Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

04 mars 2006

Spádómar um Óskarsverðlaunin 2006

Óskarsstyttan

Óskarsverðlaunin verða afhent í 78. skipti í Los Angeles á morgun. Óskarinn er án nokkurs vafa helsta kvikmyndahátíð sögunnar, ein mesta uppskeruveisla kvikmyndabransans og þar koma helstu leikarar og kvikmyndagerðarmenn samtímans saman. Ég ætla á þessum laugardegi að pæla í verðlaununum og spá í úrslitin í nokkrum af helstu flokkunum, svona mér mest til gamans. Ég hef verið kvikmyndaáhugamaður allt mitt líf, dýrkað kvikmyndir sem ástríðu og lífsins áhugamál og fylgst alla tíð vel með Óskarnum. Ég ætla því að spá í spilin og vona um leið að aðrir hafi gagn og gaman af.


Kvikmynd ársins
Brokeback Mountain
Capote
Crash
Good Night, and Good Luck
Munich

Allt eru þetta frábærar myndir, hver á sinn hátt. Brokeback Mountain er næm og falleg ástarsaga samkynhneigðra kúreka á sjöunda áratugnum - fjallar um sannar tilfinningar og ást sem lifir í skugga fordóma. Umtöluð en öflug mynd sem hittir í hjartastað. Capote er hrífandi mynd, sem skartar frábærum leik og næmri sýn á ævi og verk rithöfundarins Trumans Capote. Crash er hröð og öflug kvikmynd með mikla fyllingu sem fjallar um ólíkt fólk og líf þess og störf í Los Angeles sem fléttist með flottum hætti saman - mynd sem fangar huga áhorfandans. Good Night, and Good Luck er grípandi og þétt mynd George Clooney sem hrífur kvikmyndaáhugafólk upp úr skónum. Munich er fágætur gullmoli meistara Spielbergs sem jafnast á við gamalt og gott rauðvín, verður sífellt betri og er algjörlega ómótstæðileg - lýsir atburðarás eftirleiksins á Ólympíuleikunum 1972.

Spá: Ég tel að slagurinn standi á milli Brokeback Mountain og Crash. Ég tel öruggt að Brokeback Mountain muni fá verðlaunin og verða sigurvegari kvöldsins. Myndin fjallar um áleitið efni og skilur í raun mikið eftir sig. Hún lýsir forboðinni ást - löngun og heitum tilfinningum með miklum glans. Hún hreif mig allavega upp úr skónum og skildi mikið eftir sig í hjarta mér. Það sama á við um flesta þá sem ég þekki sem hana hafa séð. Ég tel blasa við að hún muni heilla hjarta akademíunnar þetta árið líka.


Leikstjóri ársins
George Clooney - Good Night, and Good Luck
Paul Haggis - Crash
Ang Lee - Brokeback Mountain
Bennett Miller - Capote
Steven Spielberg - Munich

Fimm leikstjórar sem færðu á hvíta tjaldið ógleymanlegar kvikmyndir á árinu 2005. Steven Spielberg er sá eini tilnefndra sem hefur hlotið verðlaunin; hefur hlotið þau tvisvar - fyrir Schindler's List árið 1993 og Saving Private Ryan árið 1998. Hann leikstýrði einni best heppnuðu kvikmynd ársins - mynd sem skilur mikið eftir sig og heillar áhorfandann. Paul Haggis á skilið tilnefningu fyrir frábær verk sitt í Crash, en það er svipmikil mynd sem hefur hitt beint í mark. Ang Lee færði á hvíta tjaldið litríka og fallega ástarsögu kúrekanna tveggja - mynd um sanna ást. Bennett Miller gerði Capote stórbrotna og algjörlega ógleymanlega. Good Night, and Good Luck er eiginlega sú mynd sem ég heillaðist einna mest af í hópi hinna tilnefndu þetta árið og Clooney verðskuldar svo sannarlega tilnefningu.

Spá: Það er enginn vafi á því í mínum huga að allir eiga þessir menn skilið að fá virðingu fyrir verk sín. Þó stendur Ang Lee algjörlega upp úr fyrir sína góðu mynd - hina tæru ástarsögu um tvo menn sem fá ekki að njótast vegna fordóma samfélagsins. Þessi mynd stendur að mínu mati upp úr kvikmyndagerð ársins 2005 og hann hlýtur að hljóta verðlaunin. Hann var nærri því að hljóta Óskarinn árið 2001 fyrir Crouching Tiger, Hidden Dragon og var þá talinn sigurstranglegur en Steven Soderbergh hlaut þau þá fyrir Traffic. Ef Lee vinnur verður hann fyrsti asíski leikstjórinn til að fá gyllta kallinn. Hann á þann heiður skilið.


