Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 ágúst 2005

Punktar dagsins
Richard Nixon

Í dag er 31 ár liðið frá því að Richard Nixon lét af embætti forseta Bandaríkjanna, eftir að hafa setið í embættinu í fimm og hálft ár. Afsögnin markaði mikil söguleg þáttaskil - með þessu varð Nixon fyrsti forseti Bandaríkjanna sem sagði af sér þessu valdamesta embætti heims. Hann varð að segja af sér embættinu vegna Watergate-málsins. Málið hafði komið upp í miðri kosningabaráttu hans fyrir endurkjöri árið 1972, en forsetanum og nánustu samstarfsmönnum tókst að hylja spor sinna manna fram yfir kosningarnar. Að þeim loknum varð umræðan áberandi og stig af stigi magnaðist málið uns því lauk með því óumflýjanlega, afsögn forsetans. Þáttaskil í málinu markaðist af tvennu - án þess hefði forsetinn aldrei þurft að láta af embætti að mínu mati. Annarsvegar var það tilvist Deep Throat sem veitti The Washington Post upplýsingarnar sem leiddu til þess að málið spann upp á sig og opinberaðist lið fyrir lið. Hinsvegar eru það auðvitað segulbandsspólurnar af samtölum Nixons við nánustu samstarfsmenn sína. Forsetaskrifstofan í Hvíta húsinu var á þeim tíma hleruð og með opinberun samtalanna komst endanlega í ljós með óyggjandi hætti að forsetinn vissi af málinu allt frá upphafi og tók þátt í yfirhylmingunni allan tímann, með hreint ótrúlegum hætti. Enn þann dag í dag eru spólurnar stórmerkileg heimild um hugarheim forsetans.

Án segulbandsspólanna og þess að hinn frægi heimildarmaður TWP hefði komið til sögunnar blasir við að Nixon hefði þraukað til enda. Þetta voru sönnunargögnin sem mögnuðu upp málið. Um leið og umheimurinn heyrði svo segulbandsspólurnar var enginn vafi lengur til staðar á því hvenær Nixon vissi af Watergate-innbrotinu. Enda var hann þátttakandi í því að reyna að breiða yfir málið allt frá byrjun. Enda reyndi Nixon með þrautseigju að halda í spólurnar og beitti ýmsum rökum fyrir sér í því að þær skyldu ekki verða opinberaðar. Hann barðist við dómstóla og lykilstofnanir kerfisins fyrir því að halda spólunum leyndum og dómur hæstaréttar í júlí 1974 leiddi til þess að segulböndin urðu að fullu opinberuð. Með því kom sönnunin sem leiddi til þess að þingið samþykkti að ákæra forsetann fyrir afglöp í embætti og það að hindra framgang réttvísinnar. Nixon hafði um tvo kosti að velja í byrjun ágústmánaðar 1974 og það mjög slæma báða. Annarsvegar var að segja af sér embætti forsetans sjálfviljugur og með þeirri reisn sem þó var eftir fyrir hann eða að verja sig fyrir þinginu í ákæruréttarhöldum fyrir opnum tjöldum - sem var auðvitað óverjandi verkefni pólitískt og persónulega, meira að segja fyrir gamlan pólitískan ref eins og Nixon. Afsögn varð því niðurstaðan.

Það voru óneitanlega þung spor fyrir Nixon að kveðja með þessum hætti. Þó má fullyrða að kveðjuávarp hans til þjóðarinnar og starfsmanna forsetaembættisins í austursal Hvíta hússins hafi verið tilfinningaþrungnasta ræða ferils hans. Persónulega þykir mér að það hafi verið hátindur ræðuferils hans - það var tignarlegasta ræða ferils hans, eins kaldhæðið og það hljómar. Kunnugir hafa sagt að Nixon hafi verið á barmi taugaáfalls seinustu daga embættisferilsins. Hann var í verulegu ójafnvægi og var eins og tifandi tímasprengja. Nánustu samstarfsmenn hans óttuðust um tíma að hann myndi svipta sig lífi vegna málsins. Svo mikið er víst að margar sálarflækjur fyrri tíma tóku sig upp í þrengingunum á pólitískum ferli forsetans sem fylgdu Watergate-málinu. Segja má að forsetinn hafi verið orðinn pólitískt lamaður vegna málsins. Seinasta árið sem hann sat í embætti var málið sem ský yfir höfði hans og undir lokin var honum orðið ómögulegt að gegna embættinu, enda var embættiskerfið og forsetaembættið sem slíkt gjörsamlega undir fargi mistaka forsetans. Allir sem kynna sér bækur um ævi forsetans og málið sjá í hvaða flækjum forsetinn átti við að glíma og hve þungt farg málið var orðið.

