Flest bendir nú til þess að R-listi félagshyggjumanna, sem boðið hefur fram í þrennum borgarstjórnarkosningum í Reykjavík (árin 1994, 1998 og 2002), bjóði ekki fram í fjórða skiptið, í byggðakosningunum í maímánuði á næsta ári. Í gærkvöldi slitnaði upp úr samningaviðræðum um áframhaldandi samstarf Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Framsóknarflokksins, undir merkjum R-listans og hefur nefndin skilað af sér umboði sínu til flokksstofnanna í borginni. Málið er því á byrjunarreit og fært í hendur flokksmanna innan félaganna. Flest bendir því til þess á þessari stundu að R-listinn heyri sögunni til að loknu þessu kjörtímabili og í stað þess muni flokkarnir þrír bjóða fram undir eigin merkjum. Þessi niðurstaða markar viss þáttaskil, enda hefur samstarf flokkanna aldrei áður staðið jafntæpt í undirbúningi fyrir sveitarstjórnarkosningar frá árinu 1994. Þá var R-listinn stofnaður sem sameiginlegt framboð Framsóknarflokks, Samtaka um Kvennalista, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Þá náði R-listinn, undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur alþingismanns Kvennalista, táknrænum sigri og felldi meirihluta Sjálfstæðisflokksins sem setið hafði í tólf ár samfellt, undir forystu Davíðs Oddssonar, Markúsar Arnar Antonssonar og Árna Sigfússonar (sem hafði tekið við borgarstjórahlutverkinu 75 dögum fyrir kosningar 1994).
Fyrir síðustu kosningar var flokkalitrófið allt breytt frá R-listanum gamalgróna árið 1994 og umrót hafði orðið á vinstrivængnum og sameinuðust flokkarnir þrír sem eftir stóðu um að halda samstarfinu áfram sem kosningabandalagi. Samið var fyrir allar þrjár kosningarnar um skiptingu allra embætta og nefndaformennsku, ef kosningabandalagið myndi sigra kosningarnar. Í öll þrjú skiptin var Ingibjörg Sólrún í áttunda sæti listans, baráttusætinu, og var því sett á mörkin, sem þýddi það auðvitað að ef ekki yrði meirihluti stæði Ingibjörg Sólrún utangarðs og þyrfti ekki að starfa þar í minnihluta nema að takmörkuðu leyti. Aldrei þurfti Ingibjörg Sólrún að fara í prófkjör til að verja stöðu sína eða keppa við aðra um áttunda sætið. Hún fékk það sérpantað og var í öll þrjú skiptin sameiningartákn allra flokkanna og utan kvóta þeirra. Síðast var hún stimpluð sem fulltrúi óháðra ásamt Degi B. Eggertssyni lækni. Því urðu mikil læti þegar að Ingibjörg Sólrún tilkynnti um þingframboð sitt fyrir Samfylkinguna í desember 2002 (hálfu ári eftir kosningar). Samstaðan um hana sem leiðtoga var brostin og var henni steypt af stóli innan listans og sagði af sér embætti borgarstjóra. Flestir þekkja söguna sem síðan hefur staðið, en á þrem árum hafa setið þrír borgarstjórar í nafni R-listans. Átökin hafa verið sífellt meiri bakvið tjöldin.