Leikari í aðalhlutverki
Philip Seymour Hoffman - Capote
Terrence Howard - Hustle & Flow
Heath Ledger - Brokeback Mountain
Joaquin Phoenix - Walk the Line
David Strathairn - Good Night, and Good Luck

Fimm flottir aðalleikarar þarna á ferð. Enginn þeirra hefur áður hlotið verðlaunin. Philip Seymour Hoffman kom mér á óvart með glæsilegri túlkun sinni á Truman Capote í hinni litríku mynd um þennan umdeilda rithöfund. Hann varð frægur fyrir sögur á borð við Breakfast at Tiffany's og sögurnar af lífsstíl hans eru og verða svipmiklar. Allt þetta túlkar Hoffman með snilld. Terrence Howard er sagður brillera í flottu hlutverki í Hustle & Flow. Heath Ledger er hreint ógleymanlegur sem Ennis Del Mar í Brokeback Mountain og túlkar kúrekann í sálarflækjum ástarhitans með snilldarbrag. Joaquin Phoenix verður hinn goðsagnakenndi countrysöngvari Johnny Cash með glans og túlkar hann með bravúr og syngur meira að segja lögin hans. David Strathairn er svo algjörlega stórfenglegur í hlutverki fréttahauksins Edward R. Murrow, sem las fréttir á CBS.

Spá: Allir þeir leikarar sem eru tilnefndir stóðu sig glæsilega í hlutverkum sínum. Hver á sinn hátt lífguðu þeir upp á kvikmyndaheiminn með frammistöðu sinni. Þeir eiga allir séns á að vinna að mínu mati. Ætti ég að velja myndi Joaquin Phoenix hreppa hnossið fyrir að leika Johnny Cash með slíkum snilldartöktum að hann fellur beint í hlutverkið og leikur þetta mesta goð sveitasöngvatónlistarinnar með klassabrag - ekki bara það hann syngur einnig lögin hans með snilld. Hann verður að goðinu. Þó er líklegast að keppnin standi á milli Hoffman og Ledger. Þeir voru báðir frábærir í túlkun sinni og heilluðu mig. Hoffman hlýtur að hafa forskotið fyrir túlkun sína á Capote. Hoffman hefur oft verið sniðgenginn við verðlaunaafhendingar og ekki notið sannmælis. Vonandi er hans stund komin núna. Það væri gleðiefni ef svo yrði.


Leikkona í aðalhlutverki
Dame Judi Dench - Mrs. Henderson Presents
Felicity Huffman - Transamerica
Keira Knightley - Pride & Prejudice
Charlize Theron - North Country
Reese Witherspoon - Walk the Line

Fimm magnaðar leikkonur berjast um hnossið í þessum flokki. Judi Dench og Charlize Theron hafa hlotið verðlaunin áður. Dame Judi hlaut óskarinn árið 1998 fyrir túlkun sína á Elísabetu I Englandsdrottningu í Shakespeare in Love og Charlize árið 2003 fyrir leik sinn í Monster. Judi Dench er sem ávallt fyrr stórbrotin og óviðjafnanleg, nú í Mrs. Henderson Presents. Felicity Huffman vinnur leiksigur ferils síns í Transamerica og er hreinlega stórkostleg í erfiðri rullu. Það geislar af Keiru Knightley í hlutverki sínu í Pride & Prejudice. Charlize blómstrar í hlutverki sínu í North Country og gerir sínu hlutverki góð skil og er burðarás góðrar kvikmyndar. Reese Witherspoon brillerar í Walk the Line og verður hreinlega June Carter Cash í túlkun sinni - gerir þetta með stórfenglegum hætti. Reese á leiksigur ferilsins og vinnur algjörlega hug og hjarta áhorfandans.

Spá: Að þessu sinni er hópurinn ansi jafn en sumar bera þó meira af en aðrar. Allar eru þessar leikkonur að mínu mati í essinu sínu og skila af sér hreint ógleymanlegum frammistöðum. Þó standa tvær uppúr að mínu mati: þær Felicity Huffman og Reese Witherspoon. Ég spái að sú síðarnefnda muni vinna, enda mjög sterk í sínu hlutverki. Reese hefur eins og sá sem forskotið hefur í karlaflokknum, Philip Seymour Hoffman, verið talin léttvæg á leiksviði kvikmyndanna og ekki verið verðlaunuð fyrir verk sín. Hún hefur hlotið frægð fyrir verk á borð við Election og Legally Blonde. Ég tel að hennar gyllta stund verði um helgina og hún hljóti verðlaunin. Hún á það skilið fyrir flotta túlkun á June Carter Cash. Í hjartanu finnst mér þó að Felicity eigi að vinna - ohhh hún var svo æðislega góð í Transamerica.


Leikari í aukahlutverki
George Clooney - Syriana
Matt Dillon - Crash
Paul Giamatti - Cinderella Man
Jake Gyllenhaal - Brokeback Mountain
William Hurt - A History of Violence

Fimm glæsilegir leikarar í mjög flottum myndum. Aðeins William Hurt hefur hlotið verðlaunin áður - hann hlaut þau fyrir leik sinn í Kiss of the Spider Woman árið 1985. George Clooney er hjartaknúsari kvikmyndaheimsins í dag og hefur lengi brætt hjarta kvennanna. Í pólitísku fléttumyndinni Syriana fer hann algjörlega á kostum í hlutverki CIA-leyniþjónustumannsins Bob Barnes. Flott mynd - glæsileg túlkun. Í Crash fer Matt Dillon vel með hlutverk löggu og skilar sínu listavel. Paul Giamatti átti að hljóta tilnefningu í fyrra fyrir flotta túlkun sína í Sideways en hlýtur virðingarsess þessu sinni fyrir flottan leik í Cinderella Man. Jake Gyllenhaal var alveg frábær í Brokeback Mountain og bræðir hjarta þeirra sem á horfa fyrir næma og flotta túlkun á manni í sannkallaðri ástarflækju. William Hurt er sem fyrr listagóður og á flotta endurkomu á hvíta tjaldið í A History of Violence.

