Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:
- í fyrsta lagi fjalla ég um svar Kristjáns Þórs Júlíussonar bæjarstjóra, við spurningum leiðtoga Samfylkingarinnar og VG í bæjarstjórn Akureyrar við umdeildri lífskjarakönnun Gallups. Fer ég yfir málið og skoðun mína á áberandi fjölmiðlaframkomu leiðtoga Samfylkingarinnar, sem hefur nær ein tjáð sig um málið af minnihlutafulltrúunum í bæjarstjórn. Ekki hafa minnihlutaleiðtogarnir Oddur Helgi Halldórsson og Valgerður Hjördís Bjarnadóttir verið áberandi í viðtölum vegna þess eða komið fram með sama hætti og leiðtogi Samfylkingarinnar. Það segir ansi margt auðvitað um það hvernig málið er allt vaxið og til marks ekki síður um innbyrðis ólgu innan Samfylkingarinnar, þar sem leiðtoginn í síðustu kosningum hefur verið skoraður á hólm af varamanni sínum í bæjarstjórn. Vissulega má ræða þessi mál og fara yfir þau frá ólíkum hliðum en framganga fulltrúa Samfylkingarinnar hefur farið yfir öll mörk og yfirlýsingagleðin ekki síður. En staða mála á þeim bænum fær mann til að skilja þá yfirlýsingagleði. Þegar fólk er í kapphlaupi við að vekja á sér athygli gerir fólk oft ýmislegt til að komast í viðtöl og ná kastljósi fjölmiðlanna. Á tímum nútímafjölmiðlunar geta nefnilega viðtöl á réttum stöðum breytt stöðu leiðtoga flokks sem hefur fengið mótframboð og oft er ýmsum hráskinnavinnubrögðum beitt í því skyni. Þessu höfum við kynnst vel hér seinustu vikurnar.
- í öðru lagi fjalla ég um Fiskidaginn mikla sem haldinn var í fimmta skiptið á Dalvík í gær. Var ég þar staddur í blíðviðri í fjölmennasta matarboði ársins ásamt rúmlega 30.000 manns. Þetta var alveg stórfenglegur blíðviðrisdagur á Dalvík og fer ég í pistlinum yfir það sem gerðist á deginum og stemmninguna sem þar var. Fiskidagurinn mikli er kominn til að vera, það er engin spurning. Það er mikil þörf á því að heiðra sjávarútveginn með þessum hætti og borða ljúffengar afurðir úr matarkistu hafsins. Helst er þó gaman að hitta góða félaga og eiga góða stund. Það hefur svo sannarlega tekist að byggja upp jákvæða, notalega og góða stemmningu á Dalvík á þessum degi.
- í þriðja lagi fjalla ég um birtingu álagningarskrár, sem helst kemur fram með útgáfu tekjublaðs Frjálsrar verslunar. Minni ég á þá skoðun mína að ekki eigi að birta álagningarskrárnar opinberlega eða leyfa opinbera birtingu þessara gagna með þeim hætti sem um ræðir. Að mínu mati eru fjárhagsmálefni einstaklinga án nokkurs vafa meðal helstu persónuupplýsinga sem að mínu mati bæði er eðlilegt og sanngjarnt að leynt fari.
Í kvikmyndinni All the President's Men er rakin sagan af því hvernig tveimur rannsóknarblaðamönnum á The Washington Post, Carl Bernstein og Bob Woodward, tókst að vekja þjóðarathygli á þætti nánustu aðstoðarmanna Richard Nixon forseta Bandaríkjanna, í innbrotinu í Watergate-bygginguna í júní 1972, sem á endanum lauk með því að Richard Nixon sagði af sér embætti forseta Bandaríkjanna, fyrstur manna, hinn 9. ágúst 1974. Þetta víðfrægasta pólitíska hneykslismál 20. aldarinnar hófst kaldhæðnislega helgina sem hann fagnaði sínum stærsta pólitíska sigri. Um miðjan júní 1972 er innbrotið í Watergate-bygginguna var framið var Nixon nýkominn frá Kína. Honum hafði tekist að opna Bandaríkjunum leið í austurveg með frægum fundi sínum og Mao þá um vorið. Við heimkomuna var hann hylltur eins og hetja og hann ávarpaði sameinaðar deildir Bandaríkjaþings. Sögulegum áfanga var náð: tekist hafði að opna leiðina til austurvegs og ennfremur sá fyrir lokin á Víetnamsstríðinu. Watergate-málið var klaufaleg mistök hjá reyndum stjórnmálamanni - afdrifarík mistök sem hann varð að gjalda að sjálfsögðu fyrir með embætti sínu.
Watergate-málið var gott dæmi um persónuleikabresti Nixons sem urðu honum að falli og leiddi að mestu til einangrunar hans úr sviðsljósinu. Með fimni tókst óþekktum blaðamönnum á The Washington Post, Bernstein og Woodward, að halda málinu á floti, þrátt fyrir tilraunir stjórnvalda til að þagga það niður. Litlu munaði að það hefði tekist. Hefði þeim ekki tekist að fá tryggan heimildarmann úr innsta hring til að leka í blaðið fréttum og meginpunktum málsins hefði það væntanlega aldrei komist upp. Þekktur var sá sem veitti upplýsingarnar sem veitti þeim leiðina á sporið, í miðpunkt málsins. Í þrjá áratugi var deilt um það hver væri heimildarmaður blaðsins. Alla tíð var þó vitað að sá sem lak upplýsingunum til blaðsins væri áhrifamaður í fremstu röð og með allar upplýsingar tiltækar. Upplýsingarnar sem heimildarmaðurinn veitti urðu sönnunargögnin sem leiddu til þess að Nixon varð að segja að lokum af sér forsetaembættinu og valdakerfi hans hrundi til grunna lið fyrir lið. Heimildarmaðurinn var jafnan nefndur Deep Throat og aðeins þrír menn vissu hver hann var: blaðamennirnir Carl Bernstein og Bob Woodward og Ben Bradlee ritstjóri The Washington Post.
