Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 mars 2006

Árni Magnússon hættir í stjórnmálum

Árni Magnússon

Á blaðamannafundi í Alþingishúsinu kl. 17:15 í dag tilkynnti Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, þá ákvörðun Árna Magnússonar félagsmálaráðherra, um að hætta afskiptum af stjórnmálum og víkja af hinu pólitíska sviði. Hefur hann verið ráðinn til starfa í Íslandsbanka og mun hefja þar störf innan skamms og víkja samhliða því af þingi. Í kjölfar þess var tilkynnt að Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, tæki við félagsmálaráðuneytinu og að Siv Friðleifsdóttir tæki við heilbrigðisráðuneytinu af Jóni. Guðjón Ólafur Jónsson lögmaður, er fyrsti varaþingmaður Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, en vegna náms hans í Skotlandi mun Sæunn Stefánsdóttir taka sæti Árna á þingi fyrst um sinn eða þar til að Guðjón Ólafur kemur aftur til landsins.

Það er vægt til orða tekið að brotthvarf Árna Magnússonar boði mikil tímamót. Til fjölda ára hefur verið litið á hann sem nánasta trúnaðarmann Halldórs Ásgrímssonar í stjórnmálum og einn af helstu forystumönnum flokksins og krónprins Halldórs á formannsstóli í Framsóknarflokknum. Árni Magnússon sagðist á blaðamannafundinum að ákvörðunin hefði tekið sig sjálf að mörgu leyti. Hann hefði verið búinn að missa áhugann á stjórnmálum og tekið ákvörðun með sjálfum sér um það að gefa ekki kost á sér í alþingiskosningunum á næsta ári og fara til annarra verkefna. Honum hefði boðist freistandi staða hjá Íslandsbanka og ákveðið að taka henni og víkja fyrr en ella hefði orðið úr stjórnmálum. Það lá í loftinu lengi vel í dag að uppstokkun væri framundan í ríkisstjórninni og að hún væri innan Framsóknarflokksins.

Flestir spámenn töldu þó líklegast að þar væri verið að boða brotthvarf Jóns Kristjánssonar úr stjórnmálum. Hann hefur enda setið í ríkisstjórn í fimm ár og verið þingmaður frá árinu 1984. Mörgum fannst líklegast að hann væri að hætta. Það að Árni boði brotthvarf sitt úr stjórnmálum kom flestum verulega á óvart og greinilegt var á svipbrigðum Halldórs Ásgrímssonar að honum þykja breytingarnar miður, enda Árni lengi unnið mjög náið með honum. Það er hinsvegar merkilegt að forystumaður sem lengi hefur verið talinn krónprins síns flokks hætti í pólitík og fari til verka í viðskiptageiranum. Kannski er það eitt merki þess að yngra forystufólk vill frekar vinna að öðru en stjórnmálum.