Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

09 mars 2006

Flokksráðsfundur á Akureyri

Sjálfstæðisflokkurinn

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins ákvað undir lok seinasta árs að efna til fundar hér á Akureyri helgina 7. - 8. apríl nk. í flokksráði Sjálfstæðisflokksins, formanna félaga og flokkssamtaka, frambjóðenda til sveitarstjórna í kosningunum þann 27. maí í vor og þeirra sem stýra kosningastarfinu. Það er okkur sjálfstæðismönnum hér á Akureyri mjög mikill heiður að fundurinn verði haldinn hér á Akureyri, en þetta er í fyrsta skipti sem flokksráðsfundur í Sjálfstæðisflokknum er haldinn utan höfuðborgarsvæðisins. Eins og við má búast mun fundurinn að mestu leyti snúast um kosningarnar eftir tæpa 80 daga og ennfremur um hitamál stjórnmálanna á þeim tímapunkti. Mikil vinna er framundan vegna komandi kosninga og mjög mikilvægt að fólk hittist þessa helgi til að bera saman sínar bækur um stöðu mála.

Ég og Guðmundur Skarphéðinsson formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, munum vinna að því að skipuleggja fundinn hér á Akureyri og tryggja að hann verði vel heppnaður og eftirminnilegur þeim sem koma hingað norður til okkar. Það verður mjög áhugavert að vinna með því góða fólki sem vinnur fyrir flokkinn sunnan heiða að því að skipuleggja fundinn svo að hann verði öflugur og góður. Það er mikilvægt að sjálfstæðismenn um allt land beri saman bækur sínar svo skömmu fyrir kosningar og eigi notalega helgi og skemmti sér vel.

Það er svo sannarlega nauðsynlegt að fundurinn verði vel sóttur og við tökum öll þátt í að gera hann að ánægjulegri samverustund og marka með glæsilegum hætti upphaf kosningabaráttunnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 27. maí nk. Það verður gaman að hitta góða félaga í flokksstarfinu hér fyrir norðan eftir tæpan mánuð!

Saga dagsins
1700 Góuþrælsveðrið - í þessu mikla aftakaveðri fórust alls 15 skip og með þeim alls 132 sjómenn.
1950 Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru haldnir í Austurbæjarbíói í Reykjavík - þeim var stjórnað af Róbert Abraham Ottóssyni. 9. mars 1950 telst formlegur stofndagur hljómsveitarinnar.
1961 Sr. Friðrik Friðriksson æskulýðsleiðtogi og stofnandi KFUM og KFUK, lést, 92 ára að aldri - hann var einn öflugasti kristniboðsleiðtogi landsins á 20. öld og stofnaði t.d. íþróttafélagið Val í Reykjavík.
1973 Samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að N-Írland verði áfram partur af breska samveldinu - 57% kjósenda samþykktu tillöguna. Miklar deilur hafa alla tíð verið vegna stöðu mála og óeirðir allmiklar.
1997 Flutningaskipið Dísarfell sökk um 100 sjómílur suðaustur af Hornafirði - skipverjar höfðust við í flotgöllum í tvær klukkustundir. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-Líf, bjargaði 10 skipverjum en 2 létust.

Snjallyrðið
Always vote for principle, though you may vote alone, and you may cherish the sweetest reflection that your vote is never lost.
John Quincy Adams forseti Bandaríkjanna (1767-1848)