Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 mars 2006

Umsögn um steingeitina

Steingeitin

Fékk ég í gær að gjöf kort með upplýsingum um stjörnumerki mitt, steingeitina. Ég á afmæli 22. desember, en tímabil merkisins er 22. desember til 19. janúar. Ég hef löngum verið mikill áhugamaður um stjörnuspár og að kynnast merkilegum hlutum. Um daginn sagði ég frá merkilegri stjörnuspá sem ég fékk senda. Það er því svo sannarlega viðeigandi að birta textann í þessari stjörnuspá þar sem steingeitinni er lýst.

Á kortinu stendur eftirfarandi (hvort þetta sé lýsing á mér er spurning, en óneitanlega er margt þarna sem vinir mínir eflaust heimfæra á undirritaðan og jafnframt telja lýsa mér allvel): "Steingeitin er alvarlegasta stjörnumerkið og oft er sagt að hún fæðist gömul og verði yngri eftir því sem árin færist yfir. Steingeitin er mjög skipulögð og vanaföst. Steingeitin vill hafa lífið í föstum en þó markvissum skorðum. Steingeitin er haldin fullkomnunaráráttu og óttast fátt meira en að missa sjálfsstjórn og þar með tök á tilverunni.

Hún verður mjög óörugg ef hún hefur ekki gamalgrónar reglur og hefðir til að styðjast við og ef þær eru ekki til staðar er hún fljót að búa til reglur sjálf. Steingeiturnar eru jafnan mjög athugular, fróðastar allra, skynsamar og metnaðargjarnar og dæmigerðar geitur vita allra merkja fyrst hvað þær ætla sér í lífinu. Steingeitin er tilfinningavera en á erfitt með að vinna úr flækjum og innri áföllum. Mikilvægt er að kenna steingeitinni að tjá tilfinningar sínar, slaka á og sjá bjartari hliðar tilverunnar. Einn helsti kostur steingeitarinnar er litrík kaldhæðni."

Svo mörg voru þau orð. Þegar að ég las þetta fyrst fannst mér eins og ég liti í spegil. Spurning hvað öðrum finnst, en mér grunar að flestir séu mér sammála. En já það er gaman af svona pælingum og að stúdera í svona efnum. Allavega get ég ekki sagt að þessi stjörnuspá lýsi ólíkum karakter og þeim sem undirritaður býr yfir.