Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

07 mars 2006

Málefnavinnan hafin af krafti

Sjálfstæðisflokkurinn

Eins og vel hefur komið fram hefur framboðslisti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri verið samþykktur og nú tekur kosningabaráttan við. Málefnavinna okkar er farin af stað. Verðum við með fróðlega fyrirlestra um málefni baráttunnar áður en hin eiginlega vinna hefst og er ljóst að spennandi vinna er framundan. Í gærkvöldi flutti Gunnar Gíslason fyrirlestur um skólamál í Kaupangi sem var í senn áhugaverður og fræðandi. Skólamálin eru stór og áberandi málaflokkur í sveitarfélagi nútímans - málaflokkur sem skiptir sífellt meira máli. Hafði ég gaman af fyrirlestrinum og var skemmtileg umræða meðal hópsins að lokinni umfjöllun Gunnars. Vorum við mun lengur að ræða málin en stefnt hafði verið að. Fræðandi kvöldstund um skólamál í Kaupangi semsagt í gær.

Sérstaklega fannst mér áhugavert að heyra lifandi og góða umræðu um málaflokkinn. Er það ekki óeðlilegt, enda í okkar hópi fólk sem þekkir skólamálin inn og út, t.d. Ella Magga, Hjalti Jón skólameistari, Jón Kr. og fleiri. Framundan eru fleiri fyrirlestrar. Á morgun verður kynning á íþrótta-, tómstunda- og menningarmálum sem þeir Kristinn Svanbergsson og Þórgnýr Dýrfjörð munu hafa yfirumsjón með. Í kjölfarið mun Guðmundur Jóhannsson formaður umhverfisráðs Akureyrarbæjar, flytja fyrirlestur um umhverfis- skipulags- og byggingarmál. Á fimmtudagskvöldið mun Karl Guðmundsson flytja fyrirlestur um félags- og heilbrigðismál og í kjölfarið fjallar Valur Knútsson um atvinnumál. Mjög áhugaverðir fyrirlestrar sem ég mun fylgjast vel með. Það er ljóst að spennandi málefnavinna er framundan.

Hvet ég alla sem vilja vinna með okkur til að láta sína rödd heyrast í vinnunni framundan og vera með okkur af krafti í komandi verkefnum. Það er alveg ljóst á umræðunni í gærkvöld um skólamálin að áhugaverð og lífleg vinna tekur nú við. Sérstaklega tel ég að það verði gaman að vera í skólamálahópnum og móta kosningastefnuna okkar í þeim málaflokki. Frá 10. mars verður svo skrifstofa Sjálfstæðisflokksins í Kaupangi við Mýrarveg opin frá 9:00 til 16:00 alla virka daga. Ég tek þann dag til starfa. Verður áhugavert að hefja slaginn og taka til starfa við þau verkefni sem framundan eru.