið í Bretlandi - lestin á milli Glasgow og Euston var rænd við Buckinghamshire af sex mönnum - ræningjarnir náðust allir, að lokum Ronnie Biggs á árinu 2001.
1974 Richard Nixon forseti Bandaríkjanna, tilkynnir í sjónvarpsávarpi um afsögn sína. Hún tók svo formlega gildi á hádegi daginn eftir. Nixon varð fyrsti Bandaríkjaforsetinn sem sagði af sér embætti. Nixon baðst lausnar vegna Watergate-málsins. Hann átti þá að baki áratugalangan stjórnmálaferil. Nixon var kjörinn í fulltrúadeildina árið 1946 og svo öldungadeildina árið 1950. Hann var varaforseti Bandaríkjanna 1953-1961 en tapaði í forsetakjöri í nóvember 1960 fyrir John F. Kennedy. Nixon var kjörinn forseti Bandaríkjanna 5. nóvember 1968 og var endurkjörinn árið 1972. Eftir afsögn sína tókst Nixon að byggja sér upp feril sem sérfræðingur í utanríkismálum og náði að nýju virðingarsess undir lok ævi sinnar. Richard Nixon lést 22. apríl 1994. Nixon afþakkaði viðhafnarjarðarför (state funeral).
2001 Leikarahjónin Tom Cruise og Nicole Kidman skilja - Cruise og Kidman voru gift í rúman áratug.

Snjallyrðið
Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.
Eins eru skip, sem aldrei landi ná,
og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá,
og von sem hefur vængi sína misst,
og varir, sem að aldrei geta kysst,
og elskendur, sem aldrei geta mæst
og aldrei geta sumir draumar ræst.
Til eru ljóð, sem lifna og deyja í senn,
og lítil börn, sem aldrei verða menn.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Til eru fræ)