Merkilegt var allan tímann að fylgjast með þessum viðræðum innan samninganefndar flokkanna um áframhaldandi samstarf. Allan tímann snerust viðræðurnar um völd og áhrif - því að skipta niður mögulegum áhrifum og völdum eftir kosningar - deila niður borgarfulltrúasætunum átta, ef meirihluti myndi vinnast í nafni framboðsins. Málefnin voru algjörlega utangarðs og gleymd öllum. Viðræðurnar voru valdaplott par excellance - einfalt mál. Nú stefnir allt í það að R-listinn (þetta fræga hræðslubandalag vinstrimanna í borginni) heyri sögunni til er þessu kjörtímabili lýkur. Með því verða að sjálfsögðu mikil þáttaskil í stjórnmálunum í borginni. Svo var reyndar að skilja á Degi B. Eggertssyni, óháða borgarfulltrúanum (þeim eina sem eftir er eftir að hinn óháði fulltrúinn varð formaður Samfylkingarinnar) í gærkvöldi að hann hefði ekki hug á framboði nema að R-listinn héldi áfram samstarfi sínu. Greinilegt er að Dagur er að reyna að þrýsta saman flokkunum þrem og beita áhrifum sínum fyrir áframhaldandi samstarfi. En þó Dagur sé læknir er erfitt fyrir hann að blása lífi í lík. R-listinn hefur verið lík að því er segja má allt frá því að Ingibjörgu Sólrúnu var hent fyrir borð sem leiðtoga samstarfsins. Síðan hefur allt þarna innanborðs verið gert með hverri reddingunni á reddingu ofan. Nú virðast menn vera hættir að tjasla í sprungurnar og hver er orðinn sjálfum sér næstur.
Þáttaskil eru að verða í sveitarstjórnarpólitíkinni í höfuðborginni okkar. R-listinn heyrir brátt sögunni til (reyndar verður fróðlegt hvernig þetta hræðslubandalag uppsöfnunar skulda og svikinna loforða verði dæmt í sögubókum framtíðarinnar) og við taka flokkaframboð í borginni á víðum kalíber í fyrsta skipti í 16 ár. Það verður fróðleg kosningabarátta sem verður háð þá. Reyndar má sjá forsmekk þess hvernig Samfylkingin mun hamast þar á VG. Þeir verða sakaðir um að hafa drepið líkið, alltsvo R-listann. Segja má að Mörður Árna hafi slegið tóninn í spunahjali Samfylkingarmanna í Íslandi í bítið í gærmorgun. Á meðan R-listinn gufar endanlega upp og hverfur út í myrkrið horfir Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík á eymd og volæði innan R-listaflokkanna, þar sem klaufalegustu samningaviðræður seinni tíma áttu sér stað, dæmdar til að mistakast. Eins og sést hefur á nýlegum skoðanakönnunum á Sjálfstæðisflokkurinn góða möguleika á því að ná hreinum meirihluta í borgarstjórn og velta vinstriflokkunum úr sessi (veita þeim langþráð frí eftir kjötkatlasuðuna í Orkuveitunni og fleiri stöðum). Spennandi tímar eru framundan í borgarmálunum - það er algjörlega á hreinu!
Eins og flestir vita hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir alþingismaður, verið merkilega lítið áberandi í stjórnmálaumræðunni í sumar. Áttu margir von á henni mjög sterkri í þjóðmálaumræðuna eftir afgerandi sigur hennar í formannskjörinu í Samfylkingunni í maímánuði. Hún tók svo sæti á þingi um síðustu mánaðarmót er Bryndís Hlöðversdóttir sagði af sér þingmennsku og hélt til starfa að Bifröst. Kom hún reyndar öflug til leiks er hún lýsti yfir formannsframboði sínu í Samfylkingunni í febrúar og opnaði þá heimasíðu á netinu. Var vefurinn að mestu þekktur fyrir háfleygar stuðningsyfirlýsingar borgarstarfsmanna í lykilstöðum og margra stuðningsmanna hennar vítt um landið. Jafnframt notaði Ingibjörg Sólrún vefinn í kosningabaráttu sinni til að ná til flokksmanna og skrifaði stöku sinnum pistla þar inn til lesenda, eins og margir stjórnmálamenn hafa ákveðið að gera, til að ná til kjósenda sinna. Eftir landsfund Samfylkingarinnar birtist ein grein eftir Ingibjörgu Sólrúnu þar sem hún þakkaði stuðninginn í formannskjörinu. Það var í lok maímánuðar. Síðast þegar ég sá vefinn í sínu gamla formi hinn 19. júlí var sama grein ennþá efst - eftir tvo mánuði. Þá hafði ekkert nýtt efni birst og ekki hafði formaðurinn notað vefinn áfram sem samskiptaleið við flokksmenn sína.