Lengi hefur mér þótt merkilegt að kynna mér stjórnmálaferil Nixons. Á síðasta ári las ég bókina RN: The Memoirs of Richard Nixon. Það er góð bók, sem veitir fágæta innsýn inn í pólitískan feril hans. Hef ég áður lesið margar bækur um hann og séð heimildarþætti um feril hans, Watergate og forsetatíðina, sem var mjög umdeild. Nixon var merkilegur persónuleiki, það er merkilegast að komast að því í allri umfjöllun um hann hversu ótraustur hann var og allt að því taugaveiklaður og andlega bæklaður. Hann var mikill skapmaður og var fljótur að missa stjórn á sér. Nánustu samstarfsmenn hans lýsa seinasta ári forsetaferils hans sem púðurtunnu fyrir hann persónulega. Eftir stendur að hann áorkaði miklu í embættistíð sinni, en mörg merkustu verk hans hafa gleymst vegna Watergate-málsins. Jafnvel þótt Richard M. Nixon hafi verið einn mest áberandi stjórnmálamaður 20. aldarinnar og að um hann hafi verið skrifaðar fleiri greinar en nokkurn annan mann, er persóna hans enn í dag flestum hulin ráðgáta. Margir vita varla enn hver hann var í raun þessi maður sem reis til hæstu metorða í landi sínu og - eins og hann orðaði það gjarnan sjálfur - féll niður í þá dimmustu dali sem lífið felur í sér, að lokum.

En í lok þessarar umfjöllunar um málið hvet ég alla aðdáendur stjórnmála til að lesa þessa fyrrnefndu bók um Nixon, eða sjá kvikmyndina All the President's Men sem fjallar um Watergate-málið og það hvernig Bernstein og Woodward flettu ofan af málinu öllu. Svo jafnast ekkert auðvitað á við góða og vandaða heimildarþætti um þetta sögufræga mál. Á sunnudaginn skrifaði ég nokkuð ítarlega samantekt um kvikmyndina, sem er að mínu mati einstök heimild um málið og ekki síður fréttamennsku hinnar stóru fréttar - lítið á þá umfjöllun ef þið viljið sjá skrif um hana og tengd atriði. Eftir stendur að þetta er eitt merkilegasta pólitíska hneyksli seinustu áratuga og það er endalaus áskorun að kynna sér það betur og ekki síður kafa ofan í hugarheim þeirra sem stóðu þá í eldlínunni, einkum hins títtnefnda forseta sem komst í sögubækurnar með því að segja af sér þessu valdamikla embætti á þessum degi fyrir 31 ári.

Sveitarfélög

Í gær voru tveir mánuðir í kosningu um sameiningu sveitarfélaga. Hér í Eyjafirði mun fara fram viðamesta sameiningarkosningin í þessu ferli af hálfu félagsmálaráðuneytisins. Kosið verður um sameiningu allra sveitarfélaga í Eyjafirði, að Grímsey undanskilinni. Eins og nærri má geta er þetta ansi stór og mikil kosning og skiptar skoðanir um það hvort Akureyri eigi að sameinast sveitahreppunum, þéttbýlisstöðunum út með firði og Siglufirði. En nú er farið að styttast mjög í kjördag og ekki annað viðeigandi en að fara að taka umræðuna fyrir og skrifa um málið. Utankjörfundarkosning er enda við það að fara að hefjast - hún mun hefjast formlega eftir helgina. Það er því sú stund að fara að renna upp að almenningur verði að taka afstöðu til málsins. Það sem vantar upp á klárlega er umræða um kosti og galla svo viðamikillar sameiningar. Að störfum hefur verið að undanförnu sameiningarnefnd sem í eiga sæti tveir fulltrúar frá hverju sveitarfélagi á svæðinu. Fer nú að líða að því að hún kynni starf sitt og hvernig hún ætli að halda á málinu. Lítil kynning hefur farið fram, en opnuð hefur verið heimasíða um málið og gefinn út kynningabæklingur. Formaður nefndarinnar er vinkona mín, Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi hér á Akureyri.