Í kvikmyndinni All the President's Men, sem segir sögu alls málsins, var Deep Throat skiljanlega ekki sýndur nema í skugga, við sjáum hann aðeins í samtali við Woodward í bílakjallara. Til fjölda ára hafði því verið bæði deilt um hver heimildarmaðurinn var og ekki síður reynt af krafti að upplýsa það af öðrum fjölmiðlum. Það var ekki fyrr en undir lok maímánuðar 2005 sem hulunni var svipt af þessu mikla leyndarmáli seinni tíma stjórnmálasögu. Þá var upplýst að Mark Felt þáv. aðstoðarforstjóri FBI, hefði verið heimildarmaðurinn. Hann var í aðstöðu bæði til að vita alla meginpunkta málsins, gat svipt hulunni af leyndarmálum þess og var einnig illur Nixon því hann hafði ekki skipað hann forstjóra FBI árið 1972. Honum var því ekki sárt um örlög forsetans. Það er alveg ljóst að án heimildanna sem Deep Throat (Mark Felt) veitti hefði málið aldrei orðið þetta risamál og forsetinn hefði getað setið á valdastóli út kjörtímabil sitt. Því var líka kyrfilega haldið leyndu hver heimildarmaðurinn var og það var ekki fyrr en Felt sjálfur sté fram sem hið sanna kom í ljós.
Að mínu mati besta pólitíska kvikmynd 20. aldarinnar - hún er algjörlega einstök. Hún er einnig ein af allra bestu myndum úr blaðamennskunni sem gerðar hafa verið - segir frá sannri blaðamennsku og vinnsluferli stóru fréttarinnar með glæsilegum hætti og lýsir einnig metnaði blaðamannsins við að rækta getu sína í bransanum með vinnubrögðum sínum. Með eindæmum velheppnuð frásögn, skemmtilega uppbyggð og frábærlega leikin úrvalsmynd sem skartar tveim af vinsælustu leikurum sinnar kynslóðar, þeim Robert Redford og Dustin Hoffman. Senuþjófurinn er þó Jason Robards sem sýnir stjörnuleik í hlutverki ritstjórans Ben Bradlee og hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína. Þetta er hiklaust ein af uppáhaldsmyndunum mínum - hef varla tölu á hversu oft ég hef séð hana. Er ein af þeim allra bestu sem blandar saman pólitík og sagnfræði. Allir þeir sem hafa gaman af skemmtilegum spennumyndum með sagnfræðilegu ívafi ættu að drífa í því að sjá þessa, hafi þeir ekki séð hana áður. Þið sem hafið séð hana - sjáið hana aftur! Pottþétt skemmtun fyrir stjórnmálafíklana.
Saga dagsins
1727 Eldgos hófst í Öræfajökli, hið síðara á sögulegum tíma. Eldgosið stóð í tæpt ár en var öflugast fyrstu dagana. Svo mikið öskufall var að ekki sást fyrst munur á degi og nóttu. Því fylgdi vatnsflóð.
1772 Útilegumennirnir Fjalla-Eyvindur (Jónsson) og Halla (Jónsdóttir) voru handtekin á Sprengisandi og færð til byggða í Mývatnssveit. Eyvindur slapp fljótlega en frelsaði Höllu skömmu síðar. Eyvindur og Halla eru þekktustu útilegufólk Íslandssögunnar, en þau dvöldust víða á hálendinu í tvo áratugi.
1997 Fyrsti íslenski geimfarinn, Bjarni Tryggvason, fór í geimferð með Discovery, er skotið var á loft frá Canaveral-höfða á Flórída - ferðin tók tólf sólarhringa. Bjarni, sem er ættaður frá Svarfaðardal, fæddist í Reykjavík en flutti til Kanada sjö ára gamall. Bjarni kom í heimsókn til Íslands árið 1998.
1998 Bandarísku sendiráðin í Kenýu og Tansaníu eru sprengd í loft upp í hryðjuverkaárás al-Qaeda, hryðjuverkasamtaka Osama Bin Laden. Um 200 manns létu lífið í árásunum. al-Qaeda gerði einnig síðar mannskæðar hryðjuverkaárásir á Bandaríkin, Spán og Bretland. Þeirra táknrænust var árásin á New York og Washington hinn 11. september 2001 er farþegaflugvélum var rænt og þeim svo flogið á valin skotmörk. Tvær þeirra flugu á World Trade Center og ein á Pentagon. Tvíburaturnununum var grandað í árásunum. Árásir í farþegalestunum í Madrid og London árin 2004 og 2005 vöktu skelfingu.
2000 Flugvél á leið frá Vestmannaeyjum fórst í Skerjafirði. Þrír létust samstundis en þrír lifðu slysið sjálft af. Þeir létust allir á næstu vikum og mánuðum. Var mannskæðasta flugslys hérlendis frá 1987.
Snjallyrðið
Nú finn ég angan löngu bleikra blóma,
borgina hrundu sé við himin ljóma,
og heyri aftur fagra, forna hljóma,
finn um mig yl úr brjósti þínu streyma.
Ég man þig enn og mun þér aldrei gleyma.
Minning þín opnar gamla töfraheima.
Blessað sé nafn þitt bæði á himni og á jörðu.
Brosin þín mig að betri manni gjörðu
Brjóst þitt mér ennþá hvíld og gleði veldur.
Þú varst mitt blóm, mín borg, mín harpa og eldur.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Nú finn ég angan)
<< Heim