Um síðustu helgi vildi svo til að ég ætlaði að líta á vefinn, en komst að því að hann er ekki lengur til. Er slóðin ingibjorgsolrunis er slegin inn er manni vísað yfir á vef Samfylkingarinnar. Með öðrum orðum - hinn frægi tæknivæddi vefur Ingibjargar Sólrúnar er horfinn af sjónarsviðinu eftir að hafa verið til staðar í innan við hálft ár. Þetta er merkilegt í ljósi þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er skráð fyrir léni sem gildir til 17. febrúar 2006. Það er mjög merkilegt að hún noti það ekki. Það er greinilegt að ISG hefur bailað á þessu með sama hætti og þegar að hún skráði lénið isg.is fyrir þingkosningarnar 2003, sem varð aldrei meira en kynningarmynd þar sem sagt væri að ISG ætlaði að opna vef. Er lénið varð ársgamalt lokaði það - enda rann það bara út: engin endurnýjun eða neitt. Það er spurning hvort ingibjorgsolrun.is bíði sömu örlög. Fyrir okkur sem notum netið til að tala til fólks er merkilegt að sjá flokksleiðtoga sem á lén og hefur verið með prívatvefsetur gefast upp í miðri ánni og noti ekki þá tækni sem hún hóf sjálf að nota. Vefur þarf að vera ferskur eigi hann að vera góður. Án þess að uppfæra reglulega verður vefurinn eins og uppþornuð á. Kannski er það vandamálið hjá ISG? Tímaskortur við að rita og tala til fólks á léni sem viðkomandi þingmaður á. Spyr sá sem ekki veit.
Þórarinn B. Jónsson stjórnarformaður Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri, tók í gær fyrstu skóflustunguna að fyrsta snjóframleiðslukerfi hérlendis, hér í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar. Þetta markar ánægjuleg skref í málefnum skíðasvæðisins uppfrá. Nú verður hægt að hefjast handa við að leggja veitukerfi uppeftir sem mun verða alls um 2.600 metrar að lengd. Í gegnum veitukerfið er áætlað að hægt verði að dæla rúmlega 80 sekúndulítrum af vatni. Mun það koma úr mikilli tjörn sem grafin verður nokkru sunnan við skíðasvæðið. Stefnt er að því að framkvæmdum muni ljúka fyrir vetrarvertíðina í fjallinu og er þá ekkert að vanbúnaði að hefja fulla snjóframleiðslu. Eins og fram hefur komið þarf snjórinn að vera í það minnsta tveggja til þriggja stiga kaldur en eftir því sem meiri kuldi er því meira verður hægt að framleiða af snjó. Þetta er gleðilegt skref eins og fyrr segir, enda hefur verið erfitt að halda uppi eðlilegu starfi upp í fjalli hin seinustu ár vegna snjóleysis, sem hefur skaðað mjög undirstöður vetraríþróttamiðstöðvarinnar okkar. En nú ætti sá vandi að vera að mestu leyti úr sögunni - stefnt er svo að því að skíðasvæðið opni í byrjun desembermánaðar.
Horfði í gærkvöldi á úrvalsmyndina To Catch a Thief, verk meistara Sir Alfred Hitchcock. Jafnan er spennan í hámarki og hárfínn húmor fylgir með sem aukahlutur í myndum Hitchcocks. Að þessu sinni er það hið gagnstæða - spennumyndin er með áberandi gamansömu ívafi. Fjallar myndin um dementarán á frönsku ríveríunni og tilraunir þekkts demantaræningja, John Robie, sem er saklaus til að finna hinn seka en flestir telja hann hinn seka. Góð ráð eru því dýr fyrir hann. Í aðalhlutverkum eru Cary Grant og Grace Kelly og fara þau á kostum í hlutverkum Robie og Frances Stevens, sem flækist í atburðarásina sem dóttir einnar af þeim konum sem lendir í klóm ræningjans. Grace, sem að mínu mati er fallegasta kona sögunnar, glansar í hlutverki Frances. Hún var aldrei meira heillandi á sínum ferli en í þessari mynd og enginn vafi á því í mínum huga að hún slær út náttúrufegurð ríveríunnar og gott betur en það. Leikstjórinn var heillaður af Grace og harmaði mjög þegar hún hætti leik og giftist Rainier fursta af Mónakó, sem hún kynntist við tökur á myndinni. Grace fórst í bílslysi í hæðunum fyrir ofan Monte Carlo 14. september 1982, 52 ára að aldri. Kaldhæðnislegt var að slysið átti sér stað á sömu slóðum og hið hið fræga bílaatriði Grace og Cary Grant í myndinni. Myndin stendur alltaf fyrir sínu, sannkallað augnakonfekt og ávallt gleðigjafi.