Það er nauðsynlegt að fram fari krefjandi og opinská umræða um kosti og galla málsins. Á málinu eru að mínu mati bæði miklir kostir en ennfremur áþreifanlegir gallar. Ég vil að nefndin fjalli vel um málið, betur en gert hefur verið, og tel rétt að óska eftir nákvæmari kynningu á málinu áður en ég tek persónulega afstöðu til þess. Hinsvegar hef ég alltaf verið jákvæður fyrir sameiningu hér við fjörðinn. Það er okkur öllum til heilla að efla fjörðinn sem eina heild og vinna saman að þeim verkefnum sem skipta eiga okkur máli á komandi árum. Sameinuð erum við auðvitað mun sterkari en sundruð. En taka verður gallana inn í myndina. Einnig má deila um það hvort þessi kosning fari fram á heppilegum tíma. Persónulega var ég andvígur því að hafa kosninguna svona seint á árinu. Það eru kosningar til sveitarstjórna framundan eftir rúma 9 mánuði og það er óþægilegt fyrir allt skipulag þeirra að vera að vefjast með þessa kosningu á undan sér framundir árslok jafnvel, ef ferlið fer í aðra umferð - sem óhjákvæmilegt verður að mínu mati. Svo er óneitanlega galli, og mun að mínu mati skaða grunn málsins verulega, að heyra af því að Ólafsfirðingar hafi selt hitaveitu sína kortéri fyrir þessa kosningu.

Það gerir mig allavega fráhverfari sameiningu að heyra af því að sveitarfélög út með firði séu farin að selja eigur sínar til að geta útdeilt peningunum eftir sínu höfði eða koma þeim til hliðar fyrir hugsanlega sameiningu. Ráðslag bæjarstjórnarmeirihluta vinstrimanna á Ólafsfirði að selja hitaveituna akkúrat nú vekur margar spurningar og gæti vel sett málið allt út af sporinu. Spurningar vakna: afhverju nú? - afhverju liggur á að selja hitaveituna tveim mánuðum fyrir kosningar? - hvaða skilaboð eru Ólafsfirðingar að senda okkur hér í firðinum með þessari ákvörðun á þessum tímapunkti? Það veitir ekki af því að Stefanía Traustadóttir bæjarstjóri út á Ólafsfirði, og hennar fólk þar í meirihlutanum sem situr við völd þar, segi hvað knýr þau áfram til að gera þetta akkúrat nú. Að minnsta kosti tel ég að þessi ákvörðun minnki líkurnar á sameiningu - hversvegna drífa menn í þessu nema vegna þess að þeir sjá fram á sameiningu og vilja selja dýrasta hnossið í skartgripaskríninu fyrir væntanlega sambúð. Eða hvað? Svör óskast utan úr Ólafsfirði.

Kaupfélag Eyfirðinga

Um fátt hefur verið meira rætt seinustu daga en brotthvarf Andra Teitssonar úr framkvæmdastjórastól KEA. Hafa málavextir eins og þeir voru kynntir á föstudag verið gagnrýndir harkalega. Benedikt Sigurðarson stjórnarformaður Kaupfélags Eyfirðinga, tjáði sig um fæðingarorlofið með mjög undarlegum hætti á föstudag og vöktu svör hans þá fleiri spurningar, svo margar að hann sá sér ekki annað fært en að mæta í sjónvarp og svara fyrir sig í gærkvöldi. Var hann gestur beggja dægurmálaspjallþáttanna og fór yfir stöðuna. Vel kom fram í viðtölunum að hann missteig sig verulega með ummælunum á föstudag. Það vakti hinsvegar enn meiri athygli að hann talaði í viðtölunum með þeim hætti að ekki mætti rekja brotthvarf Andra til fæðingarorlofsins margumtalaða. Greinilegt er að Andri er ekki sama sinnis, enda vísar hann bara til fyrri yfirlýsinga. Orð virðist vera á móti orði í þessum efnum. En greinilegt er að einhver trúnaðarbrestur hefur komið til í málinu. Svo er greinilega hiti vegna málsins innan stjórnar KEA. Úlfhildur Rögnvaldsdóttir stjórnarmaður í KEA og fyrrum bæjarfulltrúi, hefur sent frá sér harðorða yfirlýsingu vegna ummæla Benedikts og fleiri stjórnarmenn sætta sig ekki við orðalag hans. Það er greinilega mikil ólga í KEA vegna þessa máls - eftir stendur þó að þetta mál hefur skaðað KEA mjög verulega.

