Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 mars 2006

Siv tekur sæti í ríkisstjórn að nýju

Siv Friðleifsdóttir

Stærstu pólitísku tíðindi ársins það sem af er hljóta auðvitað að teljast frétt helgarinnar: brotthvarf Árna Magnússonar úr stjórnmálum. Það leikur enginn vafi á því að fólk varð undrandi á því að hrókeringarnar í ríkisstjórninni skyldu vera vegna þess að Árni hefði ákveðið að hætta en ekki Jón Kristjánsson eins og talað var um meðan mesta óvissan var í gær. Þessar hrókeringar leiða auðvitað til athyglisverðra breytinga eins og fyrr hefur verið sagt frá hér. Mestu tíðindin eru auðvitað þau að með brotthvarfi Árna losnar ráðherrastóll fyrir Siv Friðleifsdóttur. Siv er þó auðvitað enginn nýliði í ríkisstjórn, enda var hún umhverfisráðherra á árunum 1999-2004 og hefur setið á þingi frá 1995.

Það þótti mörgum mikil tíðindi þegar að Siv missti ráðherrastól sinn haustið 2004 til að rýma til fyrir forsætisráðherrastóli Halldórs Ásgrímssonar. Þá fór umhverfisráðuneytið yfir til Sjálfstæðisflokksins og Sigríður Anna Þórðardóttir leysti Siv af. Siv stóð eftir sem óbreyttur þingmaður, þó hún væri leiðtogi flokksins í Suðvesturkjördæmi, fjölmennasta kjördæmi landsins. Hún naut þess ekki að vera úr kraganum og með flest atkvæði þingmanna flokksins á höfuðborgarsvæðinu á bakvið sig, merkilegt nokk fleiri en forsætisráðherrann og formaður flokksins. Það var auðvitað með ólíkindum að Siv sem verið hafði ráðherra samfellt í fimm ár væri sett út en ekki Árni sem hafði þá aðeins verið ráðherra í rúmt ár.

Siv kemur nú aftur af krafti og tekur sæti Jóns Kristjánssonar í heilbrigðisráðuneytinu en hann fer í staðinn í stól Árna í félagsmálaráðuneytinu. Siv getur allavega ekki kvartað yfir að vera verkefnalaus næstu 14 mánuðina - fram til þingkosninga í maí 2007. Hún tekur við stærsta ráðuneytinu - því erfiðasta að margra mati. Þar bíða mörg verkefni og endalausar áskoranir fyrir ferskan stjórnmálamann. Siv hefur alltaf verið öflugur stjórnmálamaður að mínu mati. Hún hefur öflugan og ferskan vef - hún hefur að mínu mati alltaf verið í takt við nútímann í pólitík og uppfært sig eftir þörfum nútímastjórnmála. Þó að Siv sé andstæðingur minn í stjórnmálum hef ég lengi virt hana og verk hennar - hún er í pólitík af ástríðu.

Jón Kristjánsson skiptir um ráðuneyti greinilega mjög þreytulegur og mæddur á svip. Það er ekki óeðlilegt að hann sé alsæll að skipta um ráðuneyti og verkefni. Það hefur sést vel á honum seinustu vikur að hann hefur fengið nóg af heilbrigðismálunum. Reyndar verður fróðlegt að sjá hvort að Jón fer aftur fram í kosningum að ári. Sögusagnir hér í Norðausturkjördæmi herma að Jón ætli sér að hætta að ári og setjast í helgan stein austur á Egilsstöðum, enda orðinn þá 65 ára og getur tekið því rólega á góðum eftirlaunum, eftir að hafa verið ráðherra í sex ár. Jón hefur verið lengi í stjórnmálum, setið á þingi frá 1984 og verið ráðherra frá 2001. Það kæmi fáum á óvart þó að hann myndi hætta.

Mörgum að óvörum hefur það nú gerst að Árni Magnússon hefur rýmt til fyrir Siv Friðleifsdóttur. Það hefði fáum órað fyrir því fyrir ári þegar að deilur risu sem hæst í Kópavogi milli nánustu stuðningsmanna þeirra innan flokksins og voru greinileg átök milli þeirra um virðingarsess. Siv fór særð úr ríkisstjórn og ekki sátt við sinn hlut og hefur frá haustinu 2004 ekki hikað við að fara eigin leiðir og verið spör á allt lofshjal um forystu flokksins og setið til hliðar og sinnt skyldum sem ritari flokksins og umsjónarmaður innra starfsins í flokksapparatinu. Halldór tekur hana nú aftur inn í stjórn og er greinilega að reyna að lægja öldur í flokknum eftir langar væringar sem hafa skaðað hann verulega.