Í síðustu viku hóf Sjónvarpið endursýningar á vönduðum heimildarþætti Helga H. Jónssonar fréttamanns, sem fjallar um hernám Íslands í seinni heimsstyrjöldinni árið 1940 og stríðsárin almennt. Á þessu ári eru einmitt 65 ár liðin frá því að breski herinn gekk á land hér á Íslandi. Þessir góðu þættir Helga voru fyrst sýndir árið 1990, í tilefni hálfrar aldar afmælis hernámsins. Þeir innihalda fjölda viðtala við stjórnmálamenn, breska hermenn sem dvöldu á Íslandi og Íslendinga sem upplifðu þessa tíma um miðja 20. öldina. Þessir þættir varpa ljósi á íslenskt þjóðfélag við upphaf og á árum síðari heimsstyrjaldar og er stórmerkileg heimild um merkilegan þátt í sögu síðustu aldar. Á ég þessa þætti á spólu en hef samt sem áður gaman af að horfa á þá nú einn af öðrum á þriðjudagskvöldum. Hvet ég alla lesendur til þess að horfa á þessa frábæru þætti - þetta er vönduð og vel gerð sagnfræðiúttekt á stríðsárunum hér á Íslandi.
Saga dagsins
1755 Jarðbor var notaður í fyrsta skipti hér á Íslandi, við Laugarnes í Reykjavík. Þeir Eggert Ólafsson
og Bjarni Pálsson stóðu að baki þessum jarðborunum og voru þeir með þessu að rannsaka jarðhita.
1918 Fyrsta hjóladráttarvélin kom til landsins - hún kom með Gullfossi og var vélin Avery gerðar.
1957 Fyrstu stöðumælarnir í Reykjavík, á annað hundrað, teknir í notkun - gjaldið: 1 króna á 15 mín.
1975 Þrír Vestmannaeyingar klifu Þumal, 120 metra háan tind - hann hafði áður verið talinn ókleifur.
1982 Bandaríski leikarinn Henry Fonda lést, 77 ára að aldri. Skömmu fyrir andlát sitt, í mars 1982, hafði Fonda hlotið óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Norman Thayer í myndinni On Golden Pond. Það var síðasta kvikmyndahlutverk Fonda á löngum og glæsilegum leikferli og varð hans eini óskar.
Snjallyrðið
Hví sölna rósir sumargrænna engja?
Hví sogast brimið upp að hverju nausti?
Til sólar beinist söngur vorra strengja,
er syrtir nótt og líða fer að hausti.
Við erum stödd á stormsins vegamótum.
Hann storkar jörð og skýjabólstra hleður.
En eldar brenna undir hjartarótum
og einhvern tíma lægir þessi veður.
Að kvöldi dags er kveikt á öllum stjörnum,
og kyrrðin er þeim mild, sem vin sinn tregar,
og stundum er skýla jöklar jarðarbörnum,
og jafnvel nóttin lýsir þeim til vegar.
Í klakabrynju getur nóttin munað,
að minnstu fræin urðu vaxinn gróður,
og sálir dreymt um nýjan ástarunað,
um ungan fugl og laufgað skógarrjóður.
Er fagurhvelið birtist innri augum,
er eins og ljósið tengi gamla vini.
Svö drögum andann, djúpt og hjartað laugum
í döggvum himins, söng og stjörnuskini.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Að haustnóttum)
<< Heim