Some Like it Hot

Í gærkvöldi horfði ég á gullmolann Some Like it Hot í leikstjórn Billy Wilder. Það var árið 1959 sem Wilder og I.A.L. Diamond gerðu handritið að þessari kvikmynd, sem er hiklaust ein af eftirminnilegustu gamanmyndum seinustu aldar. Jack Lemmon og Tony Curtis fara á kostum í hlutverkum Jerry og Joe, tveggja tónlistarmanna í San Francisco sem verða vitni að mafíumorði og reyna að sleppa undan mafíunni. Eina leiðin til þess að halda lífi og sleppa er sú að klæða sig í kvenmannsföt og þykjast vera tónlistarkonur í kvennahljómsveit. Framundan er kostuleg atburðarás sem erfitt er að lýsa með orðum. Sjón er sögu ríkari. Myndin var tilnefnd til óskarsverðlauna fyrir leikstjórn Wilder og handrit þeirra Diamond. Marilyn Monroe geislar sem ávallt fyrr í hlutverki söngkonunnar í kvennabandinu, Sugar Kane Kowalczyk, í myndinni. Einstök gamanmynd, ein sú besta sinnar gerðar. Einstök skemmtun, eitt af allra bestu verkum Billy Wilders. Þessi mynd er og verður alla tíð sannkallaður gleðigjafi. Þeir sem hafa ekki séð hana verða að sjá hana - þeir sem hafa séð hana verða að sjá hana fljótt aftur. Á þessari mynd fær maður aldrei leið á.

Alþingi

Síðustu vikurnar hefur Jón Karl Helgason séð um þætti á Rás 1 á laugardagssíðdegi þar sem hann ræðir við alþingismenn allra flokka um hugsjónir þeirra, bakgrunn og pólitíska áhrifavalda. Þættirnir bera enda heitið: Hugsjónir og pólitík. Hef ég hlustað núna á alla þættina og haft af þeim mikið gaman. Þeir eru fróðlegir og fjallað er vel um bakgrunn þingmannanna. Þar er farið yfir hvort flokkar eða þingið sé vettvangur fyrir hugsjónafólk í pólitík og hvort þeirra hugsjónir eigi erindi í stjórnmálalitrófið. Um helgina ræddi Jón Karl við Drífu Hjartardóttur leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Var það mjög gott spjall og ánægjulegt að heyra skoðanir Drífu á þessum efnum. Hvet ég alla til að hlusta á þættina. Þeir eru klukkan 16:10 á laugardögum og endurteknir að kvöldi mánudags kl. 23:00.

Saga dagsins
1851 Við lok þjóðfundarins í Reykjavík hrópuðu þingmenn allir einum rómi: Vér mótmælum allir!
1945 Bandaríski herinn varpar kjarnorkusprengjum á borgina Nagasaki í Japan - rúm 73.000 létust.
1969 Leikkonan Sharon Tate myrt á hrottafenginn hátt af Charles Manson og samverkamönnum.
1974 Richard Nixon lætur af embætti forseta Bandaríkjanna á hádegi að staðartíma - Gerald Ford varaforseti Bandaríkjanna, tekur við embætti og sver embættiseið sem 38. forseti Bandaríkjanna. Ford er eini forseti og varaforseti Bandaríkjanna sem ekki hefur verið kjörinn af bandarísku þjóðinni til setu í þessi æðstu valdaembætti landsins. Hann varð varaforseti 1973 við afsögn Spiro Agnew og tók við forsetaembættinu er Nixon neyddist til að segja af sér vegna Watergate-málsins. Áður en Ford varð varaforseti sat hann í fulltrúadeild Bandaríkjaþings 1949-1973 og var leiðtogi repúblikana
í deildinni 1965-1973. Hann sat á forsetastóli út kjörtímabil Nixons, sem átti tvö og hálft ár eftir af seinna kjörtímabili sínu. Umdeilt varð mjög er hann náðaði Nixon skömmu eftir forsetaskiptin og olli óvinsældum hans. Ford tapaði forsetakosningunum 1976 fyrir Jimmy Carter fv. ríkisstjóra í Georgíu.
2001 George W. Bush forseti Bandaríkjanna, lýsir yfir að stjórnvöld styrkji rannsóknir á stofnfrumum.

Snjallyrðið
Ég nefni nafnið þitt,
og næturhúmið flýr,
því ljóma á loftið slær
hið liðna ævintýr.
Ég nefni nafnið þitt,
og nýja heima sé;
þar grær hið villta vín,
þar vagga pálmatré.

Ég nefni nafnið þitt,
og nóttin verður hlý.
Ég heyri klukknaklið
frá kirkju í Assisi.
Þú kemur móti mér
í minninganna dýrð.
Í sólskini og söng
er sál mín endurskírð.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Ég nefni nafnið þitt)