Það væri synd að segja að Framsóknarflokkurinn undir forystu Halldórs Ásgrímssonar sé flokkur sem sé í sæluvímu í íslenskum stjórnmálum. Það eina og hálfa ár sem Halldór hefur verið í forsæti ríkisstjórnar hefur flest aflaga farið sem mögulega hefur getað farið svo. Eftir stendur Halldór með flokk í pilsnermælingu og veit vart sitt rjúkandi ráð. Ofan á allt annað er krónprinsinn farinn af fleyinu og hann berst á hæl og hnakka við óánægða liðsmenn innan þingflokksins. Það dylst engum að forsætisráðherraferillinn hefur ekki verið nein sæla fyrir Halldór - altént ekki sú sæla sem að var stefnt væntanlega vorið 2003, er samið var um skiptingu ráðuneyta með þeim hætti sem nú er.

Siv Friðleifsdóttir tekur að nýju sæti í ríkisstjórn forsætisráðherra og formanns flokks sem virðist á hverfanda hveli í íslenskum stjórnmálum. Að óbreyttu mun Framsóknarflokkurinn vart verða annað en sem hver annar hornkarl í íslenskri pólitík eftir þingkosningarnar 2007. Halldór er að reyna með því að upphefja Siv að snúa vörn í sókn og sækja á ný mið í kjölfar þess. Þetta blasir við. Það er alveg ljóst að Halldór Ásgrímsson ætlar fram að ári og hefur þegar reynt að koma sér í rétta gírinn fyrir kosningarnar. En kannski ráðast örlög Framsóknar að miklu leyti af því hvernig aðstoðarmanni hans gengur með flokkinn í borgarmálunum í vor. Nái flokkurinn ekki sæti í borgarstjórn mun flokkurinn ganga í gegnum mikla kreppu.

Og þá er ekki víst að upphefð Sivjar gagnist Halldóri. Altént er ljóst að brotthvarf Árna veikir Framsóknarflokkinn, því þar sér flokkurinn að baki krónprinsinum hans Halldórs, manni sem hefur bæði misst áhugann á stjórnmálum og framavonum á þeim vettvangi. En hver verða örlög Framsóknarflokksins? Þessi níræði flokkur virðist vera í miklum erfiðleikum og það sjá allir sem pólitískt nef hafa að ekki er Halldór að græða mikið á forsæti sínu og forystu í stjórnmálaumræðunni. Þvert á móti - hann dalar sífellt. Það er ekki nema von að flótti sé kominn á lykilmennina hans Halldórs nú þegar styttist í tvennar kosningar og flokkurinn á hverfanda hveli.

Er annars ekki miklu betra að vera flottur maður í risastórum banka á alþjóðavísu og með himinhá laun heldur en að vera ráðherra í sífellt vaxandi erfiðleikum innan minnkandi stjórnmálaflokks þegar að svo er komið sögu. Jú, sennilega er það miklu meira freistandi þegar litið er á þessa valkosti sem blöstu við félagsmálaráðherranum fráfarandi.

Saga dagsins
1830 Eldgos hófst í sjó nærri Eldeyjarboða, skammt út af Reykjanesi, og stóð það í rúma 2 mánuði.
1873 Ofsaveður gerði við suðausturströnd landsins og talið að 15 franskar fiskiskútur hafi þá farist.
1905 Coot, fyrsti togari í eigu Íslendinga, kom til Hafnarfjarðar - togarinn var keyptur frá Skotlandi
1983 CDU (kristilegir demókratar) vinna sigur í þýsku þingkosningunum - Helmut Kohl sat áfram á kanslarastólnum, en hann hafði tekið við embættinu ári áður - Kohl var kanslari samfellt í 16 ár, eða allt til ársins 1998, er flokkurinn beið þá ósigur í þingkosningum. Kohl sat lengst í embættinu á 20. öld.
1998 Frost mældist -34,7°C í Mývatnssveit - það var mesta frost sem hafði mælst hérlendis í 80 ár.

Snjallyrðið
To wear your heart on your sleeve isn't a very good plan; you should wear it inside, where it functions best.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)