Spá: Allir verðskulda þessir frábæru leikarar heiður fyrir sitt verk. Að mínu mati stendur þó baráttan fyrst og fremst á milli þeirra Clooney og Gyllenhaal. Satt best að segja er mér erfitt að gera upp á milli þeirra. Helst vildi ég að þeir báðir fengju verðlaunin. Að mínu mati var Gyllenhaal alveg rosalega flottur í Brokeback Mountain og fara vel frá erfiðu og krefjandi hlutverki - hann náði allavega að heilla mig. Aftur á móti var Clooney að brillera í sinni rullu í Syriana. Mér hefur aldrei fundist Clooney hafa náð hærra í túlkun í kvikmynd. Ég tel að hann muni vinna. Þó gæti þetta farið á hvorn veginn sem er. Ég verð sáttur svo framarlega að annar þeirra vinni gyllta kallinn. Þeir bera af í þessum flokki að þessu sinni.


Leikkona í aukahlutverki
Amy Adams - Junebug
Catherine Keener - Capote
Frances McDormand - North Country
Rachel Weisz - The Constant Gardener
Michelle Williams - Brokeback Mountain

Fimm flottar leikkonur sem lýsa upp hvíta tjaldið með flottum leik í þessum góðu kvikmyndum. Aðeins Frances McDormand hefur unnið verðlaunin áður. Hún vann óskarinn fyrir túlkun sína á Marge Gunderson í hinni ógleymanlegu Fargo árið 1996 - mynd sem er fyrir löngu orðin klassík. Amy Adams var að mínu mati alveg glettilega góð í kvikmyndinni Junebug - lagði allt sitt í hlutverkið og gott betur en það og á tilnefninguna svo sannarlega skilið. Catharine Keener stóð sig vel í hlutverki sínu í Capote og var glettilega góð. Frances McDormand brillerar enn eina ferðina á sínum ferli - nú í hlutverki sínu í North Country. Rachel Weisz vinnur sannkallaðan leiksigur í krefjandi hlutverki Tessu í The Constant Gardener. Michelle Williams var heillandi og eftirminnileg í hlutverki Ölmu í Brokeback Mountain og sannar að hún er listilega góð leikkona.

Spá: Allar eru þessar leikkonur alveg frábærar og skara satt best að segja algjörlega fram úr á sviði leiklistar í sínum myndum. Þó er enginn vafi á því í mínum huga að Rachel Weisz ber algjörlega af. Hún allavega hitti mig í hjartastað með næmri og eftirminnilegri túlkun sinni á aktívistanum Tessu Quayle sem er myrt á afskekktu svæði í Norður-Kenía. Saga hennar er rakin eftir dauða hennar og komumst við fljótt að því að hún skilur eftir sig merkilega arfleifð sem eiginmaður hennar rekur og áhorfandann þyrstir í að kynnast betur eftir því sem líður á. Rachel gjörsamlega brillerar með þessari túlkun sinni og hún er að mínu mati hjarta og sál þessarar stórbrotnu myndar. Það kemur ekkert annað til greina í mínum huga en að hún vinni þessi verðlaun. Ætla ég svo sannarlega að vona að svo fari. Hún ber af sem gull af eiri að mínu mati.


Saga dagsins
1213 Hrafn Sveinbjarnarson goðorðsmaður á Eyri (Hrafnseyri) við Arnarfjörð, var veginn, 47 ára að aldri. Hrafn var bæði annálaðasti læknir hér á þjóðveldisöld og einn af áhrifamestu mönnum landsins.
1937 Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Frank Capra hlaut óskarsverðlaunin fyrir leikstjórn sína í Mr. Deeds goes to Town - þetta varð annar leikstjóraóskar Capra, en hann vann þrjá á glæsilegum ferli.
1971 Uppstoppaður geirfugl, sá síðasti í heiminum, var sleginn Íslendingum á uppboði í London, en safnað hafði verið fyrir honum um land allt fyrir uppboðið. Fuglinn er nú á Náttúrufræðistofnuninni.
1975 Breski leikarinn og leikstjórinn Sir Charles Chaplin var aðlaður af Elísabetu II Englandsdrottningu - Chaplin var þá loksins heiðraður eftir að hafa verið sniðgenginn til fjölda ára. Hann lést á jóladag 1977.
1987 Happaþrenna Happdrættis Háskólans kom á markað - varð fyrsta skafmiðahappdrættið hérlendis.

Snjallyrðið
Whatever you do may be insignificant, but it is very important that you do it.
Mahatma Gandhi frelsishetja Indverja (1869-1948)