Krónprins Framsóknar heldur til nýrra verka í bankanum í gömlu SÍS-höllinni
Árni Magnússon hætti þátttöku í stjórnmálum í dag. Á ríkisráðsfundi á Bessastöðum á tólfta tímanum í morgun var hann leystur frá störfum og Jón Kristjánsson tók við ráðuneyti hans og Siv Friðleifsdóttir tók við heilbrigðisráðuneytinu. Fyrr um morguninn hafði hann beðist formlega lausnar frá þingmennsku. Árni keyrði því frá Bessastöðum sem hver annar maður í samfélaginu - stjórnmálaferlinum var lokið. Ekki var stjórnmálaferill Árna Magnússonar langur. Satt best að segja taldi ég þegar að hann tók við félagsmálaráðuneytinu vorið 2003 að þar væri kominn krónprins Framsóknarflokksins. Krónprins sem Halldór hefði slíkt dálæti á að leiðtogastólinn væri örugglega hans síðar meir. Það kemur óvænt að það sé svo Árni sem víki fyrr af sviðinu en Halldór. Að mörgu leyti er kaldhæðnislegt hvernig tveir lykilmenn Halldórs hafa farið út: Árni og Finnur.
Margir hafa rætt seinustu dagana hvað búi að baki því að Árni hætti þessu öllu og fær sér þægilega og vel launaða vinnu í banka. Ég tel að hann hafi verið búinn að fá nóg. Einhvernveginn var eins og neistinn væri farinn fyrir nokkru. Ég tók sérstaklega eftir þessu undir lok seinasta árs. Ekki bara það að skuggi máls Valgerðar Bjarnadóttur hafi þjakað hann heldur fannst mér hann orðið fjarlægur pólitíkinni og þrasinu í henni. Það hefur svo sést vel á þessu ári að Árni hefur smám saman verið að draga sig til baka og nú stígur hann út, mörgum að óvörum. Ég las í gær athyglisverðan pistil Guðjóns Ólafs Jónssonar lögmanns, sem tekur sæti á þingi í stað Árna, um hrókeringarnar á Hriflunni, vef flokksins í borginni. Hann segist þar vera miður sín yfir breytingunum. Skil ég vel að hinum almenna flokksmanni þyki miður að maður af kalíberi Árna hætti og gefist upp á stjórnmálum.
Í raun er staða Framsóknarflokksins frekar döpur, eins og ég hef sagt frá og ekki undrunarefni þó að hik komi á fólk sem þar starfar nú. En að mörgu leyti finnst mér merkilegt að Árni skuli hafa farið svo fljótt út. Ég hef skilning á því að hann hafi fengið nóg og vilji helga sig fjölskyldunni sinni. En enn og aftur vaknar lykilspurning: af hverju gerist það æ oftar að hæfileikaríkt ungt fólk hafi sífellt minni áhuga á stjórnmálum og störfum í þágu samfélagsins síns og leitar á annan vettvang? Kannski er svarið það að fólk vilji frekar vera utan kastljóss fjölmiðla og fá góð störf á öðrum vettvangi vegna þess. Vissulega er fjölmiðlaumhverfið mjög óvægið og hvasst oft á tíðum og það er ekki öllum gefið að taka þátt í þeim darraðardans sem þátttaka í framlínu stjórnmála er. Það þarf að vera mikill áhugi og ástríða til að knýja fólk áfram til verka í slíkum ólgusjó. En það er áhyggjuefni ef fólk leggur ekki í þá áhugaverðu siglingu og vinnu sem fylgir stjórnmálum.
Væntanlega eru margir innan Framsóknarflokksins hugsi núna. Árni er farinn og Siv hefur komið í hans stöðu innan stjórnarinnar en er í öðru ráðuneyti. Lengi var litið á Siv og umhverfismálin sem hliðarreit í pólitíkinni og hún talin léttvæg, þó að margir viti sem er að hún er öflugur pólitíkus á framsóknarmælikvarðann. En nú er hún komin með ögrandi verkefni og öfluga stöðu innan ríkisstjórnarinnar. Hún hefur eflst mjög sem stjórnmálamaður við að hafa í dag tekið við heilbrigðismálunum. Nú mun reyna á hana. Gangi henni illa í starfi mun hún aftur síga sem pólitíkus en takist henni vel til mun vegur hennar aukast mjög. Það er engin furða að framsóknarmenn velti því fyrir sér hver verði nú álitinn krónprins Halldórs. Varla mun hann vera lengi í pólitík úr þessu. Líta menn greinilega mjög núna til þeirra þriggja: Guðna, Valgerðar og Sivjar. Aðrir koma vart til greina eins og staðan er nú.
Nema þá að Árni ætli sér að vera í bankanum og slappa af og hyggi svo á endurkomu þegar að Halldór stígur af sviðinu á komandi árum? Það er aldrei að vita. Altént er krónprins framsóknarmanna farinn og menn leita að nýjum til að máta við titilinn. Varla flokkast Guðni orðinn sem krónprins. Hann er að verða frekar slitinn pólitískt og greinilegt að Halldór vill ekki að hann taki við. Væntanlega lítur hann helst til Valgerðar að óbreyttu. Samvinna þeirra er þekkt fyrir að vera mikil og þau hafa unnið saman í marga áratugi, allt frá því í SUF forðum daga. Valgerður er enda í hans liði og þegar að hún talar af krafti er hún að tala pólitísku máli Halldórs - þetta vita allir sem þekkja til Framsóknar og þessara tveggja. En nú kemur Siv aftur og nú reynir á hana.
Hver verður krónprinsinn nú þegar að sá sem áður bar þann titil hefur haldið til starfa í bankanum í gömlu SÍS-höllinni? Stórt er spurt - við fylgjumst öll vel með.
Saga dagsins
1902 Sögufélagið var stofnað - lykilmarkmið félagsins allt frá upphafi var að vinna að því að gefa út ítarlegt og nákvæmt heimildarrit um sögu íslensku þjóðarinnar, allt frá miðöldum til nútímasögunnar.
1922 Ríkisstjórn undir forsæti Sigurðar Eggerz tók við völdum.
1946 Leikkonan Joan Crawford hlaut óskarinn fyrir leik sinn í kvikmyndinni Mildred Pierce - hún var ein af svipmestu leikkonum gullaldarsögunnar í Hollywood og var mjög vinsæl fyrir táknræna túlkun á sterkum kvenpersónum. Hún lést árið 1977. Mikið var deilt um einkalíf leikkonunnar eftir að dóttir hennar, Christina Crawford, gaf út bók um ævi sína og lýsti móður sinni sem skapmikilli og bráðri og hefði beitt sig andlegu ofbeldi til fjölda ára. Sú saga var færð í kvikmyndabúning í myndinni Mommie Dearest árið 1981. Í myndinni fór leikkonan Faye Dunaway algjörlega á kostum í hlutverki hinnar goðsagnakenndu leikkonu og túlkaði skapgerðarbresti hennar og sjálfsdýrkun með snilldarhætti.
1981 Dægurlagið Af litlum neista, flutt af Pálma Gunnarssyni, sigrar í fyrstu söngvakeppni Sjónvarpsins.
1996 Tímaritið Séð og heyrt hóf göngu sína - blaðið var allt frá stofnun umdeilt en vinsælt slúðurrit.
Snjallyrðið
Trust yourself. Create the kind of self that you will be happy to live with all your life. Make the most of yourself by fanning the tiny, inner sparks of possibility into flames of achievement.
Golda Meir forsætisráðherra Ísraels (1898-1978)
<< Heim